Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Toshiki Toma

,,Má þetta gerast?“

13. mars 2011

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“ 1.Mós. 4:3-7

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.
Netheimar hafa þróast gífurlega og nú er svo komið að ég get horft á japanska sjónvarpsþætti á tölvuskjánum heima hjá mér hér á Íslandi. Í Japan nýtur sjónvarpsþáttur einn mikilla vinsælda en hann heitir „Má þetta gerast?“ Þetta er grínþáttur, líkt og Spaugstofan en ólíkt honum er handritið samið upp úr reynslusögum almennings en gamanleikarar endursegja þessa upplifun sem er svo sjónvarpað til almennings.

Sem dæmi má nefna sögur sem starfsfólk á veitingastað sendi, en gestir þess kröfðust fullkomlega óraunsærra hluta af starfsfólkinu, hvort sem var í þjónustu, mat eða drykk og sakaði starfsfólkið um hluti sem það gat ekki borið ábyrgð á eins og að breyta pöntuninni eftir að maturinn var kominn á borðið. En starfsfólkið hafði ekkert val annað en að hlusta á kvartanirnar gestanna, þar sem það er næstum því „tabú“ að rífast við viðskiptavini í Japan.

Ástæðan fyrir vinsældum þáttarins er sú að hin fáranlega og óskynsamlega upplifun sem er kynnt í þættinum er ekki takmörkuð upplifun fyrir ákveðið fólk, heldur sameiginleg upplifun fyrir marga áhorfendur. Margt venjulegt fólk í Japan upplifir slíkan fáranleika daglega og hann orsakar streitu hjá því og reiði. Fólk fær útrás fyrir hvort tveggja þegar það sér aðra en sig í sömu aðstæðum og getur þá hlegið að þeim.

2.
Hvert og eitt okkar mætir einhvern tíma fáranleikanum, upplifun sem virðist svo óskynsamleg eða erfiðleikum sem virðast ástæðulausir. Það er bara þannig. Náttúruhamfarir eins og stór jarðskjálfti sem skall á Japan um helgina eru hluti af slíkum aðstæðum, en núna einbeitum við okkur aðeins á uppákomum í mannlegum samskiptum.
Jafnvel þótt við höfum ekki gert neitt rangt, samt verðum við stundum að sætta okkur við óæskilegar uppákomur eða upplifun. Þrátt fyrir að réttlætið sé með okkur, heldur óréttlætið samt áfram þó engin rök hnígi að því að við eigum það skilið í okkar lífi. Þetta er aðeins staðreynd sem við þurfum að horfast í augu við.

Við upplifum slíkt af og til. Þegar þetta gerist þá finnst okkur ef til vill að við gætum gert eitthvað í því og breytt aðstæðunum eða að samfélagið þyrfti að breytast til þess að við þyrftum ekki að upplifa slíkan fáranleika. Slíkur hugsunarháttur er vist nauðsynlegur en samtímis eykur hann á streitu og pirring hjá okkur.

Afleiðingin yrði sú að fjöldinn væri að glíma við streitu og pirring á hverjum degi. Sumir finna leið til þess að fá útrás, aðrir ekki. Þegar streitan og reiðin yfirtekur huga okkar og hjarta geta þau valdið þunglyndi eða öðrum sjúkdómum. Stundum eru afleiðingarnar enn alvarlegri og birtast í glæpum. Það eru til dæmis nokkur dæmi um skotárásir í skólum í Bandaríkjunum, þar sem fjöldamorð eru framin af unglingum. Samsvarandi atburðir hafa líka átt sér stað annars staðar eins og í Japan.

Skilaboð árásarmannanna hafa átt ýmislegt sameiginlegt: „Mér leiddist líf mitt. Mér fannst allir hugsa kuldalega til mín og ég vildi deyja með öðrum“; eða „Samfélagið yfirgaf mig og því vildi ég hefna mín.“ Látum það liggja á milli hluta hvort það sem þeir segja sé satt eða ósatt. Þeir trúa því að þeir séu fórnarlömb fáranleika hversdagslífsins og óskynsamlegs fálætis samfélagsins.

3.
Lexía dagsins er fræg saga um Kain og Abel. Margar skáldsögur og leikrit hafa verið gerð eftir henni. Í sögunni er lýst öfund og reiði meðal bræðra sem veldur fyrsta morðinu, meira að segja viljandi morði, í sögu mannkynsins.

En hvað gerðist hjá Kain? Hver var ástæða þess að hann vildi myrða bróður sinn? Það er vegna þess að Guð leit aðeins til Abel og fórnar hans og hunsaði Kain og fórn hans. Af hverju gerði Guð þetta? Var þetta mismunun? Okkur finnst þetta skrítið líka.

Það eru a.m.k. tvær skoðanir meðal fræðimanna um hvers vegna Guð hafnaði Kain og fórn hans. Skoðun A er sú að á þessum tíma var í gildi regla um fórn á milli manna og Guðs. Fórnin þurfti að vera eitthvert dýr sem var fórnað fyrir nafni Guðs. Því var Kain sem gaf ávexti jarðarinnar „hafnað“.
Skoðun B er hins vegar þessi: „Fórnin var ekki málið. En á þessum tíma stundaði fólk annað hvort akuryrkju eða sinnti sauðum úti. Akuryrkjufólkið gat safnað eigum en hirðingjar ekki. Því fyrirleit akuryrkjufólkið hirðingjana. En Guð tók fólk, sem var lægra sett í samfélaginu, fram fyrir.“

En hvort sem notuð er skýring A eða B, þá segir Guð: ,,Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt“ (1. Mós. 4:7) Þessi orð Guðs sýna okkur að það var eitthvað rangt hjá Kain.
Engu að síður var þetta ekkert annað en fáranleiki hjá Guði og óskynsamleg uppákoma í augum Kain. Málið hér er að Kain trúði því að hann var saklaus og fórnarlamb óskynsamlegra örlaga, hvort sem aðstæðurnar væru eins og hann skildi þær eða ekki. Guð gaf honum aðvörun : ,,Gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar. Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni“ (1.Mós. 4:7) En samt drap Kain Abel, bróður sinn. Hann gat ekki sigrast á syndinni, heldur var honum stjórnað af syndinni.

4.
En hvað getum við lært af sögunni um Kain og Abel? Hvað þýðir þessi gamla saga fyrir okkur sem búum á 21. öld? Ég er undrandi að sjá hve bein skilaboð sögunnar eru, bara eins og hún stendur. Kjarni sögunnar er sígildur. Það eru fjögur atrið sem við getum tekið til umhugsunar.

Í fyrsta lagi, þegar okkur finnst samfélagið fáranlegt og við þurfum að sætta okkur við framkomu einhvers sem virðist óskiljanleg og órökstudd, þá þurfum við að taka okkur smáhvíld áður en við ákveðum hvernig við bregðumst við. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvort fáranleikinn sé raunverulega fáranlegur eða hvort við berum einhverja ábyrgð. Kain hlaut að skilja uppákoman væri bæði fáranleg og óskynsamleg.

En ef hann gerði eitthvað ekki á réttan hátt eins og áður er nefnt með því að hunsa samkomulagið á milli sín og Guðs eða með því að fyrirlíta bróður sinn, þá var þar ástæða fyrir því hvers vegna Guð gaf fórn hans ekki gaum. Kain hefði átt að skoða sjálfan sig og gjörðir sínar betur áður en hann móðgaðist. Að sjálfsögðu þýðir þetta ekki að maður beri allaf ábyrgðina þegar maður lendir í óskynsamlegri uppákomu, heldur að maður skuli geyma rými hjá sér til að fara yfir sjálfan sig í aðstæðunum.

Annað sem við skulum hafa í huga er að þó að við lendum í óréttlæti eða óskynsamlegri stöðu, megum við ekki gefa syndinni það tækifæri til þess að stjórna okkur. Ef við hugsum á þann veg, að í fáranlegum aðstæðum megum við bara haga okkur á hvaða hátt sem er, þá lendum við í blindgötu. Við eigum að fylgja þeim viðmiðum sem Jesús gaf okkur í framkomu okkar, en ekki þeim viðmiðum sem veröldin gefur okkur í sérhverjum aðstæðum.

Þriðja atriðið til umhugsunar er þetta: Þó að okkur takist að láta syndina ekki stjórna okkur, þá erum við samt syndarar. Og það er óþarfi að þykjast ekki vera syndari. Í sögunni Kain og Abel, er aðalmaðurinn Kain sem syndgar en ekki Abel sem þykir réttlætismaður. Abel segir ekki einu sinni eitt orð. Þetta er ekkert smáatriði.

Það eru nefnilega skilaboð Biblíunnar sem heildar: „Guð horfir yfir syndara og yfirgefur þá ekki“. Sagan er sögð fyrir okkur syndarana. Syndarar eru ávallt í huga Guðs og Guð leiðir syndara jú til hjálpræðisáætlunar sinnar. Og þetta leiðir okkur að fjórða og síðasta atriðinu en það er að íhuga málið í ljósi Jesú Krists og leiðar hans til Krossins.

5.
Ef til vill hugsum við oftast um fáranleika heimsins, óréttlæti eða órökstuddar uppákomur þegar við lendumst í slíkum atburðum, og við segjum: „Heimurinn er ekki sanngjarn og lífið ekki heldur“. Þegar við segjum slíkt, hugsum við eflaust í þá átt af því að okkur finnst lífið vera á móti okkur. Við erum sem sagt neikvæð og hugsanir okkar snúast í neikvæða átt.

En hinkrum aðeins við. Í lífi okkar höfum við oft verið heppin og ýmislegt hefur veitt okkur gjöf. Sá sem vinnur í lottó telur bara sig vera heppinn en myndi ekki hugsa hversu ósanngjarnt það var fyrir alla hina að hreppa ekki vinninginn. Fólk sem fæðist í friðsælu landi þakkar fyrir það en það sama fólk heldur hugsanlega ekki að það sé eitthvað ósanngjarnt fyrir fólk sem fæddist í stríðslöndum. Við getum átt yndislega fjölskyldu, við getum átt eða kynnst góðum vinum og vinkonum eða við getum verið við þokkalega heilsu. Við þökkum fyrir allt þetta en við hugsum ekki að þessi atriði séu ósanngjörn fyrir fólk sem býr í félagslegri einangrun eða fyrir sjúklinga.

Við berjumst oft aðeins fyrir hugsjónum um óréttlæti eða órökstuddar uppákomur, þegar við erum sjálf þjökuð af slíku. Þetta er kannski eðli manneskjunnar almennt og við verðum að sættast við það nokkurn veginn, þar sem við getum ekki alltaf hugsað um óheppni annarra eða þjáningu. Þetta er líklega hluti synda okkar.

En samt getum við haft dyrnar smáopnar svo að í gættinni geti þeir sem þurfa hjálpar leitað til okkar. Þessi gátt er í raun og veru nauðsynleg í samfélagsuppbyggingunni. Hún tengir okkur öll saman, þá sem þykja lánsamir og þá sem þjást vegna fáranleikans. Gáttin er kærleiki manna og dyrnar eru Jesús Kristur.

Sú staðreynd að Jesús stefndi Golgötu og fór upp á krossinn til þess að hreinsa okkur af syndum er nefnilega algjörlega óskynsamleg og órökstudd gjörð, þar sem við gerðum ekkert fyrir Jesú og við eigum ekki skilin slíka gjörð í okkar þágu. Þetta var sáttamál milli á Guðs föður og Jesú sem frelsarans okkar, en við erum ekkert annað en bara þiggjendur náðarinnar. Atburðurinn á krossinum Jesú er ofar öllum skilningi okkar manna og rökum en virkar algjörlega í jákvæða átt. Við gætum nefnt þetta „fáranleika Guðs“, en hann er ótrúlega jákvæður og miskunnsamur fáranleiki.

Í dag lifum við í samfélagsaðstæðum þar sem hvert og eitt okkar skynjar eins konar „fáranleika samfélagsins“ eða
„óskynsemi“, og við erum uppfull af streitu og pirringi. Syndin og freistnin hvíslar í eyru okkar og segir: „Þú hefur rétt á að vera reið/ur og lyfta hnefa þínum. Gerðu það, sem þú vilt gera, hvað sem er!“
En við svörum: „Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni“.

Ef við höldum fast í trú á Jesú, þá getum við haldið höfuðinni hátt uppi þótt við mætum neikvæðum fáranleika og óskynsamlegum uppákomum veraldarinnar. Við þurfum ekki að óttast syndina, þar sem Jesús sigrast á henni. Staðfestum mátt krossins Jesú og þökkum fyrir hann einu sinni enn núna í byrjun föstu.

Dýrð sé Guði, föður og sýni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. –Amen

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3177.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar