Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Toshiki Toma

Móðurmál Guðs

27. febrúar 2011

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.
Í dag er Biblíudagurinn og textar dagsins* benda allir á orð Guðs og árangursríkt starf þess. Því langar mig að hugleiða orð Guðs með ykkur smástund í tilefni af þessum degi. (*Jes. 40:6-8 Heb. 4:12-13, 6 Mrk. 4:26-32 Lesa textana hér)

Samkvæmt upplýsingum á síðunni „Wekipedia“ á netinu, eru töluð um 6.000 tungumál í alheiminum. Ef við aðeins teljum þau tungumál heimsins sem eru opinber eru þau um hundrað talsins. Við sem búum á Íslandi fáum miklu fleiri tækifæri en áður til þess að komast í snertingu við annað tungumál en íslensku, t.d. á netinu og í sjónvarpsútsendingunum. Þá hefur einnig fólki sem hefur íslensku sem annað tungumál fjölgað hér á landi.

Í leikskólum Reykjavíkur hafa börnin sem þar dveljast um fimmtíu ólík tungumál sem móðurmál. Í hvert sinn þegar ég tala við starfsfólk skóla, segir það að þetta sé mikil áskorun en mikilvægt verkefni að halda uppi samskiptum við forelda barna sem kunna hvorki íslensku né ensku. Starfsfólk leik- og grunnskóla gerir ýmsar tilraunir til þess að komast yfir þann vegg, sem tungumálið getur verið í samskiptum. Ég trúi því samtímis flestir innflytjendur hérlendis læri íslenskt mál í ýmis konar námi, hver á sinn hátt. En það tekur tíma að tileinka sér íslenskuna.

Í vor verð ég búinn að búa á Íslandi í 19 ár, en ég er enn að glíma við íslenskuna. Ég ætla að deila með ykkur leyndarmáli mínu. Það tekur mig um tvær vikur að búa til eina prédikun. Fyrst er að hugleiða yfir textann, þá er að skrifa uppkast á íslensku, svo fæ ég vin minn til að lesa yfir uppkastið og síðan æfi ég mig í upplestri svo að ég geti flutt prédikunina á skiljanlegri íslensku. Þetta ferli tekur samtals um tvær vikur.

Stundum sem ég ræðu á japönsku fyrir samkomur Japana. Þá hugsa ég alltaf: „Ó, hve auðvelt að vinna á japönsku“. Það er einmitt móðurmálið mitt. Móðurmál er að nokkur leyti eins og hluti af líkama okkar. Það er eins og eðlileg líkamshreyfing, eins og að lyfta hendinni þegar maður ber kaffibolla að vörum sér eða ósjálfráð eins og að depla augnlokunum. Það er svo eðlilegt fyrir mann að hugsa á móðurmáli sínu, skilja, eða tala.

2.
Þess vegna tel ég ómetanlegt og í raun fagnaðarefni að nánast hver manneskja getur lesið Biblíuna á eigin móðumáli. Biblían hefur verið þýdd á 2.479 mismunandi tungumál hingað til. Ef við minnumst að fjöldi opinberra tungumála í heiminum er um hundrað, þá er þetta stórkostlegur árangur fólks sem fylgir orðum Guðs. Þá hefur fjöldi útgáfna Biblíunnar verið skráð í heimsmetabók Guiness en hann er 3.880 milljarðar.

Þessar tölur segja til um útbreiðslu Biblíunnar, en snúum okkur nú að merkingu Biblíunnar eða orðs Guðs fyrir hvert og eitt okkar. Til þess að hugleiða það, er ég með tvær spurningar. Fyrsta spurningin er þessi: „Er íslenska Biblían þýðing á upprunalegu Biblíunni eða Biblían sjálf?“ Hvernig mynduð þið svara við spurningunni? Svarið er: „Hin íslenska Biblía er þýðing á upprunalegu Biblíunni í sagnfræðilegri merkingu. En hún verður að Biblíunni sjálfri þegar maður les hana með trú á Guð í hjarta.“

Það er líklega ekki erfitt fyrir okkur að skilja þessa hugmynd en hún felur í sér að mjög mikilvægt atriði. Þegar við setjum sjónarhornið á tungumálið, eins og íslensku eða rússnesku, þá er íslenska Biblían þýðing úr sögulegu gömlu bókunum sem upphaflega voru skrifaðar á grísku og hebresku. En þýðing gömlu bókanna verður að Biblíunni þegar hún er lesin með trú.
Mikilvægt atriði er að þegar við segjum eins og: „Þegar við lesum íslenska Biblíu með trú í hjarta, þá verður hún að sjálfri Biblíunni“, þá íhugum við ekki lengur tungumálið, heldur innihaldið sem hún ber með sér og færir okkur.

Þetta virðist sjálfsagt mál en hinkrum aðeins við. Ef þekking á formgerð ákveðins tungumáls, eins og málfræði þess, setningaskipan og orðaforði er fyrra stigið í hlutverki tungumálsins þá er innihald þess og hugtök seinna stigið sem og þau skilaboð sem það færir okkur.

Á seinna stiginu reynum við að skilja innihaldið, sem falið er í orðunum. En það gengur ekki endilega sjálfkrafa. Stundum þurfum við á aukaþekkingu að halda til þess að ná til innihaldsins sem ákveðin orð færa okkur.

Tökum dæmi úr tjáningu sem er okkur vel kunnug. Í trúarjátningu játum við alltaf: Jesús Kristur „ … reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum…“. Páll postuli segir hið sama í fyrri Korintubréfi : ,,Hann (Jesús) reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum… “(Ⅰ Kor.15:4).
En Jesús dó síðdegis á föstudegi og var horfinn úr gröfinni þegar konurnar komu á sunnudagsmorgninum. Því ætti þetta að vera„á öðrum degi“ í staðinn fyrir„á þriðja degi“.

En til þess að skilja orðalag„á þriðja degi“, þurfum við að vita að eftir hefðbundnum hætti Gyðinga á þeirri tíð var talningu háttað með þessum hætti. Þeir töldu með daginn sem atburðurinn átti sér stað.
Það veitir okkur þá vitneskju að þegar„þrír dagar“ voru liðnir frá líkamlegum dauða manns taldist það sönnun eða viðmið á dauða manns í raun, en ekki aðeins tímabundin stöðvun á líkamsstarfsemi manns. Þetta er því sérstaklega tekið fram til þess að gera það skýrt að Jesús dó sannarlega og var upprisinn frá dauðum.

3.
Þannig krefst það nokkurs af okkur að lesa íslensku Biblíuna þrátt fyrir trú okkar. Málfræðiþekking á íslensku tungumáli ein og sér dugar ekki. Það sama má segja um hvaða tungumál sem er.
Til þess að skilja Biblíuna er nauðsynlegt að hafa ákveðna þekkingu og skilning á menningu hins gamla samfélags Gyðinga. En þetta er ekki stórt vandamál. Við getum fengið margs konar aðstoð, haldin eru námskeið og svo eru einnig lærðir menn eins og prestar, djáknar o.fl. sem aðstoða við biblíuskýringar.
Aðalatriðið er að við verðum að vera meðvituð um að við getum ekki lesið Biblíuna eins og hverja aðra bók, með því að styðjast aðeins við skynsemi okkar og hversdagsþekkingu.

Við þurfum að halda áfram og gera þýðingu Biblíunnar lifandi. Að lesa Biblíuna með trúna að leiðarljósi þýðir ekki aðeins að geta skilið hvað er skrifað í henni og heldur ekki að trúa því bókstaflega sem gerðist fyrir tvö þúsund árum. Við verðum að lesa Biblíuna og túlka það sem gerðist í fortíðinni í samhengi við okkar eigið líf í dag. Raunar er þetta það sem sérhver prestur reynir að gera í predikunum sínum.

Við getum að sjálfssögðu ekki fært orð, framkomu manns eða ýmsa atburði fyrir tvö þúsund árum í líf okkar á 21. öld eins og þau sem standa í Biblíunni. Þess vegna þurfum við að skoða vel og túlka hvað orð eða atburður í Biblíunni þýðir fyrir okkur núna. Það eru mismunandi hættir um hvernig maður túlkar Biblíuna og hvaða áherslur maður leggur. Það er þess vegna sem nokkur umræða getur átt sér stað innan hóps kristinna manna og kirkjunnar.

Það er mjög eðlilegt. Biblían varðar trú okkar og trú varðar líf okkar. Og líf okkar er alls ekki eins, heldur mismunandi. Líf okkar er, að vissu leyti, röð ágreinings við aðra og umræðu. Það er fyrirhafnar virði að lesa Biblíuna í samhengi við eigið líf sitt og í samræmi við eigin trú. Í því ferli verður þýðing Biblíunnar að hinni lifandi Biblíu fyrir okkur.

4.
Þá langar mig að spyrja annarar spurningar. „Hvaða tungumál er móðurmál Guðs?“ Frumtextar Biblíunnar voru skrifaðir á grísku eða hebresku, en það er ekki það sem ég á við. Endanlegt svar við spurningunni er hvergi til. Hver og einn má svara því fyrir sig. Samt hlýtur móðurmál Guðs að vera mál sem Adam og Eva töluðu. Eftir sögu Babelsturnsins var hið tungumál mannkyns ruglað og fleiri spruttu upp.

Við getum ekki lengur sagt hvaða tungumál Adam og Eva notuðu, en það er áhugavert að velta því aðeins fyrir sér. Eins og við vitum öll vel, er þægilegast fyrir alla að tala sitt móðurmál. Það er orðið af hluta af manni áður en maður er orðin meðvitaður um sitt sjálf. Móðurmál er svo eðlilegur hluti manns.

Hér verðum við að minnast mjög mikilvæga staðreynd, en hún er sú að við erum öll börn Guðs. Guð skapaði mann eftir mynd sinni. Því hefur hvert og eitt okkar, sama hversu manneskju getur finnst hún mikill aumingi, þá er hún með ímynd Guðs innra með sér.
Málið er að ímynd Guðs innra með okkur er oftast týnd og við þurfum að finna hana og endurreisa. Trúarlíf er, ef til vill, það sama og að finna hina sönnu ímynd Guðs, sem er týnd innra með okkur og finna mátt hennar.
Ég held að í ímynd þessa Guðs, sem er sofandi hjá okkur öllum, geti leynst hæfileiki til þess að þekkja móðurmál Guðs og læra.

Hugsum aðeins um þetta og ímyndum okkur að við höfum öll þann sameiginlega hæfileika til að geta lært móðumál Guðs. Það þýðir ekki aðeins að ég eða þú talar sama tungumál og Guð, heldur að við, sem erum á jörðinni, eigum sama móðurmál fyrir utan móðurmál sérhvers okkar eins og íslensku, spænsku eða japönsku. Ef íslenska eða japanska er jarðneskt móðurmál, er móðurmál Guðs himneskt móðurmál. Finnst ykkur ekki þetta vera frábært?

5.
Við getum ekki bent á hvaða mál er móðurmál Guðs, hvernig formgerð þess er eða hvernig það nákvæmlega hljómar fyrir hverju og einu okkar. En við getum öll skynjað móðurmál Guðs, þegar okkur tekst að deila tilfinningum okkar með öðrum, þegar við deilum saman sorg, gleði og jafnvel reiði með mismunandi fólki í heiminum.

Við getum gert ráð fyrir því hvernig móðurmál Guðs virkar fyrir okkur. Það hlýtur að gera okkur það kleift að segja ýmislegt sem við getum ekki sagt á jarðneskum móðurmálum okkar, eins og að biðjast afsökunar, að fyrirgefa óvinum eða játa sannleika sem okkur langar ekki að viðurkenna.
Móðurmál Guðs er þannig eitthvað sem við getum skynjað í lífi okkar en við þekkjum samt ekki skýrt, þó að það ætti að vera móðurmál okkar líka.

Eins og ég benti á áðan, þurfum við að skilja Biblíuna í fyrsta lagi sem formgerð tungumáls, og í öðru lagi sem innihald þess. Og í þriðja lagi er það einnig mikilvægt að leita að móðurmáli Guðs í Biblíunni. Að leita að móðurmáli Guðs í gegnum trú okkar og Biblíuna er kannski tengt því að íhuga um tilfinningu Guðs og kærleika hans til okkar, þar sem móðurmál Guðs er innra með okkur frá alveg upphafi, áður en við byrjuðum að skilja tungumál. Við hlutum að hlusta á rödd Guðs, á móðurmáli Guðs, áður en við fæddumst á jörð. Og það hlaut að vera ekkert annað rödd föður og móður sem elska barn sitt sem er á leiðinni til eigin lífs.

,,Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn heldur til þess að frelsa hann“. (Jh.3:16-17„Lítil Biblía“)

Leitum að móðurmáli Guðs með því að halda fast í orð Guðs sem er gefið okkur gegnum Biblíuna.

Dýrð sé Guði, föður og sýni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. –Amen

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 5377.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar