Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Snertingin

9. janúar 2011

Hægt er að hlusta á prédikunina á bloggi Arnar Bárðar.

Hann grét hátt drengurinn sem ég skírði í gær, raddsterkur og farinn að síga í. En þegar fólkið sameinaðist í Faðir vor bæninni sefaðist hann og varð rór. Þegar ég tók hann svo í fangið og lyfti honum upp til að sýna hann fólkinu var hann ánægður með sig og fólkið brosti út að eyrum. Hann átti alla athyglina. Hann var í öndvegi og dagurinn fullur gleði og hamingju. Barnið er uppspretta gleðinnar og barnið er í öndvegi.

Eftir hádegi mun ég skíra 2 börn og þegar því verður lokið verða börnin orðin fimm sem ég hef skírt á 7 dögum. Á fimmtudaginn skírði ég lítinn frænda minn, ég og afi hans erum systkinasynir. Viðstödd var langamma barnsins og það vill svo til að það var þessi sama kona, mágkona móður minnar, sem hringdi í ljósmóðurina þegar ég fæddist og var svo skírnarvottur þegar vatni var ausið á þennan koll. Þegar ljósmóðirin kom móð og másandi var snáðinn þegar fæddur. Ég þekkti síðar þessa ljósmóður og hún var orðin gömul kona þegar ég yfirgaf fæðingarbæ minn fyrir rúmum 40 árum. En eftir hádegi mun ég hins vegar skíra langalangömmubarn þessarar konu, hennar Elínar ljósmóður. Svona heldur lífið áfram og fólk sem tengdist manni í bernsku, bæði lífs og liðið, kemur upp í hugann.

Barnið skiptir máli, börnin eru dýrmæt.

Þekki þið einhverja sambærilega hugmyndafræði í heiminum sem setur barnið í öndvegi á sama hátt og kirkjan gerir? Jesús kenndi okkur að setja barnið í öndvegi. Frásögn Markúsar sem við heyrðum áðan er um afstöðu Jesú til barnsins og afstöðu foreldranna til hans. Þarna var fólk sem kom með börnin sín til hans til þess að hann snerti þau. Ég rakst á ljóð á vefnum eftir Gene Stecher sem ég snaraði á íslensku:
Að snerta lítil börn er mjög mikilvægt,

Jafnvel þótt sumir ýti þeim frá sér.
Börnin hafa í sér fólgið ríki Guðs
og hafa lykilinn til að taka á móti því.
Og Jesús snart, umfaðmaði og blessaði.
Hver er þá lykillinn?
Algjört hæði?
Skilyrðislaust traust?
Bernsk hugsun og tærleiki?
Nei, alls ekki!
Vertu alls ekki neinn!
Vertu ósnertanlegur!
Vertu þræll!
Ríki Guðs er þar
sem hin ósnertanlegu
eru snert.

Hér vísar höfundur til þeirra sem eru útundan, eru ekki neitt, eru í fjötrum. Og þetta á ekki bara við um hvítvoðunga heldur börn á öllum aldri sem orðið hafa útundan. Þar sem þeim er sinnt þar er ríki Guðs.

Kristin trú hefur fært okkur margt gott. Orð Jesú hafa hjálpað okkur að hugsa um náungann eftir brautum kærleika og umhyggju. Höfundar hinna stóru trúarbragða hafa hver með sínum hætti hjálpað fólki til að hugsa. Bókmenntir sem ritaðar eru á okkar tungu eru tæki til að hjálpa okkur að hugsa, þær eru til hugarþjálfunar. Að lesa góða bók fær mann til að skoða lífið í nýju ljósi undir handleiðslu höfundar. Vondar bækur geta líka gert sitt gagn, þær skerpa í það minnsta bókmenntasmekkinn. Mikilvægt er að hlusta á aðra því þannig mótast skoðanir manns. Samtalið skiptir svo miklu hvort sem það er augliti til auglitis eða höfundur sem ræðir við mann í bók sinni.

[Innskot. Sjá hljóðupptöku]

Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, sagði Jesús. Ég verð alltaf jafn hissa á viðbrögðum lærisveina Jesú þegar menn færðu börn til Jesú. Þeir átöldu foreldrana fyrir að koma með börnin til Jesú. Það er engu líkara en að þeir hafi lent í „mannréttindaráði“ Jerúsalemborgar! En börnin komu til Jesú og „hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ Þessi saga er flutt við hverja skírn enda er hún hugljúf og segir svo margt um Jesú og þá hreyfingu sem af honum spratt. Kirkjan hefur alla tíð gert börnum hátt undir höfði. Prófið að taka í burtu í huga ykkar þau atvik þar sem kirkjan kemur við sögu í lífi einstaklinga á hinum stóru stundum. Þá væri lífið fátæklegra. Hugsið um það að það er kirkjan sem blæs til hátíðar þegar barn fæðist. Og þið, kæru fermingarbörn, sem eruð ung og óreynd, í vor verður hátíð í Vesturbænum þar sem þið verðið í öndvegi, fjölskyldan mun sameinast um að fagna yfir lífi ykkar og gleðjast yfir því að þið hafið lýst því yfir að ætla að ganga veginn góða sem Jesús varðaði. Kirkjan stendur fyrir þessari hátíð unglingsins. Hjónavígsla er enn ein hátíðin og svo er það útförin sem er líka vegleg að íslenskum sið og hátíðleg. Hugsið um þetta. Kirkjan varðar lífsveginn okkar með hátíðum og helgum stundum. Jesús er að verki í störfum kirkjunnar og viðleitni hennar til að fylgja honum í orði og verki. En við erum breyskar manneskjur og það er þyngra en tárum taki að kirkjunnar þjónar hér og úti í hinum stóra heimi, hafi brugðist börnum, unglingum og fullorðnum, fallið í freistni og skaðað náunga sinn. Það hryggir okkur öll og hryggir hjarta Guðs. Kirkjan okkar vinnur nú mikilvægt starf til að tryggja eins fagleg vinnubrögð og unnt er, eins mikið öryggi og hægt er að veita, með því t.d. að láta alla starfsmenn, presta og aðra, skila inn sakavottorði til að ganga úr skugga um að hvergi leynist nokkur starfsmaður sem sekur sé um brot gagnvart náunga sínum.

Lífið verður ekki skuggalaust meðan þessi heimur varir. Þess vegna starfar kirkjan, þess vegna starfa margskonar samtök fólks með hugsjónir um betri heim. Ljósið skín víða. Það skín í öllu góðviljuðu fólki, hver sem trúin er, litarháttur, kyn eða staða.

Ég hef verið nokkuð hugsi yfir hruninu eins og nærri má geta og það á auðvitað við um okkur öll. En mér er það ráðgáta hvers vegna hin kristna þjóð villtist svo illilega af leið. Er eitthvað að í okkar menningu og þá á ég ekki hvað síst við hina kristnu trúarmenningu? Erum við kristin á yfirborðslegan hátt? Ristir trúin ekki nógu djúpt í líf okkar? Hefur kirkjan brugðist? Er fermingarstarfið yfirborðskennt og nær ekki að setja mark sitt nóg skýrt á börnin? Er trúariðkun á heimilum of lítil, bænaiðja ekki nógu rótgróin venja allt frá frumbernsku? Ég hef ekki svörin við þessum spurningum en ég vil að við íhugum þetta út frá okkar eigin fjölskyldum.

Með hvaða hætti getum við tryggt það að hér verði kristinn siður áfram ráðandi siður? Þar skipta foreldrar mestu og sú mótun sem á sér stað í frumbernsku.

[Innskot um afstöðu dana til trúarbragða og trúar. Sjá hljóðupptöku]

Sérfræðingar segja að börn sem upplifa trúariðkun í frumbernsku, börn sem sjá mömmu og pabba spenna greipar, signa sig og biðja, syngja kvöldvers í lotningu til skaparans, öðlist innra öryggi sem fylgir þeim alla tíð. Þau skynja að til er eitthvað stærra og meira en mamma og pabbi, eitthvert stórt samhengi, Guð á himnum.

Þetta innra öryggi sem kallað er „basic trust“ á ensku verður til í frumbernsku, á fyrstu mánuðum og misserum lífsins, og verður aðeins til fyrir áhrif trúar á hið æðra. Ég finn það glöggt þegar ég geng lífsveginn með syrgjandi fólki hvort það á þetta innra öryggi eða ekki. Þau sem farið hafa á mis við trúariðkunina í bernsku eða hafa hafnað trúnni á fullorðinsárum eru allt örðu vísi á vegi stödd en hin þegar sorgin slær. Mér virðist þau mörg vera eins og umkomulaus og yfirgefin, týnd í köldum heimi.

Jesús setti barnið í öndvegi. Hann elskaði börnin og elskar þau enn. Hann lagði áherslu á hina bernsku afstöðu, á einlægni og tæra afstöðu með því að segja: „Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“ Við erum minnt á einfaldleika þess að fylgja Kristi. Það þarf engin háskólapróf til að fylgja Jesú, engar menntagráður, engin próf nema einlægni og hreinleika hjartans.

Við erum öll börn Guðs og börn erum við og verðum alla tíð því þekking okkar er í molum, eins og postulinn orðaði það, og vitið skert þrátt fyrir öll vísindi og framfarir. Við erum börn. En við erum líka tengd honum sem tók börnin sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau. „Vér erum systkin orðin hans“, segir í jólasálminum. Við erum fyrir skírnina ættleidd af Guði föður og þar með orðin systkin Jesú, sonar Guðs. Við erum allt ekki munaðarlaus þegar kemur að hinu stóra samhengi. Við erum elskuð og tilheyrum hinni stóru fjölskyldu himinsins.

Er ekki dásamlegt að vera til, að vera Guðs barn, að vera skírð. Jesús tók ekki bara börnin í byggðum Júdeu í faðm sinn. Hann hefur tekið þig í faðm sinn, lagt hendur yfir þig og blessað þig.

Förum héðan í dag með blessun Guðs og leggjum blessandi hendur yfir lífið og þau sem verða á vegi okkar. Og Guð mun blessa verkin okkar.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Ljóðið á ensku:

It is very important to touch little children,

Even though some drive them off.

Children are the ones who inhabit God’s domain,

and have the key to receiving it.

And Jesus touched and hugged and blessed.

So what’s the key?

Total dependency?

Unconditional trust?

Naievete and purity?

No indeed!

Be a nobody!

Be untouchable!

Be a slave!

God’s domain
is where

the untouchable
are touched.
Gene Stecher

Texta dagsins er hægt að lesa hér.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 5042.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar