Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Skipsferðin

23. janúar 2011

Í snjóþyngslunum sem legið hafa á okkur undanfarna daga hefur mér æ oftar orðið hugsað til æskuáranna hér við Eyjafjörðinn þegar skaflarnir urðu meira en mannhæðarháir. Ég man vetrardaga þar sem maður varð að moka sig út úr húsi og þar sem pabbi var að leita að citroenbílnum með kústskafti og þegar hann loks kom niður á bílinn með skaftinu tók hann til við að moka og moka þar til svitinn bogaði af enninu og loks þegar bíllinn var kominn í ljós var þakið sigið á þessu viðkvæmnislega farartæki sem sómir sér náttúrulega mun betur á vínekrum heimalandsins Frakklands þar sem menn teyga guðaveigar í suðrænu loftslagi. Ég man þegar faðir minn skreið inn í bílinn og kýldi þakið upp aftur með snöfurmannlegum hætti að það vildi ekki betur til en svo að þakið sprakk enda ekki vant slíkum aðförum á heimaslóðum, ég hygg að enn í dag megi sjá þennan bíl hér á götum bæjarins, hvítan með svörtu þaki, og þetta er s.s sagan að baki svarta þakinu.
Það er líka annað atvik sem gerðist á mjög svo snjóþungum vetri heima í sveitinni sem mig langar til að deila með ykkur.
Það var um kvöld, dagana á undan hafði snjónum kyngt niður með slíkri áfergju að máttur manna til að halda vegasamgöngum sveitarinnar opnum var einfaldlega enginn, vegurinn var orðinn að eins konar fyrirheitnu landi sem menn eygðu von um að sjá með vorinu, sveitin hafði breyst í hvíta eilífð þar sem skilin milli lands og sjávar voru ómerkjanleg. Og það var þetta kvöld sem frystitogarinn Hákon EA-148 frá Grenivík var á leið í sína jómfrúarferð og menn vildu gjarnan leggja þá tímamótaferð í Guðs hendur, fá fyrirbæn og blessun áður en haldið væri út í vetrarbrimið. Og þar sem faðir minn var prestur í sveitinni og á Grenivík var leitað eftir þjónustu hans en í ljósi þess að engir venjulegir bílar gátu rennt sér eftir fönninni var tekin sú ákvörðun að senda snjóbíl hjálparsveitarinnar eftir klerki til að ferja hann til skips. Og af því að undirrituð hefur sjaldan kosið að missa af góðu ævintýri tróð hún sér með eftir miklar vangaveltur foreldranna um hvort öryggi örverpisins væri tryggt. Það er skemmst frá því að segja að ferðin út á Grenivík sem þá var um 10 km leið var líkust því að aka á skýi, án þess að ég hafi mikla reynslu af því, bíllinn dúaði og einhvern veginn fannst manni hann líða áfram á beltunum eins og vélin væri í hlutlausum gír og þyrfti lítið sem ekkert að erfiða.
Það er ekki hægt að segja að veðrið væri alúðlegt í garð sjómannanna sem biðu í Hákoni eftir að við eða öllu heldur pabbi kæmi um borð, ég fylgdi bara með og prísaði mig sæla yfir búralegum kleinum sem lágu í stöflum á fati og djús sem var bara prýðilegur eftir “sjóferðina” í snjóbílnum. Ég man hvað mér fannst þessir menn sem sátu þarna til móts við okkur pabba og sötruðu kaffi úr mjólkuglasi miklir töffarar, svo hrjúfir á yfirborðinu eins og ekkert gæti komið þeim á óvart, sumir voru með skyrturnar brettar upp að olnboga svo skein í húðflúrin á framhandleggjum, ég man a.m.k eftir einum sem var með mynd af akkeri enda viðeigandi fyrir þessa starfsgrein og svo sem pabba líka enda akkerið kristið tákn trúar og vonar, akkerið heldur skipinu kyrru í lífsins ólgusjó, bæði í kirkjulegu samhengi og bókstaflegri merkingu. Þeir voru yfirvegaðir þrátt fyrir að heldur bætti í vind og og snjó, hlógu og sögðu sögur en smátt og smátt hljóðnaði hláturinn og frásagnargleðin vék fyrir alvöru augnabliksins, það leið að brottför og tími bænarinnar var upprunninn, grófgerðar hendur fléttuðu fingrunum saman svo skein í hvítar kjúkurnar, tákn þess að gripið væri fast og örugglega um orðin sem hrutu fram, “Faðir vor þú sem ert á himnum” hljómaði í kór, djúpar karlaraddir og barnsrödd sem hafði rétt náð að kyngja síðasta kleinubitanum. Við sátum feðginin í snjóbílnum og horfðum á eftir bátnum sem hvarf inn í snjómugguna, með akkerið um borð, pabbi var þögull og dálítið hugsi en svo leit hann á mig og sagði “ veistu Hildur, þetta voru allt fermingarsynir mínir” og það mátti greina skjálfta í röddinni. Síðan þá eru liðin rúm tuttugu ár og fyrst núna skil ég hvaða tilfinningar það voru sem bærðust innra með honum að lokinni þessari stund og þegar ég hugsa um það er ekki laust við að ég verði dálítið meyr.
Þegar maður stendur við skírnarlaug og vökvar hvítvoðungin vatni lífsins er eitthvað sem segir manni, um leið og maður horfir í augu aðstandenda að þessi litli einstaklingur verði aldrei einn, aldrei yfirgefinn. Og samt má stundum greina döpur augu innan um brosmild andlit kirkjugesta, augu sem hafa séð meira en þau langaði til.
Ef maður hugsaði um allt það sem mögulega gæti hent þetta litla barn um leið og maður strýkur mjúkan kollinn og horfir í grandarlaus augun, um allar þær sorgir og erfiðleika sem hugsanlega munu mæta því á lífsleiðinni þá væri sérhver skírnarathöfn þjáning, af því að stundum heldur maður beint á fund syrgjenda eftir að hafa afskrýðst helgiklæðunum þannig að skilin milli stundanna eru mjög skörp. En einhvern veginn er alveg ómögulegt að hugsa um skírn sem eitthvað annað en gleðistund og þakkarstund, einhvern veginn er gleðin alveg ómenguð, óháð öllum staðreyndum lífsins, allri tölfræði öllum rannsóknum, það er eitthvað máttugra en við fáum nokkru sinni fangað sem stýrir vitund okkar og tilfinningum og gerir það að verkum að við hvílum í óskilgreindu öryggi og fullvissu um að við verðum aldrei ein, eitthvert akkeri eins og á framhandlegg sjómannsins nema bara það er flúrað í hjartað. Og hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, þá heitir það trú, það er trúin sem gerir það að verkum að við breiðum ekki bara sæng yfir höfuð og höldum niður í okkur andanum þegar nýr einstaklingur fæðist inn í þessa brothættu veröld. Trúin er gleðigjafi vegna þess að í kjarna sínum boðar hún von og traust já öryggi án þess að vera einhvers konar skyndilausn við hinum ófullkomna heimi. Í síðasta fermingartíma vorum við að tala um brúðkaupið í Kana en þar segir frá fyrsta kraftaverkinu sem Jesús gerði eftir að hann tók skírn og hóf starfið sem endaði á krossinum. Mörgum finnst eflaust sérstakt að fyrsta kraftaverk frelsarans hafi verið að breyta vatni í vín, ekki síst í okkar nútímasamfélagi þar sem áfengissjúkdómar eru eins algengir og erfiðir og raun ber vitni. Það er alltaf dálítill vandi að segja unglingum þessa sögu þar sem vínið á að tákna gleðina, þá gleði sem Guð vill að mennirnir njóti í lífi sínu því í hverri stórfjölskyldu er einhver að glíma við áfengisvanda og mörg ungmenni líða miklar þjáningar inn á sínum heimilum sökum þess. En sögunni verður ekki breytt, vínið táknar gleðina og það að vínið sem borið er fram eftir blessun Drottins er betra en það sem veislugestir fengu fyrst að njóta, táknar vonina um að Guðsríki sé í nánd og það standi öllum manneskjum opið vilji þær fylgja Drottni. Vínið er eins og lífið það er vont ef það er misnotað en það er gott ef það er umgengist af hógværð og sjálfsaga en ekki síst sjálfsþekkingu, að þekkja sín takmörk er einhver mesta farsæld sem nokkur maður getur notið.
Lífið er í eðli sínu gleðigjafi og þannig eigum við að líta það, Jesús er sífellt að minna okkur á það í guðspjöllunum líkt og í fjallræðunni þar sem hann hvetur okkur til að láta af áhyggjum okkar af öllu sköpuðu og ósköpuðu og treysta nálægð hans og miskunnsemi, líkt og fuglar himinsins og liljur vallarins.
Hvernig veistu hvort að þú átt trú, hvernig veistu hvort að þú treystir Guði? Ég get gefið þér eina vísbendingu sem ég hef persónulega haft til viðmiðunar í mínu eigin lífi, það er ef þú ert sannfærður eða sannfærð um (og sú sannfæring býr innra með þér en ekki í huganum) að þú verðir aldrei yfirgefin sama hvað gerist. Að lífinu sé ekki lokið þó að óvæntar og erfiðar breytingar muni hugsanlega eiga sér stað, með þessa tilfinningu innanborðs kemstu býsna langt með að njóta gleðinnar.
Áhöfnin á Hákoni EA-148 kemur upp í huga minn þegar ég hugsa um þetta akkeri, ekki af því að sagan gerist á skipi heldur af því að mennirnir höfðu svo mikið fyrir því að leggja sjóferðina í hendur Guðs, þeir voru glaðir í frásögnum sínum yfir kaffibollanum en undir niðri bjó hin djúpa alvara, vitundin um ýmsar ógnir hafsins, samt leystu þeir landfestar og héldu af stað út í brimið, af því þannig er bara lífið.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.
Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2537.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar