Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

Faðmlag trúarinnar

23. janúar 2011

Lexía: Hós 2.20-25, Heb 11.1-3, 6, Lúk 17.5-10

Láttu Guðs hönd þig leiða hér
lífsreglu halt þá bestu,
blessuð hans orð sem boðast þér
í brjósti og hjarta festu. (HP)

Eitt sinn þegar ég lagði til að beðið yrði fyrir sjúkum manni var spurt: Virkar það? Þetta var mjög snaggaraleg spurning, en líka mjög einlæg. Og hún átti fyllilega rétt á sér. Þetta er spurningin um trú mannsins. Virkar hún? Er hún til einhvers og ef svo er, hvar er hana að finna.

Rjúpnaskytta var á ferð. Hún gekk á haustfjallið, harðfennt á köflum, grýtt og giljótt. Til að komast yfir hin djúpu gil, þurfti að fara hátt, þangað sem þau grynntust og voru skárri yfirferðar. Í einu þeirra var snjóspöng og ákafur veiðimaður veitti því ekki athygli, fyrr en of seint að snjóspöngin var frosthörð og svellaði niður undan henni á annað hundrað metra. Skyndilega var fótur laus, en af mikilli jafnvægislist tókst homum að standa hnykkinn af sér og fóta sig. Komst þó hvergi, hvorki aftur á bak né áfram. Ef hann missti fótanna yrði fallið banvænt. Hvað virkaði hér? Hann spurði sjálfan sig: ef Guð væri hér, hvað vildi hann segja við mig. Jú, hann segði ‘óttast þú eigi, ég er hér’. Hvað á ég að gera? ‘Horfa á mig’, myndi Guð segja. Hvernig er horft á Guð við slíkar aðstæður. Jú, í bergið, í hið fasta land, ekki niður svell bunguna, ekki upp í svimandi hæðir. Í þeirri vitund, með ró og skynsamlegum aðgerðum, tók veiðimaðurinn nú að höggva skref með byssuskeftinu og feta hvert spor af gætni og ákveðni, komst yfir gilið og úr hættu. Hvað virkaði? Trúin eða hugsun mannsins og kraftur hans? Það er freistandi að segja að trúin hafi ekki skipt neinu máli hér, en í vitund mannsins var það alveg klárt að hvort tveggja réði úrslitum og mátti hvorugt missa sig.

Böðvar Guðmundsson segir líka í örstuttu og fögru ljóði:
“Hvað gera börn
tvö ein í völtum báti
á straumhörðu fljóti?

Þau halda hvort um annað
og berast með straumnum.”

Trúin er ekki eitthvert fyrirbæri, sem stendur eins og steintröll í mannlífinu. Trúin er lifandi kraftur. Til þess að nálgast hana þarf að skoða hugskot sitt, líta í kring um sig, spyrja, leita svara. Í slíku ferli vaknar möguleiki, von. Vonin er þess eðlis, að hún kallar eftir því, að hugsunin og tilfinningin umvefji hana. Þannig leggjum við traust okkar í vonina með því að halda í hana og utan um hana. Í því trausti svarar trúin sjálf faðmlaginu og gefur þá fullvissu, sem þolir að sjá ekki allt berum augum, heldur fremur af hjarta, þ.e. innri skynjun og meðvitund. En það tekur auðvitað ekki frá manni hugsun, skynsemi og rökréttar aðgerðir í amstri daglegs lífs. Þess vegna halda börnin í ljóðinu hans Böðvars hvort um annað. Þau eru óttaslegin, skynsöm og halda í von trúarinnar í straumiðunni. “Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.”

Postularnir voru leitandi manneskjur. Þeir höfðu áreiðanlega allir í einhverri mynd ratað inn á óbyggðir efa og óvissu í leit að næringu fyrir sál og anda. Þeir sáu vonina í persónu Jesú. Þeir leituðu til hans og báðu: “Auk oss trú”. Já, virkar það?

Beiðni um aukna trú er næsta skref, þegar trúin bærir á sér í brjósti okkar. Af hverju skyldu þeir hafa sagt þetta postularnir, vinir Jesú. Þeir voru áreiðanlega mætir menn, löghlýðnir og góðir eftir því sem gerist og gengur. Þeir eru í miðjum samræðum, þar sem við berum niður í guðspjalli dagsins. Jesús er að tala um fyrirgefningu. “3Hafið gát á sjálfum yður. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann og ef hann sér að sér, þá fyrirgef honum. 4Og þótt hann misgeri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: Ég iðrast, þá skalt þú fyrirgefa honum.“ (Lúk. 17:3-4).

Beiðnin um aukna trú verður til í þessu samhengi. Þeir höfðu aldrei heyrt talað um fyrirgefningu á þennan hátt. Hér er einmitt undirstrikað rækilega, hversu stór gjöf fyrirgefning er og ekki nóg með það, heldur einnig, að hún sé algerlega aðskilin lögmálsbundnum verkefnum, eins og því að gegna almennum skyldum sínum í samfélagi fjölskyldu og þjóðfélags. Þess vegna segir hann söguna af mustarðskorninu, sem hefur þegið alla tilveru sína og framtíð af náð Guðs og gjafmildi hans. Og þess vegna segir hann af herramanninum, sem krafði þjóninn um að gegna skyldum sínum óháð náðinni. Lögmálið er það að gera skyldur sínar, en fagnaðarerindið er það að fara fram úr skyldunum og gera meir. Þá skilst manni líka betur að fagnaðarerindi og fyrirgefning eiga saman.

Fyrirgefning er ekkert sjálfsagt mál. Það veit hver vitiborinn maður. En hún er samt það mikilvægasta í mannlífinu. Það veit hver fullreynd og lífsreynd manneskja. Fyrirgefning er það dýrmætasta, sem kristin trú fjallar um. Og hún virkar, já, hún virkar. Mikið lifandis ósköp virkar hún vel. Maður þarf víst ekki annað en líta í eigin barm til þess að átta sig á því, hvað það er ákaflega þýðingarmikið að hljóta fyrirgefningu í daglegu lífi sínu, þegar sektarkennd og sársauki eykur á vanlíðan í sálinni, eftir að mistök og brestir hafa stýrt ferðinni. Eins er það átakanlega erfitt, þegar fyrirgefningin nær ekki fram að ganga, oftast vegna þess að hvorki iðrun né yfirbót er til staðar. Enginn verður krafinn fyrirgefningar, en hún er svo erfitt viðfangsefni, að við lærum ekki á hana almennilega nema með hjálp. Til þess kom Kristur, að hjálpa í lífinu og í dauðanum, svo við gætum lifað almennilegu lífi og dáið í von en ekki ótta.

Ætli Jakob hafi ekki verið þarna með í samræðunni með hinum postulunum, því hann segir í bréfi sínu: Eins og líkaminn er dauður án andans, eins er trúin dauð án verkanna. Jak. 2,26.

Faðmlag trúarinnar er eins og faðmlag ástvina. Það virkar – ótrúlega vel! Trúin er lifandi kraftur á vegferð manns, sem hlustar eftir orði Guðs. Lífið er fjallganga, stundum spennandi veiðiferð, stundum bara grjót og svell. En Guð hlustar eftir ákalli okkar og hann svarar:
Ég mun sýna Miskunnarvana miskunn og segja við Ekki-lýð-minn: „Þú ert lýður minn,“
og hann mun segja: „Þú ert Guð minn.“ Hós, 2,25.
‘…og við höldum hvort um annað og látum berast með straumnum.’
Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2383.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar