Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigrún Óskarsdóttir

Ertu mjög trúuð?

23. janúar 2011

Hugsið ykkur ef við værum vélar! Á okkur væri takkar sem stjórnuðu hvernig við hugsuðum og aðrir sem stjórnuðu líðan okkar og tilfinningum. Er ekki ósk lærisveinnanna er í þá veru? Þeir segja við Jesú: „auk oss trú“. Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur, á einum takkanum stæði „trú“ og með því að snúa honum gætum við aukið eða minnkað trú okkar eftir þörfum.

„Ertu mjög trúuð?“ er ég stundum spurð. „Ég er trúuð“, svara ég gjarnan. Ég held að það finnist engin mælieining fyrir trú. Við trúum eða trúum ekki. Við efumst líka flest og það er hluti af trúarþroska og lífi okkar

„Trúin er fullvissa um það sem menn vona“ segir Páll postuli. Skoðum þetta aðeins. Hvað vonar þú? Það er gott að staldra við þessa spurningu. Eitt af mörgu sem ég vona erað sá Guð sem skapaði himin og jörð, skapaði mig og þig leiði okkur í gegnum múrinn sem skilur að líf og dauða. Með sínum eigin dauða og upprisu breytti hann von margra í vissu. Ég trúi á upprisuna. Ég geri mér grein fyrir því að ég get ekki sannað upprisuna og mörgum þykir það einfeldingslegt eða í besta falli barnalegt að trúa að það sem deyi rísi upp og lifi áfram í eilífðinni. Ég virði trúleysi þeirra sem ekki finna flöt á minni trú. Ég bið einnig um að mín trú sé virt. Ég skil að það er ekki hægt að planta eða auka trú þar sem hana er ekki að finna.

Páll postuli sagði marga merkilega hluti og hafði stundum lag á að útksýra flókna hluti. Hann heldur áfram og segir að trúin sé „sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá“. Það eru svo margt sem ekki er auðið að sjá. Við finnum vindinn blása og ég hef ekki heyrt nokkra manneskju þræta fyrir það. En ég hef heldur ekki hitt þá manneskju sem hefur séð vindinn. Það flókna ferli sem fer af stað þegar við öndum inn og út, það sést ekki, en við vitum að ef við hættum að draga andann hættum við að lifa. Ekkert af þessu er sönnun á nálægð Guðs. En ég trúi að hann sé hér yfir og allt um kring. Reynslan hefur kennt mér að ég get treyst Guði. Það eina sem ég get gert er að miðla þeirri reynslu. Í starfi mínu eru mörg tækifæri til þess. Á stóru stundunum við skírn ungbarna, hjónavígslu tveggja einstaklinga sem elskast og svo á kveðjustund þegar jarðnesku lífi lýkur. Einnig með fermingarbörnunum sem eru endalaus uppspretta gleði og vitnisburðar um góða sköpun Guðs. Með þessu er ég ekki að halda því fram að fermingarfræðslan sé einn sannfelldur dans á rósum, alls ekki. Það eru fáir sem reyna meira á þolrifin en þau, en þegar allt er talið eru það forréttindi að fá að vinna með ungu fólki fullu af hugmyndum, lífi, spurningum og svörum.

Ég held áfram að rifja upp það sem Páll postuli sagði okkur í pistli dagsins: „Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega“ Hvernig geturðu trúað að Guð hafi skapað heiminn, heldurðu þá að þróunarkenningin sé bara bull? Þetta er kunnugleg spurning, og sömuleiðis fullyrðingin um Big Bang sprenginguna sem kom heiminum af stað. Hvorugt sannar eða afsannar tilvist Guðs. Hvernig Guð skapaði heiminn, á sjö dögum eða sjö þúsund árum þar sem hver dagur Guðs er sem þúsund ár og þúsund ár dagur ei meir. Hvaðan kom sprengingin? Það er hægt að þrefa, þrasa og þusa endalaust um þessa hluti. En til hvers? Fyrir mér er því líkt farið og fyrir Páli forðum að fyrir trú skil ég að Guð skapaði heimana með orði sínu og hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega. Þannig er það bara.

Við erum mörg sem eigum saman þessa trú og það er okkur mikilvægt að eiga samfélag við Guð og hvert við annað þar sem við deilum trúarreynslu. Flest erum við alin upp í trúnni á Guð sem skapaði, Guð sem frelsaði og endurleysti, Guð sem mætir okkur eins og við erum og þar sem við erum. Vegna þess að það hefur reynst okkur hjálplegt veljum við að ala börnin okkar upp í þessari sömu trú. Við finnum að við erum elskuð og í þeirri kærleikans trú berum við börnin okkar til skírnar, komum með þau í sunnudagaskólann og styðjum þau ef þau velja að fræðast meira í fermingarfræðslunni. Við veljum að ramma inn stóru stundirnar í nálægð Guðs þaðan sem við þiggjum fyrirbæn og blessun. Þannig hefur trúin borist kynslóð fram af kynslóð, yfir lönd og höf, í gegnum ár, aldir og árþúsundir.

Stundum leikur lífið við okkur, Guð gleðst með okkur. Stundum koma erfiðleikatímabil, Guð leiðir okkur, styður og ber byrðarnar með okkur. Það er gott til þess að vita að við megum koma hverjar sem aðstæður okkar eru. Guð er þegar kominn og mætir okkur. Allt þetta er trú. Guð varðveiti þá trú.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2297.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar