Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Lena Rós Matthíasdóttir

Að klifra upp í tré

17. janúar 2011

Jesús hefur lengi leitað þín og þegar hann finnur þig, þá kemur hann rakleiðis til þín og segir: „Þú ert einmitt sá/sú sem ég hef verið að leita að”.

Með umhyggju sinni, ástúðlegu augnaráði og nærveru sem er engri annarri lík, sannfærir Jesús þig um að hann er að meina það frá hjartarótum. Hann hefur allan tímann verið að leita þín.

Og hann finnur þig. Hann finnur þig í ríku frúnni, í unga námsmanninum, í litla veika barninu, í fanganum. Hann finnur þig í forstjóranum, í útlendingnum, í atvinnulausa smiðinum. Hann finnur þig í hinum hraustu, hinum þreyttu, hinum kjörkuðu og hinum óttaslegnu, hann finnur þig í hinum hamingjusömu, hinum sorgmæddu, hinum veiku og hinum týndu.

Jesús leitar þín og án þess að hika eitt einasta andartak, skaltu búa þig undir að láta finna þig. Rannsakaðu huga þinn! Athugaðu hvort þú viljir ekki örugglega láta finna þig! Því ef þú vilt það, þá skaltu biðja til skapara þíns um að sá dagur megi koma og þú megir ganga inn í nýja tilveru. Því ef þú ætlar að bjóða Jesú lífið þitt, þá þurfa breytingar að eiga sér stað.

Kannski hefurðu nú þegar svarað kalli hans og ert nú þegar farin/n að skrifa nýjan kafla í ævisögu þinni. Kafla sem gerir ráð fyrir hinu heilaga í tilverunni.

- - -

Sakkeus var týndur. Hann hafði villst af leið, lagt lífið og allar lystisemdir lífsins undir sjálfan sig, varð hégóma, græðgi og hömluleysi að bráð. Rammviltur! Hvernig kom það til að Jesús skyldi finna hann? Við skulum aðeins skoða það!

Við sjáum það strax í frásögunni að Sakkeus var mjög forvitinn og spenntur fyrir því að sjá Jesú. Hafði heyrt um hann talað og var spenntur að sjá hvernig maður þessi Jesús væri.

Við erum í sjálfu sér ekkert ólík Sakkeusi að þessu leiti. Þegar við fáum tækifæri til að horfast í augu við þekkt eða jafnvel frægt fólk, þá gerum við það. Fræga fólkið vekur forvitni okkar og við erum tilbúin að eyða dýrmætum tíma okkar í að lesa um það í slúðurblöðum eða horfa á algerlega tilgangslausa raunveruleikaþætti, bara til að fá að heyra og sjá meira, skyggnast inn í líf Hollywoodstjarnanna. Við ættum kannski að prufa að nýta okkur þessa forvitni í áttina að Jesú Kristi.

Við ættum ekki aðeins að gera líkt og Sakkeus, þ.e.a.s. að komast í sjónfæri við Jesú, heldur ættum við einnig að reyna að komast að því hvaða persónu Jesús hefur að geyma. Jesús var ekki persóna í tómarúmi. Hann er persóna í raunverulegu lífi. Hann gekk hér um á jörðunni og hann gengur enn hér um í huga og hjarta allra þeirra sem sjá hann með innri augum sínum. En til að sjá hann með innri augum okkar þurfum við að gera eitthvað alveg sérstakt. Hvað ert þú tilbúin/n að leggja á þig til að kynnast Jesú?

Sakkeus klifraði upp í tré!

Jesús er hér og nú. Hann er mitt á meðal okkar. Allt sem hann hafði með orði sínu og æði að gefa okkur, lifir áfram í öllum þeim sem elska hann og virða. Eru innri augu þín heil, eða trúarleg gleraugun þín nógu hrein til að sjá það? Er e.t.v. kominn tími til að fægja þau eða skipta um?

Það er svo gríðarlega margt í tilveru manna sem glepur og sem stelur allri athyglinni frá okkur. Við þurfum að hafa okkur öll við til að tapa ekki sjónar á því sem máli skiptir. Það reynir töluvert á okkur, því þau okkar sem ekki erum tilbúin að príla upp í tréð, getum átt á hættu að missa af frelsaranum þegar hann sækir okkur heim.

Jesús kemur ekki líkt og höfðingjar þessa heims, með lífvarðasveitir allt í kringum sig, blikkandi lögreglubíla og mótorhjólafylgd. Við verðum ekki vakin með lúðrablæstri eða trumbuslætti, fréttatilkynningu eða sjónvarpsþætti. Jesús ferðaðist ekki um líkt og fyrirmenn þess tíma, á hásæti. Hann fór um í föruneyti almúgans. Hann samlagaðist hópnum, hvarf í þvögunni svo að lágvaxnir menn á borð við Sakkeus máttu gjöra svo vel og sætta sig við að sjá ekki neitt. Missa af honum.

En þrátt fyrir smæð sína og þrátt fyrir mannhafið, þá fann Jesús hann. Ekki vegna þess að Jesús sæi í gegnum mannhafið, ekki vegna þess að hann fynndi á sér að Sakkeus væri þarna einhvers staðar. Ekki vegna þess að innri rödd segði honum að snúa sér að litla manninum. Nei! Hann fann lágvaxna manninn vegna þess að hinn síðarnefndi var ekki aðeins forvitinn að sjá Jesús, heldur var hann tilbúinn til að leggja mikið á sig til þess að mega nálgast hann.

Sakkeus er fyrirmynd okkar. Hann gleymdi stað og stund. Gleymdi stöðu sinni í samfélaginu, lét barnið innra með sér ráða för. Lét forvitni sína leiða sig til Jesú, já, þótt það kostaði að þessi virðulegi yfirmaður fórnaði mannorði sínu og klifraði upp í tré líkt og smákrakki, þá gerði hann það án þess að hika eitt einasta andartak.

Þannig eigum við að vera í andanum, líkt og lítil börn sem rannskaka og þreifa fyrir sér í trúnni. Tilbúin að stíga út fyrir öruggan þægindahring okkar. Reiðubúin að fórna ímynd sem við höfum skapað okkur, stöðu sem við höfum tekið okkur í samfélaginu. Já, við eigum að vera tilbúin að setja það allt til hliðar í þeirri barnslegu og einlægu von að mega mæta Jesú og eiga með honum lifandi samfélag.

Þannig kennir Sakkeus okkur ekki aðeins að vera tilbúin að leggja á okkur erfiði, heldur einnig að vera óttalaus gagnvart almenningsálitinu. Þessi smávaxni maður var hugrakkur í andanum og það ættum við líka að vera.

Klifrum óhikað upp í tré! Hvar sem er, á miðjum Austurvelli, eða hvar sem Jesús kann að mæta okkur. Höfum áhrif á aðra í kringum okkur að vera hugrökk í andanum, óhrædd að opinbera okkur sem bræður og systur Jesú Krists. Óhrædd að stíga fram. Náunginn í afhelgaða samfélaginu þarfnast þess af okkur. Guð þarfnast þess af okkur, að við fyllum, jafnt hið opinbera sem hið óopinbera rými, af hugrekki Sakkeusar og heilögum anda.

Sakkeus sýndi ekki aðeins kjark með prílinu einu saman, hann var líka tilbúinn að breyta um lífsstíl og fylgja Jesú. Þegar þú mætir augnaráði frelsara þíns með innri augum þínum, þá veistu að hann hefur fundið þig og að það var einmitt það sem þig skorti. Þú upplifir einfalda þrá að mega snúa þér til hans og halda áfram veginn með Guði í för.

Þess vegna kom Jesús til að leita að hinu týnda og frelsa það.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2712.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar