Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

“Sólin er kulnuð”

31. desember 2010

Hraunið rann hægt fram
en bílarnir fara geyst
á leið yfir það
í grárri birtu.

Einmana mófugl
hniprar sig
í mosanum

Sólin er kulnuð ( Gyrðir Elíasson)
Þannig hljóðar ljóðið „Aftur til framtíðar“ eftir Gyrði Elíasson sem finna má í bókinni Nokkur almenn orð um kulnun sólar.
Það er tvennt sem hefur hent á þessu hausti sem segja má að hafi aukið verulega flækjustig lífs míns, annars vegar kom köttur inn á heimilið í lok nóvember og hins vegar tók bærinn upp á því að breyta sorphirðunni með því að knýja fólk til að flokka lífrænan úrgang og pappír og ál svo nú má maður gjöra svo vel að skola mjólkurfernur og brjóta saman, plokka bráðið vax úr álþynnum sprittkerta, geyma tómar klósettrúllur á vísum stað, þannig að heimilið hefur á skömmum tíma breyst í smávaxna endurvinnslu þar sem forstjórinn er prinsippmaðurinn sem ég bý með en undirrituð gerist stundum sek um endurvinnsluhryðjuverk þegar hún hendir pappír í vitlausa körfu eða setur bananahýði í álboxið. Og svo er það kötturinn, nú þarf að hreinsa úrgang frá honum reglulega sem er vissulega þjóðþrifaverk ásamt því sem yngsti fjölskyldumeðlimurinn sér enga ástæðu til að hætta með bleyju þegar þjónustustigið er svona hátt við kisu og samt er hann langt genginn á þriðja ár og nánast altalandi. Margir vilja meina að það besta sem maðurinn geri til að njóta lífsins sé að einfalda það, þ.e. lífið, sem er á vissan hátt mjög rétt, mér fannst t.d. líf mitt einfaldast all verulega þegar ég flutti hingað norður, hér innanbæjar eru vegalengdir stuttar svo að maður er sjaldan í sömu tímaþröng og vill verða í Ártúnsbrekkunni klukkan 5 á föstudegi, hér er líka yfirleitt eitt af öllu, kannski tvennt svo að valkvíðinn og tilfinningin um að maður sé að missa af einhverju er alls ekki eins ágeng. Og svo er smæðin passlega smá til þess að mynda samstöðu en líka mátulega stór til að veita nauðsynlega friðhelgi, þ.e. að minnsta kosti mín upplifun. Það er hollt og gott að einfalda líf sitt en lífið er samt innihaldsríkast með fyrirhöfn, allt það besta kemur með fyrirhöfn, öll stór afrek vinnast með fyrirhöfn, öll góðu samskiptin verða með fyrirhöfn, góð hjónabönd, mannvænleg börn, gegnheil vinátta, heilbrigði á líkama og sál, jafnvel þó að margir sjúkdómar séu einfaldlega genetískir og ófyrirsjáanlegir þá er hægt að mæta þeim af heilbrigði og fara í gegnum þá með slíkum hætti. Árangur í starfi fæst með fyrirhöfn og þá erum við ekki að tala um frama af því að frami er algjörlega ofmetið fyrirbæri en árangur vísar til þess að eitthvað gott og uppbyggilega fæðist af starfi manns, og þá skiptir nákvæmlega engu máli hvaða heiðarlega starf er um að ræða. Já farsældin fæst með fyrirhöfn, Páll Skúlason heimspekingur segir að farsæll maður sé sá sem stuðli að hamingju annarra og það eru sko orð að sönnu, en hvernig stuðlar maður að hamingju annarra og í hverju er hamingjan fólgin? Þetta eru stórar spurningar en er ekki gamlárskvöld einmitt tími stórra spurninga? Það er alveg ljóst að flokkun og endurvinnsla á sorpi mun til lengri tíma litið stuðla að hamingju annarra, þó afraksturinn verði kannski ekki mælanlegur á okkar líftíma en komandi kynslóðir, börnin okkar, barnabörn og langömmu og langafabörn munu njóta þeirra gæða sem felast í hreinum auðlindum, heilbrigðu loftslagi og náttúrufegurð, við viljum að þau sjái jöklana og kyngimagnað umhverfi hálendisins og við viljum að þau megi og geti drukkið vatn úr krana heimilisins og að sólin verði áfram gleðigjafi en ekki krabbameinsvaldur , að ósonlagið verði ekki eins og kínverskt silki með brunagötum og við viljum síðast en ekki síst að þau hafi uppeldislegar forsendur til að halda fyrirhöfninni áfram. Þetta viljum við og það fæst með fyrirhöfn, ekki bara orðum eins og þeim sem hér er varpað fram heldur með því einmitt að skola mjólkurfernur og geyma bananhýði og kartöfluflus undir vaskinum lengur en mann kannski langar, já með því að hugsa út fyrir eigin þarfir og þægindaramma, svo að við upplifum ekki dag einn að sjá „einmana mófugl hnipra sig í mosanum“ af því að „sólin er kulnuð“.
En hvar kemur kötturinn inn í þetta? Ekki gefur hann af sér afurðir til manneldis eins og húsdýrin í sveitinni en hann er gleðigjafi og kennari í einfaldri lífsgleði sinni, það er hollt að fylgjast með ketti mæna löngunaraugum á glimmerkúlurnar á jólatréinu eða elta lítinn bolta eins og hann sé sjálfur James Bond og boltinn ótýndur glæpamaður og það er gefandi að finna rósemina á kvöldin þegar börnin eru komin í svefn og hinir fullorðnu sitja með bók eða horfa á sjónvarpið, þegar kötturinn hniprar sig saman í sófanum og lygnir aftur augum í fölskvalausu öryggi hins litla heims. Það er líka hollt að leyfa börnum að alast upp í návist dýra og fela þeim ábyrgð eftir aldri og getu, að þau skynji sem fyrst að lífið er borið uppi af umhyggju Guðs og manna og ef hana skortir mun sólin brátt missa birtu sinnar.

Guðspjall þessa lokadags ársins 2010 fjallar einmitt um farsæld fyrirhafnarinnar og langtímamarkmið, það fjallar um það að Kristur hefur gert fyrirhöfnina að viðmiði lífs og hamingju, hann sem gekk sjálfviljugur í dauðann svo að við mættum lifa, hann sem að óttaðist aldrei að ganga gegn ríkjandi viðmiðum tíðarandans ef það þjónaði raunverulegum hagsmunum manneskjunnar, hann sem kom sér aldrei undan áreynslu né átökum ef þau snerust um að varðveita mannréttindi og heilbrigði. Guðspjallið fjallar líka um óendanlega trú Jesú Krists á okkur mannfólkið, trú á að við getum rétt við aftur og blómstrað ef umhverfið er heilnæmt og réttlátt ef samstaða ríkir og andi Krists fær rými til að vinna sín verk.

„Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta“ segir í lexíu dagsins sem er úr nítugasta Davíðssálmi. Mannsævin er aldrei löng á mælikvarða eilífðarinnar, hún er andartak í augum Guðs en engu að síður ómælanlega dýrmætt andartak. Sá sem skynjar hverfuleika tímans sér lífið sem jurt eða tré sem þarf að rækta og hlúa að, eigi það að bera ávöxt í nútíð og framtíð. Einu sinni á ári fyllumst við angurværð hinnar dauðlegu manneskju og það er við áramót, það er tilfinningin um að hið liðna komi aldrei aftur og hið nýja sé órætt og utan okkar valds nema að ákveðnu leyti, að við séum eftir allt saman aðeinst eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár á árbakka lífsins. Áramótin afhjúpa vissulega smæð okkar en þau eru samt sem áður nýtt upphaf fyllt nýjum fyrirheitum og áskorunum um farsæla fyrirhöfn. Hið liðna er til að læra af, hið ókomna til að bæta, frasinn víðfrægi „ þetta er svona 2007“ hefur orðið góð og þörf áminning um þetta, að vísu gerðist líka margt gott árið 2007, mörg yndisleg börn fæddust þá og ástfangið fólk gekk í hjónaband og elskað fólk kvaddi þetta líf svo við megum gæta okkar á því að gera ekki einstök ár að skrímslum fortíðarinnar sem engum á að þykja vænt um já eða óþolandi fullum frænda sem allir eru að reyna að umbera eins og Júlía Margrét pistlahöfundur Fréttablaðsins lýsti svo skemmtilega á dögunum. Að læra af fortíðinni en elska jafnframt minningarnar góðu er gott áramótaheit sem og að leggja sig fram um að hafa fyrir lífinu án þess að flækja það. Og svo líður tíminn og ekkert verður eðlilegra en að skola mjólkurfernur og geyma bananahýði eins hversdagslegur gjörningur og að borða ristað brauð með smjöri og osti og þá tekur eitthvað nýtt við sem okkur finnst í fyrstu svo dæmalaust flókið þangað til við skynjum að með tímanum stuðlar það að hamingju annarra og þannig er bara lífið, fyrhafnarinnar virði.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2076.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar