Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Jóhannesson

Fagnaðarerindið jólanna

27. desember 2010

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég óska ykkur öllum gleðileg jól. Megi almáttugur og algóður Guð blessa ykkur og varðveita og vekja með ykkur jól í hug og hjarta.
Aftur fáum við að halda helg jól hvort með öðru. Við höfum fengið að heyra kirkjuklukkurnar hringja inn hátíð þeirra og helgi. Við höfum notið jólanæturinnar og jóladags. Og nú er komið á annan dag jóla. Sú helgi sem er svo áþreifanleg á aðfangadag er aðeins farin að dofna. Jólin líða fljótt. Við megum hafa okkur öll við ef við ætlum að halda í þau. Jólin virðast líða jafnfljótt og þau komu. Eftir allan þennan undirbúning, alla þessa bið, alla eftirvæntinguna, allar annirnar, eftir allt sem á undan er gengið við að koma öllu á réttan stað fyrir jólin.

Sjálfsagt höfum við öll lagt mikið á okkur við að undirbúa jólin og koma öllu því sem tilheyrir jólahaldinu á réttan stað. Misjafnlega mikið þó, eins og gengur og gerist. En öll höfum við haft í mörgu að snúast. Jólin eru þannig tími. Við viljum helst hafa flest á sínum stað. Við erum viðkvæm fyrir miklum breytingum á jólunum.Við viljum hafa allt eins og vant er, eins og við munum það og þekkjum það. Við eigum okkur öll hefðir og venjur um jól sem við höldum fast í. Hefðir og venjur sem nauðsynlegar eru.

En þrátt fyrir það er ólíkt hjá fólki hvað gerir jólin að jólum. Það er ólíkt frá einum til annars hvað það er sem vekur með okkur þá tilfinningu að nú séu jólin loks komin. Hjá einum getur það verið tiltekið jólaskraut sem tekið er upp og sett á sinn stað. Hjá öðrum getur það verið viss staður sem er heimsóttur – ef til vill kirkjugarður þar sem ljós er tendrað við leiði ástvinar. Sumir eiga sér uppáhaldsjólalag sem nauðsynlegt er að heyra. Kannski eru það jólakortin og gjafirnar sem keyrð eru út á aðfangadag. Kannski allt þetta og meira til.

Á mínu heimili er það orðin hefð að sækja tiltekið skraut á aðfangadag og setja það upp á tiltekin stað. Um er að ræða lítið fjárhús sem við setjum á skenkinn í borðstofunni. Því fylgja styttur af persónum jólaguðspjallsins – hirðarnir, vitringarnir, engillinn, Jósef, María, öll dýrin, og að sjálfsögðu barnið í jötunni. Það er mikil viðhöfn þegar fjárhúsið er sett upp. Þá söfnumst við saman og rifjum upp frásögn jólaguðspjallsins og atburðarás hinna fyrstu jóla.

Fárhúsið var tekið upp að vanda á aðfangadag. En þegar við ætluðum að setja það upp kom í ljós að það vantaði Jesú. Hann var týndur. Enginn skildi hvað hafði orðið af honum. Allir byrjuðu að leita enda ekki hægt að hafa fjárhús án Jesúbarnsins. Það var leitað og leitað. Uppi á hillum, inni í skápum, undir sófa. Við höfðum leitað í góða stund þar til Jesú fannst. Sennilega hafa litlir fingur komist í kassann með fjárhúsinu. En Jesús komst á sinn stað. Og þá var allt í lagi. Jólin máttu koma. Nú var allt komið á sinn stað.

En er þetta svona víða? Vantar ekki Jesú alltof oft? Er hann ekki of oft settur til hliðar á jólunum? Týnist hann ekki gjarnan eða gleymist? Hvað leggur fólk á sig til þess að finna hann? Hversu vel leitar þú að Jesú fyrir jólin? Oft er það nefnilega þannig við þurfum að leita að honum.

Ég sá í blaði fyrir nokkrum dögum uppskrift að góðum jólum. Þar var talið upp það sem þótti ómissandi um jólin. Góð bíómynd var ofarlega á lista, góð bók líka, spennandi tölvuleikur, gott hangikjöt og eitthvað fleira. Það er auðvitað margt ómissandi á jólum. Við eigum öll okkar uppskrift að góðum jólum. En ég tók eftir því að jólaguðspjallið var ekki á meðal þess sem þótti ómissandi fyrir góð jól. Frásögn jólanna, boðskapur jólanna, sá veruleiki sem er á bak við jólin og gera jólin að jólum, mátti missa sín. Og þannig er það hjá svo mörgum. Ef fólk væri spurt um það sem gerir jólin að jólum hversu ofarlega myndi jólaguðspjallið lenda á þeim lista? Það er ekki gott að segja – og kannski þó. Í stað þess að vera í forgrunni jólanna hverfur jólaguðspjallið – Jesús sjálfur – alltof oft í bakgrunnin, frásagan af sjálfri fæðingu frelsarans, og verður lítið annað en ógreinilegt tal í útvarpi, ef það heyrist yfirleitt. Það verður í besta falli notaleg frásögn sem tilheyrir jólahaldinu, ein hefð á meðal annarra.

Könnumst við ekki við þetta öll með einhverjum hætti?

Ég býst líka við því að margir spyrji sig líka hvaða þörf sé fyrir fagnaðarerindið. Hvað er merkilegt við það. Hver er fögnuðurinn sem verið er að tala um? Þegar litið er til aðstæðna í samfélaginu í dag hvað hefur fagnaðarerindið að segja? Hvað hefur það að segja við fólk sem stendur í biðröð eftir matargjöfum? Hvað hefur það að segja við fólk sem horfir á eftir húsnæði sínu á uppboði? Hvað hefur það segja við fólk sem örvæntir dag hvern vegna skulda sem það sér ekki fram úr? Hvað hefur það að segja við fólk sem hefur þurft að horfa á eftir vinnu sinni og tekjum? Hvað hefur það að segja við fólk sem berst við sjúkdóma og veikindi? Hvað hefur það að segja við þá sem eru einmana, syrgja og sakna? Hvað hefur það að segja við fólk í margvíslegum raunum daglegs lífs? Hvaða erindi á frásögn jólanna við það? Hvaða erindi á hún við okkur – við þig og mig?

Það fer eftir því hvað þú leyfir þér að sjá og heyra.

Fagnaðarerindið verður að sjálfsögðu ekki slitið úr samhengi við þetta líf. Það snýst um þetta líf, hvernig sem það annars snýr sér. Það snýst um líf þitt hér og nú. Að lifa sig inn í frásögn jólanna, að upplifa helgi þeirra, að opna hug sinn og hjarta fyrir þeim, að ganga á vit þess veruleika sem er á bak við jólin þegar allt kemur til alls, er ekki það sama og flýja undan lífinu eða neita að horfast í augu við það eða láta sig dreyma um eitthvað sem ekki er; heldur að ganga á vit hins sanna lífs, lífsins eins og það á að vera, lífsins sem Guð ætlar okkur öllum. Það er að ganga á vit stærri veruleika sem er þó engu minna raunverulegur.

Oft er það svo að það sem er raunverulegast er ekki það sem við sjáum með berum augum heldur það sem við finnum og upplifum innra með okkur; ekki það sem við heyrum utan við okkur heldur það sem hljómar innra með okkur; ekki það sem við snertum sjálf á heldur það sem hreyfir við okkur; ekki það sem við segjum sjálf heldur það sem kallar á okkur og talar til okkar. Og það hefur áhrif. Það breytir okkur. Það getur breytt lífi okkar. Og það mun breyta lífi okkar – ef við leyfum því.

Og um það snúast jólin. Jólin snúast um að breyta lífum. Þau snúast um að snerta líf, hafa áhrif á líf, auðga þau, dýpka, bæta. Þitt líf og mitt.
Fagnaðarerindi jólanna minna okkur á að Guð er á meðal okkar. Guð sjálfur, skapari heims og lífs, almáttugur og eilífur, er stiginn inn á svið sögunnar. Sjálfur höfundurinn. Eins og segir í jólaguðspjalli Jóhannesar: „Í upphafi var orðið . . . og orðið var Guð. . . og orðið varð hold.“ Hann er kominn hingað til okkar. Frásögn jólanna er saga Guðs sem gengur inn í líf fólks; Guðs sem lætur sig líf fólks varða; Guðs sem skilur okkur ekki eftir ein og óstudd í þessu lífi heldur gengur inn í það, tekst það sjálfur á hendur, til að takast á við það með okkur og fyrir okkur, til þess að leiða okkur á vit þess lífs sem hann ætlar okkur öllum, hverju og einum. „Í honum var líf og lífið var ljós mannanna.“

Og ég segi það og fullyrði að ekkert kemst jafn nærri þörfum okkar og vonum. Jólin kallast á við það sem býr innst og dýpst í okkur öllum. Þegar við meðtökum frásögn jólaguðspjallsins í trú verður okkur ljóst að gleðilegri, vonarríkari og fagnaðarríkari og djúpstæðari fréttir er ekki hægt að fá. – Því hvað stendur eftir án þeirra? Án Guðs?

Jólin segja okkur að sá kærleikur sem skóp þennan heim og þetta líf er að verki innan þess heims og í þínu lífi, í lífi okkar allra. Frásögn jólana gefur okkur því tilefni til að vona og beina sjónum okkar lengra, út fyrir hversdaginn, út fyrir þennan veruleika. Jólin ljá þessu lífi tilgang, merkingu og gildi því þau minna okkur á að handan þess er, handan við þetta líf, þennan veruleika sem við erum bundin er hið sanna, fallega og fullkomna. Jólin gefa okkur von í erfiðleikum, ljós í myrkri, huggun í harmi. Þau gefa okkur sjálfan Guð! Guð sem elskar okkur og leitar okkar; Guð sem elskar þig svo að hann vill gefa þér sjálfan sig, ganga inn í þitt líf til að gefa þér lífið sitt.

Látum hátíð jólanna og helgi þeirra minna okkur á þetta og njótum svo alls þess sem kemur með þeim.

Nú veit ég ekki hvað þetta segir þér. Ég veit ekki hvaða áhrif þetta hefur á þig og þitt líf. Ég veit ekki heldur hvað þér er efst í huga þessi jól. Ég veit ekki hvaða aðstæðum jólin þín eru bundin. Ég veit ekki hvaða tilfinningar þau vekja. Ég veit ekki hvað þau segja þér. Ég veit ekki hversu mikið þú leggur á þig við að finna Jesú. Ég veit ekki hversu vel þú leitar að honum. En eitt veit ég. Guð er að leita þín. Guð er kominn inn í þennan heim þín vegna. Og ég bið þess að þú opnir hug þinn og hjarta fyrir honum, svo að hann fái að finna þig og hafa áhrif á líf þitt, „því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum“.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2569.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar