Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Draumurinn

27. desember 2010

Þú gerur líka hlustað á prédikunina með því að smella hér.

Draumar eru merkilegt fyrirbrigði og þeir eru rannsakaðir af vísindamönnum á mörgum fræðasviðum. Hvað orsakar þá? Er það bara of mikill jólamatur sem truflar svefninn og veldur einhverjum óskiljanlegu rugli í heilanum, einhverjum samslætti eins og þegar útleiðsla verður í rafmagni? Eða er hugsanlegt að draumar hafi dýpri og æðri merkingu? Okkur hefur öll dreymt drauma á lífsleiðinni, ótrúlega drauma, ævintýri sem eiga sér vart nokkurn samjöfnuð í villtustu ævintýrabókum. En svo hefur okkur líka mörg dreymt drauma sem við sannfærðumst um að hefðu einhverja djúpa merkingu, væru nánast sem skilaboð um eitthvað æðra og meira.
Jósef dreymdi draum. En áður en það gerðist hafði hann lent í mikilli klemmu, siðklemmu mætti kalla það, því staða hans var í órjúfanlegu samhengi við þann sið sem hann tilheyrði og stangaðist á við það allt. Kærastan hans var ólétt og hann hafði þar hvergi komið nærri. Siðklemman fólst í því að honum bar samkvæmt siðnum að slíta trúlofuninni við hana og láta dæma hana skv. lögmálinu og sá dómur gat aðeins leitt til grýtingar til dauða. Trúlofun var alvarlegt samband í þá daga og hafði lagalega stöðu, áþekka hjónabandi. Slit trúlofunar var skilnaður. Vegna alvöru málsins vildi hann skilja við Maríu í kyrrþey til að gera henni ekki minnkun. Hann ákvað hins vegar að gera það ekki. Hann hugðist sem sagt ganga á svig við lögmálið sjálft.

Okkur Íslendingum þykir lögmálshlýðni af því tagi sem við þekkjum af síðum Biblíunnar vera grimm og sömu afstöðu höfum við til lögmálshyggju múslima í samtímanum sem grýta konur og myrða jafnvel systur sínar fyrir að tengjast vantrúuðum þ.e.a.s. kristnum mönnum á Vesturlöndum. En svona var nú lífið meðal strangtrúaðra Gyðinga þá og er enn hjá sumum strangtrúuðum múslimum.

En að lögmálinu slepptu og afstöðu Gyðinga og múslima er þá eitthvað til í hugum okkar frjálslyndra Vesturlandabúa sem er heilagt og óbrjótanlegt? Eigum við eitthvað sem við erum tilbúina að dryja fyrir? Eða erum við ætíð reiðubúin til að selja sálu okkar andspænis valkostum og freistingum heimsins? Hrunið, er það ekki dæmi um afleiðingar þess að menn seldu sálu sína, létu hin æðri gildi fjúka lönd og leið og völdu það sem við fyrstu sýn gaf mest í aðra hönd?

Sagan af Jósef sýnir okkur að staða hans var allt annað en auðveld. Hann var í raun beðinn um að gera það sem var andstætt hans dýpstu trú og sannfæringu. Hann var valmenni, hlýðinn og góður maður. Draumurinn virtist vísa honum leið sem var andstæð lögmálinu. Átti hann að trúa þessum draumi? Á maður að taka drauma sína bókstaflega? Gerum við það? Jósef gerði það, hann gekkst inn á hinn skapandi valkost sem Guð setti fram fyrir hann í draumi. Jósef tók þá áhættu að óhlýðnast lögmálinu í augum heimsins og verða fyrirlitinn af samferðafólki sínu, taka á sig synd og þjáningu vegna hlýðni við Guðs vilja.

En bíddu við. Er ekki staða hans þar með orðin býsna nærri stöðu barnsins sem beið í volgu vatni móðurkviðar, hans sem átti eftir að verða „synd vor vegna“ til þess að verk Guðs næði fram að ganga? Þegar lögmálið og réttlætið virðast stangast á hversu langt nær þá elska Guðs og fyrirheit?

Saga Matteusar af fæðingu frelsarans er allt önnur en Lúkasar. Hjá Matteusi er Jósef látinn vera í vandræðalegri stöðu sem hann leysir á sinn hógværa og grandvara hátt. En Matteus þarf að koma fleiru að. Jósef er nefnilega afkomandi Davíðs konungs og með því að hann tekur að sér barnið er það þar með tekið inn í ætt Davíðs.

Hann sem var af „föðurnum fæddur frá eilífð, Guð af Guði, ljós af ljósi, sannur Guð af Guði sönnum, fæddur eigi gjörður, samur föðurnum“, hann kom til okkar manna á jólum og kemur enn. Fæðing hans markar skil í sögu allrar veraldar. Sagan af fæðingu hans er sköpunarsaga. Hin fyrri sköpunarsaga Biblíunnar sveif andi Guðs yfir vötnunum, Guð talaði og það varð. Guð talaði einnig í atburði jólanna, skapaði eitthvað alveg nýtt, olli algjörum skilum í sögu mannsins, til þess að vekja með honum nýja von og trú. Guð talaði og það varð. Í frumkristni var gjarnan litið svo á Krists-viðburðurinn væri eins og framhald af sköpunarsögunni, áttundi dagur sköpunarsögunnar. Þetta átti einkum við um upprisu hans sem átti sér stað á sunnudegi, áttunda deginum. Fæðingin er hins vegar forsenda alls þess sem síðar gerðist. Guð er enn að skapa og hann kallar okkur til að taka þátt í sköpunarverkinu eins og hann kallaði Jósef og Maríu til hlýðni við hið mikla undur. Við erum kölluð til þess að stuðla að réttlæti í landinu og í þeirri viðleitni að hlusta eftir rödd Guðs, í orðinu sem lesið er og útlagt í kirkjum landsins, í draumum okkar og bænum. Guð talar enn á ýmsum stöðum og í gegnum ólíka miðla.

Jósef var enginn veifiskati heldur heilsteypt valmenni, sterkur maður og traustur í sál og anda. Hann var trúr rótum sínum, trú og sið, og þegar kall Guðs hljómaði í raust engils í draumi þá stóð hann ekki eins og jórtrandi kýr og velti vöngum. Hann framkvæmdi hiklaust það sem hann vissi í hjarta sínu að var rétt. Hann spurði einskis, efaðist ekkert. Hann var sannfærður og hélt ótrauður áfram að lifa í trú á Guð og handleiðslu hans. Það var ekki auðveld ákvörðun. Erfiðleikar og mótlæti biðu hans og verðandi fjölskyldu hans, flótti og fátækt, mótlæti og miskunnarleysi heimsins. En Jósef vissi að hann og hans fólk var í hendi hins almáttka.

Jósef er hér í stöðu hins hlýðna lærisveins, löngu áður en við heyrum um boð Jesú til postulanna um að fara og gera allar þjóðir að lærisveinum.

Guð talaði forðum og hann talar enn. Hvað segir hann við okkur? Hvað segir hann við íslensku þjóðina á tímum upplausnar og erfiðleika? Hann kallar hana til hlýðni við Orðið, við lögmál kærleikans. Kallar hana til að láta drauminn rætast um réttlátt þjóðfélag í anda himinsins.

Og við mig og þig segir Guð: Láttu hjartað ráða. Farðu eftir því sem þú dýpst í hjarta þér veist að er rétt og satt. Láttu draumana rætast, þá drauma sem þú veist að eru ljós af ljósi himinsins, brot af þeirri eilífri blessunarleið sem Guð hefur markað þér og þínum nánustu og þjóð þinni allri. Sú leið er leiðin með honum sem heitir Immanúel og merkir: Guð með oss.

Nú er okkur þörf að feta veginn með honum, hjálpast að við það að færa þjóð okkar aftur inn á veginn eina og sanna, minnug þess að hann sem kom á jólum sagði þegar hann kvaddi: „Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.“

Lífið með Guði er draumur sem rætist.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
- –

Ritningarlestrar dagsins eru að baki þessarar smellu.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3467.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar