Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Ávarp við útför séra Sigurðar Sigurðarsonar

4. desember 2010

Lúkas guðspjallamaður segir um prestinn Sakaría: „Þegar þjónustudagar hans voru liðnir fór hann heim til sín.“
Þessi orð hafa leitað á mig er ég hugsaði til þessarar stundar hér í Skálholtsdómkirkju þegar við kveðjum herra Sigurð Sigurðarson, vígslubiskup, sem hér á sína síðustu líkamsdvöl á jörðu. Við hörmum ótímabæran dauða, að samverkamaður, sálnahirðir, biskup og leiðtogi kirkju og kristni, eiginmaður, faðir, ástvinur er kallaður burt frá óloknu dagsverki. En í trúnni megum við sjá og vita, að Guð hefur kallað hann heim. Þjónustudagar hans á jörð voru liðnir og Guð kallaði hann heim í þann heim og helgidóm sem þjónustu hans var ætlað að bera birtu frá inn í líf okkar og veröld. Helgiþjónustan á jörðu er endurskin þess veruleika þar sem fegurðin ein ríkir og kærleikur Guðs er allt í öllu, í himni Guðs. Sú vissa von er huggun og styrkur á kveðjustundu.

Helgiþjónustan var Sigurði Sigurðarsyni einkar hjartfólgin, fegurð og iðkun helgidómsins. Það var heimanfylgja hans sem hann ræktaði síðan á löngum starfsferli og auðgaði með kirkju og kristni. Hann var flestum öðrum fróðari um sögu og hefðir trúarlífs og iðkunar. Ég hygg að hann hafi aldrei notið sín betur en einmitt þegar hann miðlaði af þeim fróðleik af eftirminnilegri frásagnargleði og list, sem honum var gefin, nema þá ef vera skyldi við framkvæmd hins helga embættis og prédikun orðsins í söfnuði sínum á helgum og hátíðum. Hann var snjall prédikari og sem vandaði framsetning boðskaparins af trúfesti við hollar hefðir trúar og tungu.

Íslenska kirkjan kveður Sigurð Sigurðarson, vígslubiskup í þökk fyrir þjónustudagana að baki og allt sem hann var og veitti söfnuðum sínum og samstarfsfólki, þjóð og kirkju til blessunar. Persónulega þakka ég góð kynni. Á stúdentsárum unnum við saman hér í Skálholti við að byggja sumarbúðirnar og prýða umhverfið, vorum við þar í glaðværum hópi ungra stúdenta sem ræddu mikið, guðfræði – hvað annað?- sögu, tónlist, bókmenntir og alltaf var Sigurður hrókur alls fagnaðar, og svo fyrir og eftir vinnu kvölds og morgna æfðum við okkur við tíðasöng hér í dómkirkjunni undir traustri handleiðslu hans. Þeirra sumardaga er gott að minnast. Eins þakka ég gott og ánægjulegt samstarf og samskipti umliðin tólf ár á biskupafundi og í kenningarnefnd og að öðru því er að biskupsþjónustu laut. Guð launi og blessi allt gott sem minning hans geymir.

Og þig, elsku Arndís, og Stefanía, Jón Magnús, barnabörnin og ástvinahópinn, felum við bænum okkar allra, Guð huggi ykkur og styrki ykkur og þau öll sem líf ykkar var tengt ástarböndum. Ljós Guðs og andi leiði og blessi ykkur og varðveiti börn sín öll.

Einlæg virðing, þökk og kærleikur ber uppi þessa stund og ómar í öllu sem hér er sungið, sagt og téð. Umfram allt þökk til Guðs sem gefur allt hið góða og sem nú hefur kallað þjón sinn heim. Og við segjum og játum með prestinum Sakaría í lofsöng hans: „Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor og lýsa þeim sem sitja í myrkri og skugga dauðans og beina fótum vorum á friðarveg.“

Í Jesú nafni. Amen. Náð og friður Drottins sé með oss öllum.

Ávarp við útför séra Sigurðar Sigurðarsonar, vígslubiskups, 4.des. 2010.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2654.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar