Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Guðrún Karls Helgudóttir

Hver þekkir hana?

24. október 2010

Lexía
Orðskv. 31. 10-31
Dugmikla konu, hver hlýtur hana?
Hún er miklu dýrmætari en perlur.
Hjarta manns hennar treystir henni
og ekki er lát á hagsæld hans.
Hún gerir honum gott og ekkert illt
alla ævidaga sína.
Hún sér um ull og hör
og vinnur fúslega með höndum sínum.
Hún er eins og kaupförin,
sækir björgina langt að.
Hún fer á fætur fyrir dögun,
skammtar heimilisfólki sínu
og segir þernum sínum fyrir verkum.
Fái hún augastað á akri kaupir hún hann
og af eigin rammleik býr hún sér víngarð.
Hún gyrðir lendar sínar krafti
og tekur sterklega til armleggjunum.
Hún finnur að starf hennar er ábatasamt,
á lampa hennar slokknar ekki um nætur.
Hún réttir út hendurnar eftir rokknum
og fingur hennar grípa snælduna.
Hún er örlát við bágstadda
og réttir fram hendurnar móti snauðum.
Ekki óttast hún um heimilisfólk sitt þótt snjói
því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati.
Hún býr sér til ábreiður,
klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura.
Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum
þegar hann situr með öldungum landsins.
Hún býr til línkyrtla og selur þá
og kaupmanninum fær hún belti.
Kraftur og tign er klæðnaður hennar
og hún fagnar komandi degi.
Mál hennar er þrungið speki
og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.
Hún vakir yfir því sem fram fer á heimili hennar
og etur ekki letinnar brauð.
Börn hennar segja hana sæla,
maður hennar hrósar henni:
„Margar konur hafa sýnt dugnað
en þú tekur þeim öllum fram.“
Yndisþokkinn er svikull og fegurðin hverful
en sú kona sem óttast Drottin á hrós skilið.
Hún njóti ávaxta handa sinna
og verk hennar skulu vegsama hana í borgarhliðunum.

————————————–

 

Ritningarlestrar þessa dags eru ekki hinir hefðbundnu textar sunnudagsins heldur valdi ég þá í samræmi við kvennafrídaginn á morgun en þá munu konur mótmæla launamuni á körlum og konum og kynbundnu ofbeldi á Íslandi. Í dag eru 35 ár frá kvennafrídeginum mikla og því verður leikurinn endurtekinn á morgun.

Kvennafrídagurinn er ekki kirkjulegur dagur en kirkja okkar, með Jesú Krist í fararbroddi, lætur sig samfélagsmál varða. Það gerir hún vegna þess að samfélagið er fólkið og Guð umvefur fólkið elsku sinni.

Fyrsti lesturinn er úr Orðskviðunum og þar er að finna magnaða lýsingu á dugmikilli konu, nokkurskonar „súperkonu“ þess tíma. Mig langaði að skoða hvernig þessi dugmikla kona væri í dag. Þetta er útkoman:
 
Tilbrigði við Orðskviðina 31. 10-31:
Dugmikla konu, hver þekkir hana?
Hún er dýrmætari en perlur.
Maki hennar treystir henni
og það er gott að vera með henni.
Hún gerir lífsförunaut sínum gott og er
honum trú alla ævidaga sína.
Hún tekur til og setur í þvottavél,
henni fellur sjaldan verk úr hendi.
Hún er verslar í matinn þó Bónus
sé ekki í leiðinni heim.
Hún fer snemma á fætur,
hitar kaffi, tekur til morgunmat handa öllum
og kannar hvort allir fjölskyldumeðlimir þekki
verkefni dagsins.
Ef hana langar í nýja skó kaupir hún þá og
ef hún vill skipta um lit á veggjunum í stofunni,
málar hún þá.
Hún fer í ræktina þrisvar í viku, lyftir lóðum,
hleypur á brettinu og æfir jóga.
Hún finnur að það sem hún gerir skiptir máli,
veit að hún er í ábyrgðarmiklu starfi
og stundum þarf hún að sitja við tölvuna
fram eftir kvöldi og ljúka við það sem hún
náði ekki að gera yfir daginn.
Hendur hennar renna eftir lyklaborðinu
þegar hún skapar nýja heima í tölvunni,
þegar hún greiðir reikningana.
Hún heimsækir eldri ættingja sína þegar hún getur
og hún gefur reglulega í Hjálparstarf kirkjunnar.
Hún býr börnin sín vel fyrir veturinn svo þeim verði
ekki kalt á leikskólanum.
Hún er glæsileg til fara.
Blandar saman notuðum fötum og nýjum.
Hún flokkar ruslið og
fer með allt sem hægt er í endurvinnslu.
Hún er bjartsýn og sjálfsörugg.
Hún er sátt við sjálfa sig.
Í því felst glæsileiki hennar.
Hún bloggar af kærleika
og reynir að tala vel um allt fólk.
Hún er börnum sínum góð fyrirmynd og
á trúnað þeirra og makans.
Hún er dugleg en kann líka að
slappa af og horfa á góða mynd í sjónvarpinu.
Börnin hennar vilja líkjast henni og maki hennar
hrósar henni.
„Margar konur hafa verið til fyrirmyndar
en þú tekur þeim öllum fram.“
Kynþokkinn er svikull og fegurðin hverful
en trúuð kona á kreppu tímum á hrós skilið.
Hún njóti ávaxta vinnu sinnar og verk hennar
munu að lokum vekja athygli.

Þekkir þú þessa konu? Ég þekki hana.
 

Ég þekki líka konuna sem leyfir sér að slappa af fyrir framan sjónvarpið, tölvuna eða við handavinnu í stað þess að setja í þvottavél eða taka til.
 

Ég þekki líka konuna sem sér til þess að verkaskipting hennar og makans sé jöfn.
 

Ég þekki konuna sem veit að hún er með lægri laun en maðurinn sem var ráðinn um leið og hún og gegnir samskonar starfi. Hún getur ekki gert neitt í því þar sem launaleynd ríkir í fyrirtækinu.
 

Ég þekki konuna sem virkar svo sterk og sjálfsörugg út á við en verður fyrir stöðugu ofbeldi heima hjá sér.
 

Ég þekki konuna sem er með hærri laun en maki sinn og hann samgleðst henni.
 

Ég þekki konuna sem nær ekki endum saman því hún er einstæð með þrjú börn og á atvinnuleysisbótum.
 

Ég þekki allskonar konur.

Á morgun munu vonandi sem flestar konur leggja niður störf kl. 14:25. Ástæðan fyrir því að þessi tímasetning er valin er sú að þá eru þær búnar að vinna fyrir sínum launum sem er um 66% af launum karla. Þessi launamunur hefur minnkað um tvö prósent á fimm árum.
 

Ég ræddi við hóp kvenna sem kom saman hér í kirkjunni í gær til þess að hekla smekki handa skírnarbörnum í Grafarvogi. Ég spurði þær sem höfðu tekið þátt í kvennafrídeginum árið 1975, hvernig reynsla það hefði verið, hverju þær myndu helst eftir.
 

Það kom svolítill glampi í augun á þeim og allar voru þær sammála um að það hefði ríkt svo mikil gleði þennan dag. Að hann hefði verið svo skemmtilegur. Nokkrar töluðu um að það hefði verið svo sérstakt að fara að heiman, með börnin í vagni, og niður í bæ og geta gert það sem þær vildu. Fara í gönguna, á kaffihús og hitta skemmtilegar konur og vera ekkert að flýta sér heim til að elda. Þær sögðu sögur af mönnum sem voru með Cornflakes í matinn þennan dag. Þær sögðu sögur af körlum sem tóku að sér að elda í mötuneyti þar sem konur venjulega sáu um alla eldamennsku. Þeir elduðu pylsur og létu uppvaskið bíða eftir konunum daginn eftir.
Já, margt hefur sannarlega breyst.
 

Ég efast um að karlar af minni kynslóð kunni ekki að bjarga sér við heimilisstörf og ég efast um að margar konur af minni kynslóð létu sér detta í hug að sjá um öll heimils störfin einar.
 

Við eigum kvennabaráttunni mikið að þakka. Það er til að mynda kvennabaráttunni að þakka að við höfum leikskólapláss handa öllum börnum í dag.
 

Þó mikið hafi áunnist og margt hafi breyst til batnaðar þá vitum við samt öll að staða karla og kvenna er ekki jöfn á öllum sviðum. Margt hefur lagast í launamálum en ekki nóg. Konur bera enn of mikla ábyrgð á heimilishaldinu þó þær skúri kannski ekki alltaf sjálfar. Enn eru það fyrst og fremst konurnar sem hafa yfirsýnina yfir það hvenær þarf að þrífa, þvo þvott, versla í matinn, kaupa föt á börnin og vita hvenær starfsdagarnir í leikskólunum eru og vetrarfríin í skólunum.
 

Jesús segir: „Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður,  þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ (Gal. 3.28)

Við erum öll eitt í Jesú Kristi!

Við erum öll eitt í Jesú Kristi!

Jesús var jafnréttissinni. Honum var ekki sama um pólitík. Hann var femínisti. Hann sýndi okkur að Guð fer ekki í manngreiningarálit. Guð elskar ekki karla meira en konur eða konur meira en karla. Guð vill að við séum jöfn!

Jesús vildi ekki að manneskjur væru krepptar, hvorki karlar né konur og því er ég sannfærð um að Jesús Kristur verður í fararbroddi í göngunni á morgun, frá Hallgrímskirkju og niður á Arnarhól. Leyfum honum að reisa okkur við, að okkur verði ekki sama um ójöfnuð, að við lærum að þekkja ofbeldi, að við veigrum okkur aldrei við því að mótmæla allri mismunun og ofbeldi í hvaða mynd sem það birtist.

Blessun:
Blessuð veri augu þín, svo þú sjáir skýrt.
Blessaður veri munnur þinn, svo þú segir satt.
Blessuð veri eyru þín, svo þú heyrir það sem sagt er við þig.
Blessað veri hjarta þitt, svo þú fyllist af kærleika.

Blessaðir veri fætur þínir, svo þú megir finna og ganga þann veg sem er sá rétti fyrir þig.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3168.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar