Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Á rangri leið

31. október 2010

Ég ætlaði að tala um tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar í þessari prédikun, ég var búin að sanka að mér fullt af bráðsmellnum athugasemdum og röksemdarfærslum bæði úr eigin ranni og annarra. Margar voru fengnar að láni af facebook þar sem menn hafa látið gamminn geysa undanfarnar vikur, ég þar á meðal, aðrar veiddi ég upp úr samtölum við málsmetandi aðila. Þetta hefði getað orðið sannkölluð trúvarnarræða og ég var satt best að segja komin með fiðring í magann og fingurna að fá að slá inn þennan magnþrungna texta þar sem hvert orð var gaumgæfilega valið bæði lýsingar og sagnorð sem hefðu eflt málstaðinn að mínu mati og eflaust slegið met í “likum” á facebook, “like” er s.s. ákveðið hrós á facebook sem menn sáldra um síðurnar eins og fuglafóðri á hvíta jörð. Í raun hið besta mál því slíkt hrós er jú betra en ekkert hrós líkt og tölvusamskipti sem eru snöggtum skárri en engin samskipti. En áður en ég einhenti mér út í þessa tilvonandi tímamótaræðu þá tók ég þá óvæntu ákvörðun að fara í göngutúr, við erum að tala um 10 gráðu frost og marrandi snjó, ullarbrækur og þriggjalaga jakka og norðlenska náttúru í Naustaborgum þar sem álfarnir hljóta að búa, séu þeir til. Og áður en lengra er haldið í frásögninni þá ætla ég að segja þér að ef þú heldur einhvern tímann að þú sért búinn að höndla sannleikann, að hann liggi eins og leir í höndunum á þér tilbúinn að breytast í stórbrotið listaverk, þá skaltu fara út í göngutúr, það er nefnilega betra fyrir alla.
Svo ég gekk af stað og frostið beit í kinnarnar en þar sem ég var stödd í miðri brekku til móts við hamrabelti Naustaborga þá beit eitthvað annað og dýpra í mig, það var ekki frost og heldur ekki þreyta heldur tilfinning um að ég væri algjörlega á rangri leið, fullkomlega villt, búin að tapa mér, þó ekki í náttúrunni, heldur í þessari blessuðu prédikun sem ég var svo sannfærð um að ætti erindi við ykkur hér í dag. Ef þér finnst erfitt að greina rödd Guðs í hjarta þínu, skaltu standa upp frá tölvuskjánum og ganga einn eða ein út í ósnortna náttúru þar sem þú skynjar tengslin við sköpunarverkið, skynjar að þú lifir í samhengi við eitthvað stærra og meira en sjálfan þig, á þeim stundum hef ég sjálf fengið óvæntustu svörin og þannig var það þennan frostkalda dag þegar ég taldi mig vera búna að leira næsta fullkomið líkneski af trúvarnarhugmyndum mínum og annarra. Þá fannst mér Guð segja “ heyrðu gamla mín, hættu að skylmast í pirringi og ótta og segðu fólkinu frá því mikilvægasta sem kristin trú hefur að geyma, þú varst ekki kölluð til annars af mér” og hvað er það? Veistu það, veistu hver er stærsta gjöf kristinnar trúar? Jú það er fyrirgefningin og náðin. Svo í staðinn fyrir að tala um tilllögur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar hér í dag, ætla ég að tala um fyrirgefningu og náð, af því að ég er líka búin að átta mig á að þrátt fyrir að margir þjónar íslensku þjóðkirkjunnar séu að vinna árangursríkt og óeigingjarnt starf líkt og 700 barna landsmót æskulýðsfélaga vitnar um, þá erum við því miður samnefnarar þeirrar kirkju sem hefur brugðist trausti þjóðarinnar, þjóðin er okkur reið, alveg sama hversu oft er hamrað á þeirri staðreynd að prestar og biskupar séu ekki kirkjan heldur allt fólkið sem játar trú á Jesú Krist og er skírt til eilífrar samfylgdar við hann.

Ég upplifði að koma inn í skólastofu hér í öðrum framhaldsskóla bæjarins á dögunum, var fengin á vegum skólans til að ræða samskipti við nemendur. Þar sat einn íhugull piltur og ég fann að hann hlustaði eftir hverju orði sem ég sagði en ég fann líka að frá honum streymdi viss andúð og þegar fyrirlestrinum var lokið og nemendurnir voru að ganga út úr stofunni kom hann til mín og sagði “ þetta var ágætt hjá þér en það hefði alveg eins verið hægt að fá smið eða pípara til að tala um samskipti, þeir eru líka í samskiptum við fólk,” “jú vissulega sagði ég en þeir geta kannski ólíkt okkur prestunum valið að vera í lágmarks samskiptum.” Þá þagði hann, horfði á mig dálitla stund og sagði svo, “ fyrirgefðu þetta er ekkert persónulegt en ég er bara ekki hrifinn af kirkjunni þessa dagana ” og svo kom bunann um biskupsmálið og viðbrögð kirkjunnar í málefnum samkynhneigðra og allt það sem á undan er gengið og ég stóð og tók við hverju orði þegjandi en um leið svo þakklát fyrir að hann skyldi þó bera það traust til mín að vilja yfirhöfuð ræða þetta, því hann var reiður og líka pirraður yfir því að ég skyldi vera þarna í nafni kirkjunnar, það fór ekki milli mála. Á þessari stundu laukst það áþreifanlega upp fyrir mér að þó að margir þiggi þjónustu mína þá kallar sú staðreynd ein að ég er prestur líka á reiðiviðbrögð fólks og neikvæðni og þá þýðir ekkert fyrir mig að rétta upp báðar hendur og segja að ég hafi verið 18 ára árið 1996 enda skiptir það engu máli, ég valdi að þjóna þessari kirkju með fortíð hennar og framtíð.

Ástæðan fyrir U- beygjunni sem ég tók við prédikunarskrifin er sú að til þess að flytja slíka trúvarnar eða í raun kirkjuvarnarræðu þarf kirkjan að eiga inni hjá fólkinu og við sem stöndum í framvarðasveit þjóðkirkjunnar, eigum það ekki núna, því þótt Jesús Kristur eigi það ætíð, á þjóðkirkjan það ekki skuldlaust, vegna þess að viðbrögð okkar í erfiðum málum hafa hvorki verið snör né fumlaust, því miður og það er sárt, sé litið til þeirrar staðreyndar að leiksoppar þessara átaka eru á endanum börnin okkar, börn þess lands, þau sem eiga alltaf að njóta vafans og vera hinn algildi útgangspunktur þegar litið er til gæða sérhverra markmiða. Kirkjan og skólinn búa bæði yfir gæðum sem börnin okkar mega alls ekki fara á mis við. Og gæði markmiðanna eru líka fólgin í samfylgd kirkju og þjóðar þar sem orð Jesú Krists er boðað hreint og klárt í orði og verki, ekki bundið í klafa úreltra hefða að ég tali nú ekki um í klafa valdabaráttu eða þöggunar heldur sem sá lífgefandi veruleiki sem hann í eðli sínu er. Munum að þessi umræða um samstarf kirkju og skóla á ekki að snúast um óuppgerðar tilfinningar okkar fullorðna fólksins og alls ekki um veika eða sterka stöðu kirkjunnar, af því að kirkjan heldur áfram að vera til þó hún hætti að styðja við skólann með fræðslu eða sálgæslu og skólinn heldur áfram að gera sitt gagn án íhlutunar kirkjunnar svo spurningin sem við þurfum fyrst og síðast að spyrja okkur er hvar hagur barnsins liggi, það er hinn algildi útgangspunktur umræðunnar, munum það.

Og svo er það fyrirgefningin og náðin, hvar kemur þessi stóra gjöf inn í umræðuna? Jú hún er frumforsenda þess að hér byggist upp vandað og farsælt þjóðfélag. Fyrirgefningin, eins og hún birtist manna á milli er gjöf Jesú Krists, jólin og páskarnir eru í eðli sínu fyrigefningarhátíðir þar sem við fögnum því að Guð skyldi gerast maður og lýsa því yfir að allar manneskjur séu skilyrðislaust elskaðar og eigi von, þrátt fyrir allt sem getur gerst í samfélagi okkar. Við höfum öll þegið hina stóru fyrirgefningu sem er lífið í margbreytileika sínum, sú grundvallar staðreynd er góður útgangspunktur í allri umræðu um völd og kúgun, afskiptaleysi og einangrun. Við erum öll þiggjendur, á endanum skilum við til baka þessu lífi en þiggjum áfram náðina sem felst í því að við erum elskuð og ógleymanleg í augum Guðs.
Erindi kirkjunnar er ekki að þröngva sér inn í líf fólks heldur vera til í Krists stað, erindi kirkjunnar er að lýsa mönnum leiðina að öllu því besta sem hægt er að þiggja í samfylgdinni við frelsarann Jesú Krist, erindi kirkjunnar er ekki að valda reiði eða tortryggni né að þagga eða misbeita valdi, erindi kirkjunnar er að stuðla að réttlæti og sanngirni í þjóðfélaginu og oft þarf hún að vera hugrökk og líka þolinmóð á þeirri vegferð, en afraksturinn á aldrei að kalla á reiði eða tortryggni þjóðarinnar, sé staðan sú er hætt við að gæði markmiðanna hafi orðið eftir heima á hlaði. Þá þurfum við þjónar kirkjunnar að líta í eigin barm í stað þess að móðgast við þjóðina sjálfa og vígbúast til varnar, verum minnug þess að Jesús átti aldrei í útistöðum við fólkið í landinu heldur tókst hann á við þá sem skildu ekki ábyrgð sína og meisbeittu valdi. Fólk fann að návist Jesú Krists var sönn og heil og lífgefandi, meira að segja menn eins og Sakkeus sem virtist þó vera algjörlega heillum horfinn, kallgreyið. Þessa návist þráir fólk að finna í kirkjunni og í afstöðu kirkjunnar til málefna samfélagsins, kirkjan er griðarstaður þar sem mannlegar tilfinningar eru viðurkenndar en ekki fordæmdar, þar sem hinu sameiginlega er haldið á lofti og hið einstaka er virt, þar sem sár eru hreinsuð og grædd, þar sem viðmið og gildi eru skoðuð í ljósi kærleika Krists, og spurt hvort þau þjóni raunverulegum markmiðum sínum.
Íslenska þjóðkirkjan stendur núna í innri tiltekt eftir erfið ár afhjúpunar og uppgjörs og þess vegna er hún dálítið ringluð sem er auðvitað óheppilegt á tímum þar sem hún þarf að vera samfélaginu styrkur, samt megum við ekki missa sjónar á því að sérhver fæðing er sársaukafull en að sama skapi gjöful, ekki hætta börn að fæðast þó það sé kreppa og atvinnuleysi ríki víða, og þar liggur von okkar í dag, að hríðarnar skili okkur heilbrigðri kirkju með vakandi augu og kraftmiklu hjarta sem slær í takt við frelsarann Jesú Krist. Við veljum ekki okkar fæðingarstund og þess vegna verðum við að fara í gegnum þessa tíma, þessar hríðar af ákveðnu æðruleysi, samstöðu og sanngirni.
Fyrirgefningin heldur síðan áfram að skapa og næra lífið, vegna þess að Jesús Kristur lifir og ríkir um aldir alda og þess vegna þurfum við ekkert að óttast.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4211.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar