Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Toshiki Toma

Hér mætast iðrun og réttlæti

15. ágúst 2010

Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.
En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Lúk 18.9-14

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1.
Dagurinn í dag, 15. ágúst, er líklega eins og hver annar dagur fyrir Íslendinga. En fyrir Japani hefur 15. ágúst sérstaka þýðingu á ári hverju. Á þeim degi fyrir 65 árum, ávarpaði þáverandi keisari Japans, Hirohito alla landsmenn í útvarpsútsendingu og sagði að Japan myndi gefast skilyrðislaust upp í Kyrrahafsstríðinu, sem var hluti af heimsstyrjöldinni síðari. Japan samþykkti skilmála sigurvegara stríðsins, sem oftast voru kallaðir bandamenn en lokauppgjörið fór fram á Potsdam-ráðstefnu í borginni Potsdam í Þyskalandi. Stríði gegn 52 þjóðum í heiminum var lokið.

Bretar eða Bandaríkjamenn, sem voru einir af sigurvegurunum, telja að raunverulegur lokadagur heimsstyrjaldarinnar sé 2. september, þegar Japan skrifaði formlega undir samkomulagið. En fyrir þá Japani, sem upplifðu og heyrðu Japanskeisara lýsa uppgjöfinni í útvarpinu þann 15. ágúst, var það svo mikið áfall að sá dagur festist í minningum fólks og hjörtum sem lokadagur stríðsins og þannig er þessi dagur formlega minnst sem lokadags stríðsins í Japan.

Síðari heimsstyrjöldin voru að mörgu leyti framhald af þeirri fyrri og þeim aðstæðum sem sköpuðust á millistríðsárunum víða í heiminum. Japan hafði árið 1910 náð Kóreu á sitt vald og árið 1932 varð hluti Kína einnig í raun nýlenda Japans. Rétt eftir að Kyrrahafsstríðið hófst árið 1941, hófu japanskir hermenn að fara suður til Filippseyja og veldi Japans náði loks víða frá Índónesíu í austri til Burma (Myanmar) í vestri.

Í stríðinu, þróun þess og ferli, jukust smám saman stríðsglæpir eða glæpsamlegar gjörðir af hálfu japanska hersins. Árið 1937 gerðust japanskir hermenn sekir um fjöldamorð og nauðganir í Nanking en þar voru fleiri hundruð þúsund Kínverjar fórnarlömb. Japanski herinn kallaði líka til konur í Kína og í Kóreu til vændisþjónustu fyrir hermenn sína. Talið er að kóresku konurnar hafi verið um tvö hundruð þúsund eða nær (tveir þriðju íslensku þjóðarinnar). Einnig voru gerðar líffræðilegar tilraunir á stríðsföngum í fangabúðum í Kína, t.d. á því hvernig vírusvopn virkuðu á manneskjur.

Tveir aðrir dagar gleymast hins vegar aldrei í japanskri sögu, 6. og 9. ágúst árið 1945. Þann fyrri vörpuðu Bandaríkjamenn kjarnorkusprengju á borgina Hiroshima og þann seinni á borgina Nagasaki. Þetta er í fyrsta og eina skipti í sögu mannkyns sem að kjarnorkuvopn hafa verið notuð í raun, eins og við vitum vel.
Mannfall var mikið vegna stríðsins, bæði í Japan og í Asíu. Talið er að rúmlega tvær milljónir Japana hafi látist í stríðinu, þar af 300 þúsund almennir borgarar og að heildarfjöldi fórnarlamba í Asíu allri hafi verið um 18 milljónir manna.

2.
Margir Japanir sem upplifuðu 15. ágúst sögðu eða segja að„ólýsanlegt og risastórt tóm hafi myndast innra með þjóðinni. Fólk varð dofið, tilfinningasnautt og hálflamað. Þegar slíkt ástand myndaðist kom ýmislegt í ljós, smátt og smátt með tímanum. Ríkistjórnin stjórnaði upplýsingaflæðinu, svo meirihluti íbúanna vissi ekki hver staða Japans var í raun og veru, eins og sá veruleiki að möguleikar Japans til þess að sigra í þessari styrjöld voru bara draumórar. Kröfur bandamannanna til Japans á Potsdam-ráðstefnunni voru ekki svo slæmar, miðað við það mikla tjón sem Japan hafði valdið í stríðinu. En það vissi almenningur ekki. Japönsk yfirvöld fengu að sjá tillöguna af kröfum bandamanna 26. Júlí 1945. Margir telja nú, að ef stjórnvöld hefðu ákveðið að taka tillögunni án tafar, myndu „Hiroshima“ og „Nagasaki“ ekki hafa átt sér stað.

Bandamenn leyfðu Japönum að halda þáverandi stjórnvaldi sínu en undir eftirliti Bandaríkjanna. Þá birtust tvær sterkar raddir í samfélaginu: Önnur var sú að keisarinn og stjórnvöld Japans, þ.á.m. leiðtogar hersins líka, ættu að axla ábyrgð vegna stríðsins, þar sem almenningur hafði ekki verið upplýstur eða fengið réttar upplýsingar um hvar Japan stóð hverju sinni og að málfrelsi hafi ekki verið til staðar. Hin röddin var sú að allir Japanir ættu að iðrast sín þar sem allt þjóðfélagið bæri ábyrgð á því sem hafði gerst.

Forsætisráðherra Japans Higashikuninomiya, sem þá hafði verið skipaður til að ganga frá stríðslokum , sagði í ávarpi sínu í alþingi Japans:„Hver og einasti Japani, sem eru hundrað milljón talsins, ber ábyrgð á stríðinu og að iðrast.“ Ástæða þess að Higashikuninomiya hóf þessa umræðu virtist vera sú að hann vildi reyna að hindra að keisarinn Hirohito yrði gerður að skotmarki í umræðunni um ábyrð.

Á árunum eftir heimsstyrjöldina voru aðalleiðtogar þáverandi stjórnvalda dæmdir sekir. Sautján af þeim, sem voru dæmdir sem A-flokks stríðsglæpamenn, voru teknir af lífi. En keisarinn var ekki dæmdur. Enn þann dag í dag er því umæðan um ábyrgð keisarans í Kyrrahafsstríðinu lifandi í japönsku samfélagi.

En bera allir jafna ábyrgð á þátttöku Japana í Kyrrahafsstríðinu? Bar japanskur almenningur jafnmikla ábyrgð og japanskir herforingjar eða keisarinn? Nei, ábyrgðinni er misskipt. Það fólk sem hvatti þjóðina til þess að fara í stríð hafði samfélagslegt vald, svo var fólk sem varð að fylgja skipunum frá yfirmönnum sínum. Það var einnig til fólk sem var á móti stríði en beitti sér samt ekki, t.d. vegna þess að það var skortur á málfrelsi og svo var fólk sem skildi ekki hvað var að gerast. Það er nefnilega svo að þó að allir Japanir beri ábyrgð á stríðinu, þá fer sú ábyrgð eftir aðstæðum hverrar manneskju.

Það er auðvelt að segja:„Ég iðrast,“ en það er merkingarlaust ef fólk veit ekki fyrir hvað það iðrast. Iðrunin er þá ekki þýðingarmikil í raun. Það er forsenda iðrunar að manneskja hugsi vel um gjörð sína og ábyrgð og það sé skýrt í hennar huga hvers hún iðrast og vill biðjast afsökunar á. Viðhorf manneskju sem skilur óljóst ábyrgð sína og forðast að dýpka skilning sinn á óvirðingu sinni eða mistökum eyðileggur tækifæri sitt til þess að iðrast sannarlega. Því miður virðist að þetta hafa gerst þegar tekist var á um ábyrgð japönsku þjóðarinnar í Kyrrahafsstríði. Skýr skilningur á ábyrgð Japans sem þjóðar var skilinn eftir í skugganum.

3.
Guðspjall dagsins er dæmisaga Jesú um farísea og tollheimtumann. Dæmisagan er svo einföld og við getum skilið hana alveg eins og sem hún stendur. Tveir menn eru komnir fyrir framan Guð. Farísei trúir á réttlæti sitt og forðast að sjá raunveruleika sinn og annmarka í lífi sínu. Hann ber sig vel við Guð og segist einskis iðrast. Tollheimtumaðurinn hins vegar segir satt og rétt frá raunveruleika sínum og því sem hann iðrast í lífi sínu. Hann óskar þess af einlægni að Guð miskunni sig yfir hann. Guð er sáttur við iðrun tollheimtumannsins en ekki við sjálfumgleði faríseans.

Ef við reynum að tengja þessa dæmisögu við líf okkar sjálfra, þá munum við ef til vill vera sammála um að við erum eins og hvorki farísei né tollheimtumaður. Líklegast sveiflumst við milli þeirra í okkar hversdagslífi. Í dag gætum við verið eins einlæg og tollheimtumaðurinn, en á morgun gætum við verið bara eins yfirlætisfull og faríseinn. Ef við hugsum sem svo: „Nei, nei við erum alltaf eins og tollheimtumaður“, þá erum við nú þegar eins og farísei.

Við þurfum að horfa á okkur sjálf og raunveruleika okkar, en ekki fyrirmyndir sem við dýrkum og viljum vera eins og þær. Fyrirmyndir geta verið góðar og mikilvægar fyrir okkur en þær koma okkur að litlum notum hvað varðar iðrun. Þvert á móti getum við notað fyrirmyndir til sjálfsblekkingar og misnotum þær sem vopn til að villa fyrir okkur í sjálfsvernd. Við viljum að sjálfssögðu vernda okkur sjálf. Þegar við þurfum að horfa á annmarka okkar, kjósum við frekar að grípa í fyrirmynd til þess að afneita því að horfa á annmarkann: „Ég er svona frábær maður. Ég get ekki verið með slíkan galla!“

Ég var búinn að tala mikið um Kyrrahafsstríð Japans, en Japan átti sína fyrirmynd. Í huga Japana var keisarinn Guð. Því var Japan guðsríki og engin önnur þjóð átti að geta sigrað japanska keisaradæmið. En þetta var fölsk fyrirmynd. Þegar sigurmöguleikar Japana voru orðnar litlar í stríðinu og hefðu leiðtogarnir viðurkennt þá staðreynd í stað þess að grípa í fyrirmyndina og hugmyndafræðina sem henni fylgdi, hefði stríðinu ef til vill lokið fyrr.

Eftir að því lauk notuðu margir leiðtogar þáverandi keisaradæmis Japans alls konar afsakanir til að vernda sig í staðinn fyrir að horfast í augu við ábyrgð sína og iðrast. Sumum tókst það, öðrum ekki. Nokkrir sem báru þunga ábyrgð afsöluðu sér ábyrgð og notuðu eftirstríðsárin til þess að koma sér vel fyrir.

Ég veit ekki hverjir hafa iðrast sín í einlægni og hverjir ekki. En ég vil trúa að meirihluti almennings, sem var í mikilli fjarlægð frá stjórnvöldum hafiiðrast í einlægni, þar sem hann borgaði fyrir þá stöðu sem Japan var komin í. Með tóm í hjarta vann almenningur á eftirstríðsárunum að því að byggja Japan upp frá núlli. Flestir þeirra voru ekki kristnir og því vissu þeir ef til vill ekki hvort einhver myndi þekkjast iðrun þeirra eins og t.d. á himnum. En við vitum hvert iðrun okkar fer.

Dr. Kósuke Koyama var heimsþekktur guðfræðingur. Hann var Japani en kennti lengi í Union-prestaskóla í New York. Hann lést í fyrra en hann var einn af þeim sem voru í Japan 15. ágúst fyrir 65 árum. Hann var aðeins 15 ára. Reynslan af stríðinu hafði mikil áhrif og hann skrifaði margar hugleiðingar sem voru tengdar því. Það eru mörg góð atriði sem ég vil gjarnan kynna fyrir ykkur, en nú verð ég bara að kjósa eitt. Dr. Koyama skrifaði: „Sá tími þegar andleg iðrun kemur upp í okkur er oftast tími afvopnunar. Þetta er tíminn þegar við afsölum okkur öllum vopnum. Hér mætast iðrun og réttlæti“.

Sérhvert okkar hefur sína eigin upplifun á trúarlífi með Jesú. Sjálfur gleðst ég í trú minni á Jesú Krist þegar ég get iðrast. Mér líður alltaf vel þegar ég get viðurkennt alla annmarka mína, og mér liður eins og ég get losað við byrði úr herðum mínum. Mér líður vel þegar ég tekst að afsala mér öllum vopnum til að afsaka við mig og mér líður eins og ég er leiddur til réttlætis. Vopn er tákn ótta okkar. Við grípum í vopn þegar við erum í óörugg um hvort ekki verði vel tekið eða hafnað. Svo framarlega sem við erum vopnuð, getum við ekki notið hins okkar sanna innri friðar. Vopn og réttlæti samræmast ekki. En iðrun og réttlæti samræmast og þau skapa frið milli Guðs og manna, og meðal okkar manna.

Við megum trúa, og við vitum, að Guð gefur okkur fyrirgefningu og sátt hvenær sem við iðrumst í einlægni. Þetta er bara pottþétt, 120 prósent. Vopn er óþarft fyrir framan Guð, og iðrun og réttlæti samræmast og þau skapa frið. Þiggjum þennan frið með því að afsala okkur öllum vopnum og iðrast okkar sjálfra.

Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Amen.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3254.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar