Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigurður Sigurðarson

Nýr skilningur, nýtt verðmætamat

25. júlí 2010

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Gleðilega hátíð.

Við heyrðum áðan lesið Guðspjall þessa Drottins dags. Það er ein hinna svonefndu mettunarfrásagna. Hætt er við að einhver brosi nú að slíkri frásögn og eigi erfitt með að trúa henni og sjái ekki að hún varði okkur hér og nú. Þá er líka tilganginum náð því að Jesús var með þessu máttarverki að koma á óvart og raunar ganga fram af ýmsum. Hann var ekki með máttarverkinu að boða hvernig útrýma ætti hungrinu í heiminum eða gera eitthvað sem félli sem best að okkar sjónarmiðum heldur til að vekja til skilnings, nýs skilnings og að nokkru leyti nýs verðmætamats. Jesús var að bera fram tákn um hulinn og mikilvægan veruleika.

Frásagan af mettun þúsundanna er ekkert aukaatriði í N.T. Slíka frásögu er að finna í öllum Guðspjöllunum og í Markúsarguðspjalli er bæði sagt frá mettun fjögurra þúsunda og mettun fimm þúsunda. Mettun á óbyggðum stað kemur líka fram í Davíðssálmunum er talað er um eyðimerkurgönguna og mettun þúsundanna er í augum kirkjunnar fyrirmyndun mettunarinnar sem við enn í dag væntum við borð Drottins og felur í sér bæði líf og sáluhjálp.

Strax á eftir textanum sem lesinn var hér áðan segir frá því að Jesús steig í bátinn ásamt þeim tólf, og þá kom í ljós að þeir höfðu gleymt að taka með sér brauð og þeir þráttuðu um það og líklega um það hverjum þetta væri nú að kenna.

Skynjið þið ekki enn eða skiljið, eru hjörtu yðar forhert? spurði Jesús. Hann spurði hvað margar körfur hefðu verið afgangs við mettun þúsundanna fjögurra og mettum fimm þúsunda og þeir svöruðu að þær hefðu verið sjö og tólf.
Skiljið þér ekki enn? spurði Jesús.

Það var ekki nóg með að þeir hefðu gleymt að taka með sér brauð til ferðarinnar, þeir höfðu ekki skilið táknið um það sem miklu meira máli skipti, þrátt fyrir allt það sem hann hafði við þá sagt.

Það var ekki endilega fátækt fólk sem fylgdi Jesú á óbyggðan stað en það bjó yfir trausti á að hann hefði eitthvað það fram að færa sem skipti það verulegu máli. Mettunin leiddi sannarlega til þess að fólkið fékk magafylli, en hún leiddi einnig til þess að fólkið eignaðist von, eilífa von. En hvernig gat þetta verið með postulanna ef þeir hirtu ekki um að taka með sér brauð til ferðarinnar? Ætli þeir hafi þá stundina hirt svo mikið um vonina eilífu sem hann hafði fært þeim? Ætli okkur gæti farið eins í dag, að í áhyggju okkar af stundlegum gæðum séum við alveg búin að gleyma því í bili að miskunn Guðs er ekki á enda.

Það kemur mér eins og þægilega á óvart að hlýða á þetta guðspjall núna og heyra um nægtir. Undanfarin misseri hefur mér gefist tækifæri til að lesa mikið og fylgjast náið með þjóðmálaumræðu okkar og heimsviðburðum. Þá er yfirleitt fjallað um skort. Við höfum gengið í gegnum efnahagslegt hrun, sem svo er nefnt, við höfum fengið viðamikla rannsóknarskýrslu um aðdraganda þess og eflaust er hún ekki að öllu leyti hafin yfir gagnrýni fremur en öllur mannanna verk. Svo virðist sem flestum þyki vissast að taka undir hvert orð sem þar stendur en svo ekki orðinu meira um það. Ekki vissi ég áður að til væri svona mikið af réttlátu fólki á Íslandi og svona mikið af réttlátri reiði. Bara að það sé nú ekkert blandið súrdeigi Fariseanna.

Þegar ég legg saman það sem fram kemur sýnist mér óneitanlega meira fara fyrir einnskonar hótunum og hrakspám en því sem vekur von, bjartsýni og baráttuþrek. Allt virðist mér þetta einkennast meira af ráðaleysi en góðum ráðum. Í fyrsta sinn tek ég mig í því að spyrja í vanmætti: hvert stefnir þetta allt?

Það er oft haft á orði að nú þurfum við að hyggja að gömlum gildum en um leið virðist mér það eiga að vera hálfgert leyndarmál hvers og eins hver þau eru. Ekki líkar mér að nuddað sé framan í mig einhverjum gildum sem ég veit ekk inákvæmlega hver eru. Gildin sem lögð hafa verið til grundvallar á vegferð okkar hingað hina síðustu áratugi eru í ríkum mæli fólgin í efnishyggjunni. Okkur hefur lengi verið innrætt úr andstæðum áttum að trúarleg gildi og gildi kristins siðgæðis séu varla við hæfi eða að minnsta kosti ónóg upplýstu nútímafólki.

Á unglingsaldri las ég vel kommúnistaávarp Karls Marx. Þar segir hann að hinn skilvitlegi raunveruleiki sé hinn eini raunveruleiki. Á því grundvallast hin vísindalega efnishyggja, sem svo hefur verið nefnd. Þetta sjónarmið virðist hafa skotið rótum langt út fyrir raðir þeirra sem vilja láta kalla sig Marxista eða sósíalista eins og við sjáum af því sem hægt væri að vitna í frá þeim sem gera markaðinn að hinum æðsta dómara um rétt og rangt.

Varið ykkur á súrdeigi Farisea og Heródesarsinna sagði Jesús. Súrdeig Fariseanna er blandið hræsni þess sem hátíðlega og með guðrækilegu yfirbragði setur Guðs orð í fagrar umbúðir og stingur því í vasann. Súrdeig Heródesarsinna er blandið þjónkun og hlýðni við hið heillandi ofbeldisfulda vald heimsins og gróðavon og enn allt með yfirbragði heiðarleika og raunsæis. Hvort tveggja felur í sér meira og minna dulbúna afneitun á Guði og súrdeigið sem við erum að tala um er deigbitinn sem notaður til að gerja allt brauðið. Þessi ævaforna og splunkunýja viðmiðun við hið efnislega og skilvitlega er raunar alveg ónýt viðmiðun þegar að er gáð.

Þessir hlutir birtast okkur svo misjafnlega og merkja svo sitthvað í raunveruleika lífsins. Við okkur blasa dæmin. Tökum til dæmis svonefnda útrásarvíkinga og kröfuhafa sem enn oftar eru nefndir og svo ungu barnafjölskylduna sem óvænt að þeirra mati er orðin gjaldþrota. Hvað skyldi vera líkt með viðhorfi þessa fólks til efnalegra gæða og hvernig getur verðmætamat þeirra og fjármálasiðgæði verið alveg hið sama? Auðvitað á þetta fólk ekki margt sameiginlegt í þessu sambandi. En eitt gæti þetta fólk átt fyllilega sameiginlegt og það felst í því að það dragi nú Guðs orð upp úr vasanum og heyri þar sem þar er sagt. Heyri t.d. það sem Jesús svaraði freistaranum er hann sagði: Ekki lifir maðurinn af brauði einu saman, heldur af sérhverju því orði sem út gengur af Guðs munni.

Öll eru þau þekkt hjá Guði og sköpun hans. Öll eru þau elskuð af Guð og öll hafa þau hæfileikana til að nema þessi orð og skilja að það er efnishyggja og oftrúin á hið hverfula sem hefur leitt þau í ógöngur þessa heims og annars heims gilda svo örugglega jafnt um okkur öll orðin fornu: Nakinn kom ég í þennan heim og nakinn mun ég þaðan aftur hverfa.

Ég heyrði nýlega 35 ára gamlan Dana gera tilraun til að greina hvað það væri sem núna einkennir tilfinningar ungs fólks. Hann hafði menntast í heimspeki og almannatengslum, unnið fyrir banka meðan allt lék þar í lyndi en vinnur nú fyrir fjölþjóðlegt stórfyrirtæki sem fæst við að leysa úr orkuþörf á umhverfisvænan hátt. Hann sagði að við svonefnt efnahagshrun hefði gripið sig sú tilfinning að hann hefði verið skilinn einhversstaðar eftir, það sem honum hafði verið kennt að miða við hafði brugðist án þess að neitt væri sett í staðinn, og hann fullyrti að einmitt þannig liði mörgu vel menntuðu, starfsfúsu og hæfu ungu fólki þessa dagana.

Gæti ekki einmitt verið að líkt þessu hafi því liðið fólkinu sem fylgdi Jesú eftir á óbyggðan stað. En hjá honum fékk það fullvissuna um að það hafi ekki verið skilið eftir heldur öðlast lykilinn að eilífum óbilandi sannindum um tilgang lífsins og hversu það tekur því að gefast ekki upp, vegna þess að sá vakir yfir sem talið hefur hárin á höfðum okkar. Þess vegna komum við líka saman á helgum stað í dag að við vitum að náð Drottins er ekki þrotin og miskunn hans ekki á enda.

Guð gefi að þessi góði sumardagur staðfesti okkur öll í vissunni um að við höfum ekki verið skilin eftir í umkomuleysi og þá mun okkur aukast kraftur á göngunni. Sérstaklega vil ég í dag bjóða velkomna pílagrímana sem hingað eru komnir frá Þingvöllum og óska þeim til hamingju með áfangann. Mín reynsla af slíkum göngum er sú að hugurinn tæmist af svo mörgu sem þar er án þess að skipa máli og manni verður ljóst á nýjan hátt hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Megi sú reynsla og nána snerting við góða sköpun Guðs ávaxtast í hugskotum ykkar á komandi tíð.

En hvað eigum við svo að gera á morgun og daginn þar á eftir? Skálholtshátíð höldum við á þessum tíma til að tengja hana við einhverja stærstu þjóðlega hátíð okkar Íslendinga fyrr á öldum sem er Þorláksmessa á sumri. Í sögu Þorláks helga segir oft frá átökum og andstreymi sem hann mætti. Hann var líka strangur þeim sem fóru fram með drambi og hroka í samtíð hans. Helgi hans kom þó til af þeirri elsku sem alþýða manna bar til hans. Hinum fátæku og smáðu var hann linur og ljúfur velgjörðamaður. Réttlæti hans var hið kristna réttlæti sem sprettur af rótum kærleikans.

Ég heyrði alveg nýlega af áformum um að bjóða ókeypis máltíðir í tilteknum skóla í Reykjavík. Konan sem fréttamaðurinn spurði út í framkvæmdina sagði frá því hvað létt hefði verið að fá fyrirtæki og einstaklinga til að leggja fram vinnu og gögn til þess að gera þetta. Hún sagði efnislega að þarna kæmi kærleikur gefendanna alls staðar í ljós. Þetta vakti athygli mína því að hugtakið kærleikur er nú ekki ofnotað þessa dagana. En kærleikann finnum við víða í fari fólks meðal kristinnar þjóðar því að það sem Jesús kennir okkur fyrst og síðast er að elska. Þarna sjáum við glitta í gömul gildi, þessi dýru gildi sem hefur verið haldið á lofti á þessum stað í 1000 ár.

Það sem við skulum gera á morgun og hinn og á dögunum sem koma er að ganga vísvitandi og í alvöru fram í kærleika til Guðs og náungans í stórum og smáum atvikum lífsins. Þá verður þetta allt einfaldara og léttara og við getum verið viss um að við erum þá að gera rétt eftir því sem Guð gefur okkur máttinn og vitið til hverju og einu.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1917.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar