Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Lena Rós Matthíasdóttir

Siðrof í samfélagi

23. maí 2010

Biðjum!
Huggunar-andi og eldur Guðs, lífskraftur alls hins skapaða, í þér mætum við Guði. Þú safnar saman hinum villuráfandi, birtir þeim sannleikann og lætur þau skilja hvert annað. Þökk sé þér fyrir það.  Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Á tímum villuráfandi sauða, undir ógnarstjórn þeirra sem beygja sig undir herra þessa heims, er bankað stuttu en ákveðnu banki á hurðina og húsmóðirin gengur til dyra.  Á tröppunum stendur kona með tvo matarpoka og heilsar.  Komdu sæl!  - Já, sæl svaraði húsmóðirin, gakktu í bæinn!

Nei, ég má ekki vera að því, sagði gesturinn, ég ætlaði bara að færa ykkur þetta.  . 
Hún rétti fram matarpokana.

Hvað meinarðu?  Spyr húsmóðirin og bíður ekki svars en segir: „Ég hef ekkert við þetta að gera!”    Það varð andartaks þögn í milli kvennanna tveggja, en svo segir hin gestkomandi, yfirveguðum og blíðum rómi: „Ég ætlaði ekki að gefa þér þetta.  Ég kom með þetta til að færa það börnunum þínum.” 

Húsmóðirin tók við pokunum, þakkaði fyrir með hvíslandi röddu og kvaddi.  Undir eins og hún hafði lokað hurðinni á eftir góðu konunni, hrundi hún niður á forstofugólfið og grét.  Það var einhvern veginn eins og stoltið hyrfi frá henni þennan dag.  Henni fannst hún ekki uppfylla eigin væntingar, upplifði sig ómögulega móður, tárin hrundu niður kinnarnar og hún fann hvernig hún minnkaði, skrapp einhvern vegin saman hið innra.  Hugsanirnar fóru á flug en samt í einhvers konar rökleysu.  Hver er ég?  Hvernig er komið fyrir mér?  Er ég fátæk?  Hver getur sagt mér að ég sé fátæk?  Sést það á börnunum mínum?  Hvernig datt þessari konu í hug að færa okkur mat?  - Hún fann engin svör en róaðist smám saman, týndi upp þær matvörur sem oltið höfðu úr pokunum og tók til við að ganga frá þeim í hálftóma eldhússkápana.   

Hún var ósköp venjuleg að eigin mati, hafði gengið menntaveginn, fundið ástina, eignast börn keypt sér íbúð og staðið sína plikt í þjóðfélaginu.  Hún hóf búskap nokkrum árum áður úti á landi í litlu sjávarplássi og hafði það bara ágætt þar.  Eins ágætt og fólk getur haft þegar það heldur út í lífið með bevís upp á bjarta framtíð í brjóstvasanum.  Hún bjó jú, við góða heilsu og gáfur sem nægðu.  Allt var eins og það átti að vera og hún hlakkaði til að búa  fjölskyldu sinni í haginn um ókomna tíð. 

Í litlu sjávarplássi á Íslandi þurfti enginn maður að grafa eftir gulli.  Menn einfaldlega drógu það upp úr sjónum á hverjum einasta degi og fylltu fiskhúsin þeim dásamlega góðilmi sem glæddi allt plássið lífi og sál.  Unga fólkinu hafði verið borgið, eða svo töldu þau… já, allt þar til annars hinu ágæta kvótakerfi var breytt..  Nokkrir menn höfðu tekið þá ákvörðun, í nafni allrar þjóðarinnar, að breyta mætti tiltekinni þriggja ára aflareynslu í veiðiheimildir, sem síðan mátti selja á frjálsum markaði og það fyrir óhóflegar upphæðir.  Þessi ákvörðun varð til þess að nýjar eignir urðu til í landinu, ef eignir skyldi kalla.  Menn voru þarna að dunda sér við að búa til auð úr engu.  Til varð fé sem féll á fáar hendur, á meðan fjöldinn sat heima í ráðaleysi, atvinnuleysi og kvíða fyrir framtíð sem hvorki virtist björt né fögur.

Afleiðingarnar urðu skelfilegar, um allt land blasti við hrun, óveiddur fiskur var seldur hæstbjóðendum og eftir stóðu tóm frystihús, fiskvinnsluhús og fiskimjölsbræðslur og í kjölfarið fækkaði fólkinu.  Samkvæmt tölum frá Hagstofu hefur fólksflóttinn frá Vestfjörðum verið gríðarlegur síðast liðin 11 ár.  En alls höfðu 877 manns, umfram aðflutta, flúið Vestfirðina árið 2009.  Þetta er ógnvekjandi tala og blóðtaka fyrir lítil byggðarlög.  Og í dag, u.þ.b. 15 árum síðar, bera auðu húsin slæmum ákvörðunum stjórnvalda vitni. 

En hvað varð um fjölskyldurnar sem flúðu heimabyggð?  Fyrst í stað leigðu flestir sér húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, eða á meðan það reyndi að selja húsin sín á landsbyggðinni.  Þar stóðu tómu húseignirnar sem hríðlækkuðu í verði og enginn vildi kaupa, þótt fyrir slikk væri, eða allt þar til á árunum 2005- 2007 þegar þenslan var í hámarki á höfuðborgarsvæðinu og það þótti móðins að eignast sumarhús úti á landi í krúttlegu þorpi með skrítnu fólki.  En í millitíðinni flykktust landsbyggðarfjölskyldur til borgarinnar og það gerði söguhetjan okkar einnig. 

Hún tók sig upp, ásamt fjölskyldu sinni og hélt á suðvesturhorn landsins, enda var uppgangur í borginni og byggingariðnaðurinn tók verulegan kipp.  Það varð jú að bæta við nýjum hverfum utan um allt þetta fólk sem ekki hélst við í atvinnuleysinu úti á landi.  Við tók skelfilegt niðurfallstímabil í sögu íslenskra sjávarþorpa.  Unga parið reyndi í 12 ár að selja gamla húsnæðið en hvorki gekk né rak í þeim málum.  Hver vill svo sum setja sig niður á stað þar sem enga vinnu er að fá.  Nánast allur kvóti komin úr heimabyggð, engin störf að fá í landi nema þessi örfáu þjónustustörf sem þegar voru mönnuð góðu fólki. Fljótlega áttuðu þau sig á því að þau voru bundin átthagafjötrum nútímans og neyddust til að vera á leigumarkaðinum um ókomna tíð.  Við tók tímabil flutninga og óöryggis.  Oft hafði hún setið yfir sofandi andlitum barna sinna og grátið þá ömurlegu staðreynd að geta ekki búið þeim öruggt skjól. 

Þess var þó ekki langt að bíða að bankarnir opnuðust upp á gátt.  Eitthvað urðu þeir að gera til að sporna gegn þeirri stöðnun á markaðnum sem nú blasti við.  Stór hópur fólks hafði flust til borgarinnar en einungis hluti þeirra hafði ráð á að festa kaup í húsnæði, enda ekki mikið fé í milli handanna og varla hægt að leggja fyrir þar sem húsaleiga var svimandi há og margir hverjir að greiða af tveimur húseignum. Auðvitað urðu þeir að opna bankana upp á gátt.  Skapa viðskipti, auglýsa 100% lán og fólkið streymdi að í löngum röðum.  Ekki aðeins landsbyggðarfólkið sem nú gat loksins fjárfest í borginni, heldur einnig unga heimafólkið sem stundaði æfingaflug úr öruggum hreiðrum foreldrahúsa.  Hvort tveggja hópar með ótryggt fjálrhagslegt bakland.  Nýju hverfin byggðust hratt og örugglega upp.  Allt var á blússandi siglingu þar til 6. október árið 2008 að spilaborgin tók að riða til falls.  Sem betur fer, fyrir sumt landsbyggðafólkið, náðu þónokkrir að losa sig við gömlu eignirnar á stórþenslu tímanum, kortéri fyrir hrun. 

Einkennileg rússíbanareið á ekki lengri tíma og eftir situr stór hópur fólks í súpunni, með kreppu númer tvö á bakinu á innan við 15 ára tímabili.  Er þetta nú hægt?  Sérfræðingar horfa til baka og eru ósparir á yfirlýsingar og segja að leiða megi að því líkum að með reglum um framseljanlegan kvóta hafi orðið siðrof í íslensku samfélagi. 

Émile Durkheim, sem er upphafsmaður kenninga um siðrof, taldi að siðrof væri venjulega fylgifiskur snöggra félagslegra breytinga, svo sem efnahagsþrenginga eða góðæra í samfélaginu. Hefðbundin viðmið veikjast þá án þess að ný myndist og það leiðir til þess að einstaklingar vita ekki almennilega hvernig þeir eiga að umgangast og hegða sér í samskiptum hverjir við aðra. 

Jesús talaði líka um svona ástand og kallaði það, að lifa samkvæmt herra þessa heims. 

Og það er akkúrat það sem við almenningur höfum þurft að horfa á hér í þessu landi síðustu 15 árin.  Einkennilega hegðun stjórnvalda, bankamanna og annarra valdhafa, sem nú voru hættir að starfa eftir lögmálum hins spámannlega kærleika en tileinkuðu sér þess í stað lögmál hinnar skammsýnu einkahagsældar.

Sögupersónan okkar horfir á fréttir og hlustar af athygli á pólitíkusa messa yfir hjörðinni.  Þar svífa fögur fyrirheit yfir vötnum og hún hugleiðir hlutverk þeirra sem með völdin vilja fara.  Hún sér fyrir sér þjóð sem gengur um líkt og villuráfandi sauðir í eyðimörkinni, leitandi að réttum aðilum, hæfum leiðtogum að koma sér úr þessum skelfilega dauðadal.  Hún hugleiðir hvort hjörðin átti sig yfirleitt á því að herra heimsins hefur ráðið hér lögum og lofum undanfarna tvo áratugi.  Hún kennir til undir þeim hugsunum og finnur hvernig reiðin kraumar þarna undir niðri. - Ó, Drottinn Guð, andaðu nú elsku þinni inn í mig!

Hún hefur ekki gleymt sinni eigin  eyðimerkurgöngu og fer samviskusamlega með Faðir vorið sitt á hverju kvöldi.  Hún biður einnig fyrir þjóðinni sinni, fyrir ráðamönnum hennar og þeim sem bjóða sig fram til ábyrgðastarfa.  Hún heyrir sjálfa sig flytja þeim blessunarorð í eyra Guðs að hann mætti blása þeim heilögum anda í brjósti og varna þeim frá því að láta stjórnast af herra þessa heims.  Hún biður Guð af hjartans einlægni að leiða þau í anda sannleika og friðar, kærleika og heiðarleika.  Hún biður Guð að blessa þeim komandi kjörtímabil, hvar svo sem þau annars í flokki fara.  Að Guð opni augu þeirra fyrir því ranglæti sem börn þessa lands hafa þolað af höndum ráðamanna sinna. 
Hún biður þess að Guð varðveiti með þjóðinni minningarnar allar, að siðrofið gleymist aldrei, verði ritað í skólabækur, komandi kynslóðum til varnaðar. 

Hún biður þess að Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þurfi aldrei framar að fella annan eins úrskurð um íslenska stjórnarhætti og hún gerði er hún úrskurðaði að núverandi kvótakerfi bryti mannréttindi.  Guð forði okkar litla landi frá því að þurfa að leita til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna með málefni gegn ríkjandi stjórnvöldum þessa lands.  Já, jafnvel þótt gamblað hafi veri með bankana eftir þeirri sömu formúlu og gert var með kvótann, þá biður hún þess í einfaldri bjartsýni að Guð forði okkur frá því að beygja okkur aftur svo rækilega fyrir herra þessa heims.  Hún biður að þjóðin megi opna augun  fyrir þeim spámannlega kærleika sem stjórnvöld sannarlega ættu á öllum tímum að vinna eftir. 

Hún fer ekki ofan af því, elskuleg sögupersóna okkar, að henni finnst hún hafa þroskast heilmikið af þessari undarlegu og erfiðu reynslu.  Henni finnst hún fyrir löngu vera búin að vinna sig upp úr örvæntingunni.  Hún skynjar þó auðveldlega angist þeirra sem verst eru stödd í dag.  Hún biður fyrir þeim, já mun oftar en nokkrum öðrum.  Stöku sinnum kemur fyrir að tárin losi sig fram á augnhvarma.  Það eru þessar óþægilegu fréttir of fólki í löngum biðröðum eftir mat.  Fréttir af börnum sem eiga atvinnulausa foreldra, börnum sem hætta að tilheyra vegna þess að þau geta ekki lengur stundað íþróttina sína.  Börn sem fá tannpínu án þess að nokkuð sé við því gert. 

Hún hallar sér fram á borðið og horfir dreymin út um gluggann.  Hvað ef Jesús væri ráðamaður í æðstu stöðu samfélagsins… hvernig myndi hann forgangsraða?  Hvert yrði hans fyrsta og mikilvægasta verk í nýju starfi?

Hún er þess fullviss að stefnuskránna myndi hann byggja á ávöxtum andans, svo að úrvinnsla allra mála yrði afgreidd í þeim eina og sanna anda.  Í anda kærleika, gleði, friðar, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfsaga… hógværð og sjálfsaga!

Þetta er gott hugsar hún um leið og hún rífur miða af dagatalinu.  Í dag er Hvítasunnudagur.   Bara að hann mætti verða til að telja í okkur kjarkinn að rísa upp til nýrrar dögunar, opna fyrir nýja hugsun þar sem refsing og reiði, lögmálshyggja og siðrof eru lögð af en faðmurinn opnaður fyrir friði og sátt, kærleika og fyrirgefningu, samtakamætti, jöfnuði og uppbyggingu í kristnu siðgæði.  Ó, Kom þú Drottinn Guð og anda elsku þinni í okkur. Amen

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3620.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar