Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Yrsa Þórðardóttir

Friður sé með yður

11. apríl 2010

Náð sé með ykkur og friður frá Guði skapara okkar og Jesú frelsara okkar. Amen

Náð og friður eru sannarlega eftirsóknarverð en segja má að oft hafi verið þörf en nú sé nauðsyn. Við þörfnumst þess að óska hvert öðru friðar, stunda frið og koma málum svo fyrir í samfélagi okkar að af hljótist sannur friður, þar sem fólk má vera eins og það er, gera það sem það langar að gera, vinna, lesa, iðja og elska Guð og biðja.

Texti guðspjalls dagsins segir frá fólki sem var búið að læsa að sér af ótta við ófrið, líklega af ótta við hitt og þetta, að vera tekið höndum, líflátið, látið standa fyrir máli sínu eða kannski líka af ótta við að hafa verið haft að fíflum. Jesús var dáinn, hann sem þau höfðu byggt allt sitt traust á, þau höfðu yfirgefið svo margt og fetað í fótspor hans, ekki kannski skilið allt sem hann sagði, en vonin og trúin og spennan og hreinlega fullvissan um að eitthvað stórkostlegt myndi gerast, þau höfðu öll fundið hana hvert á sinn hátt. Nú var Jesús allur, hann var tekinn af lífi á kvalafullan og ofbeldisfullan hátt fyrir allra augum af erlendu hervaldi, með fullri vitund og vilja heimamanna, stjórnar og lýðs. Það er ekki svo mikið sagt um ótta lærisveinanna eða líðan, en við getum ímyndað okkur að þeim hafi liðið alveg skelfilega, verið gersamlega týndir, en í textanum segir að þeir hafi óttast Gyðinga, en það stendur ekki meira um það. En Jesús birtist, Jesús sem var dáinn, sá sem konurnar höfðu sagt að væri ekki í gröfinni heldur upprisinn. Nú var hann þarna, stóð mitt á meðal þessa óttaslegna fólks og sagði : “Friður sé með yður.” Sýndi þeim svo sárin í lófum sínum, eða ég býst við því, það stendur að hann hafi sýnt þeim hendur sínar og síðu, semsé væntanlega sárin. Þá varð fólkið glatt við að sjá Drottin.

Allt breyttist, frá ótta í gleði við að sjá að þessi vinur þeirra, sem var tekinn af lífi var hjá þeim. Ég hefði kannski haldið að þau yrðu þá fyrst hrædd að sjá hann svona, fyrst hann var dáinn, en svo var ekki.

Bíðum nú hæg, Tómas var ekki þarna, og þegar fólkið sagði honum að Jesús hefði komið féll hann ekki fyrir þeirri frásögn. “ Nei ég trúi þessu nú ekki, ég þarf sko að sjá sjálfur, finna fyrir sárunum og tala við hann sjálfur, ég trúi nú ekki hverju sem er”, sagði Tómas.

Lái honum hver sem vill. Við þekkjum það sjálfsagt öll af eigin raun að koma of seint á mannamót, missa af upptaktinum og vera því það sem eftir er af samkunduninn alltaf takti á eftir. Hvað þá þegar við erum hreinlega ekki einhversstaðar og þau sem voru þar eru alltaf að segja hvert öðru hvað þetta var frábært. Í þessu tilfelli var Tómas ekki bara útundan með því að missa af frábærum tónleikum, óskaplega fyndnu atviki eða slíku, hann hreinlega missti af því að sjá mesta kraftaverk allra tíma, að þau höfðu samt, þrátt fyirr allt, verið að elta rétta manninn, Jesús var sá sem hann sagðist vera, hann er Guð. Og Tómas missti af öllu saman.

Viku síðar voru þau aftur öll saman og Tómas með og dyrnar læstar en Jesús kemst inn, er þarna og segir: “ Friður sé með yður”. Og Tómas fær að sjá og finna og Tómas trúir. Og textanum lýkur með þessum orðum:

En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni.

Þessu trúum við, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs og að við í trúnni eigum líf í hans nafni. Hvað gerum við við þá trú?

Við komum saman og læsum ekki að okkur, við komum saman í guðsþjónustu og ég fæ að óska ykkur friðar, eins og Jesús gerði forðum. Oft höfum við verið óttaslegin þrátt fyrir trú okkar, og nú eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref, það er eldgos og reiði og við vitum ekki hvernig börnunum okkar mun reiða af.

Sem betur fer virðist nokkur hluti unga fólksins hér lifa lífinu eins og ekkert hafi í skorist, það fer til útlanda sem aldrei fyrr, fær bara miklu minna fyirr peningana, en almennt séð hefur fólk á öllum aldri fundið einhverja leið til að halda lífinu áfram.

Við sem trúum, við sem kirkja, höfum líka haldið áfram lífi okkar, messum í viku hverri og lesum áfram úr Biblíunni hvert fyrir annað, texta sem eru skrifaðir til að við trúum að Jesús sé Kristur, sonur Guðs og að við í trúnni eigum líf í hans nafni.

Næsta skref er, eins og fyrr, að lifa þessu lífi. Hvað myndi Jesús gera? Getum við vitað það nema segja eins og Tómas, “heyrðu, ég skal gersamlega trúa þessu öllu ef þú kemur hingað, Jesú, og segir mér það sjálfur”. Mér finnst þetta eðlileg beiðni og krafa hjá Tómasi, ekkert undarlegt við hana.

Við sem trúum getum rætt þetta hvert við annað heima í stofu, á bænastundum, biblíulestrum, kannski ekki í messu, því að þær eru mjög svo illa fallnar til samræðna, ég hef hér í dag ein tækifæri til að tala en ykkar orð eru bundin í ramma venja og svo vona ég að þið takið undir sönginn, þar sem við fáum að nota orð skálda sem hafa ort um trú sína á Guð.

Þar kemur annar Tómas til sögunnar, Reykjavíkurskáldið, Tómas Guðmundsson, sem orti sálminn sem við sungum áðan:
Syng Guði dýrð, syng Drottni þökk, vor þjóð,
að það var hann,
sem leiddi þig og heilög himnesk ljóð
úr harmi þínum vann.

Hugsið ykkar slíkan kveðskap. Ég ráðlegg ykkur að lesa þennan sálm þegar þið komið heim, hann er númar 520 í sálmabókinni. Þriðja erindið talar einmitt um friðinn, sem tengist guðspjallinu, og upprisutrúna:

Því Kristur lifir. Angist hans og ást
fer alla tíð
með frið og mildi, hvar sem heimslán brást
og háð er banastríð.
Og megi kirkjan koma og lýsa þeim
að krossi hans,
sem þrá að líkna og leiða þjáðan heim
að lindum kærleikans.

Hvernig á kirkjan að fara að því að lýsa fólki að krossi Krists? Við glímum við það hvern dag að standa vaktina og reyna að vera kirkjuleg, lík Jesú, oft mistekst okkur, stundum tekst okkur vel upp þegar við hættum að vanda okkur en bara erum við sjálf og hlustum.

Við sem kirkja bjóðum hvert öðru upp á sálgæslu. Það höfum við alltaf gert og gerum enn. Hún felst í því að við prestarnir erum í kirkjunum á virkum dögum, nú eða á skrifstofum eða prestsetrum eða í húsvitjunum og spjöllum við fólk um daginn og veginn og hlustum vel og vandlega. Nú verður prestastefna í lok mánaðarins og þá munum við prestar ræða hvernig við getum bætt sálgæsluna, auglýst hana svo að fólk viti að þið eruð öll velkomin í kirkju að ræða málin, þið megið koma oft, til að tala um hvað sem er, þótt það virðist kannski ekki koma trúnni við. Við prestar leiðum ekki alla hluti inn á trúarlegt samtal, við munum að Jesú var ekkert mannlegt óviðkomandi, heldur vildi hann að fólk yrði heilt, að það fyndi frið, að réttlæti ríkti og að sannleikurinn fengi að gera okkur frjáls. Eftir þessu fer kirkjan.

Kirkjan er trúað fólk, kirkjan er við öll. Líf okkar í Jesú nafni felst í því að þiggja hvern dag að gjöf frá Guði, hver dagur er sá dagur sem Drottinn gjörði og við fögnum og erum glöð í honum. Suma daga erum við reyndar ekki glöð, það bara er þannig. Þá daga erum við jafn kristin og fyrr, við bara finnum enga gleði. Hvað þá frið.

Sem betur fer höfum við fjársjóði til að leita í. Við höfum öll biblíuna, guðfræðibækur, þanka annars fólks í bókum og okkar eigin trú til að reyna að setja saman eitthvað skiljanlegt, og nothæft til að hafa einhver viðmið um hvað það er að eiga líf í nafni Jesú.

Hver prédikun hefst sem fyrr greinir á þessum orðum: náð sé með ykkur og friður, svipað og Jesús mælti til þessara óttaslegnu lærisveina, sem urðu glaðir þegar hann sýndi þeim sár sín, ekki vegna sáranna, vænti ég, heldur vegna þess að þau þýddu að þetta var Jesús. Ef okkur öllum sem trúum text að gleðja hvert annað með því að vísa til þess sem er Krists, þá er tilgangi náð. Við getum tengt líf okkar guðsríkinu, talað af gagni um trúna. Ekkert okkar er frelsarinn og nærvera okkar sjálfra hefur ekki úrslitaáhrif í lífi nokkurs manns, en það er Jesús sem gefur líf og trú og gleði og lausn.

Og Jesús bendir okkur á lausnir biblíunnar, hjálpræðissögunnar, sögunnar um göngu Guðs með þjóð sinni. Skyldi Guð ganga með íslensku þjóðinni? Því trúi ég.

Friður Guðs felst í jafnvægi og réttlæti. Þegar við göngum héðan eftir messu skulum við hugleiða trú okkar og friðinn sem Jesús óskar okkar. Ef við leitum vel finnum við kannski leið til að hnika einhverju réttlætismáli áfram, þótt við frelsum ekki heiminn, eitthvað í vinnunni, skólanum eða heima, eitthvað sem við getum gert til að berjast fyrir því að fleiri fái að njóta friðar. Munum eftir þrælabörnum í útlöndum og fórnarlömbum náttúruhamfara, gefum til hjálparstarfs. Leitum einnig leiða til að gera líf hvert annars gleðilegra hér heimafyrir. Sérhvert barn þarf að njóta góðvildar og vinarþels, heima og heiman, sérhvert skólabarn þarf að fá að hlakka til að fara í skólann, þarf að fá kennslu við hæfi, hollan mat, þroskandi viðmót og vera gersamlega laust við einelti. Vinnustaðir þurfa sömuleiðis að vera lausir við einelti, sérhver manneskja þarf að geta hlakkað til að koma í vinnuna, enda hefur hún vinnu, fyrir það fyrsta, og það vinnu við hæfi, sem hún fær að vaxa og þroskast í.

Við vitum öll að talsvert skortir á að svo sé. Við vitum t. d. af útlendingum á meðal okkar sem er mismunað, sem fá ekki réttlát laun, við vitum af launamismun, þar sem karlmenn hér á landi fá hærri laun en konur, meiri virðingu og æðri stöður.

Við þurfum að bretta upp ermar og við kunnum ekki að vinna þessi verk, okkur hefur mistekist. En látum ekki hugfallast, Jesús kom til að leita að hinu týnda og frelsa það, biblían er full af uppskriftum til réttlætis, sem varðar ekkjur og munaðarlausa, útlendinga á meðal okkar, aðalatriðið er að við sjáum Jesúm hvert í öðru, eða réttara sagt, að við sjáum að við erum öll börn Guðs. Öll. Hvort sem við trúum eða ekki. Hvert okkar treystir sér til að meta trú annarra? Hvert okkar treystir sér til að undanskilja einhvern? Við höfum mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og landslög. Þjóðina bar af leið af því að lögin voru ekki virt. Vöndum okkur, öndum að okkur friði Guðs og heilagri önd, öndum rólega, förum aftur út í lífið og höldum áfram göngunni með Guði. Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi mun varðveita hjörtu okkar og hugsanir í samfélaginu við Jesúm Krist.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3158.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar