Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Erla Björk Jónsdóttir

Að leiðarljósi.

18. apríl 2010

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Við erum farin að finna fyrir vorinu. Í fyrrakvöld horfði ég út um gluggann heima hjá mér og sá yfir hafið og upp í stjörnubjartan himininn og við mér blasti þetta bjarta ljós. Langur hali loftsteins sem geislaði frá himinhvolfinu og fegurðin frá honum var dásamleg. Fyrst var ég alveg dáleidd af þessari fegurð en svo þegar ég var búin að fylgjast með þessu í svolítinn tíma þá fann ég að mér var kannski hætt að vera sama svona þegar halinn ætlaði ekkert að fara að minnka ljósið sitt eftir allan þennan tíma. Sömu tilfinningu hef ég fyrir gosinu. Þetta byrjaði allt svo sakleysislega og fallega en nú er hitinn og askan heldur betur farin að hafa meiri áhrif en við vonuðumst til og þessi spennandi tilfinning yfir sakleysislegu gosi er kannski farin að verða heldur heitari og kannski hefur óttinn læðst að okkur öllum á einhvern hátt. Óöryggi og óvissa um framhald einhvers sem er stórfenglegt en á sama tíma hættulegt.
En hugum að guðspjallinu. Jesús Kristur sem segist hafa fæðst sem ljós og sannleikur inn í þessa veröld segir okkur í texta dagsins að hann sé hirðir. Hann ögrar samtímamönnum sínum sem ekki trúa á hann og teflir fram tveim andstæðum, góða hirðinum og þeim slæma, og segir grundvallamuninn á þeim velta á því að sá góði fylgi hjarta sínu en sá slæmi láti stjórnast af peningum og völdum fremur en að láta sér annt um fé sitt tilvistar þess og virðingar sinnar vegna. Jesús stoppar ekki þar. Hann skýrir þarna í fyrsta skipti opinberlega hvernig sambandi hans við Guð sé háttað. Að hann sé í föðurnum og faðirinn í honum. Þetta voru stór orð en markmið hans var einfalt. Hann vildi segja fólkinu að í hendi Guðs væri það hólpið. Að hann sem talaði Guðs orð og vann verk sín í hans þágu væri fyrirmynd þeirra hvað varðar það að gæta að hagsmunum allra þeirra sem hópnum tilheyra. Með eftirbreytni sinni myndu þau síðar sjálf vitna um réttmæti þess að svo sannarlega hafi faðirinn verið í honum og hann í föðurnum.
Þetta voru ansi stór orð. Var hann Guð hugsaði fólk. Hvernig gat hann sett sig í sæti Guðs? Hvernig gat hann valið sér það vald að vera almáttugur og staðið þarna og haldið því fram að öll ættu þau að fylgja honum. Auðvitað hefur fólk undrast þetta og óttast það að þarna væri eitthvað skítugt á ferðinni og sú tilfinning hratt af stað því uppgjöri sem síðar varð á páskunum, þegar þau í efa sínum leiddu hann upp hæðina og krossfestu hann.
Við Íslendingar höfum svo sannarlega verið að ganga í gegnum ákveðið uppgjör undanfarnar vikur og sannleikurinn hefur sem betur fer hlotið sitt brautargengi. Dagarnir hafa verið umbrotsamir með sönnu og eldgosið hefur á stórfenglegan hátt sett myndrænt fram þær tilfinningar sem hafa setið í bjóstum okkar landsmanna undanfarin ár og sýnir okkur líka hvað gerist þegar kvikan sem springur vegna þrýstings getur verið áhrifamikil á allt umhverfi sitt. Þessi kvika hefur fengið að renna yfir þjóðina síðustu ár og hefur lagst eins og hella á allt of marga. Eitt hugtak er áberandi í tengslum við þetta uppgjör og það er ábyrgð. Jesús talar um ábyrgð hirðishlutverksins og hvernig hjörðin vitni um ágæti hirðisins. Mælikvarðinn á ágæti hans miðast við það hvernig hjörðin dafni í hans höndum. Hvort hann týni sauðunum sínum, hvort þeir svelti, týnist og villist af leið og tapi jafnvel lífi sínu. Verði bráð þeirra sem einungis hugsi um eigin hag og horfi ekki út fyrir sínar eigin hagnaðarvonir. Þetta könnumst við hjörðin öll við. Eins neikvæð og umbrot geta verið, þá geta þau líka verið jákvæð. Þau hleypa frá sér neikvæðu orkunni sem hefur hlaðist upp, losa um og hreinsa frá og endurmóta umhverfið og skapa þá um leið eitthvað nýtt. Rigningin sem bæði vorið og gosið hafa borið með sér hafa séð um að hreinsa umhverfið okkar og rigningin sem fylgir andlegu umbroti hreinsar til í sálinni. Við erum hluti af náttúrunni á sama hátt og Jesús er hluti af hinni guðlegu skipan, við verkum hvert á annað, höfum áhrif á hvert annað. Sama gildir um mannlegt samfélag og ábyrgð Guðs barna í veröldinni. Þá ábyrgð sem hvert og eitt okkar hefur að gegna að bera hag hvers annars fyrir brjósti, sú ábyrgð að halda utan um velferð og heill hvers annars. Jesús útskýrir þetta vel í textanum ekki bara með því að vitna til hirðishlutverksins heldur líka þegar hann opinberar tilvist sína og hlutverk. Hann segist vinna verk Guðs á jörðinni, mönnunum til heilla. Hann setur okkur fyrirmynd um það að vera verkamenn Guðs í þessum heimi. Ábyrgðin er einföld, að við hugsum út fyrir okkur sjálf og berum hagsmuni heildarinnar fyrir brjósti, að öll eigum við hlutdeild hvert í öðru. Þannig lýsum við því ljósi sem Kristur lýsti til okkar. Guðs ljósi kærleikans og umhyggjunnar. Þannig eigum við hlutdeild í Guði og Guð í okkur. Ekki erum við Guð heldur farvegur ljóss hans inn í heiminn. Það er einungis einn Guð í þessum heimi og við vitum öll hvernig það fer þegar fólk setur sig í sæti sem það hefur engan grundvöll til þess að setjast í. Sú sætaskipan fer aldrei vel!
Sannleikurinn er farvegur ljóssins, hann upplýsir og er farvegur sáttar og fyrirgefningar. Og við fögnum því nú að þær upplýsingar sem við höfum beðið eftir í langan tíma hafi nú litið dagsins ljós. Í dagrenningunni sjáum við best hvernig umhverfið lítur út og hverjar breytingarnar hafa orðið. Dagrenningin ber með sér nýjan dag, nýtt upphaf og nýtt landslag.
Vorið er komið svo sannarlega. Margæsirnar synda hér við ströndina á leið sinni til Grænlands og við erum farin að sjá farfuglana tínast að ströndum landsins. Birtan er orðin önnur og við erum farin að finna yl af sólinni. Geisli sólarinnar lýsir niður til okkar og við finnum í hjörtum okkar létti yfir því að veturinn er yfirstaðinn og það vekur upp annarskonar glampa í augum fólks og við förum að brosa meira og við finnum að við erum umvafin lífinu. Ljósið er svo sannarlega mikilfenglegt. Ljósið er okkur lífsnauðsynlegt, umvefur okkur, leiðir okkur á rétta staði, skerpir sýn á umhverfið, veitir öryggistilfinningu og þá tilfinningu í hjartanu að við séum óhult. Þetta ljós er Guð! Í þessu örugga og óendanlega fallega ljósi er sigurinn fólgin og við eigum hlutdeild í því vegna þess að Guð vill það og við höfum tækifæri til þess að lýsa ljósi hans áfram með því að rækta hvert annað í samfélagi velferðar og kærleika.

Megi Guð gefa okkur styrk og þor til þess að standa stöðug í trú okkar, von okkar og kærleika, í hverju sem á gengur. Amen.

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2562.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar