Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Arna Grétarsdóttir

Verum tengd!

7. mars 2010

Sr. Arna Grétarsdóttir prédikar

Lærið að gera gott,
leitið réttarins,
hjálpið hinum kúgaða.
Rekið réttar munaðarleysingjans.
Verjið mál ekkjunnar. Jes 1.17

Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.
Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. Matt 25.35-40

Mig langar að byrja á því að segja ykkur frá merkilegu atviki. Þetta gerðist fyrir rúmum tveimur vikum síðan.

Ég var að fara á verkstæði með bílinn minn hér inni í Ósló og viltist. Ég hafði lagt leiðina á minnið og ætlaði algjörlega að stóla á það. En minnið brást. Ég var svo rammvilt að ég keyrði um göturnar í einhverju hverfinu fram og til baka og vissi ekkert hvar ég var. Ég var orðin svo miður mín að kökkurinn var kominn upp í hálsinn. Góði Guð, bað ég í huganum, hjálpaðu mér nú að finna staðinn. Ég er alveg að gefast upp, er alveg ráðalaus og búin að missa alla þolinmæði. Ég stoppaði bílinn á bílaplani sem ég sá án þess að vita hvar ég var. Mér var litið til hliðar og sá þá bíl sem sat pikkfastur í snjóskafli og umkringdur af fólki. Það voru svona 7-8 manns að reyna að íta bílnum og ekkert gekk. Ég skrúfaði niður rúðuna og spurði hvort ég gæti hjálpað. Tveir ungir strákar áttu greinilega bílinn og er þeir litu upp sá ég undrunar og þakklætissvip, “Já, takk, gjarna ef þú hefur tíma.” Ég hafði engann tíma, var orðin allt of sein en ég var á risa Jeppa, náði í tóg, festi á milli bílanna og reif bílinn upp á auga bragði.

Á nokkrum mínútum fór ég úr veikleika mínum og vonleysi inn í styrkleikann sem var að aðstoða með þeim græjum sem ég hafði. Mikið leið mér vel. Guð hafði bænheyrt mig með því að leiða mig þangað sem ég gat orðið að liði. Svo verð ég að láta það fylgja með að innan 10 mínútna var ég komin að verkstæðinu þar sem bílinn fór í viðgerð. Ég þakkaði Guði fyrir að hafa getað notað hendur mínar. Þakkaði fyrir að fá tækifæri til að gera góðverk. Um leið og ég gat orðið að liði þá streymdi nefnilega blessunin yfir mig.

Ég á svo sem ekkert að vera hissa á þessu. Þetta er nákvæmlega það sem stendur í Biblíunni að eigi að gera. Og Jesús minnir okkur svo títt á með sínu fordæmi. Þó ég fari oft hjá án þess að leggja hönd á plóg þá reynir maður eins og hægt er.

Ég er að velta því fyrir mér hvort sögurnar okkar séu kannski framlenging á Biblíunni. Reynslan sem ég og þú eigum af samskiptum okkar við Guð og reynsluna af Guði. Hvatningu okkar í dag til trúar og réttlætis í heiminum.

Tökum aðeins Jesaja spámann, versið sem þið fenguð í sms og Óli Jói las áðan. Getur verið að framlengd Biblía nútíðar og framtíðar hljómi svona!

Mynd 1 – Nútíminn:

Spámaður að nafni Óli Jói sté fram, þetta var árið 2010. Það ár predikaði hann kristni meðal unglinga í Seljahverfinu og á Reykjarvíkursvæðinu.

Hlustið á mig: Sagði hann: Trúið á Jesú Krist og fylgið honum. Fetið í hans fótspor. Ég vil ekki sjá neitt illt á meðal ykkar. Hættið að gera illt og lærið að gera gott eins og Jesús kenndi. Leitið alltaf réttlætisins. Hjálpið þeim sem eru lagðir í einelti í skólum og á vinnustöðum. Talið máli öryrkja, fatlaðra og sjúkra og verjið málstað þeirra sem minna mega sín. Það er sérstaklega mikilvægt að gleyma þessu ekki þegar þjóðir þurfa að komast út úr peningavandræðum. Munið þá eftir þeim þjóðum sem þekkja raunverulega fátækt og matarskort.

Mynd 2 – Framtíðin:

Spákonumaður að nafni Kamera Skype Árni Svanur sté fram. Þetta var árið 2937. Það ár predikaði hún/hann meðal unglinga á netinu um allan heim. Þetta var á þeim tíma sem fullu kynjajafnrétti var náð í heiminum.

Hlustið á mig: Sagði húnhann: Trúið á Jesú Krist og fylgið honum. Hann dó á krossi fyrir okkur, hugsið ykkur bara kærleikann, já elskuna, ástina, sem Guð sýndi okkur. Gaf okkur sinn eigin son sem dó fyrir syndir okkar. Sigraði svo dauðann.
Þegar Jesús bjó meðal manna á jörðinni fyrir 3000 árum sagði hann okkur að gera góðverk og sýndi okkur að við eigum að koma vel fram við hvort annað.

Hann sagði meira að segja að það sem við gerðum fyrir aðra værum við að gera fyrir hann.

Það sem við gerum öðrum, gerum við Kristi.

Ef þú baktalar vinkonu þína ertu að baktala Jesú Krist sjálfan. Ef þú kaupir pizzu handa vini þínum og gefur honum ertu að gefa Jesú pizzuna. Ef þú býður einhverjum far á flughjólinu þínu þá ertu að bjóða Jesú far. Ef þú býður fram aðstoð þína hjá Hjálparstarfi kirkjunnar ertu að aðstoða Jesú sjálfan.

Förum aftur til ársins 2010. Heyrum frá hvaða góðverkum lærisveinar Jesú hafa að segja. Í myndbrotunum sem hér fara á eftir sjáum við prestinn sr. Jónu Hrönn Bolladóttur og æskulýðsleiðtogann Ásdísi Björnsdóttur og svo sjáum við nokkra unglinga segja frá.

Jesús, sonur Guðs, var alltaf að gera góðverk eða miskunnarverk, kærleiksverk, kraftaverk og hvatti okkur til trúar og góðverka. Trúin er drifkraftur góðverkanna. Ef þú trúir; segðu öðrum frá því! Ef þú mannst eftir góðverki sem þú hefur gert segðu einhverjum frá því eftir messuna! Það er mikilvægt að aðrir viti hvernig þú kemur fram við Jesú Krist, frelsara okkar manna.

Að lokum: Vertu alltaf tengd við Guð og menn. Já og þið líka strákar, verið tengdir!

Postuleg kveðja frá Noregi:

Friður Guðs sem er æðri öllum hugsunum, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Drottni Jesú Kristi. Amen. Yfir og út.

Flutt á margmiðlunarguðsþjónustunni Bænarý í Neskirkju, yfir Skype, frá Noregi.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Verum tengd!”

  1. árni.annáll.is - » Tengd? skrifar:

    […] Arna prédikaði í Bænarý í gærkvöldi. […]

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3218.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar