Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Jón Dalbú Hróbjartsson

Hvað varð um körfurnar með brauðmolunum sem gengu af?

14. mars 2010

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga.
Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera.

Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“

Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu.

Þegar menn sáu táknið, sem hann gerði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn sem koma skal í heiminn.“ Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.

Jóh. 6. 1-15

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ljós, vatn og brauð eru orð sem fá mikið rými í Jóhannesarguðspjalli, orð sem Jesús nýtir sér vissulega í líkingum sínum og prédikunum, en sem guðspjallamaðurinn grípur og notar til að tengja saman og draga fram grundvallaratriði fagnaðarerindisins.
Þetta kemur t.d. skýrt fram í formála guðspjallsins þegar hann segir: Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann , kom nú í heiminn!

Jóhannes notar orðið tákn yfir kraftaverkin, enda er ljóst, að þegar Jesús gerði kraftaverk, þá var það ávallt gert til að undirstrika nálægð guðsríkisins, kraftaverkið var tákn um eitthvað miklu meira og stærra. Þegar Jesús sýndi þessi tákn, þá voru viðbrögðin einatt sú, að viðstaddir sáu dýrð Guðs, komu auga á þetta stóra samhengi hjálpræðis Guðs.

Fyrsta táknið í Jóhannesarguðspjalli er þegar Jesús breytti vatni í vín, breytti innihaldi gömlu vatnskerjanna í sætt og gott vín, breytti gamla sáttmálanum í nýjan sáttmála, gaf lífinu nýtt innihald.

Táknið í guðspjalli dagsins er brauðundrið í eyðimörkinni, frábær frásögn sem í raun er yfirfull af táknum og tilvísunum.
Jesús og lærisveinarnir fóru upp á fjall, - þessi mynd er aftur og aftur dregin upp í heilagri ritningu, fjallið er staðurinn þar sem guðsdýrkunin fór fram.

Hjá Jesaja segir: Komið, göngum upp á fjall Drottins, svo að hann vísi oss vegu sína.

Þegar við göngum til kirkju, þá erum við að ganga upp á fjall Drottins, hér erum við á fjallinu og höfum sest við fætur Jesú til að hlýða á orð hans, fagnaðarerindi hans, þiggja brauðið hans.

Þetta var laust fyrir páska! - hvers vegna stingur guðspjallamaðurinn þessari athugasemd inn í textann? Jú, til þess að minna á samhengið, Jóhannes var alltaf að prédika, guðspjallið hans er ein prédikun frá upphafi til enda.

Jesús sá mannfjöldann koma til sín upp fjallshlíðarnar, engan smá fjöld, 5000 karlmenn auk kvenna og barna, líklega 20-30 þús. manns.

Nú sá Jesús tækifæri til boðunar og mikils kærleiksverks um leið.

Eitthvað verður allt þetta fólk að fá að borða, en ekki síst þarf það að heyra og skilja fangaðarerindið.

Jesús sýnir lærisveinum sínum hvernig það að deila með öðrum í Jesú nafni gerir kraftaverk, hversu oft hefur þetta ekki í raun gerst!!

Litli drengurinn var með nestispakka, átti forsjála foreldra sem nestuðu hann vel, - en það var ekki handa mögrum, en hann afhenti Jesús nestið sitt og Jesús gat notað það, blessað það, þannig að það dugði handa þúsundunum, og meira en það, það varð afgangur, 12 karfir fullar af brauði, enn ein tilvísunin, 12 karfir, jafnmargar og postularnir, sem voru sendir út í veröldina með brauði hans, boðskapinn dýra.

Í samfélaginu sem Jesús talaði inn í var brauðið mikil blessun, grundvöllur fæðunnar sem þeir neyttu, það var alls ekkert sjálfsagt að eiga mjöl til brauðgerðar, það voru lífsgæði, sem þeir kunnu svo sannarlega að meta. Heimilissiðir voru gjarnan þeir, að þegar kallað var til máltíðar, þá var höfð þakkargjörð, borðbæn, Guði þökkuð gæðin, svo braut heimilisfaðirinn brauðið og deildi því út meðal viðstaddra. Sama var að segja um vatnið, það var dýrmætt, hver dropi dýrmætur.

Þessi dýrmætu efni notaði Jesús til að benda á hver hann í raun var. Ég er hið lifandi vatn, - í 4 kafla guðspjallsins er Jesús að tala við samversku konuna við brunninn, á við hana langt samtal og segir m.a.

Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta, en hvern sem drekkur af vatninu er ég gef honum mun aldrei þyrsta að eilífu.

Sama segir hann um brauði: ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni til að gefa heiminum líf, sá sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu.

Þetta eru stór orð, innihaldsrík orð, sem við megum taka til okkar, neyta í orðsins fyllstu merkingu.

Gef oss í dag vort daglegt brauð, biðjum við í Faðir vor, þar er einmitt verið að tala um þetta brauð, brauðið sem Jesús deildi út, brauðið sem hann var og er.

Hingað hafa borist molar af brauðinu sem safnað var saman í körfurnar forðum eftir brauðundirið í eyðimörkinni.

Fagnaðarerindið barst hingað til Íslands líklega með fyrstu mönnunum sem hér stigu á land, og þessum brauðmolum hefur verið dreift í formi boðunar, bænahalds og með því að hafa um hönd heilagt sakramenti, það er enn kallað brotning brauðsins.

Brauðundir í fjallinu forðum er táknmynd af hverri einustu messu og altarisgöngu sem við höfum um hönd, já á sama hátt má segja, að táknið í brúðkaupinu í Kana í Galíleu, þegar Jesús breytti vatni í vín, sé einnig táknmynd af hverri einustu altarisgöngu sem við kristið fólk höfum um hönd.

Vegna nálægðar hins upprisna, vegna krossdauða hans og upprisu, þá fáum við að lýta dýrð hans í þessum táknum enn þann dag í dag, - fyrir trú.

Köllun kirkjunnar er skýr, að fara út með brauðmolana, gefa af okkur til samfélagsins, leyta þá uppi sem þurfa mest á hjálp að halda, starfa í trú, von og kærleika.

Það eru athyglisverð orðin sem postulinn gefur okkur til umhugsunar í pistli dagsins: Guð hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þorgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Heilagur andi er okkur gefinn, - er ekki gott að vera minntur á það enn á ný? - við eignuðumst gjöf heilags anda strax í heilagir skírn, og svo er heilagur andi nálægur í náðarmeðlum kristninnar sem við höfum aðgang að á hverjum einasta degi. Já meira en það, Guð vill að heilagur anda streymi í okkur og verði farvegur náðar hans og blessunar í þessum heimi.

Jesús undirstrikar þetta svo vel í 7. kapítula Jóhannesarguðspjalls er hann hann kallaði út yfir mannfjöldann: Ef nokkurn þyrstir þá komi hann til mín og drekki. Frá hjarta þess sem trúir á mig munu renna lækir lifandi vatns, eins og rigningin segir. Og guðspjallamaðurinn bætir við og útskýrir: Þarna átti hann við andann er þau skyldu hljóta sem á hann trúa.

Ljósið, vatnið og brauðið er jafnmikilvægt í dag, eins og fyrir 2000 árum, allt efni og gæði sem skifta svo óendanlega miklu máli. Þetta eru efni sem við þurfum að hlú að, afla og gæta, - og tengingin sem Jesús bendir á í þessu sambandi er einnig jafn mikilvæg, hann er ljós heimsins, hann er hið lifandi vatn og brauð, sem okkur er boðið að þiggja, líka í dag í orði og skaramenti.

Dýrð sé Guði föður syni og heil. anda, svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1991.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar