Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Dyr lífs

28. mars 2010

Við Hallgrímskirkju

Gleðilega hátíð, opnunarhátíð Hallgrímskirkju eftir gagngerar viðgerðir, helgun hinna nýju útihurða, hins einstæða listaverks Leifs Breiðfjörð, og upphaf Kirkjulistahátíðar 2010. Til hamingju með daginn og þá góðu áfanga sem við fögnum hér! Og til hamingju, kæru foreldrar, sem borið hafa barn ykkar hér til skírnar í dag. Hann Bjartur litli ber birtu inn í heiminn okkar, birtu sakleysis, trúartrausts og kærleika. Guð blessi hann og ástvini alla. Það er gott að fá að fagna með ykkur hér yfir undri lífsins sem blasir við í barninu litla og þeirri gæfu sem ykkur er lögð í fang, þeim fögru fyrirheitum sem skírnin tjáir og framtíðarsýn sem þar er lyft fram.

• • •

Við gengum hér áðan upp götuna og til kirkju, veifandi greinum, syngjandi helga texta, eins og fólkið í Jerúsalem forðum, og sagt er frá í guðspjalli pálmasunnudags. Jesús kom ríðandi á asna inn til borgar sinnar. Skilaboðin fóru ekki framhjá neinum. Innreið Jesú á asnanum smáa er dómur yfir lífsmáta, þar sem umbúðirnar eru metnar umfram innihald, tæki og stofnanir meir en fólk, vilja Guðs er storkað, lífið fótum troðið. Jesús kemur á smáfættum asnanum, konungurinn sem er kominn til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds. Hann sýnir í hverju vonin er fólgin, lausn og lækning manns og heims. Og lofgjörðin til hans er feginsandvarp fólksins, sem grípur til hinna gömlu stefja og fornu leiðarlýsinga trúarinnar er það tjáir von sína og framtíðarsýn. Eins og við hér í dag. Já, allt, sem hér er uppteiknað, sungið, sagt og téð, það bendir á hann: Jesú, sem er enn á ferð. Hann kemur upp að hlið þeirra sem halloka fara, syrgja og líða. Og leið hans liggur áfram gegnum öngstræti og skuggalendur mannlífsins, harma og nauðir, dauða og gröf, já, alla leið, og signir það allt krossi sínum, friði, náð, og lýkur upp lífsins dyrum og lausnar. „Dyr lífs þér standa opnar enn,..“

• • •

Það er hátíð hér í Hallgrímskirkju í dag. Fagnað er að hinum nýju hurðum Hallgrímskirkju er upplokið og umfangsmiklum viðgerðum og gagngerum endurbótum helgidómsins er lokið, og Kirkjulistahátíð er sett, m.a. með opnun myndlistarsýningar Ólafar Nordal hér í messulok. Um leið minnumst við og þökkum þolgæði, trú og þrautsegju hinna mörgu hollvina Hallgrímskirkju og hugsjónafólks sem vildi sjá þetta hús rísa og krýna höfuðborg hins unga þjóðríkis á Íslandi. Það vildi með því hylla konunginn Krist. Og það gafst ekki upp, þó að oft á tíðum hafi allar dyr virst lokaðar og öll sund ófær með öllu. Ekki vantaði úrtöluraddirnar, eins og í Betaníu forðum og lýst er í guðspjalli dagsins. Þá sem nú var svo auðvelt að sýna fram á hve fráleit þessi framkvæmd var, hvílík sóun fjármuna þarna væri á ferðinni, og að kirkjusmíðinni yrði aldrei lokið. Til að viðhalda hagvextinum, bjarga ríkisfjármálunum, tryggja velferðina þá varð svona framkvæmd og sóun að bíða. Heimsviskan er svo blind á gildi hinnar sjálfssprottnu kærleikstjáningar, á þörfina að tjá trú og von og kærleika í því að gefa af sér til að fegra lífið, umhverfið, lyfta andanum.

En hollvinir Hallgrímskirkju misstu ekki móðinn. Kvenfélagskonurnar slógu skjaldborg, nei, annars, þær hnýttu kærleikskeðju um hugsjónina og lögðu fram þrotlausa vinnu að fjáröflun til byggingar og prýði helgidómsins. (svo sem fagrir gólfstjakar sem félagið afhenti í fyrradag, bera vitni um) Alltaf bárust kirkjunni áheit og gjafir, kærleiksgjafir, í þökk og virðingu, svo unnt var að halda áfram og leiða verkið til lykta. Eins og hann Hermann Þorsteinsson, formaður sóknarnefndar og driffjöður um langt árabil, orðaði það: „Byggingarsjóðurinn tæmdist aldrei…. – alveg.“ Oft var útlitið hreint ekki björgulegt. Aldrei í Íslandssögunni hefur eins stór framkvæmd verið lögð á axlir jafn fárra. En þau stóðu undir því með Guðs hjálp og góðra manna.

Guð blessi minningu þess góða og trúfasta fólks, Guð blessi þau öll lífs og liðin sem með gjöfum sínum, liðveislu og fyrirbænum hafa fyrr og síðar borið Hallgrímskirkju örmum.

Ég þakka þeim mörgu sem lagt hafa fram fjármuni fyrr og síðar til aðalhurða Hallgrímskirkju. Ég minnist Þorláksmessu fyrir nær 35 árum er ég var kallaður í húsið að Túngötu 30 þar sem ég veitti viðtöku rausnarlegri minningargjöf ekkju og afkomenda Eggerts Kristjánssonar, stórkaupmanns. Mér er þetta einkar minnisstætt, ekki aðeins vegna elskusemi og örlætis gefendanna, heldur vegna þess að ég hafði þurft að aka konu minni í snarhasti upp á Fæðingaheimili þar sem barnið, sem hún bar undir belti vildi drífa sig í heiminn. Og svo að þegar ég sat að ríkulegu veisluborði og hafði veitt hinni höfðinglegu gjöf viðtöku, - og ég með hugann óneitanlega undir annarri átt - þá varð jarðskjálfti sem hristi og skók borgina! Ljósakrónurnar sveifluðust til, silfur, postulín og kristall klingdi, skrölti og söng, og máttleysis og öryggisleysistilfinningin hríslaðist um hverja taug!

Síðar urðu margir til að leggja í hurðasjóð kirkjunnar. Miklu munaði um stórgjöf Menningarsjóðs SPRON, og gjöf systranna Þórunnar, Önnu Bergljótar og Soffíu Wathne. Án þessara gjafa hefði verkið aldrei verið unnið. Og þetta er sannarlega saga Hallgrímskirkju. Hún er reist fyrir gjafir og áheit, minningar og kærleiksgjafir hinna ótal, ótal mörgu. Guð blessi þær gjafir og gefendur fyrr og síðar.

• • •

Hallgrímssöfnuði var falið það hlutverk að reisa þjóðarhelgidóm, sem skyldi verða þakkaróður til skáldsins sem þjóðinni hefur ætíð staðið hjarta næst og sem öðrum fremur hefur lagt henni orð á varir og á hjörtu og talið kjark í þjóðina í í gleði og sorg. Söfnuðinum var heitið stuðningi yfirvalda til þess verks. Á ýmsu hefur gengið um efndirnar. Okkur, sem lifum hrun og krepputíma, er hollt að muna að ákvörðunin að reisa hér kirkju var tekin í heimskreppunni, árið 1929, þegar Dómkirkjusöfnuðurinn í Reykjavík hafði forgöngu um það í samstarfi við ríkisvaldið að efnt skyldi til hugmyndasamkeppni um kirkjubygginguna hér. Söfnuðurinn var svo stofnaður árið 1940 þegar heimstyrjöld stóð yfir, landið hernumið af breska heimsveldinu og kirkjulóðin hafði verið lögð undir herbúðir setuliðsins. Þá var dimmt yfir Íslandi. Messustaðurinn í Austurbæjarskóla var jafnframt loftvarnabyrgi, gluggar huldir sandpokum. Þau sem héldu þrátt fyrir þetta merki og hugsjón Hallgrímskirkju á lofti sáu það sem vonarmerki og fyrirheit um þjóðlega og menningarlega endurreisn lands og lýðs, um frið á jörðu og frið í hjarta og sál, um gróandi þjóðlíf, um mannlíf mótað hinum traustu, sönnu, heilnæmu og hollu áhrifum sem þjóðin naut um aldir af lindum Hallgrímsljóða og sálma. Það sá, og við viljum sjá, Hallgrímskirkju vettvang þeirrar iðkunar og athafnar þar sem ungum sem öldnum gefst færi á að staðsetja sig og tjá von og framtíðarsýn í ljósi konungsins sem gaf líf sitt heiminum til lífs.

Nú í dag, þegar hinum fögru dyrum helgidómsins er lokið upp, má segja að byggingu kirkjunnar sé loks lokið. Og þó lýkur henni aldrei. Af því að þetta er ekki aðeins hús, heldur helgidómur, sem helgast af lifandi iðkun og athöfn sem ætlað er að skapa, móta, rækta og næra gott og heilbrigt samfélag, og rótfesta trú, von og kærleika í hjörtum og sál landsins barna.

Dyrum er lokið upp í dag, fegurð helgidómsins blasir við, listin rís í hæstu hæðir. Megi nú þessi morgunstund og helga hátíð nú verða okkur uppörvun og vonartákn sem þjóð. Helgihald dymbilviku og páska og Kirkjulistahátíð sem nú er enn efnt til, og sem jafnan fyrr af svo miklum metnaði, stórhug og reisn, mun laða til sín fjölda fólks til að njóta og gleðjast. Hvelfingar helgidómsins munu enduróma fegurstu hljómum, og hjörtu fólksins hrífast og fagna, borðið er dúkað og máltíðin framreidd sem Drottinn býður til. „…út stendur breiddur faðmur fús…“

Guð blessi það allt sem hér er lagt að mörkum til að auðga lífið, efla samfélagið, og gleðja okkur öll. Verði það okkur uppörvun og vonar tákn og framtíðar! Gleðin, þökkin og vonin sem hér er vitnað um fylli hjörtu okkar og hugi endurnýjuðu þreki og þrótti, þrautsegju og þolgæði til að takast á við vandkvæðin og örðugleikana og leiða til góðra lykta og reisa að nýju betra, heilbrigðara, hollara og fegurra mannlíf og samfélag í landi hér.

• • •

Þegar komið er að dyrunum blasir við þyrnikóróna á rauðum bakgrunni. Með krossgöngu sinni og fórnardauða og upprisu frá dauðum lauk Jesús upp lífsins dyrum og lausnar fyrir alla menn, allar þjóðir. Vonin, framtíðin er ekki undir okkar eigin kröftum komin heldur náð hans. Þeirri von, þeirri náð er Hallgrímskirkja helguð, iðkun, athöfn og orð þjóðarhelgidómsins er fagnaðaróður til hans sem kemur, kemur í nafni Drottins, með líkn og frið og blessun. Og eins og Hallgrímur:

Dyr lífs þér standa opnar enn,
að því skyldir þú gæta senn,
út stendur breiddur faðmur fús,
fríður Jesús,
hann býður þér í þetta hús. Amen

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2924.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar