Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigurður Pálsson

Í upphafi var orðið. Hvaða orð?

7. febrúar 2010

Nú var mikill fjöldi saman kominn og menn komu til Jesú úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið og fuglar himins átu það upp. Sumt féll á klöpp. Það spratt en skrælnaði af því að það hafði ekki raka. Og sumt féll meðal þyrna og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði Jesús: „Hver sem eyru hefur að heyra hann heyri.“ 
En lærisveinar hans spurðu Jesú hvað þessi dæmisaga þýddi. Hann sagði: „Ykkur er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki. 
En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. Það er féll hjá götunni merkir þá sem heyra orðið en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. Það er féll á klöppina merkir þá sem taka orðinu með fögnuði er þeir heyra það en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund en falla frá á reynslutíma. Það er féll meðal þyrna merkir þá er heyra en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. En það er féll í góða jörð merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi. Lúk. 8. 4 -15

Gefðu, að móðurmálið mitt,
minn Jesús, þess ég beiði,
frá allri villu klárrt og kvitt,
krossins orð þitt úr breiði
um landið hér, til heiðurs þér,
helst mun það blessun valda,
meðan þín náð, lætur vort láð,
lýði og byggðum halda. (HP)

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Það er hátíð í kirkjunni í dag. Það er biblíudagur. Reyndar eru allir dagar í kirkjunni biblíudagar, eða ættu að vera það. Eiginlega ættu allir dagar kristins manns að vera biblíudagar. Í Biblíunni er geymdur grundvöllur trúarinnar og næring trúarlífsins.

„Þitt orð er, Guð, vort erfðafé,
þann arf vér dýrstan fengum.“

Við Íslendingar getum með sérstökum hætti tekið undir þessar hendingar. Biblían á íslensku er hvort tveggja í senn trúararfur og menningararfur. Því mætti gjarnan halda meira á lofti hvert afrek þeir unnu, Oddur Gottskálksson og Guðbrandur Þorláksson, þegar þeir þýddu Biblíuna á íslenska tungu. Íslensk tunga var meðal 20 fyrstu tungumála veraldar sem öll Biblían var þýdd á, og er þar í hópi tungumála sem stórþjóðir þess tíma töluðu. Örþjóð við ysta haf fær heilaga ritningu á eigin tungu þegar á 16. öld. Það var afrek, ekki aðeins trúarlegt afrek heldur og menningarlegt afrek. Íslensk tunga væri ekki söm í dag ef við hefðum ekki notið þessarar þýðingar; íslensk menning væri ekki söm.

Ekkert rit hefur haft meiri áhrif á vestræna menningu en Biblían og er þá sama hvort litið er til myndlistar, bókennta, byggingalistar eða tónlistar. Fullyrða má að þekking á Biblíunni sé lykill til skilnings á vestrænni menningu og þar með íslenskri menningu. Er íslendingum fenginn sá lykill í menntun sinni.? Öðru hvoru heyrast kvartanir frá bókmenntakennurum, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi að erfitt sé að kenna ungmennum bókmenntir venga vanþekkingar á Biblíusögum. Engin bók á íslensku er útbreiddari en Biblían, en er hún að mestu hulin ryki í bókahillum okkar og í hugskoti okkar? Hvaða rækt er lögð við hinn kristna menningararf? Ég játa að mig rak í rogastans þegar ljóngreindur og vel lesinn háskólakennari lagði orð í belg þegar umræðan um markmiðsgrein grunnskólans stóð sem hæst árið 2008, meðal annars umræðan um hvort í greininni skyldi standa að skólinn ætti m.a. að „mótast af kristinni arfleifð íslenskrar menningar“, - „hvað svo sem það er“ sagði háskólakennarinn. Þetta tilsvar er vert umhugsnunar. Er firringin frá hinum kristna menningararfi orðin slík.

En hvað sem mikilvægi hins kristna menningararfs líður, sem á rætur í Biblíunni, er heilög ritning fyrst og fremst trúararfur. Fjársjóður sem gengið hefur í arf frá kynslóð til kynslóðar til varðveislu og til eflingar kristinni trú. Og enn er, um allan heim, verið að leita uppi erfingja til að koma þeim arfi, orði Guðs, til skila. Verið er að vinna að á þriðja þúsund þýðingarverkefna á vegum Sameinuðu Biblíufélaganna og á liðnu ári var Biblíum og biblíuritum dreift í u.þ.b. 400.000.000 eintökum. Sáðmaður gekk út að sá. Sæðið er Guðs orð.

Við köllum Biblíuna gjarnan Guðs orð. Hvað merkir það?

Í upphafi var orðið.
Orð sköpunarinnar. „Án þess varð ekkert til sem til er orðið.“ Sjálfsskilningur mannsins og heimssýn ræðst í grundvallaratriðum af því hvaðan hann telur sig kominn. Að trúa því að Guð hafi skapað með orði sínu og ávarpað manninn, kallað hann til samfélags við sig, til andsvara við ávarpi sínu, - ræður svarinu við spurningunni: Hver er ég? Það er mikil speki fólgin í sköpunarjátningu Biblíunnar í 1. Mósebók, um skaparann og samskipti hans við manninn. Eina skapaða veran sem Guð ávarpar og væntir andsvars frá er maðurinn. Guð blessaði þau, Guð gaf þeim af gnægtum sköpunar sinnar sér til viðurværis, „Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta að vild.“ Nema. Manninum voru sett mörk. Hann var kallaður til ábyrgðar. En ágirndin knúði manninn til að ganga yfir þau mörk sem honum voru sett. Er þetta ekki sannleikurinn um manninn. Þarfnast hann þess ekki sífellt að vera minntur á ábyrgð sína, minntur á hvert ágirndin getur leitt hann, að hann ber ábyrgð. Kannski hefðum við staðið í öðrum sporum nú um stundir ef menn hefðu haft Guðs orð fyrir augunum fremur en verðbréf og peningaseðla: „Varist alla ágirnd.“
— Á ég að gæta bróður míns? - Já, ég á að gæta bróður míns. „allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ Hér er ekki aðeins lögð áhersla á að láta ógert að skaða náunga sinn, heldur einnig og ekki síður að vera virkur í því að gera honum gott. Hvar skyldu rætur hugmyndarinnar um velfrðarkerfið liggja?
Í upphafi var orðið, orðið sem kallar manninn til ábyrgðar.

Í upphafi var orðið.
Orð dómsins. Hvað hefur þú gert? Hvar ertu?
Og maðurinn fór í felur. Sannleikurinn um hinn seka mann. Hann fer í felur, hann bendir á aðra.
Ég hef oft dvalið við kaflafyrirsögn í bók sem ég las fyrir nokkrum árum, sem var á þessa leið: „Vandi nútímamannsins er þessi: Hvar get ég hlotið dóm?“
Mér þótti staðhæfingin sérkennileg. Ef það er eitthvað sem nútímamaðurinn hefur andstyggð á er það að láta fella yfir sér gildisdóma, að ekki sé talað um ef Guði er blandað í málið. Enda segir umræddur höfundur eitthvað á þessa leið: „Þarna komum við einmitt að einhverjum djúpstæðasta vanda mannsins í menningu vesturlanda hvort heldur litið er til þess sem kallað er módernismi eða póstmódernismi. Þessi menning einkennist af einstaklingshyggju og kröfunni um takmarkalaust frelsi einstaklingnum til handa, kröfu sem ýtir til hliðar þörf mannsins fyrir dóm.“ Og höfundur skýrir hvað hann á við með orðinu dómur með því að vísa til þess hvað orðið merkir á grísku, þ.e. að greina, aðgreina, gera upp á milli. Og hver er þá vandinn þar sem dómnum hefur verið ýtt út af borðinu? Upplausn sjálfsmyndarinnar. Umræddur höfundur staðhæfir að til þess að maðurinn öðlist heilbrigða sjálfsmynd, heilbrigðan skilning á sjálfum sér og heilbrigt viðhorf til sjálfs sín þurfi hann að hafa kvarða til að mæla sig við, svo hann geti greint hvað er gott og hvað illt, hvað rétt og hvað rangt. Án dómsins, án aðgreiningarinnar, verði lífið léttvægt. Hvernig fer fyrir þeim sem ekki hafa slíkan kvarða að mæla sig við? Jú, þeir glata hluta af sjálfum sér. Sjálfsmyndin, sjálfssemdin verður fljótandi. Án kvarðans vita menn ekki hverjir þeir eru og leita staðfestingar á sjálfum sér með því að mæla sig við hvikular fyrirmyndir sem birtast á skjánum eða í glanstímaritum eða í kauphallartíðindum. Sjálfssemdin víkur fyrir öryggisleysi og siðvitið leysist upp í spurningunni: Hvað kemur mér vel?

Í upphafi var orðið.
Orð fyrirgefningarinnar. Orð kærleikans.
Þér skuluð því biðja þannig:
„… fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum.“
„Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna.“
Orð kærleikans: „Enginn sýnir meiri elsku en þá að hann leggur líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“

En með því út var leiddur,
alsærður lausnarinn,
gerðist mér vegur greiddur
í Guðs náðar ríki inn
og eilíft líf annað sinn.
Blóðskuld og bölvan mína,
burt tók Guðs sonar pína.
Dýrð sé þér, Drottinn minn. (HP)

Í upphafi var orðið. Hvatning til iðrunar, boð um fyrirgefningu. Hvaðan skyldi Desmond Tutu biskup hafa fengið hugmyndir sínar um sátt og fyrirgefningu til lausnar djúpstæðum ágreiningi íbúa Suður Afríku?

Í upphafi var orðið.
Orð huggunarinnar. Orð traustsins.
„Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt gleymi ég þér samt ekki.“ Fátt skelfist maðurinn meira en að vera gleymdur, einn, án tengsla, án athvarfs. Orð huggunarinnar: Ég gleymi þér ekki. „Komið til mín, allir þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðnir og ég mun veita yður hvíld.“ - „Ég kalla þig með nafni, þú ert minn. “ Kristin kirkja á að endurspegla þetta.

Í upphafi var orðið. Orð vonarinnar.
Pétur postuli segir í fyrra bréfi sínu: „Guði séu þakkir sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.“ Endurfætt oss til lifandi vonar. „Trúin er fullvissa um það sem menn vona.“ En það getur kostað baráttu að varðveita vonina þegar vonleysið sverfur að. Páll postuli segir um trúarhetjuna Abraham: „Abraham trúði með von, gegn von“. Líf í von getur verið líf í glímu. Hvers vona ég þá Drottinn? Von mín er öll hjá þér.

„Í upphafi var orðið.
Í því var líf og lífið var ljós mannanna og ljósið skín í myrkrinu.“ Orð lífsins og ljóssins. Hver sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins, segir Jesús Kristur. Dauðinn ógnar. Dauðinn særir. Dauðinn rænir.
Endurfæðing til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum sviptir burt ógn dauðans, þrátt fyrir söknuðinn vegna þess sem hann hefur rænt okkur. Páll postuli býður dauðanum byrginn vegna þessarar vonar: „Dauðinn er uppsvelgdur í sigur. Dauði hvar er sigur þinn, dauði hvar er broddur þinn. Guði séu þakkir sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesúm Krist.“
Sigur lífsins, hins eilífa lífs.

Í upphafi var orðið; orð sköpunarinnar, orð dómsins, orð fyrirgefningar og sátta, orð vonarinnar, orð lífsins og ljóssins. Guðs orð.
„Lát börn vor eftir oss, það erfa blessað hnoss, ó, gef það glatist engum.“

Þú sem barst barnið þitt til skírnar og færðir það Kristi og baðst hann að blessa það. Þú sem stóðst við skírnarlaugina sem skírnarvottur og héast því að styðja við foreldrana við kristilegt uppeldi barnsins. Þú sem játaðist honum sem leiðtoga lífsins við ferminguna. Þú sem hlaust blessun hans þegar þú játaðist elskunni þinni fyrir altari Guðs. Haltu trúnað við orð Guðs, lestu og deildu því með öðrum, láttu það móta veru þína alla, þér og náunga þínum til velfarnaðar um tíma og eilífð. Sæðið, sem er Guðs orð ber ávöxt, sé því sáð í gljúpan og frjóan jarðveg í hjörtum þeirra sem vilja taka við. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2480.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar