Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Jóhannesson

Biblían – Innblásið, óskeikult og óbrigðult orð Guðs til þín

7. febrúar 2010

Biðjum saman:

Almáttugi Guð og heilagi faðir! Ég þakka þér fyrir þennan dag og fyrir þessa stund sem þú hefur af náð þinni gefið mér. Ég bið þig að opna huga minn og hjarta fyrir þínu heilaga og lífgefandi orði, svo ég megi vaxa í sannleika þínum og þekkingu, og að allt það sem ég hugsa, segi og geri, megi vera samkæmt vilja þínum, þér einum til lofs og dýrðar, náunga mínum til góðs og sjálfum mér til eilífs hjálpræðis. Í nafni sonar þíns Jesú Krists. Ég bið í hans nafni. Amen.

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður okkar og Drottni Jesú Kristi.

Eitt af því sem ég geri þegar ég kem inn á heimili í fyrsta sinn er að skoða hvaða bækur er að finna þar í hillum. Þótt ég geri þetta nánast ósjálfrátt reyni ég að láta lítið á því bera enda kannski ekki ýkja mikil kurteisi. Ástæðan fyrir þessari forvitni er sú að ég held að ýmislegt megi læra um fólk af því hvaða bækur það les eða les ekki. – Og eitt af því sem ég veiti sérstaka athygli, ég verð að viðurkenna, er hvort Biblíu sé að finna á heimilinu.

Ég kem víða auga á Biblíuna. Ég held reyndar að Biblían sé til á mörgum heimilum. En ég held ekki að það sé til marks um gildi hennar eða notkun. Of víða er Biblían eins og illa gerður hlutur uppí hillu sem sjaldan eða aldrei er tekinn niður. Hverju sem því líður held ég að það sé óhætt að segja að fleiri Biblíur séu til á Íslandi en notkun hennar hér á landi gerir beinlínis kröfu um. Það er spurning hvort Biblían sé sú bók á Íslandi sem flestir eiga en fæstir lesa.

Marteinn Lúther sagði eitt sinn: „Ég hef nú í nokkur ár lesið í gegnum alla Biblíuna tvisvar sinnum á ári. Ef þú lítur á Biblíuna sem voldugt tré og sérhvert orð hennar sem litla grein, þá hef ég hrist allar þessar greinar, vegna þess að ég vildi vita hvað þær eru og hvaða merkingu þær hafa.“

Hversu margir geta tekið undir þessi orð Lúthers? Alveg örugglega ekki margir. Sannarlega ekki ég. Þó ég vilji vita merkingu Biblíunnar les hana ekki tvisvar í gegn á hverju ári. En hversu margir ætli lesi í Biblíunni reglulega? Það er hófsamari spurning. Þekkir þú marga sem gera það? Hversu margir vilja skilja merkingu hennar og þýðingu? Veist þú um marga?

Burtséð frá því liggur næst við að hver og einn spyrji sjálfan sig: Hvaða augum lítur þú Biblíuna? Er Biblían raunverulegt orð Guðs sem opinberar huga hans og vilja? Eða er hún einungis mannlegt safn frásagna í misjafnlega traustum tengslum við sögu og skynsemi? Hvaða merkingu hefur hún fyrir þér? Hvenær last þú síðast í henni? Hversu vel ert þú að þér um efni hennar og boðskap?

Auðvitað erum við misjafnlega vel að okkur um Biblíuna. Og það skal játað – svo það fari ekki á milli mála að enginn er fullkomin – að ég flaskaði á einni spurningu í Útsvari á föstudaginn var. Þar var spurt hversu margar plágur gengu yfir Egyptaland. Ég svaraði að bragði átta. En auðvitað voru þær tíu. Já, maður er fljótur að ryðga ef maður heldur sér ekki við.

En hvaða augum lítur tíðarandinn Biblíuna? Kannanir hafa víða verið gerðar þar sem spurt er um viðhorf fólks til Biblíunnar. Á meðal þess sem þær sýna er að ungt fólk lítur í vaxandi mæli öðrum augum á Biblíuna en eldri kynslóðir. Ungt fólk lítur síður á Biblíuna sem heilaga bók. Það efast gjarnan um uppruna hennar og áreiðanleika og lítur svo á að boðskapur hennar sé ekki frábrugðin boðskap annarra trúarrita. Þá er fólk einnig ólíklegra til að lesa Biblíuna eftir því sem það er yngra. Já, tíðarandinn er tortrygginn í garð Biblíunnar, eins og til svo margs annars, og það viðhorf skilar sér til ungs fólks.

En nú er það samt svo að Biblían stendur á traustum grunni. Ef við tökum dæmi af ritum Nýja testamentisins þá eru engin rit fornaldar til í jafn miklum fjölda handrita (sem hlaupa á mörg þúsundum) eða jafn gömlum handritum. Við getum því verið viss um að við séum að lesa Nýja testamentið eins og það var ritað. Nýja testamentið er líka algjörlega einstakt að því leyti hversu ótrúlega nálægt rit þess liggja þeim atburðum sem þau greina frá. Takið Pál postula sem dæmi. Elstu bréfin hans eru rituð á síðari hluta fimmta áratugar fyrstu aldar, þ.e. aðeins 15-20 árum eftir dauða Jesú. Og heimildir Páls eru auðvitað enn eldri. Á þessum tíma eru sjónarvottar að lífi og starfi Jesú enn á lífi. Það sama á við um guðspjöllin. Þetta vita ekki allir. Allt tal um síðari tíma goðsögur þegar Nýja testamentið er annars vegar er fráleitt. Við vitum líka af heimildum utan Nýja testamentisins og í gegnum fornleifarannsóknir að þar greinir frá sögulegum persónum sem uppi voru á sögulegum stað og tíma.

Ég held að oft séu þeir fyrirvarar sem fólk hefur gagnvart Biblíuna og kristinni trú af tilfinningalegum toga fremur en öðrum.

En því miður er það samt svo að margt kristið fólk áttar sig ekki á því hversu mikil áhrif tíðarandin hefur á viðhorf þess til Biblíunnar. Án þess að taka eftir því nálgast það Biblíuna með því hugarfari sem viðurkennt er af fjöldanum. Og það hefur áhrif. Jafnvel upp að því marki að litið er á Biblíuna sem aukaatriði, eitthvað sem skiptir ekki meginmáli fyrir það að vera kristinnar trúar, og megi því liggja á milli hluta.

Hvernig eigum við þá að líta á Biblíuna? Hvernig ber okkur, kristnu fólki, að umgangast hana?

Á meðal einkunnarorða Lúthers og siðbótarinnar var „Sola Scriptura“ eða „Ritningin ein“. Þau minna á að einungis Biblían er áreiðanlegur mælikvarði fyrir trú og breytni kristins fólks. Í gegnum Biblíuna sviptir Guð hulunni af sér og leiðir í ljós vilja sinn og ætlun. Það sem Biblían hefur að geyma í öllum sínum fjölbreytileika er sjálfsopinberun Guðs. Það er innihald hennar. Í gegnum Biblíuna, rit frá riti, testamenti til testamentis, flettir Guð ofan af sjálfum sér, sviptir hulunni af sér, rólega, skref fyrir skref, uns hann stendur frammi fyrir okkur í allri sinni dýrð í persónu Jesú frá Nasaret, hinu lifandi Orði sínu (sbr. Jóh 1.1 o.áfr.). Í Biblíunni er því að finna allt sem við þurfum að vita og trúa sem kristið fólk og er okkur nauðsynlegt til hjálpræðis.

„Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti,“ segir í 2. Tímóteusarbréfi (3.16). Biblían er innblásið orð Guðs, og sem slík er Biblían fullkomin, áreiðanleg, óskeikul og sönn. - Einhver sagði að til marks um það væru einmitt allar þær vondu prédikanir sem Biblían hefði staðið af sér í gegnum aldirnar. Sjálfsagt er eitthvað til í því.

En þegar maður talar um Biblíuna með þessu orðum þá fara margar bjöllur af stað hjá fólki og það stígur snarlega á bremsuna. Fullkomin! Óskeikul! Hvað áttu eiginlega við!?! Já, það er góð spurning.

Ég á ekki við að Biblían hafi dottið niður af himnum í núverandi mynd. Biblían er mannanna verk og ber margvísleg merki þess. Rit Biblíunnar eru skrifuð á löngu tímabili, af ólíku fólki, af ólíkum ástæðum og við ólíkar kringumstæður. Guð las ekki texta Biblíunnar upp fyrir höfunda hennar. En Guð kom hins vegar þeim aðstæðum í kring í sögunni, og talaði til manna í krafti anda síns með þeim hætti, að til varð fyrir hendur manna tiltekið safn rit sem við þekkjum í dag sem Biblíuna. Í þeirri merkingu er Biblían orð Guðs til okkar og miðlar huga hans og vilja.

Ég á ekki heldur við að Biblían sé óskeikul í öllu sem hún segir. Nei. En Biblían, sem orð Guðs, er sönn og rétt í því sem hún boðar og kennir. Til að taka einfalt dæmi má minnast á dæmisögu Jesú um mustarðskornið. Mustarðskornið er sagt vera hverju sáðkorni á jörðu smærra. Þegar það sprettur verður það öllum jurtum meiri og fuglar koma og hreiðra um sig á greinum þess (sbr. Mark 4.30 o.áfr.). En mustarðskorn er í reynd ekki minnsta sáðkorn á jörðu! Þýðir það að Biblían sé ónothæf og uppfull af staðleysum? Vitanlega ekki. Í dæmisögu sinni um mustarðskornið er Jesús ekki að fjalla um grasafræði heldur guðsríkið, sem hefst með litlu en verður öllu öðru meira. Það sama má segja um margt annað, eins og orð Jesú er hann segir: „Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga.“ Hér er auðsjáanlega um líkingarmál að ræða sem verður að skiljast sem svo.

Það má því segja sem svo að Biblían er ekki orð Guðs, hún flytur orð Guðs. Við verðum því að lesa Biblíuna á hennar eigin forsendum, þ.e. eins og hún kemur fyrir, rétt eins og hverja aðra bók. Og í því er bókstaflegur lestur og skilningur á Biblíunni fólginn. Við verðum að lesa ljóð sem ljóð; dæmisögu sem dæmisögu; táknmál sem táknmál; ýkjur sem ýkjur, sögulegan texta sem sögulegan texta o.s.frv. Við verðum að leitast heiðarlega við að skilja hvað Biblían er að segja í stað þess að lesa út henni það sem við viljum heyra. Við verðum að lesa Biblíuna í ljósi þess samhengis sem hún er sprottin af. Við getum ekki leyft okkur að lesa inn í Biblíuna það sem er viðtekið í dag en var framandi á þeim tíma er Biblían var rituð. Við þurfum að átta okkur á því hvers konar texta við erum að lesa hverju sinni og í ljósi þess leitast við að greina eða túlka merkinguna eða boðskapinn á bak við orðin. Þannig komumst við að þeim sannleika sem fólginn er í Biblíunni.

En það getur tekið tíma og kostað fyrirhöfn. Og einmitt af þeim ástæðum held ég að of margir gefist of fljótt upp á Biblíunni. Ekki vegna þess að hún er leiðinleg eða flókin heldur vegna þess að hún krefst tíma. En við megum ekki láta það gerast. Kristinn maður án Biblíunnar er eins og villtur maður án áttavita. Ef við hirðum ekki um Biblíuna þá slítum við trúna frá rótum sínum og skiljum hana eftir úti á berangri, samhengislausa og berskjaldaða. Sá sem vanrækir eða hafnar orði Guðs vanrækir eða hafnar Guði sjálfum.

Í dæmisögunni um sáðmanninn minnir Jesús okkur á að Guð getur ekki fundið sér stað hjá þeim sem vill ekki opna huga sinn og hjarta fyrir orði sínu. Það er því hverjum kristnum manni eiginlegt og nauðsynlegt að næra trú sína með því að lesa og íhuga reglulega orð Biblíunnar, því þar hittir hann fyrir Guð sjálfan. Og þegar við komum að Biblíunni í þeirri vitund þá finnum við að „orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Heb 4.12)

Ég hvet ykkur því til þess að taka ykkur tíma til að opna Biblíuna, helst strax í dag ef þið eigið lausa stund. Þið þurfið ekki að lesa mikið í einu. Það er hægt að koma að Biblíunni aftur. Nokkur vers eða stuttur kafli duga. En þegar þú lest þá skalt þú lesa með því hugarfari að Guð sjálfur sé að tala persónulega til þín og við þig. Og þú skalt spyrja Guð í bæn: „Drottinn minn og Guð minn, hvað viltu segja mér? Tala þú, ég hlusta.“ Ef þú gerir það þá munt þú heyra Guðs orð til þín. En mundu að það ert þú sem verður að opna hug þinn og hjarta. Að trúa er að svara orði Guðs og bregðast við því. Ef þú gerir það mun Guð gefa vöxtinn, já hundraðfaldann.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 4679.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar