Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Taugahagfræði, trú og traust

1. janúar 2010

Prédikun flutt í Neskirkju á nýársdag 2010 kl. 14.

Úr ræðunni:
Getur verið að í tilverunni, innst í eðli hennar, sé einhver jöfnunar-búnaður sem sér til þess að ofgnóttin jafnist út, að ofurhagur fárra sléttist út til þess að koma í veg fyrir algjört yfirlæti og hroka hinna hagsælu?

Texti ræðunnar er hér fyrir neðan en þú getur líka hlustað á ræðuna með því að smella hér.

Taugahagfræði, trú og traust

I.
Ég var að fletta gamalli bók með ævintýrum fyrir börn, bók sem ég átti þegar ég var drengur. Dótturdóttir mín settist hjá mér og hlustaði á söguna um Stígvélaða köttinn. Þar var líka að finna söguna um Gullfuglinn og fleiri góðar sögur. Barnasögur og ævintýri eru mikilvægar fyrir mannlífið. Þær geyma sannindi, andlega og menningarlega fjársjóði. Sögur Biblíunnar hafa sama hlutverki að gegna. Sagan um Adam og Evu í Paradís er til að mynda táknsaga, lykilsaga, til skilnings á mannlegu eðli og ástandi heimsins. Hún er saga sem aldrei gerðist sem slík en er samt alltaf að gerast því hún er sagan um mig og þig. Nýlega heyrði ég brot úr ræður í útvarpi sem Kristján heitinn Eldjárn, forseti, flutti að mig minnir við setningu Alþingis. Hann ræddi þar um réttlátt þjóðfélag og sagði eitthvað á þá leið að það hlyti að vera keppikefli allra en hins vegar yrði þjóðfélagið aldrei fullkomið vegna hins gamla Adams sem í okkur býr. Ég hjó eftir því að forsetinn fyrrverandi var með þetta mikilvæga atriði guðfræðinnar á hreinu. Hinn gamli Adam er í okkur öllum.

II.
Aldrei á minni lífsfæddri ævi hef ég hlustað á eins marga hagfræðinga og á liðnu ár. [Og þið hlægið. Blessaðir hagfræðingarnir okkar] Nýlega heyrði ég viðtal við fræðimanninn, Paul Zak, sem stundar vísindi þar sem fjallað er um traust, hagfræði og dyggðir. Hann kallar fræði sín taugahagfræði – neuro economics. Já, þú heyrðir rétt, ég sagði: taugahagfræði. Fljótt á litið mætti halda að hún fjallaði um taugar eða tengsl á milli manna – einskonar hagsmunatengsl eða þannig – en svo er ekki. Zak rannsakar taugaboð sem tengjast tiltekinni stöð í heilanum sem stjórnar trausti, samhygð og skilningi á heildarhagsmunum, samhenginu í lífi fólks. Trúarbrögðin skipta mannlífið höfuðmáli þegar kemur að dyggðum og gildum mannlífsins.
Hvað olli Hruninu á Íslandi? Í erindi sem Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ, flutti hér í Neskirkju í nóvember sagði hún m.a. um Hrunið:

„Ég er sannfærð um að ein meginástæðan fyrir því hvernig fór sé almennt og landlægt virðingarleysi fyrir lögum og reglum.“

Ef eitthvert vit er í kenningunum um taugahagfræði er þá Hrunið ef til vill afleiðing einskonar heilabilunar?
Nei, lífið er nú væntanlega ekki svo einfalt að svara meig slíkri spurningu með neii eða jái. Hins vegar er það skynsamleg kenning að traust manna á meðal sé forsenda heilbrigðs lífs og viðskipta. Ekkert þjóðfélag stenst án þess að traust ríki á meðal fólks í daglegum samskiptum og enn fremur í viðskiptum. Og er það ekki merkilegt sem Zak segir að um eða yfir 90% fólks breytir rétt í flestum tilvikum í samskiptum við náungann? Það gefur okkur nú von í trúnni á manninn. Traust byggir á trú, byggir á grunngildum sem trúarbrögðin boða að sé undirstaða heilbrigðs samfélags.

III.
Nú eru áramót og við stöndum á tímamótum. Búið er að samþykkja Icesave-málið á Alþingi og nú verðum við að horfa fram á veginn hver sem afstaða okkar kann annars að vera til þess hræðilega máls. Við verðum að vinna úr Hruninu á ærlegan og heiðarlegan hátt og með réttlæti og sannleika að leiðarljósi.

Við bíðum öll niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis. Gefið hefur verið í skyn að sú mynd sem dregin verður upp í skýrslunni verði dökk og dapurleg. Þar verða skilgreind mistök, vanræksla og sekt.

Aftur vitna ég í Salvöru sem talaði um uppgjör vegna Hrunsins:

„Vitaskuld er mikilvægt að finna sökudólga. Það hljóta einhverjir að bera ábyrgð á því að svo hörmulega fór fyrir heilli þjóð. En hvort sem einhverjir verða dregnir til ábyrgðar, eða hverjir það verða, megum við ekki gleyma því að ef raunverulegt endurmat á að eiga sér stað, verðum við einnig að horfast í augu við að ábyrgðin er ekki aðeins örfárra. Skýringarnar eru bæði flóknar og fjölmargar og flóknari en nokkur dómsmál munu megna að takast á við. Þær skýringar liggja að einhverju leyti í gildismati okkar, samfélagsgerð og starfsháttum. Og það er ekki nema við höfum kjark til að líta á atburðina í stærra samhengi að við eigum möguleika á því að breyta raunverulega einhverju í okkar samfélagi. Þá má ekki gleymast að slíkt endurmat getur ekki átt sér stað á mótmælafundum á Austurvelli, með fullri virðingu fyrir þeim, eða undir grjótkasti. Það getur einungis gerst með heilbrigðum skoðanaskiptum, einlægum vilja til að draga lærdóma af mistökum fortíðar og staðfestu og aga til að breyta í raun starfsháttum og fylgja lærdómunum eftir.“

IV.
Í dag er svonefndur áttidagur jóla, dagur ný upphafs. Liðnir eru átta dagar frá fæðingarhátíð frelsarans og skv. gyðinglegri hefð var sveinbarn umskorið á áttunda degi og gefið nafn. Og barnið frá Betlehem hlaut nafnið Jesús sem engillinn hafði boðað að hann skyldi hljóta áður en hann var getinn í móðurlífi. Nafnið Jesús merkir Guð frelsar, Guð bjargar. Við hefjum árið í nafni hans.

V.
Stundum er eins og all sé á uppleið allt gangi upp og heppnist, velsældin blómstri, hagsæld og hamingja haldist í hendur. En svo kemur niðursveiflan eða jafnvel algjört hrun. Getur verið að í tilverunni, innst í eðli hennar, sé einhver jöfnunar-búnaður sem sér til þess að ofgnóttin jafnist út, að ofurhagur fárra sléttist út til þess að koma í veg fyrir algjört yfirlæti og hroka hinna hagsælu?

Þegar Jesús hóf starf sitt og kom til Nasaret gekk hann að venju sinni í samkunduhúsið og las úr Jesaja spámanni. Þar er talað um „náðarár Drottins.“ (Lúk 4.19) Náðarár var fimmtugasta árið, þegar liðin voru sjö sinnum sjö ár eða fjörutíu og níu ár. Þá tók við fimmtugasta árið þegar allar fjárskuldbindingar voru gefnar upp, allt jafnað út og núllstillt, og allir stórsamningar voru látnir ganga til baka (5. Mós 15. kafli og 3. Mós 25. kafli). Menn gátu skv. þessum lögum ekki átt land lengur en í fimmtíu ár. Þá varð að skila því. Þannig var komið í veg fyrir óeðlilega auðsöfnun fárra einstaklinga og um leið ánauð fjöldans.

Eigum við ekki að kalla inn kvótann, kalla inn auðæfin sem gefin voru endurgjaldslaust. Ég held það. Við eigum að gera það með einum eða öðrum hætti og jafna út.

Var Hrunið einskonar náðarár? Átti það sér stað til þess að jafna allt út, taka af þeim ríku og jafna því út til hinna fátæku? Nei, því miður virðist sú ekki hafa verið raunin því það var, er og verður almenningur sem ber skaðann. Hrunið er mannanna verk, mannleg kerfi brugðust, hinn gamli Adam var þar að verki og hann er í okkur. En hinn nýi Adam, Kristur, sem aldrei brást og aldrei mun bregðast, mætir okkur hér í dag og vill fá að leiðbeina okkur á nýju ári. Við hefjum nýtt ár í nafni hans.

VI.
Lífið heldur áfram. Ef nýja árið verður ekki náðarár í anda þeirrar jöfnuna sem Jesús talaði um þá verður það náðarár í skilningi nærveru hins kærleiksríka skapara, hans sem gerðist maður í Jesú Kristi. Sú saga er ekki ævintýr, eins og um Stígvélaða köttinn eða Gullfuglinn, heldur raunveruleg saga. Í ljósi þess að Guð gerðist maður og varð einn af okkur skulum við ganga vondjörf til móts við framtíðina í öruggu trausti til þess að hann sem lítur þúsund árin sem daginn í gær og telur hverja atómsekúndu, hann er við völd, hann er með okkur. Lífið er í hendi hans.

Guð gefi okkur öllum gleðilegt nýtt ár.

Í Jesú nafni!

Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3533.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar