Trúin og lífið
Postillan


Undirsíður

Skyldar prédikanir

Kirkjuárið

Prédikanir á trú.is eru birtar undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í prédikunum

Guðrún Agnarsdóttir

„Góðar fréttir síðasta sólarhringinn“

Flutt 1. janúar 2010 í Langholtskirkju

Góðir kirkjugestir!

Gleðilegt nýtt ár.
Við komum hér saman á nýársdag til að fagna nýju ári og þakka árið sem nú er liðið og öll þau sem á undan fóru. Við höfum notið jólanna, vonandi sem flest í friðsælli samveru fjölskyldu og vina.

En samtíðin hefur gert stöðugt ágengari kröfur til okkar um íburð og glys á jólum og ærustan nær oft hámarki síðustu dagana fyrir jólin. Hún lokkar okkur til liðs við sig þannig að okkur reynist æ erfiðara að varðveita sýn á hinn einfalda en sterka boðskap jólanna. Einmitt um jólaleytið þegar menn gera sér dagamun er vert að hugleiða, að það sem þótti fágætur munaður liðinna kynslóða á jólum, er nær daglegt brauð hjá þorra þjóðarinnar nú. Þótt brauðstrit fyrri alda hafi ekki alltaf verið tekið út með sældinni, leita margir með söknuði þess einfaldleika og þeirrar kyrrðar sem í bernsku veitti hljóðláta helgi jólanna og reyndar lífsins endranær.

Á síðastliðnu ári hefur íslenska þjóðin þurft að mæta meiri erfiðleikum en áður. Sjálfar stoðir samfélags okkar virðast riða til falls. Því sem áður mátti treysta finnst fólki nú óöruggt og setur spurningarmerki við ýmsar grunneiningar samfélagsins. Reiði, ótti, örvænting og ásakanir hafa fundið sér farveg með reglubundnum hætti og þau sem kosin voru í vor til að reyna að mæta þeim vanda sem við blasir reyna hvað þau geta við lausn mála sem verða æ flóknari og umdeildari en varða skuldbindingar þjóðarinnar margar kynslóðir fram í tímann.

Vandinn virðist lenda þyngst á þeim sem stóðu veikast fyrir, öryrkjum og eldra fólki, en einnig á ungum barnafjölskyldum sem þurfa að greiða af lánum, einkum þeim sem bundin eru í erlendri mynt. Við vitum að það áttu ekki allir jafn auðvelt með að halda gleðileg jól. Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálpin og Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði krossinn, Hjálpræðisherinn og fleiri hafa aldrei fyrr þurft að aðstoða jafn marga einstaklinga með matargjöfum og stuðningi til jólahalds og nú.

Á jólunum, annarri aðalhátíð kristinna manna, leiðir boðskapur Biblíunnar okkur að barnsfæðingunni, undri sköpunarinnar. Hvers vegna velur Guð að senda manninum hjálpræði sitt í líkama lítils barns? Lítils barns sem fær ekki athvarf með foreldrum sínum í því húsnæði sem menn bjóða hverjir öðrum, en fæðist í hreysi. Hver eru skilaboð þess Guðs sem þannig ræður málum? Hvert vill hann beina sjónum okkar, hvað vill hann kenna okkur.

Nýja testamentið gefur okkur tvö boðorð sem eru öðrum meiri. Fyrst er þetta: „Þú skalt elska Drottinn Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum huga þínum og af öllum mætti þínum“. Annað er þetta: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“. Og þeim Drottni sem okkur er boðið að elska svo heitt er valinn bólstaður í varnarlausu barni umkomulausra og fátækra foreldra, náunga sem hafði verið úthýst. Og okkur eru gefnar ótal vísbendingar um það hverjir þeir náungar eru sem okkur ber að elska eins og okkur sjálf. Meðal þeirra eru hinir vanmáttugu, bersyndugu og fordæmdu, margir þeirra sem erfitt er að elska. Aftur og aftur leiðir Nýja testamentið okkur að því varnarlausa og snauða og vekur okkur til samkenndar og ábyrgðar.

Þetta meginboðorð, tvöfalda kærleiksboðorðið, gerir því miklar kröfur til okkar, kröfur sem oft er erfitt að svara. En margir í þjóðfélagi okkar vilja bregðast við vandanum með ábyrgum, uppbyggilegum hætti. Tólf hundruð einstaklingar valdir af handahófi úr Þjóðskrá og 300 boðaðir frá félagasamtökum og stofnunum komu til Þjóðfundar 14. nóvember sl. Ég átti þess kost að sækja þann fund og varð snortin af þeirri jákvæðni og þeim góða anda sem þar ríkti. Þar virtust allir komnir til þess að láta gott af sér leiða og leggja eitthvað jákvætt til málanna. Þar var auðvelt að skynja það sem við viljum trúa og metum mikils, að í raun séum við sem ein fjölskylda þegar á reynir.

Á Þjóðfundinum var fólki skipað niður á 162 borð, níu manns á hverju borði og valdi fólk þau gildi sem þeim fannst mestu máli skipta að yrðu leiðarljós fyrir þróun íslensks þjóðfélags. Helstu gildin voru heiðarleiki, virðing, réttlæti, jafnrétti, kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni, lýðræði, traust, jöfnuður, fjölskyldan, mannréttindi. Síðan valdi fólk þá málaflokka sem mikilvægastir þóttu og framtíðarsýnin byggðist á. Þessir málaflokkar voru: menntamál, atvinnulíf, umhverfismál, velferð, fjölskyldan, sjálfbærni, jafnrétti, stjórnsýsla og svo ýmis mál sem flokkuð voru sem tækifæri. Sú framtíðarsýn sem síðan spratt frá þessum grunni frá 1500 manns var mjög samhljóma, jákvæð og metnaðarfull. Hún speglaði einlæga drauma um betra líf og betra samfélag í landinu, byggt á þeim grunngildum sem fyrst voru nefnd. Allar þessar upplýsingar má finna á vefslóð um Þjóðfundinn. Þessi einstaki fundur útbjó gott veganesti fyrir þjóðina og þá sem hún velur til forustu. Tvennt fannst mér að hefði mátt bætast við gildin, svona eftir á að hyggja, og það er hófsemi og nægjusemi sem gætu reynst okkur vel til að mæta þeim vanda sem við blasir. Jólafastan minnti okkur á nauðsyn aðhalds og nægjusemi. Það er forn siður að fasta fyrir stórhátíðir áður en gengið var að gnægtarborði, ef til vill vegna þess að oft var þröngt í búi en ef til vill einnig til að minna okkur á að gæði lífsins eru ekki sjálfsögð. Eins og til að kenna okkur að meta þau, taka þeim með þakklæti og auðmýkt en ekki sem sjálfsögðum hlut.

Einn af textum þessa nýársdags er lexía úr 90. Davíðssálmi sem er bæn guðsmannsins Móse.

Þar erum við minnt á eilífðina, sköpunarverkið og hinn afmarkaða tíma sem okkur er skammtaður hér á jörð. Og erindi þessarar lexíu hefur einnig sérstakt gildi fyrir okkur Íslendinga, því það vísar til þjóðsöngs okkar. Þar segir:

”Drottinn, þú hefur verið oss athvarf, frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: ”Hverfið aftur, þér mannanna börn.” Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Síðar kemur: Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Þarna erum við minnt á það sem við vitum, að við erum gestir á þessari jörð, að lífið er tímabundin gjöf. Óendanlega dýrmæt gjöf sem mikilvægt er að fara vel með. Eins og fjöregg í höndum okkar. Verum þess minnug að við erum aðeins hluti af sköpunarverkinu, ekki herrar þess og þurfum að læra að lifa í sátt við það á þeim tíma sem okkur er skammtaður, hverju og einu. Gleymum því ekki heldur, í umgengni okkar, að við þurfum að skila jörðinni sem góðri vistarveru fyrir afkomendur okkar, fyrir þá sem á eftir koma. Og við erum minnt á að við þurfum að læra að telja daga vora þannig að við megum öðlast viturt hjarta. En hvernig teljum við daga vora í þeirri hraðskreiðu veröld tímaleysis sem við lifum í og erum með í að skapa? Hvernig vegum við þá og metum og hvernig verjum við þeim? Hvaða verkefni og forgangsröð veljum við dögum okkar þannig að hjarta okkar megi verða viturt? Hvernig getum við orðið boðberar góðra tíðinda, trúað á framtíðina, borið með okkur hin góðu gildi sem ekki bara 1500 manns á Þjóðfundi settu á blað en blunda í vitund svo margra sem telja má til hinnar stóru íslensku fjölskyldu, þeirra mörgu sem vilja endurreisa samfélag okkar úr þeim rústum sem það hefur ratað í. Nú hafa margir valið börnum gjafir fyrir jólin. En hvaða gjafir viljum við gefa þeim að veganesti fyrir lífið? Hverjar kröfur gerum við til okkar sjálfra og til samfélagsins fyrir hönd barnanna og hvernig samfélag viljum við byggja? Í lýðræðisþjóðfélagi eru gerðar til okkar kröfur um þátttöku og okkur er ætlað að mynda okkur skoðanir á því sem þarf að taka ákvarðanir um.

Afskiptaleysi, tómlæti og þögn eru verstu óvinir lýðræðisins og framfaranna og reynast hverju einu okkar þungbær í samskiptum við aðra. Vísum þeim öllum á bug og byrjum að rækta garðinn okkar, breytingin byrjar jú heima. Gefum þeim meiri tíma sem næst okkur standa, gefum okkur sjálfum meiri tíma, umfram allt, gefum börnunum og unglingunum meiri tíma. Hlúum hvert að öðru. Og gætum þess að hlúa að barninu í okkur sjálfum. Hvert og eitt okkar skiptir máli í því að mynda það almenningsálit sem leyfir ekki aðgerðaleysi, hvað þá vanrækslu í málefnum barna og unglinga. Þau eru á ábyrgð okkar allra. Mikið hefur verið rætt og réttilega um gróðureyðingu og uppblástur jarðvegs í landinu og vísað hefur verið til uppblásturs í þeim hluta þjóðernis okkar sem tungan er. En samlíkinguna má nota í öðru samhengi og vara við því að uppblástur kynni að næða jafnvel enn nær okkur ef við gætum ekki að. Alltof naumur tími til samvista gæti leyft vindum afskiptaleysis að sverfa að þeirri umhyggju sem við veitum og þiggjum og grafa undan þeirri mennsku og menningu sem sprettur af samskiptum fólks. Tryggasta aðferðin til að viðhalda íslenskri tungu er að tala hana. Þau börn sem njóta þess að fullorðið fólk hefur og gefur sér tíma til að tala við þau og lesa fyrir þau og horfa með þeim á sjónvarp og ræða efni þess, eiga síður á hættu að mál þeirra mengist og almennum þroska þeirra er betur borgið. Göngum ekki framhjá ranglæti, skiptum okkur af því, látum til okkar heyra. Látum ekki hugmyndir okkar um betri heim nema staðar við eldhúsborðið eða í sófanum fyrir framan sjónvarp eða útvarp, þeir heyra ekki til okkar sem þar tala. Látum ekki réttláta óánægju okkar lognast ofan í kaffibollann á vinnustað. Tökum saman á vandanum, leggjum hönd á plóginn, ótrúlegt hreyfiafl felst í samstöðunni, og saman getum við gert miklar breytingar til að bæta samfélag okkar.

En umfram allt, hugum að því jákvæða sem býr í íslensku samfélagi og í landinu sem við byggjum og í okkur sjálfum. Það er svo margt ef að er gáð eins og segir í kvæðinu. Það er svo margt jákvætt við að búa hér í þessu einstaka, fagra landi sem veitir okkur ómælda gleði og leggur okkur ábyrgð á herðar og ég er viss um að þegar þið farið að telja upp það jákvæða sem kemur í huga ykkar verður listinn langur og uppörvandi og vekur þakklæti og auðmýkt þrátt fyrir allt. Gefum okkur tíma til að njóta lífsgæðanna, stundarinnar, leyfum okkur að hvíla í andartakinu. Leyfum fegurðinni og friði og töfrum náttúrunnar að læðast að okkur og fylla hug okkar og hjarta og gleðjumst innilega yfir því að hafa fengið að verða til. Fengið lífið að gjöf. Lærum að velja dögum okkar þau viðfangsefni að glíman við þau megi gefa okkur viturt hjarta.

Á ráðstefnu norrænna kvenna, Nordisk forum, sem haldin var 1988 í Osló, gekk ég fram á bás þar sem norskar ömmur héldu til með sín skilaboð til umheimsins. Ég hef aldrei gleymt þeim og þau snerta mig alltaf þó ég hafi lesið þau oft. Þær höfðu fengið nóg af vondum fréttum um stríð og grimmd og skelfingu og nú vildu þær snúa við blaðinu og segja:

Góðar fréttir síðasta sólarhringinn.

Jörðin hélt áfram að snúast um öxul sinn eins og vanalega með þeim árangri að sólin kom alls staðar upp. Milljarðar fugla sungu og óendanlegur fjöldi blóma blómstraði. Jörðinni áskotnuðust 34000 ný og yndisleg mannanna börn. Skynsamleg, ástrík og hugdjörf verk voru unnin á hverri einustu sekúndu víðsvegar á jörðinni. Milljónir manna hættu við að segja eða gera eitthvað ógeðfellt. Nýjar og verulega góðar hugmyndir fæddust í hundraðþúsunda tali. Milljarðar manna hlógu, lærðu eitthvað nýtt, snertu hvern annan ástúðlega, elskuðu lífið og neituðu að gefast upp.

Okkur liði eflaust betur og lokuðum síður hlustum okkar ef við heyrðum meira af svona jákvæðum fréttum en nóg er af tilefnum til að flytja þær.

Megi nýja árið sem fer í hönd gera okkur að boðberum góðra tíðinda, færa okkur frið og farsæld og færa okkur nær hvert öðru þannig að við náum að stilla strengina til sameiginlegra góðra átaka. Guð gefi okkur gleðilegt ár.

Guðrún Agnarsdóttir

Um höfundinn

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og Þjóðkirkjan. Flettingar 1425.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar