Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Lena Rós Matthíasdóttir

Spádómlegur kærleikur ráðamanna

31. desember 2009

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjallið sem flutt var hér í dag segir frá því þegar Jesús reynir að opna augu vina sinna með gríðarlega góðri dæmisögu. Þar dregur hann fram myndmál sem var vel þekkt í samfélögum kringum miðjarðarhafið og er reyndar enn í dag. Myndmál fíkjutrésins. En til að skilja dæmisöguna betur þurfum við að vita inn í hvaða aðstæður hún er sögð. Jesús segir vinum sínum dæmisöguna vegna þess að honum hafði verið flutt fregn af dauða nokkurra Galíleubúa. Sá aburður fær reyndar ekki sérstakt vægi í frásögninni, en Jesús notfærir sér geðshræringu þeirra sem færðu honum fregnina og vitnar til annars atburðar þar sem saklaust fólk var einnig látið gjalda með lífi sínu er turn féll á það.

Hvor fyrir sig voru atburðirnir til þess fallnir að vekja með fólki bæði ugg og ótta, sorg og gríðarlega reiði. Fólkið varð ringlað og vildi leita raka, finna ástæðu fyrir því að svo hræðilega skyldi komið fyrir hinum látnu. Hvernig gátu þau mögulega átt þetta skilið. Gat verið að þau hafi hagað lífi sínu með röngum hætti? Voru þetta bara ömurlega sorgleg dæmi um það að maður uppsker eins og maður sáir?

Nei! Hér hvetur Jesús áheyrendur sína að falla frá öllum ásökunum í garð fólksins. Hann varar þau við því að setja samansem merki í milli syndugs lífernis og áfalla, hann leggur á það áherslu að þau sem þurfi að ganga gegnum erfiðleika í lífinu séu ekkert endilega meiri syndaselir en annað fólk. En um leið minnir hann vini sína á þá staðreynd, að ekkert í veröldinni geti komið í veg fyrir að fólk láti lífið. Enda er okkar eigið andlát, það eina sem við vitum með fullri vissu að yfir okkur muni koma. Um það söng okkar ástkæri Vilhjálmur Vilhjálmsson heitinn: „Eitt sinn verða allir menn að deyja!”

Einmitt þess vegna, hvetur Jesús okkur og segir að við eigum að líta á skyndilegt dauðsfall náunga okkar eða hræðilega atburði í kringum okkur sem viðvörun eða áminningu. Við eigum að láta slíkt opna augu okkar. Við þetta sérstaka tilefni, eða í framhaldi af frásögninni, kallar Jesús okkur til iðrunar. Sá sami og bað okkur að gjöra iðrun því himnaríkið væri í nánd, biður okkur hér að gjöra sinnaskipti, því annars munum við farast.
Þetta eru ákaflega sterk til orða tekið og vekur manni ugg að hugleiða eigin stöðu gagnvart orðum Jesú.

Ef þú gerir ekki sinnaskipti munt þú farast! Hér er nokkuð augljóst að Jesús er að tala um andlegan dauða, en ekki líkamlegan. Að þeim sem ekki er tamt að gjöra yðrun, þeim sem herða hjörtu sín og neita að lægja sig eða gera sinnaskipi, þeim verði ekki við bjargandi heldur farist þau. M.ö.o. þar sem áður var lifandi samband milli Guðs og manns, þar eyðist það eða í það minnsta bíður hnekki. Maðurinn fjarlægist Guð og stuðlar að eigin andlegum dauða.

Á dögum Jesú var syndaskilningurinn þannig að menn álitu þar haldast í hendur orsök og afleiðingu. Hafi maður með einhverjum hætti villst af leið, þá komi það í bakið á manni með einhverjum hætti. Og það eimir af þessari trú enn í dag, enda ekki að ástæðulausu, næstum daglega sjáum við þess merki. Reykingamaður fær lungnakrabba, ölvunarakstur endar með hræðilegum árekstri, áhættufíkillinn endar í fangelsi, óstjórn og aðhaldsleysi í fjárreiðum bankanna leiðir til hruns. Við erum alltaf að sjá þetta allt í kringum okkur og því ekki von að manni finnist stundum eins og manneskjan dragi til sín hræðilegu atburðina í lífinu.

En svo sjáum við líka hitt. Við sjáum barnið sem deyr úr krabbameini, yndislegu leikkonuna sem greinist með MND, húsbruna kortér fyrir jól sem rekja má til skelfilegs slyss, tengdafeðga sem fara í sjóinn, annar ferst en hinn lifir. Já, og við sjáum óstjórn og aðhaldsleysi í fjárreiðum bankanna sem leiðir til fjárhagslegs hruns og helsis hundruða fjölskyldna í einum vettvangi. Það allt sjáum við einnig og eigum erfiðar með að skilja.

En Jesús lætur ekki þar við sitja, heldur kemur með þessa flottu dæmisögu um fíkjutréð til að rökstyðja mál sitt: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmaninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.”

Ísraelar elskuðu Fíkjutrén sín og gera enn í dag. Þetta eru stór tré og veita gott skjól frá brennandi sólinni á heitum og þurrum sumardögum. En þeir elska líka tréð fyrir dásamlegu fíkjurnar sem á því vaxa. Hugsið ykkur bara að geta sótt sér unaðslegar dísætar og ferskar fíkjur út í garð. Það er því ákaflega skiljanlegt að Ísraelsmenn skuli halda því fram að garður sé ekki garður fyrr en í honum hafi tekist að rækta gott fíkjutré. Trén í dæmisögum Jesú minna okkur á manneskjuna og ávextirnir eru verkin hennar. Við getum því séð garðinn fyrir okkur sem landið okkar, Ísland. Við þurfum að rækta þann frjósama jarðveg sem leynist í garðinum okkar og hlúa að þeim plöntum sem þar standa, líka veikbyggðu plöntunum.

En þegar einhver deyr svo skyndilega líkt og kom fram í frásögn vina Jesú, þá stöndum við í raun frammi fyrir okkar eigin dauðdaga. Við erum harkalega minnt á hve hverful æfin er. Við erum minnt á það með skelfilegum hætti að ekkert er í hendi í þessu lífi. Á slíkum tímamótum er vert að hugleiða í hvaða sporum við stöndum gagnvart sjálfum okkur, lífinu og Guði. Spyrja spurninga sem skipta máli og athuga í fyllst alvöru, hvernig manneskjur við erum. Hvernig eru samskipti okkar við Guð? Erum við tilbúin að mæta Guði auglitis til auglitis? Hvernig nágrannar erum við? Hvaða augum lítur fjölskyldan okkur? Hvað verður um okkur sagt í minningarræðu? Já, hvernig spilum við úr þeim spilum sem við höfum á hendi?

Það þarf engan sérfræðing til að sjá að sem þjóð höfum við ekki náð að spila rétt úr þeim góðu spilum sem við höfðum og höfum enn, í hendi. Hrunið er staðreynd. Flest megum við blæða fyrir það. Árið 2009 hefur verið einkennilegt ár. Kannski er hægt að líkja því við Titanic slysið. Við rákumst á, við vorum í dágóðan tíma að átta okkur á hve alvarlegur vandinn væri, en sáum um síðir, svo ekki var um að villast að við myndum sökkva. Sumir fengu björgunarhringa og aðrir ekki.

Það er sárt til þess að hugsa að hundruð fjölskyldna skuli nú skrifa nýjan kafla í íslandssögunni þar sem ný tegund af fátækt verður til. Fátækt þar sem fólk hefur húsin sín, bílana, fötin og fínu ljósakrónuna, en ekkert fjárstreymi til að kaupa mat. Það er skelfilegt til þess að hugsa að stór hópur fólks skuli ekki geta látið af samviskusemi sinni, en láti þess í stað örorku eða atvinnuleysisbætur renna í skuldirnar og finni sig síðan þurfa að standa í löngum biðröðum í von um mat hjá Hjálparstofnun kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Rauða krossinum. Það er skelfilegt til þess að hugsa.
En í dag stöndum við hérna megin við þessa atburði og reynum, líkt og vinir Jesú, að skilja hvað í ósköpunum hafi eiginlega gerst. Þar höfum við hleypt hamnum í reiði okkar og það er gott. Það er partur af ferlinu sem tekur við eftir áfallið. Reiði, sorg, skortur á skilningi, ótti, kvíði. Allt eru það tilfinningar sem er eðlilegt að við göngum í gegnum. En ef við ætlum að staðnæmast í reiðinni, ef við ætlum að halda áfram að baula á hið háa Alþingi, þá erum við ekki á réttri leið.

Við verðum að gefa okkur sjálfum rúm til að staldra við og líta í eigin barm. Það þarf Ríkisstjórnin líka að gera, hvort heldur sem er fráfarandi, núverandi eða komandi. Já, ríkisstjórnir allra tíma. Hlutverk þeirra er að halda vöku sinni í spádómlegum kærleika gagnvart þegnum landsins. Spádómlegur kærleikur er líkur kærleika foreldris, sem sér lengra en börnin. Horfir fram í tímann og býr í haginn, vegna þess að börnin hafa ekki þá yfirsýn sem þarf til þess.

Ríkisstjórn þessa litla lands hefur nú sem fyrr verið skipuð fólki sem hefur allt sem til þarf. Er vel menntað, samviskusamt og harðduglegt hugsjónafólk. En það er bara ekki nóg að hafa gott fólk í forystuhlutverkum ef við hin dormum bara í einhvers konar andlegri leti. Yfirvaldið þarf á því að halda að við veitum þeim aðhald og gefum þeim ákveðinn tíma til að sanna sig.

Fráfarandi ríkisstjórn gerði sig seka um vanrækslu þegar kom að spámannlegu kærleikshlutverki hennar. Í Guðspjallinu minnir Jesús okkur á að það gerir engum gagn að benda á aðra og ásaka. Einmitt þess vegna verðum við að opna augu okkar fyrir því að í ríkisstjórn er fólk eins og ég og þú. Ef Jesús stæði hér í predikunarstólnum í dag, myndi hann segja okkur að leggja af að benda á og dæma. Hann myndi minna okkur á að það gæti alveg eins hafa verið við sjálf sem stóðum í þeim sporum að velja rangt. Hann myndi segja okkur með óbeinum orðum, með dæmisögu að það væri ekki síður okkar hlutverk að rétta skútuna af. Hann myndi gera það með dæmisögunni um Fíkjutréð og biðja okkur að gefa forustusauðunum tækifæri til að sanna sig.

Það er áskorun núverandi Ríkisstjórnar og allra ríkisstjórna um ókomna tíð að gleyma aldrei þessum grundvallar þætti í hlutverki sínu, að gefa spámannlegum kærleika rými við stýrið. Því eins og dæmin sanna, þá kallar sofandaháttur yfirvaldsins á gríðarlega reiði samfélagsins. Reiðin elur síðan af sér heift og hatur sem getur eyðilagt fólk og leitt heilu þjóðirnar til algerrar glötunar. Við þurfum ekki annað en að líta til heimalands Jesú til að sjá skýr dæmi um það í nútímanum.

En ríkisstjórn á hverjum tíma þarfnast þess einnig að hafa að baki sér þjóð sem styður og er tilbúin að gefa eitt ár enn. Kannski eru 13-18 ár einfaldlega of langur tími. Kannsku urðu árin svona mörg, einmitt vegna þess að þjóðin svaf? Kannski er hæfilegt að gera eins og með fíkjutréð, gefa þeim þrjú ár til að sanna sig, en endurskoða síðan árlega, í nafni kærleika hvort yfirvaldið skuli hvíla sig eða ekki. Dæmisagan um fíkjutréð minnir okkur ekki aðeins á að gefa hvort öðru annað tækifæri, hún minnir okkur um leið á að Guð er alltaf tilbúinn að gefa okkur mönnunum annað tækifæri.

Kannski lítur þjóðin ekki um öxl þetta árið, með söknuði og trega. Ég skal ekki fullyrða um það, þar verður hver og einn að skoða sjálfan sig. En kannski þörfnumst við þess framar öllu öðru að horfa yfir árið með stolti yfir því að hafa lært af því sem gerðist. Hysja síðan upp um okkur buxurnar og leggja af stað inn í nýja árið hnarreist og keik, full af von, sköpunarkrafti og gleði yfir því að bjartir tímar bíða handan við hornið. Við höfum einfaldlega allt of mikið með okkur til að leggjast í kör.

Guð gefi okkur öllum lífsgæði sem nægja til að lifa góðu lífi, náungagæsku til að umbera eitt ár enn, hagsæld og góða heilsu á nýju ári!

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3078.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar