Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Símeon og barnið

27. desember 2009

Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði: 
Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara 
eins og þú hefur heitið mér 
því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða, 
ljós til opinberunar heiðingjum
og til vegsemdar lýð þínum Ísrael. 
Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann. En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: „Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn. 
Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.“

Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hún hafði lifað sjö ár með manni sínum þegar hann dó og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögurra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem. 
Og er þau höfðu lokið öllu, sem lögmál Drottins bauð, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum. Lúk. 2. 25-40

Kæri söfnuður.

Jóladagarnir líða einn af öðrum. Brandajól bæta degi við eins og nú og auka fjölda jólaboða og bæta við messudögum en síður messugestum. Fólk fer á milli húsa og heimila, amma og afi fá að sjá meira af börnunum þessa daga en aðra. Myndin sem við blasir í guðspjallinu í dag, er því kunnugleg. Gamall maður með barn í fangi. Og eins og oft vill verða með gamla vitra menn með barn í fangi, segir einnig þessi óvenjulega hluti og eftirminnilega. Margur fullorðinn geymir í minni sínu eins og helgan dóm orð úr bernsku, sögð af afa eða ömmu við ungan svein eða meyju um framtíð og framtíðarhorfur. Jafnvel hafa orð af þessu tagi orðið þeim sem heyrðu að leiðarhnoða fyrir lífið.

Þegar þeir hinir vísu kirkjuleiðtogar völdu dagana kringum vetrarsólhvörf til að minnast fæðingar Jesúbarnsins, þá var ætlun þeirra að þegar guðspjallsfrásögnin um fæðinguna hefði verið lesin skyldi þess sérstaklega minnst inn í hvaða heim frelsarinn var fæddur og sendur og hvað það er sem hann frelsar frá og frelsar til. 
Og með guðspjallstextunum vildu þeir einnig svara spurningunni um það hvort hinn nýfæddi frelsari væri sá konungur gyðinga sem gyðingar sjálfir væntu.

Þess vegna ber að lesa á sunnudegi milli jóla og nýárs hið fallega guðspjall um Símeon, sem svarar þeirri spurningu. Þar er einnig sagt frá Önnu Betúelsdóttur, sem líka fagnaði Jesúbarninu, - og er í okkar samhengi eins og hún væri amman í sögunni.

Auðvitað voru hinir vísu kirkjufeður ekki endilega að hugsa um tímaröð. Ekki fekar en þeir væru að reyna að finna út hvenær nákvæmlega á árinu Jesús væri fæddur, eða hvaða ár. Það skiptir trúarlega séð, ekki miklu máli. Það sem skiptir máli að þeirra mati eins og okkar að frelsarinn fæddist á jörðu.

En þegar þetta guðspjall er valið er líka verið að hugsa um að áramótin eru framundan. Að hið gamla mætir hinu nýja í Símeoni og Jesú Kristi. Gamla Testamentið og Nýja Testamentið mætast. Í yfirfærðri merkingu mætast gamalt og nýtt við hver áramót.

Arían sem sungin verður hér á eftir úr Bach kantötunni: Nú kemur heimsins hjálparráð, er af Bachs hálfu fyrst og fremst hugsuð út frá hinu nýja kirkjuári, en hún gildir einnig um önnur áramót, og hún fær alveg sérstaka merkingu á þessum sunnudegi, þegar Jesús er færður í musterið að hætti gyðinga, en dvaldi ekki þar heldur dvelur í sinni kirkju. Textinn undirstrikar einmitt það: Kom Jesús, kom til kirkju þinnar og gef okkur blessað nýtt náðar ár.

Jólaguðspjallið kynnir frelsara heimsins fyrir heiminum. Strax á annan jóladag er allt annað stef ríkjandi. Það er stefið sem stríðir gegn friðsæld jólaatburðarins í fjárhúsinu þegar frelsarinn fæddist á jörðu. Við heyrum það hljóma í gegn í kliði öldurhúsanna og hinna yfirfull gistihúsa, og í stígvélaharki hermannanna sem vöktu yfir manntalinu , eða skattskráningunni að fyrirmælum hinnar rómversku yfirboðara hins hersetna lands. Þá eins og enn tvöþúsund árum síðar eru fylgifiskar hermennskunnar margir og ljótir. Við getum ekki og eigum ekki að horfa framhjá því, hlutlausum óvitandi augum, þó við dveljum ekki við þá heldur hvílum augun og hjartað alltaf við friðargjafann í jötunni. Ljósið skín í myrkrinu og við leitum að ljósinu til að sleppa frá myrkrinu.

Það var sem sagt komið annað stef strax í gær, annan jóla dag. Þá var Stefánsdagur. Þá er minnst hins fyrsta manns sem var myrtur vegna þess að hann játaði trú á Jesú Krist. Í dag 27. desember er dagur Jóhannesar postula og guðspjallamanns sem var hinn trúfasti vottur sannleikans og á morgun þann 28. er Barnadagurinn, þegar þess er minnst hvernig Heródes konungur lét deyða öll börn í Betlehem tveggja ára og yngri til þess að reyna að tryggja að Jesúbarninu yrði fyrirkomið. Og það hefði tekist ef Jósef hefði ekki flúið með Maríu og barnið alla leið til Egyptalands. 
Það er umhugsunarefni að Barnadagsins skuli ekki meira minnst í kirkjunum. Það er auðvitað skiljanlegt að vilja ekki tala um hin ofsóttu og deyddu börn í Betlehem, af því það er svo ljótur texti, en það er daglegt brauð að börn séu felld í Betlehem og nágrenni, sem og annarsstaðar. Við fáum fregnir af því í sjónvarpinu og við lesum um það í blöðunum eins og um sjálfsagða hluti sé að ræða. Þetta er harður heimur. Ekki minnst fyrir börn. Allur ófriður kemur fyrst og fremst niður á börnum. Á ófriðartímum falla börnin sjálf eða þau missa sína nánustu og verða munaðrlaus, eða götubörn. En einnig í hinni smæstu einingu ófriðarins, inni á heimilum fólks, eru það líka börnin sem líða mest og eru viðkvæmust fyrir afleiðingum ófriðar í öllum myndum.

Herodes gat auðvitað ekki skilið neina konungstign nema að pólitískum skilningi, og nýfæddur konungur var ógn við veldi hans. Því taldi hann sjálfsagt og nauðsynlegt að ryðja þeirri ógn úr vegi. 
Barnamorðin í Betlehem eru stöðug áminning um öll þau börn stór og smá sem rutt er úr vegi vegna þess að þau eru ógn við veldi einhvers þess sem setja vill sig í sæti Guðs. Þess vegna má aldrei gleyma þessum degi.

Og eins og í dag þegar hér er borið barn til skírnar í faðmi ástríkra foreldra umlukt hlýju og elsku stórfjölskyldunnar sem mun vaka yfir hverju andartaki og síðar hverju fótmáli til fullorðinsára og hugurinn fyllist af gleði yfir þeirri hamingju að eiga þetta barn og mega vera þetta barn, þá fær maður sting í hjartað vegna allra hinna sem ekki eiga kost á neinu þess háttar.

Hversvegna falla milljónir í hungsneyðum í Afríkuríkjum? Hversvegna getur ekki orðið friður milli Palestínu og Ísrael? 
Barnadagurinn sýnir okkur í allri sinni skelfingu þann heim sem frelsarinn er fæddur inn í og um leið sýnir hann hversvegna við þurfum svona mikið á frelsaranum að halda.
Barnadagurin minnir okkur á öll þau pólitísku morð sem hafa verið framin, og á þau sem eru í sárum eftir það. Barnadagurinn minnir á sorg þeirra.
Barnadagurinn minnir á mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi. Allir menn. Segir þar. Öll börn, segjum við.

Barnadagurinn minnir á öll börnin sem eru óvelkomin í þennan heim, og eiga engan að, alast jafnvel upp eins og dýr í búri á sérstökum stofnunum, eða alast upp á götunni, og eiga þar það eina markmið fyrir daginn að geta andað að sér óþverra sem eyðileggur hverja skýra hugsun, og líkamsstarfsemi þeirra, og fellir þau flest fyrir tólf ára aldur.
Og dagurinn minnir á börnin sem aldrei fá að fæðast af því að þeim er eytt í móðurkviði. Það eru börnin sem í nútímanum mætti kalla óhreinu börnin hennar Evu, af því að það má ekki tala um þau, til þess að særa ekki tilfinningar þeirra mæðra sem farið hafa í fóstureyðingu.

Við ættum að skammast okkar fyrir að hugsa ekki betur um þær mæður sem gengist hafa undir fóstureyðingu, og það má alveg einu gilda af hvaða ástæðu það var. 
Það eru særðar mæður, sem flestrar hverjar búa við innri sorg sem enginn talar um. Og þær eru margar. Rakel grætur börnin sín, segir Jeremía spámaður af öðru tilefni. Það var hermt upp á barnamorðin í Betlehem. Það má hafa það oftar í huga.

Kæri söfnuður. Þetta var líka sagt í fyrra, bara í annarri kirkju, og líkast til þarf að segja það nokkuð oft til viðbótar, en við fengum stuðning úr nýrri átt á þessum jólum.

Sá ágæti söngleikur Oliver sem frumsýndur var í gærkveldi í Þjóðleikhúsinu vekur athygli á stöðu barna í heiminum nú og vísar í leikskrá bæði í barnasáttmálann og umboðsmann barna þegar spurt er hvort sagan um Oliver Twist geti gerst nú. Fyrri hluti sögunnar sannarlega. Hann er alltaf að gerast. Og óhugnanlegar eru þær tölur um fangelsuð börn, ánauðug og seld börn, munaðarlaus börn og fátæk börn, sem þar koma fram.

Kæri söfnuður. 

Á meðan þið enn eruð að hugsa hvort presturinn hefði ekki átt að vera með glaðlegri predikun á þessum gleðiríka degi á jólahátíðinni þegar við fögnum jólabarninu og skírnarbarninu, skulum við minnast þess að styrkur kristinnar trúar birtist einmitt í því að þora að játa trúna andspænis öllu því óréttlæti, hörmungum, sjúkdómum og erfiðleikum sem mannlegt líf stendur frammi fyrir á öllum tímum. Líka á jólunum.

En styrkur kristinnar trúar felst einnig í því að gleyma sér ekki yfir því eða í því að sökkva sér niður í íhugun hins mislukkaða og hins slæma, að ekki sé sagt illa. Að horfa eftir ljósinu sem skin í myrkrinu.


Um það vitnar Simeon í guðspjallinu. Það er ekki myrkur. Það er ljós.Það er ljós sem ekki aðeins upplýsir sérhvern mann, heldur er það svo bjart að það lýsir upp sjálft myrkur dauðans. Þess vegna er lofsöngur Símeons sem hann syngur í guðspjallinu líka fastur liður í rítuali útfararathafnarinnar. Nú lætur þú Drottinn þjón þinn í friði fara.
Leyndardómur trúarinnar er ekki óhlutbundin hugmynd, og ekki spekikenning í ritverki heldur er það mynd Guðs í raunverulegri persónu:
Hann var í jötu lagður lágt.

Hann var í faðmi Simeons og Önnu. Hann var lítið barn með bleyju. Rétt eins og Erpur sem hér var skírður áðan.

Það er eins og til sérstakrar áherslu á guðspjallið hér í Langholtskirkju að þetta litla barn var borið í helgidóminn til að færa það Guði og fela það vernd hans og helga það Jesú Kristi í heilagri skírn.

Símeon svaraði spurningunni um konung gyðinga. En þeir tóku ekki við honum. Og þessi titill: Konungur gyðinga var í staðinn notaður honum háðungar, eins og þyrnikórónan og purpurakápan, og negld yfir höfði hans á krossinum að fyrirmælum Pílatusar: Jesús frá Nasaret. Konungur Gyðinga.

Símeon sá langt. Hann sá í einni andrá allan veg Jesúbarnsins á jörðu frá því hann var lagður í jötu til þess að hann var negldur á krossinn. 
Þess vegna segir hann:

„Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. 
Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn.
Og við móðurina segir hann: 
Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.“

Sannarlega má skilja þetta beinlínis sem orð til þeirrar móður sem missa mun barn sitt, og á við um allar mæður og feður sem það ganga í gegn um. Sannarlega er ekkert hlutskipti hræðilegra en að missa barn sitt.
En hér er vísar Símeon einnig til þess sársauka móðurinnar sem hún verður fyrir þegar hans eigin landsmenn hafna honum og vilja ekki þekkja hann. Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn.

Í yfirfærðri merkingu gildir þetta svo um kirkjuna sem á Maríu sér að fyrirmynd og reynir að vera leiðtoga sínum og lausnara trú í vitnisburði sínum og störfum öllum þegar hún mætir þeim sem til hennar leita. 
Lítið skírnarbarn í dag, einhver annar á morgun. Í dag sá sem gegnur inn til lífs á jörðu, á morgun sá sem gegnur inn til lífs á himnum.
Kirkjan biður þess að þjónusta hennar í helgidóminum sem í heimahúsum, í stól og á stéttum, við altari og aðra bænagjörð, við orgel og annan söng, í orðum og gjörðum , beri vitni um Jesú Krist.

Kæri söfnuður. Í samhljóðan við það vill svo heppilega til að arían sem nú fylgir er ekki bara ákall til Jesú Krists um það að hann vitji kirkju sinnar og gefi okkur blessað nýtt ár.

Miðhluti aríunnar er svohljóðandi bæn:

Gef að vaxi vegsemd nafns þíns, varðveit hina heilnæmu kenningu 
og blessa þá þjónustu sem fram fer í predikunarstól og við altari.

Það sé líka okkar bæn við lok þessa árs er við horfum fram til hins nýja.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum anda um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2024.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar