Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

ORÐIÐ – hugtök, rætur

25. desember 2009

Prédikun flutt í Neskirkju á jóladag 2009. Þú getur einnig hlustað á ræðuna með því að smella hér.

I.
Í gamalli sögu frá Indlandi er sagt frá 12 ára dreng sem dó eftir að hafa verið bitinn af snáki. Eitrið banaði honum og harmþrungnir foreldrarnir báru líkið að dyrum helgs manns. Þau sátu þrjú, lengi, lengi, sorgmædd yfir líkinu.

Loks reis faðirinn sorgmæddi á fætur, gekk að líki sonar síns, rétti út hendur sínar yfir fætur hans og sagði:

„Ég hef aldrei, alla ævi mína, unnið fyrir fjölskyldu mína sem skyldi.“ Og eitrið hvarf úr fótum drengsins. Þá reis móðirin harmþrungin á fætur, rétti út hendur sínar yfir brjóst drengsins og sagði: „Ég hef aldrei, alla mína ævi, elskað fjölskyldu mína sem skyldi.“ Og eitrið hvarf úr hjarta drengsins. Hinn helgi maður rétti þá út hendur sínar yfir höfuð drengsins og sagði: „Ég hef aldrei, alla ævi mína, í raun og veru trúað því sem ég hef boðað.“ Og eitrið hvarf úr höfði drengsins. Drengurinn reis upp og foreldrarnir stóðu á fætur ásamt hinum helga manni og allt þorpið dansaði af gleði fram á nótt.

Þetta er saga um heiðarleik, um að kannast við mistök sín, vanrækslu og syndir og um það hvernig sannleikurinn leysir, líknar og læknar.

II.
Nýlega var haldinn Þjóðfundur í Laugardalshöll og þar tjáði sig fjöldi fólks um Hrunið sem við höfum öll fundið fyrir svo um munar á liðnum mánuðum. Fólk var valið til þátttöku með slembiúrtaki og mæting var góð. Fólk sat á rökstólum þar sem beitt var sérstakri aðferð til að ná fram því sem máli skiptir. Hugtök svifu þar yfir vötnum fjöldi hugtaka og þau sem oftast voru nefnd í umræðunni voru þessi:

heiðarleiki, virðing, réttlæti og jafnrétti.

Lítum nánar á þessi orð.

Um hugtakið heiðarleika eru nefnd mörg dæmi í Stóru orðabókinni um íslenska málnotkun: Þar er talað um að vera heiðarlegur, vera ærlegur, grandvar, lastvar, vandaður, ráðvandur, að vanda ráð sitt, mega ekki vamm sitt vita, vera siðugur, siðlátur, siðsamur, gæta velsæmis, vera/þykja vammlaus, flekklaus, hreinlífur, frómur, frómlyndur, frómlundaður, frómhjartaður, hreinhjartaður.

Þá er rætt um hugtakið út frá samskiptum manna: að vera/þykja traustur, ábyggilegur, áreiðanlegur, halda í heiðri.

Loks er það tengt skilvísi: að standa í skilum, vera skilvís, skilsamur, skilamaður.

Orðið heiðarleiki er þrungið merkingu og hefur margar tilvísanir í gjörðir manna. Tökum eftir því að öll tilvikin sem nefnd eru vísa til verka, þess að vera og gera. Þetta hugtak er eins og kærleikurinn sem einungis er til sem verknaður en ekki eintóm hugsun eða heilabrot.

Ég rek ekki dæmi um hin hugtökin þrjú, virðingu, réttlæti og jafnrétti. Við vitum að þau hafa líka margar tilvísanir í verk okkar og gjörðir.

III.
Hrunið hefur afhjúpað marg í þjóðlífinu. Svipt hefur verið hulunni af ýmsu sem falið var og nú blasir við okkur alveg ný sýn á þjóðfélagið, valdið, hagsmunatengslin, spillinguna, sjálftökuna, þjófnaðinn. Og þjóðin kallar eftir heiðarleika, virðingu, réttlæti og jafnrétti. Og hún verður að fá svör við spurningum sínum. Það er samhengi milli orsaka og afleiðinga og þess vegna vill fólk fá hið sanna í ljós og að þau sem brugðust taki út sín málagjöld. Slíkt er hægt innan ramma réttar og laga, án haturs og hefndar – og meira að segja af kærleika og miskunnsemi, náð og fyrirgefningu. En þau gætu hins vegar orðið mörg sem þurfa að sitja af sér dóma í nýja fangelsinu sem ég leyfi mér að kalla, Mikla-Hrun.

Hvað merkja þessi hugtök sem fyrr voru nefnd: heiðarleiki, virðing, réttlæti og jafnrétti? Er nóg að fletta þeim upp í orðabókum til að skilja þau. Hvaða merkingu hafa orð yfir höfuð?

Og svo er það Orðið sjálft, hið mikla Orð, hið stóra Orð, hið eilífa Orð.

Jólaguðspjall Jóhannesar er af allt öðru tagi en hugljúf frásögn Lúkasar. María og Jósef eru ekki nefnd og reyndar engar dauðlegar persónur nema Jóhannes sem var undanfari Jesú. Engir hirðar eru þar heldur né englar, engin jata, ekkert fjárhús eða gistihús, bara texti, hugtök, heimspekileg orðræða í stað frásagnar: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.“

Orðið
- var
- var hjá Guði
var Guð!

Hér er talað á skáldlegan hátt og háfleygan. Enn glíma fræðimenn við að skilja hvers vegna Jóhannes notaði gríska orðið LOGOS sem þýtt er með hugtakinu ORÐ á íslensku. Logos merkir meira en orð. Það vísar til visku, alheims visku. Logos er mikilvægt hugtak í heimspeki, sálfræði, mælskufræði og trúarbragðafræði. Heraklítus lagði grunn að því í vestrænni heimspeki. Hjá honum merkir það uppspretta og grunnundirstaða alheimsins – kosmos. Sófistar notuðu hugtakið um samræðuna og Aristóteles notaði það um rökræður. Stóistar skildu hugtakið þannig að það vísaði til hins guðlega frumafls sem gefur öllu líf og fyllir alheiminn. Eftir að Gyðingdómur varð fyrir áhrifum frá hellenskri hugsun tók Fílon það upp í gyðinglegri heimspeki.

Jóhannes guðspjallamaður leggur Jesú að jöfnu við hugtakið Logos. Jesús er holdtekja Orðsins á jörðu, Orðsins sem allt hefur skapað. Jóhannes lítur einnig á Orðið sem guðlegt (theos). Trúvarnarmenn á 2. öld e.Kr. eins og til að mynda Jústiníus píslarvottur álitu Jesú hafa verið Logos eða Orð Guðs, aðgreint sem meðalgangara milli Guðs og heims.

Það tók aldir að íhuga merkingu hugtaksins Logos og enn eru menn að rannsaka þetta merkilega hugtak. Hins vegar er alveg ljóst hverju Jóhannes vildi koma á framfæri við lesendur sína og kristallast í 14. versi 1. kafla guðspjallsins: „Og Orðið varð hold . . . “ Guð gerðist maður, alheimsviskan, frumaflið sem skapaði allt sem er, gerðist manneskja af holdi og blóði. Jesús Kristur var og er Guð á jörðu.

Hann var ljósið í heiminn komið, ljósið sem sigrar myrkrið. Hann kom til að boða kærleika Guðs og réttlæti. Réttlæti er annað hugtak sem var ofarlega í hugum Þjóðfundargesta. Getur réttlæti og hin hugtökin þrjú sem fyrr voru nefnd, staðið ein og sér? Nei, þau hafa takmarkaða merkingu og jafnvel enga án tilvísunar. Tökum hugtakið réttlæti sem dæmi. Er átt við kristið réttlæti, islamskt, búddhískt, hindúískt, húmanískt, trúlaust, kommúnískt réttlæti? Hverskonar réttlæti er átt við.

IV.
Þjóðfundur og hrun, orð og hugtök, trú og lífsskoðanir. Íslenska þjóðin stendur á krossgötum. Hvert skal halda? Vill þjóðin kasta þeim gildum sem hún hefur átt um aldir? Vill hún taka upp ný gildi, ný viðmið? Hún er búin að reyna trúna á manninn, á getu mannsins og útrás hans í ofsafengnu kapphlaupi og sókn eftir veraldlegum gæðum. Að gera manninn að guði er ekki betri trúargrunnur en stokkar og steinar. Maðurinn er gallagripur. Ef hrunið hefur kennt okkur eitthvað þá er það það að trúin á manninn er heimskuleg og hættuleg trú. En samt verðum við að trúa á manninn, ekki sem grundvöll trúar, heldur til að blása í hann og okkur sjálf, von og trú á framtíðina? Þannig verður við að trúa á okkur sjálf og getu okkar.

Hvert höldum við núna? Við höldum áfram með því að ganga í okkur og vera heiðarleg eins og fólkið í indversku sögunni sem lærði í áfalli og sorg að segja satt og ganga til móts við Ljósið. Og eins og þið munið þá var dansað og sungið í sögunni. Lífið er dásamlegt þrátt fyrir hrun og mótlæti, lífið er fullt af gleðiefnum, væri ekki svo hefðum við auðvitað átt að fresta jólunum vegna hrunsins, loka leikhúsum og tónleikasölum, rífa sviðin, slíta strengi strokhljóðfæra, stífla lúðra, skera skinn úr pákum, setja bann á skemmtanir. Nei, þannig er lífið ekki og verður aldrei. Fólk sem syrgir þarf að hlæja og gleðjast, sjá hið skoplega í gegnum tárin og halda þannig áfram að lifa í heimi Guðs sem gengur með okkur og skilur okkur v.þ.a. hann „er og var og verður“ einn af okkur. „Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“

Við höfum ástæðu til að fagna!

Gleðileg jól í Jesú nafni, gleðileg jól!

Amen.

Textar:
Lexía: Jes 62.10-12

Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Pistill: Tít 3.4-7
En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Guðspjall: Jóh 1.1-14
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3920.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar