Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Innar og nær

24. desember 2009

Prédikun í Neskirkju á aðfangadag jóla kl. 18. Ræðuna er jafnframt hægt að hlusta á með því að smella hér.

Þrír vitringar tóku áskorun um að finna stað sem í hugum fólks var hellir visku og lífs. Þeir undirbjuggu sig vandlega fyrir krefjandi og erfiða ferð. Þegar þeir loks fundu hellinn sáu þeir að hans var gætt af varðmanni. Þeir fengu ekki að fara inn fyrr en þeir höfðu rætt við hann. Hann lagði fyrir þá eina spurningu og bað þá að svara ekki fyrr en þeir hefðu ráðfært sig hver við annan. Hann fullvissaði þá um að þeir myndu fá góðan leiðsögumann til þess að sýna þeim öll svæði hellisins. Spurning varðarins var ofur einföld: Hversu langt inn í helli visku og lífs viljið þið fara?

Ferðalangarnir þrír lögðu á ráðin og sneru sér síðan að verðinum. Svar þeirra var þetta: Ó, ekkert mjög langt. Við viljum bara fá að kíkja rétt inn til að geta sagt að við höfum verið þar.

Vörðurinn, sem leyndi vonbrigðum sínum vandlega, kallaði á leiðsögumann til að fara með hina þrjá leitandi menn spölkorn inn í hellinn þar sem þeir stöldruðu við andartak. Síðan héldu þeir aftur heim á leið. Vörðurinn horfði hugsi á eftir þeim þar til þeir hurfu í fjarska.

Í tvö þúsund ár hefur fólk komið í helli visku og lífs, svo milljónum skiptir, komið í fjárhús jólaguðspjallsins og horft á jólabarnið, en hversu langt hefur fólk gegnið inn og skoðað þennan mikla „helli visku og lífs“?

Við höfum gengið langan veg og undirbúið þessa stund vandlega. Jólin eru mikil hátíð hér á landi og víða um heim. Miklu er til kostað og vonandi finnum við það sem við leitum að og þörfnumst mest. Engan viðburð þekki ég eða hef reynt á allri minni ævi sem hefur sömu dýpt og skapar sömu kennd og jólin. Bernskujólin með ljósum sínum og einfaldleika lifa í hjarta mínu sem tær og fögur minning. Og enn hrífa jólin mig. Á sama tíma finn ég til söknuðar vegna ástvina sem horfnir eru og áttu þátt í að skapa þennan hugljúfa anda jólanna forðum. Þá finn ég einnig til sorgar yfir aðstæðum fólks víða um heim. Nærtækt er að vísa til ástandsins í Palestínu þar sem virðist vera frjór jarðvegur fyrir tortryggni, hatur og hefndarhug. Því miður. Forystumenn kristinnar kirkju í Palestínu hafa sent frá sér, „Kairos skjalið um Palestínu“. Í því er ákall til kirkna heimsins um að þær fjalli um óréttinn sem þar viðgengst. (Sjá nánar á vefsíðu minni).

Nýlega jarðsöng ég gamla konu. Hún hafði oft rifjað upp með dótturdóttur sinni jólaguðspjallið og alltaf fann amma til með Jósef, Maríu og Jesú sem voru fátækt flóttafólk. Gamla konan sá þau ætíð í félagslegu samhengi. Þetta man unga konan af helgum stundum með ömmu sinni. Og enn er fólk á flótta undan vondu valdi og illa innrættum mönnum. Við höfum verk að vinna í myrkum heimi. Hið eina sem heimurinn þarf til þess að læknast er ljós og elska.

Þessi árstími einkennist af sterkum andstæðum. Ljósin glitra í næturmyrkrinu eins og bænir um meira ljós, meiri birtu. „Aftur að sólunni sveigir nú heimskautið kalda“, orti Matthías Jochumsson, sem þekkti á eigin sál og skinni að veturinn og lífið getur verið erfitt og grimmt. Hann varð ítrekað fyrir sárum missi. Hann orti um vonina, um vaxandi birtu, um nýja afstöðu jarðar til hinnar vermandi sólar. Já, heimsskautið hallar sér aftur að sólinni og það mun birta á ný. Við náum okkur eftir Hrunið. Lífið heldur áfram.

Fólk af ólíkum trúarbrögðum fagnar þessari breytingu í náttúrunni sem nú er orðin. Kristnir menn hafa fleiru að fagna. Við fögnum því þó mest að veröldin hefur eignast vin. Á andlegri Facebook okkar hefur birst tilkynning um að vinur vilji ná sambandi. Og við þurfum að samþykkja hann sem vin, hann sem kom sem barn og var lagður í jötu. Hann er tákn visku og lífs. Hann er ímynd hellisins eftirsótta. Hversu langt viljum við ganga til að kynnast honum betur? Fær hann að vera á heimasíðu okkar, innst á Facebook hjartans?

Guð gerðist maður í Jesú Kristi. Hann birti okkur vináttu sína, skilyrðislausa elsku. Hann þráir samfélag um það sem mestu skiptir og er innst í kjarna tilverunnar. Kjarni tilverunnar er elska og hann vill gefa okkur hlutdeild í þeim kjarna, hlutabréf í stærstu samsteypu veraldar, bréf sem halda verðgildi sínu sama hvað á dynur. Útrás hans mistókst ekki. Hún er enn í fullum gangi – útrás elskunnar.

Undur holdtekjunnar, þess að Guð gerðist maður, er að í Jesú eru okkur flutt þau tíðindi að Guð og mannkyn eigi samleið, séu ætluð hvort öðru. Guð elskar okkur, líkama okkar og sál, hugsun og drauma, hann leikur sér að efninu, talar til okkar í kvörkum, frumeindum og sameindum, vetrarbrautum, sólkerfum og svartholum, sólarupprás og sólarlagi, vetri, sumri, vori og hausti; í blóði, vessum og beinum; fólki af ólíkum uppruna, útliti og menningu, kyni, kynhneigð og tjáningu. Og svo talar hann til okkar í þjáningu náungans. Jólaguðspjallið tjáir okkur að Guð valdi að verða manneskja, valdi að þekkja okkar líf og kjör frá getnaði til grafar, í gleði og raun, allt frá hamingju og hlátri í samskiptum við fólk af öllu tagi til ólýsandi harms og þjáningar á krossins tré.

Í hinum forna átrúnaði norrænna manna og kelta var og er sólhvörfum fagnað. Okkur sem nú lifum er ljóst að um þúsaldir hafa menn dýrkað sólina og haldið hátíð við vetrarsólhvörf. Innst í öllum mönnum er þrá eftir skilningi á hinu stóra samhengi og sameiningu við guðdóminn, við ljósið eilífa. Íslendingum fyrr á öldum reyndist auðvelt að sjá fæðingu Krists í samhengi og samtali myrkurs og ljóss, hans sem var og er ljós heimsins, ljósið yfir öllu öðru ljósi, meiri en allt annað ljós, meiri en sólin sjálf, eins og Þorkell máni Þorsteinsson, barnabarn, Ingólfs Arnarsonar, landnámsmanns, vissi er hann: „lét sig bera í sólargeisla í banasótt sinni og fal sig á hendi þeim guði, er sólina hafði skapað.“ Hann skildi að sólin á sér upphaf í skapandi huga Guðs og þessi sami Guð, frumaflið í heiminum, frumglæðir ljóssins, hann er orðinn einn af okkur. Fæðing Jesú Krists í þennan heim er bænasvar Guðs til allra þeirra sem staðið hafa við Stonehenge og blótstalla veraldar frá upphafi í leit að ljósi og sannleika. Við þurfum ekki að leita lengur. Við þurfum bara að leita dýpra, skilja betur, tileinka okkur boðskapinn af heilum hug, heilu hjarta.

Prestur og rithöfundur frá Wales segir að þar í landi í hverri uppstillingu af fjárhúsinu í Betlehem sé ætíð höfð með stytta af þvottakonu sem stendur hjá Maríu og Jósef við jötuna. Samkvæmt velskri hefð er litið svo á að ef Jesús fæðist ekki daglega inn í hefðbundna fjölskyldu þá sé í raun eingin ástæða til að fagna fæðingunni í Betlehem. Fæðing Jesú, svo einstæð sem hún var, er um leið almenn, sýnir okkur helgi sérhvers barns, sem ofið var í móðurkviði af anda Guðs. Fæðing Jesú minnir okkur á að sérhvert heimili er Guði kært. Þú ert barnið hans, þú sem varst ofinn í myrkum helli, í móðurkviði, þú ert nú kominn í annan helli, helli visku og lífs, í fjárhúsið í Betlehem, að jötu frelsarans. Hversu langt vilt þú ganga? Viltu leyfa Jesú Kristi að vaxa innra með þér? Viltu leyfa hugsjónum hans og gildum um betri heim, fegurri og hreinni, vaxa innra með þér? Þá ertu á réttum stað, í helli visku og lífs, við jötuna. Láttu þér ekki nægja að kíkja bara inn í gættina. Farðu dýpra, gakktu lengra, treystu leiðsögn himneskrar elsku og ljóss og þú munt finna að þú og Guð eruð eitt, þú ert í Guði og Guð í þér.

Guð er ekki fjarri. Hann er hér – Immanúel, Guð með oss, Guð í barninu Jesú Kristi, Guð í náunga þínum. Hann horfir á þig úr sérhverju andliti sem á vegi þínum verður. Hann er í augum ástvinar þíns, í gleði og sorg, í lífi og dauða, hann er þar því þú og ástvinur þinn og náunginn eruð öll af einum og sama stofni.

Neskirkja vill, eins og aðrar kristnar kirkjur, stuðla að einingu og friði meðal einstaklinga og þjóða, auka dýpt og þroska safnaðarfólks. Starf kirkjunnar miðar að því að einstaklingar finni tilgang með lífi sínu, dýpki skilning sinn á tilvist og trú, eflist í samskiptum við annað fólk og finni hamingjuleiðina sem felst í því að lifa fyrir aðra. Í því augnamiði er safnaðarstarfið skipulagt. Á nýju ári verður boðið upp á margskonar námskeið á þriðjudögum frá miðjum janúar til vors. Svo eru messurnar hér fullar af gleði og lífi. Spurðu bara þau sem koma reglulega til kirkju. Komdu innar, leitaðu á dýptina, „legg þú á djúpið“.

Nú þegar við fögnum fæðingu Jesú og skynjum í guðspjallinu skarkalann í Betlehem forðum, skulum við leyfa hefðinni að síast inn í okkur, hefðinni sem boðar það að Guð birtist á hverri tíð, mitt á meðal okkar, í náunga okkar, í vinum – og líka óvinum! Alls staðar minnir Guð á að fólk þarfnast elsku, fyrirgefningar, umhyggju.
Förum dýpra, göngum lengra inn í elsku og frið himinsins.

Guð er hér og hann segir við þig í boðskap helgra jóla: Þú ert mín, þú ert minn, þú ert barnið mitt og ég mun gæta þín, nú og að eilífu.

Gakktu innar, komdu dýpra inn í helli visku og lífs og þú munt finna það sem hjarta þitt þráir.
Guð geymi þig og Guð gefi þér og ástvinum þínum gleðileg jól.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2565.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar