Trúin og lífið
Postillan


Undirsíður

Eftir sama prédikara

Skyldar prédikanir

Kirkjuárið

Prédikanir á trú.is eru birtar undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í prédikunum

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Fyrirmyndir

Flutt 31. desember 2009 í Langholtskirkju

En þetta vil ég hugfesta
og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín.
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður
eftir hjálp Drottins.

Rannsökum breytni vora og prófum
og snúum aftur til Drottins.
Fórnum hjarta og höndum
til Guðs í himninum. Hlj 3.21-26, 40-41

Hvernig líður þér á gamlárskvöldi?
Að loknu þessu ári.
2009.

Eins og alltaf þegar ár rennur sitt skeið og nýtt ár byrjar, lítum við um öxl og hugleiðum reynslu okkar. Endurlifum í huganum það sem við gengum í gegnum á liðnu ári og upplifum jafnvel aftur tilfinningarnar sem fylgdu því. Sumar góðar og öryggisveitandi – aðrar sárar og óróavekjandi. Þessar tilfinningar verða okkur efniviður í markmið og ásetning með lífi okkar í framtíðinni. Á árinu sem senn gengur í garð.

Á grundvelli þeirrar reynslu sem við höfum öðlast metum við okkur sjálf, hvar við stöndum og hvert við viljum fara. Á áramótum viljum við gjarnan horfa í eigin barm, eins og segir í lexíu dagsins úr Harmljóðunum: „Rannsökum breytni vora og prófum og snúum aftur til Drottins.“

Við gerum þetta líka sem þjóð. Um áramótin tölum við t.d. mikið um landið okkar og fólkið okkar. Við íhugum hver það eru sem okkur finnst hafa staðið upp úr á einhvern hátt og rifjum upp atburði þar sem illa var haldið á spöðunum. Ýmsir fjölmiðlar leyfa okkur að tjá þetta með því að velja mann eða konu ársins.

Þau sem fá atkvæði í slíku vali þykja hafa skarað fram úr á ákveðnum sviðum og veitt öðrum innblástur. Val sem þetta er mikilvægt af því það beinir kastljósinu að því sem skiptir okkur máli og við teljum gagnlegt og æskilegt. Það, hvernig við veljum menn og konur ársins, segir okkur líka heilmikið um gildin sem samfélagið okkar kann að meta. 

Þess vegna ætlum við að tala um fyrirmyndir í kvöld. Við ætlum að tala um fyrirmyndirnar okkar á árinu 2009 og um fyrirmyndirnar okkar á árinu 2010.

• • •

Gildin sem fyrirmyndirnar miðla okkur spretta upp úr reynslu þjóðar sem hefur lifað góða og erfiða tíma. Einstaklingar og þjóð sem hefur reynt áföll og erfiðleika, velgengni og sigra, kann að meta góðar fyrirmyndir. Við þessi áramót kunnum við sérstaklega að meta þau sem hjálpa okkur að öðlast trúna á samfélagið að nýju, eftir að svo margt hefur komið í ljós sem kastar rýrð á innviði þess og almenn heilindi.

Þetta sjáum við t.d. í þeim tilnefningum sem oftast komu fram í valinu á manni ársins 2009 á Rás 2. Edda Heiðrún Backmann birti okkur hugrekki og örlæti sem varð mörgum innblástur til að láta gott af sér leiða, þegar söfnun fyrir uppbyggingu Grensásdeildarinnar stóð yfir í haust. Guðmundur Sesar Magnússon sem fórst með bátnum sínum en varð unga manninum sem var með í för svo mikil hughreysting að hann fékk kraft til að bjarga sér, er okkur vitnisburður um hvernig manneskjan getur verið verkfæri hins góða, verkfæri Guðs, sem kemur öðrum til hjálpar.

Þau eru fyrirmyndir.

Fólk eins og Edda Heiðrún og Guðmundur Sesar kenna okkur kannski frekar en margt annað, að sjá fegurðina og reisnina sem býr í manneskjunni. Þessu tvennu megum við ekki gleyma. Kristín Ómarsdóttir skrifaði ljóðabók sem kom út í fyrra og heitir Sjáðu fegurð þína.

Kristín er lunkið skáld og hún fjallar í ljóðunum sínum um það hvernig manneskjan er falleg frá ýmsum sjónarhornum. Hún skrifar um fegurð manneskjunnar í tímanum, dauðanum, heimilislífinu, handjárnum, skáldskapnum, kynlífinu, draumunum, kaffinu, moldinni, tunglskininu og augnskuggum.

Þetta er það sem hversdagurinn er samansettur úr – og kannski er boðskapur skáldsins sá að fegurðin og reisnin sé einmitt fólgin í því að vera manneskja í hversdeginum og að leyfa sér að vera manneskja í veikleika sem styrkleika, í gleði og sorg. Fyrir áföll og eftir þau.

Verkefnin sem blasa við á nýju ári eru hvorki fá né smá. Sum eru jafnvel hættuleg og afar sársaukafull. Tvö má nefna hér í kvöld. Þau tengjast samfélaginu okkar öllu og því hvernig við getum þurft að endurskoða og endurmeta það. Síðustu vikur og mánuði hefur komið í ljós, það sem margir neituðu að trúa, að hér á landi hefur farið fram mansal og kerfisbundin misnotkun á konum og stúlkum.

Þessi starfsemi kom ekki síst upp á yfirborðið vegna framgöngu ungrar litháískrar konu sem braust undan mansali og vændi. Hún ætlar að bera vitni gegn kúgurum sínum og ofbeldismönnum fyrir dómi. Hún stendur fast á reisn sinni og kröfu um réttlæti í samfélaginu, þrátt fyrir krepptar aðstæður.

Hún er fyrirmynd.

Hitt verkefnið snertir samfélagið okkar og það sem hefur farið úrskeiðis í innviðum þess. Eftir einn mánuð fáum við að lesa niðurstöður sannleiksnefndarinnar svokölluðu, sem alþingi skipaði til að fara ofan í saumana á aðdraganda Hrunsins.

Formaður nefndarinnar hefur sagt að engin nefnd hafi þurft að færa þjóðinni eins slæmar fréttir. Við vitum ekki hvað skýrslan mun innihalda. En við vitum að við þurfum að taka við henni og vinna úr því sem þar kemur fram. Það er okkar verkefni.

• • •

En fyrir hvað viljum við standa?

Á þjóðfundi sem haldinn var í nóvember síðastliðnum komu saman rúmlega 1200 manns. Eftir þjóðfundinn liggur ákveðin stefnumörkun fyrir þjóðina okkar á því ári sem nú gengur í garð, tólf gildi samfélags, sem marka leiðina til framtíðar og orða það sem skiptir okkur sem þjóð máli.

Þessi gildi eru: heiðarleiki, virðing, réttlæti, jafnrétti, frelsi, kærleikur, ábyrgð, fjölskylda, lýðræði, jöfnuður, sjálfbærni og traust. Hugtökin tólf draga upp mynd af samfélagi þar sem hver einstaklingur er virtur og rækt er lögð við hann og við nærsamfélagið.

Þetta samfélag einkennist af tvennu: umhyggju og von.

Umhyggja beinist að þeim verkefnum sem eru á borði okkar hér og nú. Að fólkinu sem við mætum í dagsins önn, að þeim sem minna mega sín í samfélaginu og að þörfum okkar sjálfra. Hún kallar á forgangsröðun í eigin lífi og umgengni við annað fólk, umhverfi og auðlindir.

Von er sýn okkar á framtíðina. Án vonar virðist lífið lítils virði. Í von öðlumst við kraft og hugrekki til að halda inn í nýtt ár, nýjan áratug og nýtt skeið í lífi þjóðar.

Við viljum búa í og búa til og byggja saman samfélag sem er vongott og bjartsýnt og hugrakkt. Út frá því getum við sagt:

Fólk ársins er fólkið hefur trú á samfélaginu okkar.

Fólk ársins er fólkið sem er tilbúið að takast saman á við ástæður og afleiðingar Hrunsins og vinna að sátt.

Fólk ársins er fólkið sem heldur áfram að koma börnum til manns, nærir náunga sinn, greiðir götu réttlætisins, býr öldruðum áhyggjulaust ævikvöld og horfir í von til framtíðar.

Það eru fyrirmyndirnar okkar allra.

Þetta er verkefnið okkar – um áramót og á nýju ári – og við skulum vinna það af einurð og þrautseigju og takast saman á við uppbyggingu samfélags. Við skulum ganga saman í nýtt ár, með umhyggju í hjarta og von í augum.

Við skulum vera fyrirmyndir - og fólk ársins.

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og Þjóðkirkjan. Flettingar 2288.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar