Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

Einn er vegur allra…

15. nóvember 2009

Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt. Matt. 11.25-30

Vertu Guð faðir, faðir minn
Í frelsarans Jesú nafni
Hönd þín leiði mig út og inn
Svo allri synd ég hafni.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Bænin þessi, sem við biðjum svo gjarnan í upphafi predikunar er náttúrlega frá Hallgrími Péturssyni komin, úr 44. passíusálmi og kveðjan, sem er upphaf hverrar predikunar, er komin frá Páli postula. Báðir lærðu þeir að ávarpa Guð sem föður. Jesús kenndi þeim það og hann gerði það einmitt sjálfur. Aðallega til að undirstrika að Guð er eins og góður faðir, nálægur, ástríkur, leiðandi og styðjandi. Einhver vildi kannski í þessu augnabliki spyrja um móðurina. Já, hún er þar líka, sannarlega. María móðir Drottins vitnar um það. Sérhver góð móðir staðfestir þann vitnisburð. En á dögum Jesú var Guð fjarlægur, bæði í hugmynd og veruleika umhverfisins. Jesús dregur verund hans að lífi mannsins, inn í fjölskyldulífið sem föður alls sem er, föður hvers og eins.
Nærvera foreldris skiptir sérhvert barn öllu máli. Von hvers barns er foreldrar þess, hvort um sig og bæði saman. Ef annað hvort bregst er jörðin skekin í tilveru barnsins, hvað þá ef bæði bregðast eða mega ekki af öðrum ástæðum ala önn fyrir barninu. Þá reynir umhverfið og samfélagið að bregðast við, á
þann hátt, sem það hefur lærdóm og siðferðislegan styrk til að fylgja.

Börn eru í sömu andrá von foreldranna. Þau eru von framtíðar, hvers samfélags hverrar þjóðar. Það er þá einmitt markmið foreldra, samfélags og þjóðar að koma þeim til manns, þroska, menntunar og heilbrigðrar afstöðu til allra hluta, dýra og manna. Einn mikilvægasti hluti þessa þroskaferils er að þau, hvert og eitt, læri að þekkja sjálft sig. Það er mikilvægast að vita hver maður er, ekki bara að nafninu til, heldur í öllum skilningi. Það er mikið verk, langt ferðalag.

Sá sem vill þekkja sjálfan sig verður að gera sér grein fyrir því hve mikilvægur hann er og merkilegt fyrirbæri í sköpunarsögunni. Þetta verður þó aðeins ljóst út frá þeim, sem eru samferða á vegi lífsins. Ef við göngum ekki út frá því að við séum sjálf samferðamenn, skiptum við engu máli, því sá sem vill lifa einn og sér og hugsar fyrst og fremst um eigið skinn, hann er ekkert og getur ekkert, nema horft á eigin spegilmynd, dáðst að sjálfum sér og umlukist þeirri hugsun. Það er ekki næringarrík aðferð til lífs og gefur litla hugsvölun, þegar til lengdar lætur. En sá sem áttar sig á því að ljómi eigin persónuleika nær fyrst að blómgast þegar hann fær að speglast í augum annars manns, mun á sama andartaki verða opinber ljómi þess manns sem hann horfist í augu við. Þannig verð ég fyrst ég, þegar þú ert - og við erum við.

Í spurningunni um það hver ég er, vaknar spurningin um það hvaðan ég er kominn og hvaðan þú ert kominn. Hver er uppruni okkar beggja. Ég held að Jesús hafi m.a. að þeim ástæðum ávarpað Guð sem föður, - til þess að beina athygli okkar að því, hvaðan við erum. Og Jesús segir: “

Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.”

Enginn kennari er nákvæmari en Jesús í þessu efni, af því að hann þekkir föðurinn, þekkir Guð. Það gerir hann af því að hann er opinberun Guðs. Ef hann er það ekki, þá er ónýt trúin öll. Hvað ætlum við þá að kenna börnum okkar? Að Guð sé ekki til? Til eru þeir, sem gjarnan tala svo og fullyrða svo. Þeir eru flónin, sem halda að naflinn á þeim sjálfum sé skráargat himinsins. Lykill að slíku skráargati getur aldrei verið annað en hofmóður, drambsemi og eigingirni. Hallgrímur kenndi fólkinu sínu, íslensku þjóðinni, að lykill himnaríkis er auðmjúk bæn í nafni Drottins Jesú. Hann einn frelsi frá synd, hann einn opni leið til föðurins, sem er á himnum.

Hvað viljum við kenna börnum okkar? Að Guðsnafnið sé bábilja? Að föðurímynd Jesú sé blekking? Að Jesú hafi ekki verið til? Að grundvöllur lagakerfis og menningar í þessu landi til 1200 ára sé tómur misskilningur? Að Gullna reglan sé gagnslaus hégómi? Að kirkjan sé tímaskekkja? Þetta eru allt dálítið uppáþrengjandi spurningar!! Ekki síst þegar við eigum í þjóðarkreppu og erum samankeyrð og örmagna á sál og
líkama, eins og værum við í langvarandi sjávarháska og hafrótið eitt og grýttar strendur framundan.

Forfeður Jesú voru staddir í slíkum háska, þegar Guð opnaði leið lífsins um hafið og leiddi hana undir forystu Móse yfir eyðimörkina. Hann komst yfir hvort tveggja og þjóðin með. Fyrir það lofaði hann Guð. Enginn af hans fólki efaðist um nálægð Guðs að þeim leiðarlokum. Og Móse söng:

Mikil og dásamleg eru verk þín,
Drottinn Guð, þú alvaldi,
réttlátir og sannir eru vegir þínir,
þú konungur aldanna.
Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt?
Því að þú einn ert heilagur, Op. 15:2-4 (sbr. 2. Mós. 15).

Þegar Páll postuli hafði komist að því að hann var ekki bara fluggáfaður fræðimaður og kennari og útleggjari lögmálsins, heldur fyrst og fremst barn Guðs, skapaður af honum, og allt sem í honum bjó var náðargjöf Guðs og að hann ætti þar að auki von eilífs lífs í nafni Jesú Krists, varð honum loksins ljóst hver hann var. Erindi hans og köllun fólst í því að boða fögnuð upprisunnar og fara þann veg sem Jesús hafði lagt honum. Veg sannleika og veg kærleika. Páll lagðist í ferðalög. Fyrst um austurlönd nær og Asíu, eyjarnar fyrir botni Miðjarðarhafs og boðaði fagnaðarerindið óttalaus og tæpitungulaust. En svo kom hann að Bosporussundi og þar handan við var Evrópa. Hann fékk hugboð um að koma til Makedóníu, sem er gamalt land og nú hérað í Grikklandi . Það var nýtt skref, risaskref og áhættusamt. Átti hann að fylgja hugboði sínu, köllun sinni, - vitrun draums? Hann vissi að Thessaloniki, höfuðborg Makedóníu var merkileg borg, hún var tenging Asíu og Evrópu. Sá sem talaði í Thessaloniki talaði til allrar heimsálfunnar, Evrópu.

Einu sinni var ég þar á ferð og leigubíll ók mér um götur borgarinnar. Þá spurði ég eins og heimskum ferðamanni er títt: Er þetta gömul gata? Leigubílstjórinn leit á mig stórum augum og sagði af þolinmæði en töluverðum þunga: Þessi vegur hefur alltaf verið til. Egnatia, Aðalstræti eða Miklabraut, eftir því hvernig orðið er þýtt (staðfært). Og viti menn. Þessi vegur lá í vestur að Adriahafi og svo handan þess á Ítalíu alla leið til Rómar, en í austur frá Þessaloníku allt til Istanbul, eða Konstantinopel eða Miklagarðs, (eins og við segjum á Íslandi) og í þessum borgum voru um sinn 2 páfar samtímis. Alexander mikli sem var uppi um 300 fyrir Krist, fæddist þarna skammt frá Þessaloniki. Hann lét sig, eins og margir fyrr og síðar, dreyma um að sameina heiminn og gera hann eitt, eitt samfélag undir einni stjórn. Hálfsystir Alexanders, Saloniki, gaf borginni nafn sitt Þessaloniki, en borgin hét áður Thermai (eða Reykjavík!) eftir samnefndum flóa. Og þar er þessi vegur, Egnatia. Páll postuli kom nú þangað, eftir að hafa farið víða um strendur Eyjahafsins, Asíumegin. Nú steig hann inn á Evrópst landsvæði og boðaði grískum evrópubúum fyrsta sinni fagnaðaerindið um Jesú Krist í brekkunni ofan við þennan veg, sem lá heimshornanna í milli – og gerir enn. Þó Alexander hafi ekki tekist frekar en öðrum stjórnmálamönnum að sameina heiminn út frá þessum miðlæga stað, þá hafði Páll samt þá trú að það væri gott fyrir þennan stað heimsmenningarinnar að fá að heyra Guðs orð, gatan lá þarna hvort eð var í báðar áttir, “allt á enda veraldar”. Steininn sem hann stóð á þegar hann predikaði er þarna enn, umlukinn gamalli kapellu, uppi í hæðinni í bænum miðjum og orðin sem hann boðaði hafa komist alla leið upp á Íslandsströnd. Því ef eitthvað er að marka Íslendingasögurnar, þá liggur vegurinn til Miklagarðs alla leið frá Íslandi. (þangað fór t.d. Þorsteinn drómundur, bróðir Grettis).
Miklabraut. Einn er vegur allra inn í lífið og söm er leiðin út. (Speki Salómons 7:6).

Páll vissi að þessi vegur spádómsorða Salómons liggur svo áfram til Betlehem og Jerúsalem og hann bar þau til okkar af því hann átti eftirfarandi orð í hjarta sér:

Jesús segir: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn.” Jóh. 14:6-7.

Þar sem hann er þar er hin nýja Jerúsalem.

Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana,
fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna
svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
Því að svo segir Drottinn:
Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti
og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni
og þeim hossað á hnjánum.
Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir. (Jes. 66:10-13)

Við skulum ekki láta hugfallast. Við getum hafist handa nú þegar, - þótt kreppi að og vandi stjórnmálamanna sé mikill, - gengið veg Drottins, unnið hans verk og tekið börnin með.
Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2817.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar