Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Harðstjórnaróttinn

4. október 2009

Það er óttinn sem er viðfangsefni Jesú í dag. Textinn samanstendur af nokkrum örsögum þar sem Jesús mætir fólki í ýmsum aðstæðum en viðmælendur Jesú eiga það sameiginlegt að bregðast við aðstæðunum af ótta.
Óttinn er einhver versti harðstjóri lífsins og hann ýtir undir önnur mein. Þegar lífið tekur vonda stefnu er óttanum yfirleitt um að kenna, a.m.k þegar kafað er í rót vandans. En þegar ég tala um ótta er ég ekki að vísa til þeirra tilfinninga sem eðlilega grípa okkur við ógnandi aðstæður, stundum er nauðsynlegt að verða hræddur, um það þarf í raun ekki að fjalla. En harðstjórnaróttinn er annað og flóknara viðfangsefni, einmitt vegna þess að hann mætir manneskjunni ekki með sýnilegum hætti heldur grefur um sig í sálarlífi hennar eins og sýkill sem enginn sér. Við erum öll að einhverju leiti á valdi óttans, stundum birtist það með nokkuð saklausum hætti eins og þegar við þurfum að telja í okkur kjark áður en við stígum um borð í flugvél, ég þekki þá tilfinningu mæta vel. Svo finnst mér mjög erfitt að vera í lyftu, veit ekki hvort einhver deilir þessari reynslu með mér, angistinni yfir því að lyftan festist á miðri leið, ég fæ svoleiðis martraðir á nóttunni, samt veit ég ekki til þess að lyftur valdi mörgum banaslysum á ári. Fóbíur eru auðvitað margskonar og gríðarlega algengar, flestir hafa einhverjar svona órökréttar fóbíur, stundum eru þær meira að segja ótrúlega fyndnar, svo framarlega sem þær hefta ekki daglegt líf fólks. Og þar erum við komin að kjarna málsins, sem er frelsið í pistli dagsins segir Páll, “til frelsis frelsaði Kristur okkur, standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok. Já það er einmitt málið Kristur frelsaði okkur úr greipum óttans og ekki að ástæðulausu heldur vegna þess að þar missum við rýmið til þess að stækka sem manneskjur.
Óttinn sem Jesús er að fást við í guðspjalli dagsins er ekki þessi fóbíski fyndni ótti, heldur óttinn sem myndar gjá á milli manna og milli Guðs og manna, óttinn sem upphefur dauðann en ekki lífið og gerir þannig lítið úr upprisu Krists. Það er óttinn sem elur á einangrun og einsemd, óttinn sem getur af sér aðgreiningu og forgangsraðar fólki í stað þess að forgangsraða peningum og málefnum öllu fólki til heilla.
Í frásögnum guðspjallsins mætir Jesús þeim sem óttast það að vera bara manneskjur, óttast afhjúpun, halda dauðahaldi í samfélagsstöðu sem reynist engum til gagns.
Að þekkja sinn vitjunartíma er ekki til í orðaforða óttans, óttinn þekkir aldrei sín takmörk og það er þess vegna sem efnahagslíf okkar varð bráðkvatt fyrir réttu ári síðan. Þess er minnst í dag í öllum kirkjum landsins með átaki sem nefnist biðjum og styðjum. Um er að ræða söfnun fyrir innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins og munum við bregðast við því hér í dag og næsta sunnudag. Það er ágætt að gefa dæmi um þá aðstoð sem innanlandsaðstoðin veitir en í september 2008 varði Hjálparstarfið 900.000 krónum í aðstoð, mat lyf, skólagjöld, skólavörur, tómstundagjöld og fleira. Í september 2009 var þessi upphæð hins vegar um 8 milljónir króna. Dæmi um aðstoð sem nú er veitt, helgarmatur sem gefinn er handa fjögurra manna fjölskyldu kostar 8 til 10.000 krónur, aðstoð vegna barna í eitt skipti kostar 5000 krónur, styrkur til tómstunda iðkunar barana kostar 10. til 15.000 krónur. Að prédikun lokinni munu messuþjónar láta körfur ganga um bekkina, þið takið við körfunni og gefið eftir efnum og aðstæðum, oft erum við ekki með lausa peninga á okkur og við því er auðvitað ekkert að gera, það verða engin rannsóknaraugu á ykkur en þeir sem eru í þannig stöðu dag, taka við körfunni, segja amen til marks um velþóknun sína og láta hana ganga til næsta manns. Þegar körfurnar hafa gengið til enda munu messuþjónar bera þær upp að altarinu þar sem við þökkum fyrir fórn safnaðarins og jafnframt biðjum við fyrir þjóðinni allri, heimilunum, fjölskyldunum, börnunum, já fyrir farsæld þjóðarinnar í nútíð og framtíð.
Ég horfði á prédikun í sjónvarpinu um síðustu helgi, það var Edda Heiðrún Backmann leikkona sem flutti þá prédikun með nærveru sinni og orðum. Flestir vita að hún glímir við hinn miskunnarlausa MND sjúkdóm og er af hans sökum bundin hjólastól , kona sem áður söng og dansaði og lék með tilþrifum, gríðarlega flinkur listamaður en í sjónvarpinu var ferill hennar rifjaður upp og þegar hún hafði horft á þá upprifjun með dóttur sinni í sjónvarpssal, sagði hún, þetta var frábær tími en sá sem ég lifi nú er ekki síður innihaldsríkur og ég trúði henni, vegna þess að þetta voru ekki bara orð heldur vitnisburður þess sem veit í hjarta sínu að lífið er ekki fjaðrirnar í hattinum hans heldur það sem hann er í raun og veru. Og þarna var hún komin vegna þess að hún vildi gera eitthvað í þeim aðstæðum sem hafa tekið við í lífi hennar. Þar sem ég horfði á þessa fallegu og hæfileikaríku konu í hjólastólnum, sem allt í einu þarf að hafa fyrir því að tjá sig en gerir það samt af svo mikilli yfirvegun, hugsaði ég, hún er frjáls, hún er frjáls vegna þess að hún þorir að lifa í gerbreyttum kringumstæðum, sjálfsmynd hennar er ekki háð fyrri sigrum heldur því að vera manneskja meðal annarra.
Nú kann einhver að spyrja, hvernig getur hún leyft sér að tala um að manneskja sé frjáls sem augljóslega er bundin í viðjar sjúkdóms? Jú það get ég leyft mér því að frelsið er alltaf afstætt en óttinn er andstæða frelsis.
Í bók sinni sem nefnist einfaldlega Siðfræði talar Páll Skúlason einmitt um þetta og þar talar hann um að engin manneskja né þjóð sé frjáls að öllu leyti, frelsi hennar er bundið ákveðnum aðstæðum, annaðhvort er manneskjan eða þjóðin frjáls undan einhverjum öflum eða þá að hún hefur frelsi til að gera ákveðna hluti, frelsið hefur þessar tvær hliðar, orðrétt skýrir Páll Skúlason þetta svona “frelsi manneskju( eða þjóðar) er ævinlega í senn frelsi undan höftum eða kúgun af einhverju tagi og frelsi til að gera það sem löngun manns og máttur leyfa. Sá sem hlýtur frelsið í vöggugjöf stendur frammi fyrir margþættu verkefni: að gera sér ljóst hvað skerðir frelsi hans og hann þarf að losa sig undan og jafnframt hvað hann vill gera úr sjálfum sér og hvers konar lífi hann telur þess virði að lifa ( Páll Skúlason. 1990, s. 40).” Í þessum orðum er ljóst að frelsi manneskjunnar eða þjóðarinnar er fólgið í því að hafa kjark til þess að taka ákvarðanir um líf sitt. Sá sem er óttasleginn, hefur ekki fullt sjálfræði honum er haldið í kafi svo hann sér ekki möguleikana í kringum sig. En hvernig vinnur maður þá bug á sjálfum óttanum, þessum harða húsbónda sem hefur oft svo sterk tök á sálarlífi okkar? Jú með því að trúa. Sérðu hvað allir viðmælendur Jesú í frásögnum guðspjallsins eiga sameiginlegt? Þeir trúa ekki, sem er reyndar mjög kaldhæðnislegt í ljósi þess að þetta var jú stétt guðfræðinga, farísear og fræðimenn, þeir sem kenndu ritningarnar og gátu þulið lögmálið upp úr sér án fyrirhafnar, en hver segir að það sé forsenda trúar? Ekki Guð. Það verður enginn trúaður af því að kunna fræðikenningar heldur af því að treysta Jesú eins og hann mætir okkur dag hvern, í sköpun sinni, í fólkinu, Jesús Kristur mætti mér í Eddu Heiðrúnu Backmann um síðustu helgi, það þýðir ekki að hún sé Jesús Kristur heldur sá ég anda hans í henni, lífsafstaða hennar er prédikun, skilaboð frá Guði um að frelsi sérhvers manns er háð afstöðu hans til lífsins, hugsaðu þér hversu mikið þú verður að treysta til að lifa með sjúkdómi sem þessum, þú getur ekki verið tortrygginn á umhverfi þitt, þ.e.a.s ef þú ætlar að lifa innihaldsríku en ekki einangruðu lífi.
Í pistli sínum í dag segir postulinn, “í samfélaginu við Krist Jesú gildir hvorki umskurn né yfirhúð heldur trú sem verkar í kærleika.” Trú sem verkar í kærleika er trú sem tekur áhættu, trú sem óttast ekki afhjúpun, trú sem óttast ekki breytingar, já trú sem óttast ekki mennskuna. Trú sem verkar í kærleika er sú trú sem Kristur opinberaði á krossinum og staðfesti með upprisunni.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1865.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar