Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Birgir Ásgeirsson

Gullforði tungu og trúar

25. október 2009

Jesús sagði við þá: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“
Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar sem vitnaði um það að hann hefði sagt henni allt sem hún hafði gert. Þegar því Samverjarnir komu til hans báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.
Og miklu fleiri tóku trú þegar þeir heyrðu hann sjálfan. Þeir sögðu við konuna: „Það er ekki lengur sakir orða þinna að við trúum því að við höfum sjálfir heyrt hann og vitum að hann er sannarlega frelsari heimsins.“ Jóh. 4:34-38

Biðjum

Bænin má aldrei bresta þig,
búin er freisting ýmislig,
þá líf og sál er lúð og þjáð,
lykill er hún að Drottins náð. (HP).

Í eina tíð voru börn gjarnan send út í búð, sem stóð þá oftast á næsta götuhorni og kaupmaðurinn sjálfur afgreiddi vörur yfir diskinn. Þetta voru góð og vinsamleg viðskipti, allir þekktust og það var ekkert prútt og engin svik í neinu. En að vera sendur slíkra viðskiptaerinda var stór gjörningur og ábyrgðarmikill. Þótt búðartuðran væri stundum þung og viljinn veikur til að fullna slíkar sendiferðir, þá var ánægjan líka mikil yfir því að vera trúað fyrir góðu erindi og koma kostinum heim.

Jesús leit svo á að honum væri trúað fyrir erindi, stórkostlegu erindi. Hann var sendur af föðurnum og hann brást vel við því boði og vildi “fullna verk hans”. Það erindi sjáum við í dag sem hið mesta erindi allra tíma og enginn getur fullnað nema fyrir Guðs náð. Jesús fékk náð til þess og í bænum sínum bar hann sorgir sínar, harm, ótta, kvíða og vanmátt fram fyrir Guð, trúði honum fyrir sjálfum sér og öllu því sem innra hrærðist. Skilningur hans á sjálfum sér varð ekki til hjá honum sem ómálga barni, eða þá einn góðan veðurdag á unglingsárunum, heldur þroskaðist hann smátt og smátt. Hann hlustaði eftir orði Drottins, lagði sig fram um að nema kjarna þess og innihald. Svo kom að því að hann skynjaði og nam í brjósti sér þá köllun, sem leiddi hann inn í verk dagsins. Markús segir svo skemmtilega í l. Kafla, enda orðvís og knappur í texta: “35Og árla, löngu fyrir dögun, fór Jesús á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.” Svo er því lýst hvernig hann gekk til verka sinna, sem var að predika, þ.e. útbreiða fagnaðarerindið og lækna fólk. Predikunin gekk út á að fá fólk til að hlusta eftir því hvað skipti máli í lífi fólks yfirleitt, lækningin fól í sér að víkja burt öllum hindrunum manna í millum, sem í því orði heitir að reka út illa anda. Ekkert sundraði meir en trúin á illa anda. Sú trú elur á öllu því, sem gerir manninn fráhverfan Guði og um leið blindan fyrir því sem skiptir máli manna í millum, nefnilega skilningi og samkennd. Þannig vinnur synd mannsins í sama máta að sundrungu manna í millum. Það er líklega hennar eina markmið. Hún færir okkur fjær hverju öðru, en ekki nær, eins og Jesús gerir. Ef syndinni tekst það, hefur hún fullnað verk sitt og gert okkur fjarlæg þeim sem varðar okkur einhverju. Þá hefur henni tekist að firra okkur skilningi á hið góða og gert okkur aflvana í samkennd og ástúð. Þegar Jesús læknar, læknar hann fyrst og fremst sál mannsins. Með því móti nær hann til hjartans. Og sú lækning víkur burt sundrungaráráttunni og elur af sér velvild, hlýju, gleði og ánægjulegt samfélag.

Þess vegna horfir Jesús í kring um sig þarna úti á akrinum í Síkar, sem er einn af þeim fáu stöðum í Samaríu, þar sem eru góðir akrar. Þarna var líka Jakobsbrunnur, og Jesús vissi vel hvað gæði landsins fólu í sér og gerðu gæfumun um velferð landsmanna. Það var líka einmitt þarna sem Jesús talaði við Samverska konu og breytti lífi hennar í einu samtali. Hann hreif hana út úr heimi depurðar og sektarkenndar, og opinberaði henni fagnaðarerindi Guðs um von og möguleika, - og eilíft líf í Jesú Kristi. Hún hafði í framhaldi af því, uppnumin, hlaupið inn í borgina til að láta aðra njóta gleðinnar með sér. Þegar fólk tók nú að streyma út úr borginni til að sjá Jesú og hlusta á hann, horfði hann á akrana og svo á fólkið og sagði: “Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs.” Hann sá hvort tveggja í senn, landið og fólkið. Þ.e.a.s. sá sem lítur upp og horfir í kring um sig, - horfir á gjafir Guðs, horfir á fólkið, nálgast það hreinskiptinn og einlægur, eins og hann Samversku konuna, svarar spurningum af einurð og þekkingu, rekur burt illar hugsanir með snjöllum en mjúkum tilsvörum, og minnir á nærveru Guðs í orði sínu, - (sá hinn sami) hefur alla möguleika til þess að uppskera mikinn ávöxt. Ég hefði haldið að við þyrftum mikið á því að halda í þessu árferðinu hér uppi á Íslandi. En til þess að vera viss um góðan árangur, þá er best að vakna árla og byrja á því að biðja. Það er svo sem hægt að gera það hvenær sem er, en best í upphafi dags, helst árla, - á undan öllu öðru. Það er í bæninni, sem við eigum sérstakt og persónulegt samband við Guð almáttugan. Skaparann og föðurinn, sem sendi okkur Jesú og kenndi okkur af hans munni að biðja “Faðir vor…” Svo nálægur er Guð að við megum segja það: Faðir minn, - viltu hlusta á mig, heyr mína bæn, leyfðu mér að lifa, kenndu mér að treysta á þig og fyrirgefðu mér allar vitleysurnar sem ég geri í hugsun og verki. Hjálpaðu mér til að koma einhverju skikki á sjálfan mig, sjálfhverfuna, skilningsleysið, miskunnarleysið, blinduna. Hjálpaðu mér líka til að fyrirgefa og fylgja leiðsögn þinni. Gerðu mig trúverðugan gagnvart þeim, sem treysta mér, eiga mig að og mér er treyst fyrir. Láttu ekki syndina sundra því besta sem er til, trausti, vináttu, gleði, falsleysi, umhyggju, samkennd og trúnni, sem ég ber til þín. ‘Faðir vorið’ snýst um þetta. Og með því að nota það oft og ákaft, er auðveldara að gegna erindinu, sem manni er trúað fyrir, fullna verkið og koma uppskerunni til skila.

Sumum hefur betur en öðrum tekist að koma auga á þessar staðreyndir, eða öllu heldur eiga í ríkari mæli en aðrir þessa fullvissu trúarinnar. Jafnvel þótt þeirra tími væri krepputími, eins og þegar Hallgrímur Pétursson kom í þennan heim. Við minnumst hans sérstaklega í dag af þökk og gleði. Hann er talinn hafa fæðst 1614. Fyrstu ár 17. aldar á Íslandi nefndust “Lurkur”, “Píningur” og “Eymdarár”, það voru gaddhörkur, óáran og sóttir. Fólksfellir varð svo hrikalegur að 9000 manns féll í eymdinni, sem hefur amk verið 5. hver maður í landinu! Það voru líka harðindi árið eftir að Hallgrímur fæddist norður á Hólum, líka þegar hann var tíu ára, og 19 og 20 ára. Þar á ofan ríkti hér einokun í verslun! Hún kom með Lurkinum 1602. Mansal var líka staðreynd, einkum á börnum! En Hallgrímur fór auðvitað til útlanda, ungur, greindur maðurinn, Þýskalands og Danmerkur. Skyldi einhvern undra.

Áhrif þessa ástands kallaði fram allt það versta í fólki, en þótt undarlegt megi virðast, líka það góða og einstaka. Vigfús Guðmundsson, sem skrifaði ævisögu Hallgríms 1934, (Útg. Snæbjörn Jónsson, 1934) segir að áhrif einokunarinnar hafi haft þau áhrif að þjóðin varð kjarklaus, þýlynd, (sem sagt haldin þrælslund) sviksöm og hafði uppi málsspjöll, þ.e. spillti móðurmálinu.

Þrátt fyrir þetta allt komu fram eiginleikar hjá fólkinu, sem heyrir til sparsemi, sjálfsafneitun og ódrepandi áræði, elju og dugnaði. Sem kennari vildi ég gjarnan geta sett bekknum fyrir að kynna sér þessa tíma og gera samanburð við nútímann. En ég hef náttúrlega ekkert vald til þess og get aðeins lagt það fram sem velviljaða tillögu til safnaðarins og reynt svo að gera það sjálfur ögn betur en hingað til. En Hallgrímur kom aftur. Hann kom og hann bað, - snemma að morgni og seint að kveldi. Hann gekk inn í ósköpin, hræddur, en ákafur í bæninni, þjáður í amstrinu, samt andríkur í trúnni.. Hann öðlaðist styrk og áræði og trúarstyrk, sem gerði hann að leiðtoga og forgöngumanni. Hann dró aðra með sér, uppörvaði, líknaði, sefaði sorgina, blessaði daginn hvern nýjan, og lagði sig og aðra með inn í nóttina í þeirri von að mega vakna til nýs dags og vinna á akrinum, allan þann daginn, allt til næsta kvölds. Og Guð leyfði það, því allt það sem leiðir frá sundrungu og óreiðu, til þess sem er fólkinu gott, vill hann styðja.

Dagsverk Hallgríms hófst árla dags og sá dagur varð langur og mikilvirkur, þó hann yrði ekki nema rétt sextugur. Við njótum þess ríkulega enn í dag. Börnin okkar eiga þennan gullforða tungu og trúar, sem aldrei bregst og engan svíkur. Honum var trúað fyrir hæfileikum, fólki, börnum, gamalmennum, sjúklingum, hverjum og einum til þess að sá hinn sami mætti lifa kreppuna af, heimskreppu, sálarkreppu, pínu og dauða og eiga von og gleði trúartraustsins, þrátt fyrir það. Hallgrímur vann gegn sundrunginni. Hann vann þannig á syndinni, hann rak út illa anda, - allt í umboði Guðs, í orði hans einu og sönnu og í nafni Drottins Jesú Krists. Bænir hans eru sem andvari hins nýja dags og svali komandi kvölds og þær lifa með okkur til hughreystingar og hugsvölunar, - og til þess að verkið megi fullnað verða.

Vertu Guð faðir, faðir minn
Í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn
Svo allri synd ég hafni.

Vaktu minn Jesú vaktu í mér
Vaka láttu mig eins í þér
Sálin vaki þá sofnar líf
Sú hún ætíð í þinni hlíf. (HP)

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2110.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar