Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þorvaldur Karl Helgason

Kirkjan og heimilið

20. september 2009

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Við erum hér saman komin í dag á hátíðisdegi til að fagna vígsluafmæli þessarar kirkju, hér á holtinu. Henni var valinn góður staður, upp á hæð þar sem hún blasti við öllum, mitt í hverfinu sem var að byggjast upp, ekki svo ýkja langt frá skólunum tveimur. Hér bjuggu mörg börn og nýi skólinn, Vogaskóli, iðaði fljótt af nemendum og varð sá fjölmennasti á landinu um tíma. Kringum safnaðarheimilið risu háhýsi, sem var nýjung hér á landi. Það fer vel að kirkjan standi við Sólheima, kirkjan sem hefur það hlutverk að vera boðberi ljóss og vonar í heiminum.

Allir glöddust þegar söfnuðurinn eignaðist safnaðarheimilið og þurfti ekki lengur að messa í stóra bragganum, Hálogalandi, eða leita ásjár annarra kirkna. Mörg erfið ár voru framundan er stefndu öll að því eina marki að reisa safnaðarheimilið og þessa kirkju. Mörg handtök og miklar fórnir íbúanna liggja hér að baki. Peningar voru litlir og án sjálfboðaliðastarfs, beins framlags íbúanna, ómældrar vinnu sóknarnefndar, kvenfélags, bræðrafélags og kirkjukórs hefði þetta hús aldrei risið. Allt gekk út á það að komast í eigið húsnæði utan um öflugt safnaðarstarfið, messur og athafnir. Fyrst reis safnaðarheimilið sem var nýlunda hér og gegndi hlutverkinu prýðilega í áratugi. Svo kom kirkjan sjálf og nú er þess minnst hér í Langholtskirkju, 25 árum síðar.

Þegar ég var barn sungum við bræðurnir hér hástöfum í litla salnum, troðfullum af börnum, sunnudag eftir sunnudag, sem sr. Árelíus, fermingarfaðir minn, leiddi af einlægni og sannfæringu. Þá lék pabbi okkar á orgelið. Þessir forystumenn safnaðarins og svo margir aðrir, ekki hvað síst konurnar í kirkjunni, áttu hvað drýgstan þátt í að safnaðarheimilið reis og síðar kirkjan hér á holtinu. Meira að segja erlend ungmenni lögðu sitt af mörkum, allt í sjálfboðavinnu. Sögu þessa góða fólks þarf ekki að skrifa sérstaklega, það er nóg að koma hingað á holtið og virða fyrir sér kirkjuna og safnaðarheimilið. Við minnumst þeirra allra með þakklæti í huga nú í dag á þessari hátíðarstundu.

Söngur og tónlist hafa ætíð skipað mikinn sess í þessu húsi. Það hæfir guðsdýrkun að syngja og leika á hljóðfæri. Tónlistin og trúin eru náskyldar ef ekki systur. Sagt hefur verið að tónlistin sé sem sakramenti, einn af leyndardómum Guðs, eins og skírnin og heilög kvöldmáltíð eru í okkar lútersku kirkju. Trúin er tenging okkar við hið kærleiksríka hjarta Guðs er slær að baki öllu lífi. Tónlistin opnar oft svo vel fyrir þá trúarlegu vídd og hjálpar okkur að skynja að hér er einhver undursamlegur boðskapur á ferð. Á sjálfa jólanóttina þegar kunngjört var um fæðingu sonarins og frelsara heimsins í fjárhúsinu, var fluttur mikill lofsöngur, gloria in excelsis deo.

Í þessari kirkju hefur söngur englanna á jólanótt og aðrir stórbrotnir lofsöngvar hljómað í umbúnaði hinna miklu tónlistarmeistara fyrri alda. Bach, Händel og Vivaldi og allir hinir hafa oft verið hér á dagskrá. Kórar Langholtskirkju hafa fyrir löngu skráð sig á spjöld tónlistarsögu okkar litlu þjóðar. Þeirra hlutverk og óeigingjarnt starf kórs og organista er lofsvert. Án þessarar kirkju hefðu við ekki fengið að njóta fegurðar og fullkomleika sem tónlistin í raun veitir okkur innsýn inn í þegar vel tekst til.

Um daginn voru í sjónvarpinu þættir um írsku rokkhljómsveitina U2. Ég er enginn sérstakur aðdáandi eða á neinn hátt sérfræðingur um hljómsveitina. Veit þó að hún hefur starfað í þrjá áratugi og vinsældir hennar eru enn miklar um allan heim. Sennilega hafa ekki allir verið glaðir þegar þessir karlar birtust á skjánum með hávaða rokksins innanborðs. En að baki tónlist þeirra eru oft magnaðir textar sem hafa jafnan tvíþætta merkingu, og augljóslega beina skírskotun í boðskap kristinnar trúar. Þeir hafa samið sinn lofsöng, Gloríu, sem í senn fjallar um dýrð Guðs en líka um fegurðina og ástina. Eitt laga þeirra lýkur á því að segja okkur að beygja kné í lotningu fyrir gjafara allra góðra hluta. Eitt af þekktari söngum þeirra heitir Magnificent sem hefur að geyma texta sem tjáir ást móður til barnsins síns sem hún telur best gert með því að syngja af gleði, auðmýkt og þakklæti. Hér er augljós samsvörun við lofsöng Maríu (Magnificat) er hún vissi að hún gengi með hið helga barn. Söngvari þeirra hefur sagt að öll tónlist sé í raun tilbeiðsla, guðsdýrkun, á einn eða annan hátt. Þeir hafa líka ætíð minnt á óréttlæti þessa heims og lagt sitt af mörkum til að bæta hag hinna undirokuðu. Rokktónlistin og textarnir er leið þeirra til að ná eyrum ungra áheyrenda með mikilvægan boðskap.

———————–

Þegar Jesús ólst upp voru Davíðssálmarnir og flutningur þeirra efalítið stór hluti af uppeldi hans í samkunduhúsunum. Þeir voru sungnir þótt lögin hafi að mestu glatast. Í einum þeirra segir:

Gott er að syngja Guði vorum lof.
Það er yndislegt, honum hæfir lofsöngur. (Ps. 147, 1)

Við vitum að Jesús las upp úr helgu riti þeirra, sem er að finna í Gamla testamentinu. Einn textann sem hann las getum við líka lesið okkur til umhugsunar og uppbyggingar.

Líf Jesú, þjáning hans og upprisa, orð hans, máttur hans, mikilleiki og undur, orð um miskunnsemi og fyrirgefningu er viðfangsefni kirkjunnar alla tíð. Líf hans og saga er til umfjöllunar í hverri messu, í orðinu sem lesið er, í bæninni sem beðin er, í sálmunum sem sungnir eru. Í helgri kvöldmáltíð, í blessun skírnarinnar, í fermingarfræðslunni, í bæn fyrir brúðhjónunum, í fyrirbæn fyrir hinum látna, setjum við traust okkar á að orð hans séu máttugri en önnur, að nærvera hans sé æðri og meiri en návist annarra, að helgur andi hans leiði okkur áfram í blíðu og stríðu þessa lífs. Í þágu þessa ótrúlega en um leið mikla og góða boðskapar er kirkja reist, líka Langholtskirkja, til að saga Jesú Krists gleymist ekki og orðin fái áfram að snerta hjörtu okkar og allra barna sem hingað koma.

——————–

Það verður ekki sagt að fréttir dagsins í okkar samfélagi gefi tilefni til lofsöngva. Það eru engin fagnaðartíðindi sem okkur eru flutt, dag eftir dag. Nær væri að segja að hið gagnstæða. Nú sitjum við uppi með þungar byrgðar skulda langt inn í framtíðina, skulda sem eru að sliga okkar fámennu þjóð.

Í textum dagsins sem lesnir voru áðan segir:

Í neyð þinni mun allur þessi boðskapur ná eyrum þínum, á komandi tímum munt þú snúa aftur til Drottins, Guðs þíns, og hlýða boðum hans. Því að Drottinn, Guð þinn, er miskunnsamur Guð. Hann bregst þér ekki og lætur þig ekki farast. Hann gleymir ekki sáttmálanum við feður þína sem hann staðfesti með eiði.  (5. Mós.4.29-31)

Og í bréfi Páls postula til Filippímanna segir:

Ekki segi ég þetta vegna þess að ég hafi liðið skort því að ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. ……….Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.           (Fil.4.11-13)

Að kunna að búa við lítinn kost og kunna að hafa allsnægtir, segir postulinn. “Sælir eru hógværir því þeir munu landið erfa”, sagði Kristur í orðunum er hann flutti af hæðinni til áheyrenda sinna. Kristur lofaði okkur ekki þægilegu lífi, en hann bauð okkur að feta veginn hans og lifa ætíð í nánd við hann.

Guðspjall þessa sunnudags fjallar um systurnar tvær, Mörtu og Maríu, heimili þeirra og nærveruna við Krist og undirstrikar að “eitt er nauðsynlegt”, að vera við fætur Krists. Líf okkar skal mótast af lotningu fyrir Guði, fyrir lífinu, virðingu fyrir öðrum og þiggja leiðsögn hans. Það er ekki víst að allir samþykki að eitt sé nauðsynlegra en annað og sumum finnst eflaust barnalegt að leggja allt traust sitt á hvað Kristur hefur að segja og hvað saga hans birtir. En samkvæmt texta okkar í dag lýsir hann því hvar við öll eigum að halda okkur til að fyllast ekki stærilæti, græðgi og hroka sem er leið okkar frá hinu sanna og rétta.

—————-

Kirkjan hér og Langholtssöfnuður, gegnir þessu mikilvæga hlutverki hér í hverfinu að leiða okkur inn í helgidóminn að fótskör Krists, og minna okkur stöðugt á hið eina nauðsynlega. Þaðan förum við út í lífið til að vera öðrum sannir vinir, góðir grannar, ekki fullkomin en fullviss þess að Guð er skapari okkar, Kristur er frelsari heimsins, og heilagur andi hans munu leiða okkur áfram um lífsins vegu allt til enda veraldar.

Kristur sótti þær systur heim. Heimilið er einn mikilvægasti staður allra. Það er í senn skjól og griðarstaður, en líka samastaður er elur upp komandi kynslóðir, þar sem væntumþykja og nærvera er í hávegum höfð. Safnaðarheimili og kirkja er bygging, umgjörð er heldur utan um kirkjustarfið. En kirkjan er líka fólkið, ungir sem aldnir, sem þangað leita og þau sem leiða safnaðarstarfið, þau eru dýrmætara en allt annað. Það vitum við vel og það vissi Kristur er hann ræddi við konurnar tvær. Nærvera hans og samvera með þeim var það sem öllu skipti, hvað þær sögðu og gerðu og hvað hann hugsaði og tjáði þeim.

Eitt það mikilvægasta í lífi okkar allra er annað fólk, fjölskylda okkar og vinir, umhyggja foreldrar okkar, samstaða hjónanna, að gæta barnanna okkar, að styðja samferðamann okkar. Kannski var það sem gleymdist í góðræðinu og græðginni, að gæta hvert að öðru, huga að þeim sem ekki gátu tekið þátt í dansinum. Við vorum svo heilluð af glæsiumbúnaðinum sem hvarvetna blasti við í uppbyggingu og útþenslu. Við megum vissulega gleðjast þegar vel gengur en sú gleði á sér takmörk. Það þarf ekki að minna okkur á hversu lífið er oft brotthætt og viðkvæmt. En það er líka og ekki síður stutt í mannlegan breyskleika og ófullkomleika okkar, þegar vel gengur. Gróðasjónarmið hefur sjaldan áhyggjur af þjáningu annarra og taumleysi, yfirgangur og græðgi eru oft skammt undan.

Krossfesting Krists undirstrika þennan beiska sannleika um mannlegt eðli. Kristur var deyddur á hæð utan við borgina, boðberi kærleika, fyrirgefningar og vonar. Þar reistur þeir krossinn hans.

 Kirkjur hafa kross og klukkur til að minna okkur á hvort tveggja, á þjáningu mannsins og dauða hans og á gleðihljóm upprisunnar. Þessi kirkja er tákn þessa, hennar er vera samkomustaður fyrir þá sem erfiða og streða í lífinu, syrgja og sakna, en líka hús fyrir gleðina, fegurðina og lofsönginn.

 Tökum undir með Davíðssálminum og látum þau orð fylgja okkur héðan í dag á þessum hátíðisdegi Langholtskirkju:

 Þér lýðir, lofið Guð vorn
og látið hljóma lofsöng um hann. (Ps. 66,8)

 Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, um aldir alda. Amen.
 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2227.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar