Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Fögrudyr og Fögrudyr

2. september 2009

Pétur og Jóhannes gengu upp í helgidóminn til síðdegisbæna. Þá var þangað borinn maður, lami frá móðurlífi, er dag hvern var settur við þær dyr helgidómsins sem nefndar eru Fögrudyr til að beiðast ölmusu af þeim er inn gengu í helgidóminn. Er hann sá þá Pétur og Jóhannes á leið inn í helgidóminn baðst hann ölmusu. Þeir horfðu fast á hann og Pétur sagði: „Lít þú á okkur.“ Hann starði á þá í von um að fá eitthvað hjá þeim. Pétur sagði: „Silfur og gull á ég ekki en það sem ég hef, það gef ég þér: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret, statt upp og gakk!“ Og hann tók í hægri hönd honum og reisti hann upp. Jafnskjótt urðu fætur hans og ökklar styrkir, hann spratt upp, stóð í fætur og tók að ganga. Hann fór inn með þeim í helgidóminn, gekk um og stökk og lofaði Guð. Allt fólkið sá hann ganga um og lofa Guð. Menn könnuðust við að hann var sá er hafði setið fyrir Fögrudyrum helgidómsins til að beiðast ölmusu. Urðu þeir furðu lostnir og frá sér numdir af því sem fram við hann hafði komið. Post 3.1-10

Kæri söfnuður.
Verkfræðingar og guðfræðingar eiga eitt sameiginlegt - nánar tiltekið byggingarverkfræðingar og guðfræðingar sem hafa tekið prestsvígslu.

Og hvað skyldi það nú vera?

Báðar stéttir vinna við brúarsmíði.

Byggingarverkfræðingurinn hannar brýr sem bera fólk og hjól og litla og stóra bíla og jafnvel lestir. Presturinn „hannar“ eða smíðar brýr sem eiga brúa bilið milli Biblíu og samtíma. Við greinum samtíma okkar og Biblíutextann og freistum þess að byggja brú þarna á milli. Finna svör við spurningum. Skilja lífið betur.

Mér varð þetta hugleikið í vikunni þegar ég las textann og ég ákvað að gera svolitla tilraun. Svolitla tilraun með prédikunina. Hún fólst í því að spyrja nokkra brúarsmiði áFacebook hvað það væru sem þau sjá í morgunlestri þessa dags. Lestrinum sem gerist við Fögrudyr. Ég spurði þau:

Hvað talar til ykkar í þessum morgunlestri? Eitt orð, ein setning, ein hugsun væri vel þegin …

Þetta eru svörin:

Fyrst kom áskorun: Hverjar eru okkar Fögrudyr og eru þær luktar eða opnar?

Næsta svar ögraði: Endurlausnarboðskapurinn felst kannski í því að Jesús hjálpar honum að komast upp úr farinu sem aðrir hafa sett hann í - og njóta sín á nýjum forsendum.

Þá kom áminning: Í nafni Jesú Krists frá Nasaret stöndum við upp frá ósigrum, sorg, vonleysi og niðurlægingu, göngum fram til nýrrar framtíðar og lítum ekki til baka

Svo var eitt svar sem lýsti ákveðnu raunsæi: Vonbrigði! Ekki komast allir á fætur.

Í framhaldi af því kom sáttarsvar: Vissulega komast ekki allir á fætur með viljann eða trúna eina að vopni, en kona eins og t.d. Edda Heiðrún Backmann kemst „andlega á fætur“, ef svo má að orði komast, þegar hún lýsir því hvernig hún finnur leiðir til að horfa á það sem hún getur gert í staðinn fyrir það sem hún getur ekki. ;-)

Þá kom eitt svar sem geymdi brýningu: Hefur þú tekið í hönd einhvers og reist við í dag?

Svo kom svarið sem uslaði og truflaði: En óþægilegt að fólk geti ekki haldið sig á sama stað. Nú þarf ég að setja hann í nýtt hólf.

Og loks kom svar með ákveðna framtíðarsýn: Hjálpsemi þeirra sem á hverjum degi settu hinn lamaða mann við Fögrudyr. Tímabundin lausn undan þjáningum eða endanleg lausn.

Kæri söfnuður.
Þið þekkið Biblíuna og vitið hvaða fjársjóð þar er að finna.

Þið hafið sjálf reynt mátt hennar í eigin lífi.

Og þið eigið líka svör við þessum spurningum því þið - sem kristið fólk - stundið líka brúarsmíði. Því má spyrja:

Hvar eru Fögrudyrnar í okkar samtíð?
Hvar eru Fögrudyrnar þínar?
Og hverjir dvelja þar?
Og hverjir ganga framhjá?
Og hvað gerist þar?
Og hvar ert þú?

Það eru spurningar dagsins.
Það er brýning dagsins.

Og bæn dagsins er þessi:

Megi Guð gefa okkur visku við brúarsmíðina og rétta sýn á okkur sjálf við Fögrudyr lífsins.

Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 1928.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar