Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Baldur Kristjánsson

Eitthvað meira en sunndagsskraf?

9. september 2009

Þórir haustmyrkur nam land í Selvogi og bjó í Hlíð.

Ekki veit ég hvernig nafn hans er tilkomið en haustlegt er viðurnefni þessa forföður margra Sunnlendinga og minnir okkur á að haustmyrkrið er að koma yfir okkur.  Sumrinu er að slota – þessu ágæta sumri sem hefur verið bæði sólríkrt og gott. Já, vissulega höfum við ríka ástæðu til þakklætis. Hvort sem það er nú tímabundið eða ekki eða hversu tímabundið það er þá hefur veðrið leikið við okkur og jörðin skilað af sér gróðri sem aldrei fyrr, uppskera með miklum ágætum.  Góður fengur af jarðargróðri og sjávarafla.  Lífið leikur við okkur í þeim skilningi en nú haustar.  Við búum okkur undir veturinn með úrvinnslu afurða, flokkar manna halda til fjalla, sláturhúsin fara á fullt, frystikistur er fylltar. Það er pakkað í vörn ef svo má segja, haustmyrkrið sígur að, verðurkerfin fara ygla sig, vetrarstormar geysa um síðir stríðir, þannig er nú það.

Margir fara með kvíða í hjarta inn í þennan veturinn.  Fleiri en áður.  Fjöldamargir eig ekki lengur neitt í húsunum sínum og margir minna en ekki neitt, nánast þriðji hver maður með bílalán sem hangir eins og snara um hálsinn, menn sjá sæng sína útbreidda.  Við töldum okkur vera rík urðum svo fátæk eiginlega.  Nú reynir því á samtakamáttinn.  Er einhvers virði að búa í kristnu samfélagi þegar svona stendur á eða skiptir það engu máli?  Við erum eins og hópur fólks sem lent hefur oní kerinu (í Grímsnesi), mislangt niður að vísu, sumir bara aðeins niður í hlíðina, aðrir niður að vatnsyfirborði, enn aðrir útí á bólakaf.  Sumir eru vel á sig komnir, stæltir og sterkir, aðrir veikburða, sumir eru einir síns liðs, aðrir með barnahrúgu sem þeir bera ábyrgð á.

Það er torsótt upp, sumir renna tvö skref til baka fyrir hvert eitt sem þeir taka aðrir eru lagstir og hreyfa sig ekki, en sumir stökkva áfram.  En nú reynir á. Taka menn höndum saman og styðja hvorn annan upp á brúnina eða hirða þeir lítt um hvern annann. Sitja menn í miðjum hlíðum í rifrildi og þrasi, kennandi hvor öðrum um eða þá fólki í fjarlægðum byggðum.  Nú er allt þetta í gangi sýnist mér.  Víða í brekkunni má sjá menn sem hvetja aðra, taka þá veikluðu á bakið, styðja unglinginn, vísa leiðina upp, sumstaðar sitja menn hjá enn aðrir neita að vera með vilja fara aðra, betri og þægilegri  leið.  Það er ekki laust við að sumir við vatnsyfirborðið verði ruglaðir og vindátta.  Sagan ein mun segja þá sögu hvernig fólkinu í kerinu reið af, hvort það sýndi af sér samstöðu og samhjálp, náungakærleik, fórnfýsi. Hvort það hjálpaði hinum smáa og veikburða eða bjargaði bara hver sér sem betur gat?  Tók sá stökkið sem gat uppá brúnina og inn á grasgefnar lendur suðurlandsins eða studdi hann hina? Kemur út úr þessu heil og samstillt þjóð eða sundruð og ósamstillt.  Kemur í þessu í ljós hvort að hið kristna fagnaðarerindi hefur verið eitthvað annað og meira en huggulegt sunnudagsskraf eða hvort það hefur sett sitt mark á hugarfar eyþjóðarinnar.

Vissulega er kvíðinn fylgifiskur þjóðarinnar inn í þann vetur sem í hönd fer. Margir við að missa eignir, enn aðrir að eiga ekki sómasamelga fyrir skólabókum barna sinna eða tómstundarstarfi þeirra eða íþróttastarfi, enn aðrir að eiga ekki fyrirm mat.  Fólk í landinu var orðið góðu vant, hafði risið upp úr fátækt, örbirgð og kvíða aldanna en kvíðir nú vetri aftur.  Við skulum vera minnug þess að kvíðinn sá hvort menn hafi í sig og á hefur verið fylginautur flestra heimsins barna alltaf og ævinlega. Hinn almnenni maður hefur alltaf og ævinlega mátt strita fyrir brauði sínu  þó alltaf hafi verið margir sem klifra upp eftir bakinu á öðrum.  Þannig er það. Mannskepnuna hefur alla tíð skort réttlæti en þolað ranglæti í  stórum stíl, brauðið hefur aldrei verið allra, skólaganga lúxus alls ekki allra.  Þrátt fyrir mikinn góðvilja í heiminum þá er hann fullur af ranglæti, hungri, læknanlegum sjúkdómum, deyjandi börnum, afskiptum gamalmennum.  Jesaja spámaður sér þetta fyrir 2600 árum.  Hann gefur lítið fyrir þá sem sýna helgi sína með meinlæti. Nei, sú fasta sem honum líkar er að leysa fjörta rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu, að sundurbrjóta sérhvert ok, að miðla hinum hugruðu af brauði, hýsa klæðislausa, hýsa bágstadda.  Jesaja spámaður væri góður fylginautur hvar sem væri í heiminum, í kerinu sem annarsstðar.  Og Páll postuli bætir um betur……ef ég hefði ekki kærleika væri ég ekki neitt….. segir þessi fyrsti guðfræðingur kristinnar trúar, kærleikurinn er upphaf og endir alls í huga hans, kjarni hins góða lífs, samkennd, samlíðan það sem skiptir máli og ef þér viljið vera raunveruleg börn föður yðar á himnum segir Jesú Kristur skuluð þér ekki skipta bræðrum ykkar upp í vini og óvini heldur reynast öllum vel á sama hátt og Guð lætur sól sína skína bæði yfir rangláta og réttláta og þess vegna rigna yfir alla jafnt.  Verið fullkomin er krafan eins og faðir yðar á himnum er fullkominn. Þetta er almennileg krafa, engin hálfvelgja þar á ferðinni.

Skuggarnir lengjast þá nær dregur vetri þegar sólskinið dvín. Þó er engin ástæða til að öðrvænta, nú sem fyrr er það sólskinið í hjartanu sem skiptir máli, sólin í brosi náungans í handtakinu, faðmlaginu, hjálpinni, sólin skín skærast þegar maður vitjar manns:  Undir septembersól/brosti sumarið fyrst orkti skáldið Stefán frá Hvítadal heill í bili af sjúkdómi sínum: Læddist forynjan frá/með sinn ferlega her/Hún var grimmeyg og grá/og hún glotti við mér, upplýsir skáldið.  Hrindum frá okkur sérhverri grimmeygri, grárri forynju og hennar ferlegu herjum með kærleika, samhjálp og samstöðu og upplifum bros sumarsins með skáldinu góða.

Upp af Selvoginum er Hvalskarð. Sagan segir að tröllskessa sem þar bjó hafi skorið sér bita af hval sem rak upp í fjöru landnmámannsins.  Hann elti skessu og náði henni í nefndu skarði sem hlaut af því nafn og hafði af henni bitann en drap hana ekki því að hún lofaði að láta fé hans í friði.  Þarna var auðvitað fátæk kona að bjarga sér en ranglát og heimskuleg lög komu í veg fyrir að hún fengi sinn skerf af gæðum jarðar. Þórir haustmyrkur hefði tæpast kempt hærurnar ef þarna hefði tröllskessa verið á ferð. Þetta var bara fátæk kona. Þjóðsagan gengur hins vegar í lið með sigurvegararanum. Látum slíka rangsleitni hvorki henda okkur í dag eða á morgun.  Dýrð sé Guði!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2954.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar