Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Kristjánsson

Reiðin og réttlætið

2. ágúst 2009

Náð sé með yður og friður.

Í bókinni Íslenska efnahagsundrið les ég þennan fróðlega kafla um eina hlið undursins: „Lykilmenn sem unnu í eignastýringu, stjórnuðu eða sátu í stjórnum lífeyrissjóða, virtust ekki aðeins fá greidd laun fyrir störf sín heldur slógust bankarnir um að gleðja þessa menn og var þá ekkert til sparað. Þetta átti líka við um stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn…. Gjafir voru allt frá rauðvínsflöskum og upp í mun dýrari hluti. Þekkt er að nafngreindur bankastjóri gaf, fyrir hönd Glitnis, öllum konum gullhálsmen í fimm rétta hátíðarkvöldverði fyrir 500 manns í Laugardalshöll snemma árs 2007. … Starfsmönnum lífeyrissjóðanna var reglulega boðið í utanlandsferðir á hvers kyns kynningar, oft … í  einkaþotum í boði bankanna. … Þessar ferðir voru nánast undantekningarlaust „lúxusferðir“ … Alltaf var gist á glæsilegustu hótelunum og veitingar ekki skornar við nögl. Í veislu sem Landsbankinn hélt í Milanó var gestum … boðið upp á gulli stráð risotto. Innanlandsferðir voru mest í laxveiðar, enda voru bankarnir búnir að kaupa upp nær öll laxveiðileyfi á Íslandi tíu ár fram í tímann… “

Höfundur bókarinnar rekur sögu íslenska efnahagsundursins á liðnum árum og sýnir hvernig undrið varð að viðundri og gerði þjóðina að aðhlátursefni um víða veröld. Sumir skynja hins vegar að viðbrögð annarra þjóða hafi einkennst af reiði; aðrir finna þar helst samúð með aumkunarverðri þjóð sem geti sjálfri sér um kennt.

Lýsingar frá liðnum misserum hrannast upp í bókum og blöðum: þotur og snekkjur, glæsiveislur og gjafir í stórum stíl, fínt fólk, frægt og auðugt. Svipmyndir frá aðdraganda harmleiksins, af sýndarmennsku og sjálfsblekkingu, lýsingar af taumleysi, ágirnd og hroka áður en „þeir dagar komu sem við segjum um mér líkar þeir ekki“ svo vitnað sér til Prédikarans.

Sigurvegarinn er aldrei þiggjandi, hann er ávallt gefandi, hann hefur allt í hendi sér, helst allan heiminn, allir verða að lúta örlæti hans og veldi. 

Vondu dagarnir eru komnir, ekki vegna þess að við höfum minna milli handanna og ekki vegna þess að við sjáum ekki framundan bjarta daga og ekki vegna þess að barnabörnin okkar munu greiða skuldir okkar – svo dapurlegt sem það er – og ekki heldur vegna þess að þeir, sem úr minnstu hafa að spila, munu greiða af skorti sínum – heldur  vegna þess að við létum blekkjast.
„Maður skammast sín fyrir að vera Íslendingur“ sagði kona við mig í samtali í liðinni viku og reiðin leyndi sér ekki. Svikin og vonsvikin þjóð hlýtur að beina reiði sinni að þeim sem komu henni á kaldan klakann. Blekkt þjóð með særða sjálfsvirðingu er niðurstaðan, gjaldið sem allir verða að greiða

Uppgjörið er hafið. Himinháar tölur og hnignandi atvinnulíf. Glæsitímar í sumra augum eru að baki, framundan eru áhyggjur, óvissa, ótti. Húsið sem reist var á sandi er fallið og fall þess var mikið eins og segir í dæmisögu dagsins. Fer allt í sama farið, spyrja sumir? Kemur þjóðin sterkari út úr þessari reynslu, spyrja aðrir?
Nýtur fámennur forgangshópur enn forgangs? Búum við í réttarríki þar sem ofríkismanninum eru skorður settar? Eða hrósar hinn sterki enn sigri? Þannig spyr reið og tortryggin þjóð.
Á vondu dögunum er mönnum réttlætið þó efst í huga.

Lítum til sögunnar. Fyrir réttum þremur öldum gerði meistari Vídalín reiðinni skil í eftirminnilegum lestri á erfiðum tímum þegar þriðjungur þjóðarinnar lá í valnum eftir mestu drepsótt sem hefur gengið yfir þetta land, stóru-bólu, sem kom í kjölfar ítrekaðra harðinda um land allt.
Reiðin í máttförnu samfélagi beindist þó ekki að drepsóttinni heldur afleiðingunum. Landið var vígvelli líkast, nánast heilu sveitirnar voru mannlausar, skepnur reikuðu í reiðileysi um tún og engi þar sem enginn var lengur til að sinna þeim, eignatilfærsla varð gríðarleg þegar yfirgangsmenn sölsuðuð undir sig lönd og eignir, réttlætið var einskis virt og upplausn blasti við fátækri og forsmáðri þjóð. Reiðin bjó í svip hinna vanvirtu. Tilefnið var ærið.
Vídalín setti tilfinningar þjóðarinnar í farveg og gaf reiðinni inntak við hæfi. Samfélagið hlýtur að reiðast yfirgangsseggnum sem telur sig yfir réttlætið hafinn. Ofríki hans skulu takmörk sett og hann skal dreginn fyrir dóm þar sem samskipti hans við aðra verða lögð á vogarskál réttlætisins þar sem hroki hans verður lægður. Ekkert annað er sanngjarnt, sá sem eftir liggur, rúinn heiðri, virðingu og trausti, á tilkall til réttlætis, hinn seki greiði fyrir sekt sína. Í reiðinni birtast viðbrögð hinna vanvirtu, hinna sviknu og saklausu. Í þessum dúr talaði meistari Vídalín til niðurbrotinnar þjóðar. Þennan boðskap um samfélagslega ábyrgð hinna betur settu og um heilaga reiði hinna fótum troðnu las þjóðin í tæpar tvær aldir.

Trú Gamla testamentisins, eins og hún birtist í lexíu þessa dags, einkennist af harðri og eindreginni varðstöðu um mannúð og réttlæti, smælinginn er í brennipunkti, réttur ekkjunnar skal ekki fyrir borð borinn, hlutur munaðarleysingjans skal varinn til hins ítrasta, hinir tómhentu fá uppreisn æru.
Heimurinn er réttlátur í innsta eðli sínu, í hinni sterku táknmynd gyðing-kristinnar trúarhefðar er hann í hendi hins réttláta, hann er hvorki ofurseldur veldi hins volduga né auði hins auðuga. Hvergi kemur þessi heimsmynd skýrar fram en í lofsöng Maríu í upphafi Lúkasarguðspjalls:

Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
 og upp hafið smælingja,
 hungraða hefur hann fyllt gæðum
 en látið ríka tómhenta frá sér fara.

Þetta er spádómur um sveininn sem María ber undir belti. Lofsöngurinn vísar til ævaforns sáttmála um réttlæti sem grundvallarforsendu mannúðlegs samfélags. Sé réttlætið fótum troðið eru innviðir og undirstöður í hættu, þá hrynur flest til grunna.
Í tímans rás hafa listamenn glímt við frásöguna um spámanninn sem gerir svipu úr tágum og rekur þá sem stunda kaupskap og viðskipti harðri hendi út úr musterinu í Jerúsalem. Meistarar myndlistarinnar á öllum tímum hafa tekist á við þessa sögu úr Jóhannesarguðspjalli, einnig innlendir. Sá sem var talsmaður mildi og miskunnsemi sýnir á sér hlið sem kemur mörgum á óvart.
Í augum spámannsins frá Nasaret fundu víxlararnir í helgidómnum enga miskunn. En við fórnarlömbunum blasir við annað augnaráð. Skynja þau ekki umboðsmann sinn í augum hans? Er hann ekki fulltrúi hins heilaga í þessum heimi og lausn hinna kúguðu í veröld sem er beygð undir vald ofríkismannsins?

Í myndabók Nýja testamentisins blasir svipuð mynd við í ýmsum tilbrigðum: í augum smælingja og hungraðra, bersyndugra og snauðra var hann sá sem leysti fjötrana og breytti kjörum þeirra, í augum aðkominna og utangarðsmanna var hann spámaðurinn hugrakki sem lagði sjálfan sig að veði fyrir þá sem einskis voru metnir. Var hann ekki einmitt sá sem opnaði þeim nýjar dyr, þeim sem voru dæmdir til ósigurs og áttu daufa von, blaktandi á veiku skari? Í atferli hans birtist virðing fyrir þeim sem aðrir mátu einskis, viðurkenning á tilverurétti þeirra sem örvæntu: þú ert líka manneskja þótt þér finnist samfélagið virða þig að vettugi, þessi heimur er þinn jafnvel þótt þú hafir ekkert til að hrósa þér af, hvort sem þú ert barn eða gamalmenni, veikur á líkama eða sál, útlendingur, tollheimtumaður, karl eða kona. Jesús horfir á samfélagið frá nýju sjónarhorni: út frá veruleika fórnarlambanna, hann er kominn til að rétta þeirra hlut.

Erum við ekki alltof vön að horfa á samfélagið út frá sjónarhorni sigurvegaranna, þeim opnast allar dyr og þeim er lotið í bak og fyrir? Samfélag upplifunarinnar nærist iðulega á því hégómlega með því að skapa merkingarsnauðan sýndarheim sem fyrri kynslóðir þekktu varla: fræga fólkið, ríka fólkið, valdsins fólk.

Í pólitík Jesú hefur það fólk samt greinilega ekki forgang heldur hinir, þeir sem hafa talið sér trú um að líf þeirra sé einskis virði og réttlætið væri ætlað sigurvegurunum.
Meistari Vídalín skilur reiðina og stendur með hinum reiða í samfélagi í upplausn þar sem fáir hafa  auðgast á kostnað fjöldans.
En reiðin hefur ekki síðasta orðið, meistari Vídalín varar einnig við hinni réttlátu reiði: ölum hana ekki í brjósti okkar, látum hana ekki verða að hatri til annarra, sýnum aðgát í reiðinni. Hinn seki er einnig manneskja og á virðingu skilda, einnig þeim, sem er á rangri leið, ber að sýna umhyggju, líka þeim sem æða í sigurvímu, ærðir af auði sínum. Nærum hin góðu gildi sáttargjörðar í brjósti okkar, ekki síst þegar harðnar á dalnum.
Þarna er Vídalín ekki einn á báti. Hvað um Martin Luther King, hvað um Mahatma Gandhi, hvað um Nelson Mandela? Allir þekktu þeir hina réttlátu, heilögu reiði – en sá sem þekkir hana og hina djúpu alvöru yfirtroðslunnar, hann leitar einnig sátta. Hún opnar leið til framtíðar. Í þann farveg beindu þeir heilagri reiði þar sem hlutur hinna undirokuðu var leiðréttur: í stað hefndar var boðið hlýtt handtak nýrrar sáttargjörðar þar sem iðrun og fyrirgefning tókust í hendur. Í hendi hins sáttfúsa grípur sá einn sem iðrast. Þannig verður sáttargjörðin til, önnur leið er ekki fyrir hendi.

Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi. Þessi orð þekkjum við. Allt mótlæti opnar ný tækifæri, einnig hrun og kreppa.
Sáttargjörðin sem samfélagið hlýtur að stefna að í kjölfar uppgjörsins verður að byggja á þeirri dýrkeyptu reynslu sem fengin er. Dæmisagan úr Fjallræðunni er dæmisaga um von: um bjargið, um undirstöðu sem hrynur ekki, sem hverfur ekki eins og dögg fyrir sólu og skilur eftir sig sviðna jörð og slegna þjóð.

Fjallræðan, sem varðveitir dæmisöguna um húsin tvö, kemur mörgum í opna skjöldu. Þar er ekki að finna lífsreglur eða siðaboð, þar eru ekki leiðbeiningar í anda How to be happy. Þar er róttæk lífssýn, þar er ræða hins hugrakka spámanns, sem fær okkur til að horfa dýpra en á yfirborðið, í hinni spámannlegu ræðu erum við knúin til að horfa til botns. Hin góðborgaralega sýn er hér ekki lengur í gildi, þar er engum ráðlagt að falla hugsunarlaust inn í hópinn eða fljóta með straumnum, þar er ekki spurt um vinsældir eða tískusveiflur, þar er ekki spurt um völd, auð eða frægð.

Þar er horft til þess sem mestu skiptir:  Sælir eru hógværir… Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu….  Sælir eru miskunnsamir… Sælir eru hjartahreinir… Sælir eru friðflytjendur…  Við þekkjum þessa texta Fjallræðunnar um lífsviðhorf.
Og einnig um lífsstíl: Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. … Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna.
Þessi afgerandi lífssýn Fjallræðunnar hefur mótað marga í tímans rás, meðvitað eða ómeðvitað, hún er hinn mikli valkostur um lífsstíl og lífsviðhorf.

Það er ekki tilviljun að Nóbelsskáldið okkar sagði í endurminningabókinni Seiseijú mikil ósköp (1977) að hann hefði alla tíð langað til að skrifa um „fólk eins og í Fjallræðunni“ eins og hann orðaði það. Og það gerði hann, enda má til sanns vegar færa að helstu persónur í skáldsögum Halldórs Laxness feli í sér eindregna og meðvitaða tilraun til að útfæra Fjallræðuna í lífi skáldsagnapersóna, sem oft verða spaugilegar í fjarlægð sinni frá hinu venjulega og viðtekna, þessar persónur eru oft eins og utan gátta í heimi líðandi stundar en samt nær því sem máli skiptir en aðrir.
Skyldu ekki margir koma upp í huga okkar sem falla í þennan flokk Fjallræðufólksins þegar við hugsum okkur um? Það er fólk í daglegu lífi í öllum stöðum og stéttum, til sjávar og sveita, í bæjum og borgum, sem telur það stóra synd að neyta aflsmunar, sem hugar að þeim sem eru minni máttar, sem hefur lífsgildi mannúðarinnar í hávegum, það stærir sig ekki af velgengni sinni, það ofmetnast ekki af auði sínum, það leitar lífsgleði í hinu einfalda, hrokinn er því fjarri, sýndarmennskan sömuleiðis og lágkúran, sem hefur einkennt hina nýríku stétt, er ekki til í fari þess. Þetta er fólkið sem gerir texta Fjallræðunnar áþreifanlegan í daglegu lífi.
Við Íslendingar þekkjum þennan lífsstíl hins einfalda, við eldhúsborðið, einnig í fátækt og fábreytni, í kaffistofunni á vinnustað þar sem allir sitja við sama borð, í lúkarnum, ég minnist lífsgleðinnar sem skein úr andlitum sjómannanna í bát föður míns, þeir voru ekki auðugir menn en þeir áttu frið í hjarta, þannig er það mér í það minnsta í barnsminni.

Lífsstíll hins einfalda hefur hófstillinguna ávallt í huga í öllum efnum. Það er ekki fátækt þar sem fólk býr við einfaldan kost og kann enn að njóta hins smáa. Fátæktin er mest þar sem mannlegt samfélag skortir, þar sem samhyggja hefur vikið fyrir samkeppni, örbirgðin er þar sem enginn annar auður er fyrir hendi en sá hverfuli og þar sem mannleg virðing hefur verið seld á útsölu.
Mér kemur í huga fyrrverandi kanslari Þýskalands, Helmut Schmidt, sem nú er níræður, virtur og dáður af þjóð sinni, í nýrri viðtalsbók dregur hann upp minnisverðar svipmyndir. „Við vorum nýgift“ segir kanslarinn, „þetta var á stríðsárunum, ég átti frí yfir jólin, við göngum frá heimili foreldra minna í þorpinu Eilbek til Barmbek þar sem við bjuggum. Þegar við erum komin yfir síkið heyrum við tónlist frá þorpskirkjunni í Eilbek, það er leikið á þrjá trompeta, þetta er sálmurinn Af himnum ofan boðskap ber / oss börnum jarðar englaher. Þessi minning hefur fylgt mér alla tíð síðan.“ Fleiri voru orð hans ekki, en í lok viðtalsins setur blaðamaðurinn innan sviga orðin „löng þögn“.

Eru það ekki atvik af þessum toga sem setja líf okkar í nýtt og dýpra samhengi? Óvænt atvik, kannski hversdagsleg. Svipmyndir um návist hins heilaga í lífi okkar, um návist guðdómsins, verða óvænt að grunnforsendum í lífi okkar. Vitundin um þá návist vekur langa þögn í huga mannsins, þar eru frekari orð óþörf, blaða-maðurinn hefur undirstrikað vitundina um hið heilaga með orðunum “löng þögn”. Frammi fyrir hinu heilaga í reynslu okkar er þögnin eina svarið. En um leið opnast nýjar dyr. Í daglegu lífi mætir okkur leyndardómur hins heilaga, í hversdagslegum mannlegum samskiptum, í gleði, í sorg, hvort sem er í náttúrunni eða í helgidóminum. Í návist hins heilaga finnum við að lífið er gott, tilfinningin fyrir hinu heilaga ber okkur áfram dag eftir dag á vit þess veruleika sem umvefur þetta líf um tíma og eilífð.

 Fjallræðan dregur fram mynd af fólki sem iðkar miskunnsemi, tileinkar sér hógværð og sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, af friðflytjendum. Málefni Jesú er málstaður mannúðlegs samfélags.

Málstaður hans er einnig málstaður þeirra sem horfa til lífsgilda sem ekki eru fengin með yfirborðskenndum lífsstíl og forgengilegum auði, heldur lífsstíl sem metur auðlegðina í hinu einfalda. Hin róttæka sýn Fjallræðunnar opnar heim þar sem fuglar himins og liljur vallarins eiga ekki í vök að verjast, þar sem boðið er upp á frjóa lífsnautn í mannúðlegu samfélagi, sem virðir það sem fagurt er, gott og satt.

Í trú sinni – einnig í því sem hann kann að kalla trúleysi sitt – varðveitir maðurinn það sem honum er dýrmætast, það sem skiptir hann mestu máli, já, öllu máli, það sem hann lifir fyrir, það sem gerir honum kleift að fagna nýfæddu barni því að heimurinn er góður og þar er manninum óhætt; óska nýgiftu parinu til hamingju í þeirri von og trú að ást og trúfesti séu grundvallarforsendur í mannlegu lífi; og kveðja hina látnu í þeirri sýn út yfir gröf og dauða að lífið sé leyndardómur sem spannar meira en hina takmörkuðu og brotakenndu þekkingu mannsins.

Það dýrmætasta í lífi sínu varðveitir maðurinn í hjarta sínu: þrá sína og sannfæringu, sterka eða veika, um að líf hans og samfélag eigi kost á lífsgildum sem gefa lífi mannsins merkingarbæra heildarmynd sem hrynur ekki eins og spilaborg þótt vötnin flæði og stormar blási, að lífið sé réttlátt og heilagt.

Í þeirri þrá varðveitir maðurinn allt sem hann veit best í þessum heimi, í þeirri þrá er trú hans varðveitt.
Amen

Textar:
 Jes 26.1-7; 1Jóh 4.1-6; Matt 7.24-29

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 5209.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar