Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Örn Bárður Jónsson

Guðfinna og englarnir

23. ágúst 2009

Prédikun við messu
í Neskirkju 23. ágúst 2009, 11. sd. e. trin
Væntanleg fermingarbörn
gengu til altaris
í fyrsta sinn að loknu námskeiði

Ritningarlestrar eru birtir neðanmáls.

Ef þú vilt hlusta á ræðuna smelltu þá hér.

Ég var að gifta fólk hér í kirkjunni nýlega á laugardegi. Þetta var mjög hógvær athöfn og allt í kringum hana. Alls ekki brúðkaup í anda ársins 2007. Brúðhjónin eru bæði komin af léttasta skeiði. Við vorum einungis 7 sem vorum viðstödd og prestur þar meðtalinn. Í hópnum var fullorðin kona. Ég spurði hana hvernig hún tengdist brúðhjónunum og hún svaraði því til að hún væri föðursystir brúðgumans og hann bætti við og upplýsti að hún byggi í Noregi. Já, hvað gerirðu þar? spurði ég. Ég starfa í Hjálpræðishernum. Og hvað heitir þú? spurði ég. Ég heiti Guðfinna, svaraði konan. Ha, ert þú Guðfinna? sagði ég hissa og bætti við annarri spurningu: Er einhver önnur Guðfinna sem hefur starfað sem hermaður í Hjálpræðishernum? Nei, svaraði hún. Varst þú við störf í Hernum á Ísafirði fyrir rúmri hálfri öld? Hún játti því. Á ég að trúa þessu, sagði ég og hélt svo áfram: Ég hef hugsað til þín af og til í áratugi. Við börnin á Ísafirði komum oft á samkomur í Herkastalanum og þar voru hermenn sem komu og fóru en ég man bara eftir einum hermanni með nafni og það er kona sem heitir Guðfinna. Hún ljómaði alltaf þegar hún sagði okkur frá Jesú og kenndi okkur að syngja honum lof. Og er það ekki rökrétt að finna Guð hjá henni Guðfinnu? Ég hef aldrei gleymt áhrifunum sem þú hafðir á mig, sagði ég við hana og gamla konan ljómaði er hún þerraði tárin á hvörmum sér og við gengum til kirkju og ég gaf hjónin saman fyrir altari Guðs.

Lítil saga úr samtímanum, saga um manneskju sem munað hefur um, saga um engil.

Hefur þú séð engil? Hvaða hugmyndir hefur þú um engla? Eru þeir í þínum huga eins og sumir listamenn hafa séð þá fyrir sér í aldanna rás: Svífandi börn með bústnar kinnar, þykka kálfa og læri og vængi? Hvernig eru englar? Hvað er engill? Gríska orðið yfir engil er aggelos (frb. angelós) sem merkir sendiboði, boðberi, sá sem flytur fréttir eða tíðindi. Nei, englar eru ekki eins og bústnir, fljúgandi hvítvoðungar, heldur fólk sem nær því að vera öðrum ljós eða dettur óafvitandi í það hlutverk að skína og gera bjart í kringum sig. Ég held að enginn sé viðvarandi engill, Guð veitir engin föst embætti í þeim geira, en við getum hugsanlega öll skinið bjart eitt andartak við tilteknar aðstæður á stað og stund og verið sendiboðar hinna góðu tíðinda, verið öðrum til blessunar og lýst í dimmunni.

Konuna, sem sýndi takmarkalausa elsku sína til Jesú í guðspjalli dagsins, má e.t.v. skilgreina sem engil og vissulega var Jesús oft í hlutverki engils.

Sjálfur hef ég hitt marga engla á minni lífstíð. Mamma og pabbi, amma og afi, frænkur og frændur, kennarar, samferðafólk, vinir - meðal alls þessa fólks hef ég hitt marga engla. Ég held meira að segja að það hafi verið nokkrir englar í hópi fermingarbarna í liðinni viku. Þeir flögruðu um af og til. Sum barnanna duttu inn í hlutverk engilsins og féllu svo út úr því aftur. Þannig er lífið sé með augum trúarinnar. Og við sem fræddum duttum líka vonandi inn í engilshlutvekrið af og til.

Ert þú engill? Hefurðu einhvern tímann verið engill? Líklega geturðu ekki svarað þessari spurningu. Það er annarra að sjá það og skynja. Hvað sem því líður þá erum við kölluð til þess að lifa eftir hinu tvíþætta kærleiksboðorði sem Jesús kenndi:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Þetta hljómar svo einfalt. Við eigum að elska og í þessari röð: Guð, náungann og okkur sjálf. Að elska sjálfan sig er allt annað en að vera sjálfselskur. Þetta ræddum m.a. á námskeiðinu í liðinni viku. Við ræddum um margt sem Jesús sagði og kenndi, lásum í Biblíunni, sáum kvikmynd um ævi Jesú og spjölluðum. Við ræddum um lífið og tilveruna, um að hafa sterka sjálfsmynd og láta ekki bjóða sér hvað sem er, láta ekki misnota sig og misnota ekki sjálfan sig; um nútímann, um það að vera heil manneskja í heimi Guðs, um ábyrgð gagnvart sköpun Guðs, um elsku og ábyrgð í víðum skilningi. Við ræddum sköpunarsöguna sem er ljóð um Guð skaparann en ekki náttúruvísindi. Og um efnahgashrunið sem í raun var siðferðishrun íslensku þjóðarinnar. Fermingarnámskeið af þessu tagi er ein mikilvægasta fræðsla sem fólk fær á lífsleiðinni og þess vegna höfum við í hyggju að bjóða upp á fermingarfræðslu handa fullorðnum í vetur, fræðslu sem einkum er ætluð foreldrum og forráðamönnum fermingarbarna. Verið velkomin á námskeið safnaðarins í vetur sem verða af ýmsu tagi allt frá biblíumáltíðum með fræðslumolum til lengri námskeiða um inntak trúarinnar og hvernig maður getur tengt við himinn Guðs og öðlast jafnvægi í lífinu.

Við erum öll kölluð til að leita skilnings á þessari vegferð okkar, læra á kortið, að rata rétta leið í lífinu. Öll eigum við okkur drauma og þrár. Eitt af verkefnum barnanna í liðinni viku var að tjá drauma um framtíðina. Hvert er draumaland þitt? Hvernig ætlar þú að komast þangað? Margt bar á góma í draumasmiðju væntanlegra fermingarbarna Neskirkju. Þau unnu í einrúmi, á eingöngu í gamla kirkjugarðinum og tjáðu sig á blað án nafns. Væntanleg fermingarbörn eiga sér drauma af ýmsu tagi. Þau eru lífsreynt fólk og vita margt þótt ung séu. Sum hafa meira að segja reynt djúpa sorg og harm, hafa misst nákominn ættingja, afa eða ömmu, föður eða móður. Og þau spyrja um hinstu rök. Þau þrá himinn Guðs og endurfundi með látnum ástvinum. En þau horfa meir til þessarar tilveru eins og vera ber. Þau þrá flest að verða góðar manneskjur, eignast góðan maka, börn og góðan starfsvettvang. Vinátta er ofarlega á blaði og efnisleg gæði eru þar líka að sjálfsögðu og sum vilja vinna stóran vinning í Lottóinu. Efst á blaði hvað einstök störf varðar er að vera atvinnumaður í íþróttum, 13 þrá þann frama og 10 vilja verða leikarar og 1 ætlar að verða prestur en byrjar sko ekki á botninum því hann eða hún vill verða prófastur. Í hópi væntanlegra fermingarbarna er 1 fatahönnuður, 1 hjúkrunarfræðingur, 3 flugfreyjur, 4 kokkar, 1 mannfræðingur, 3 arkitektar, 1 hárgreiðslukona, 1 fornleifafræðingur, 4 læknar, 1 stjörnufræðingur, 6 viðskiptafræðingar, 1 félagsfræðingur, 2 flugmenn og jafnmargir verkfræðingar, 1 prófessor, 1 geimfari, 2 söngkonur og 3 tölvunarfræðingar, 1 flugstjóri og 1 bakari, 5 lögfræðingar og 2 ljósmyndarar, 1 fyrirsæta og 2 listamenn, 3 smiðir og 2 hárgreiðslumenn, 2 kaupmenn og 1 yfirkennari, 1 sýslumaður, 2 tannlæknar, 1 lögreglumaður, 2 tónlistarmaður, 1 ferðamálafræðingur, 1 kappakstursmaður - og 1 bankamaður.

Þetta frábæra, unga fólk, ætlar að láta um sig muna og láta gott af sér leiða. Mörg þeirra vilja hjálpa þeim sem eiga bágt, bæði hér heima og í fjarlægum löndum. Þau vilja vera ljós. Þau vilja vera englar. Engilshlutverkið er svo sveigjanlegt að það getur aðlagast hvaða starfi sem er og jafnvel hentað þeim sem hafa ekkert starf.

Guð á sér draum um þig. Hann segir á einum stað: „Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.“ (Jer 29.11)

Þú getur orðið að engli í þessu lífi, í það minnsta eitt andartak og kannski fleiri og svo getur þú líka orðið algjör draumur.

Bersynduga konan sem vissi að henni var mikið fyrirgefið var yfirfljótandi af þakklæti og kærleika, frá henni streymdu smyrsl og tár, snyrtivörur þess tíma og tár djúprar elsku. Hún gaf vegna þess að hún hafði þegið.

Veist hvað Guð hefur gefið þér? Hann hefur gefið þér lífið og ekki bar líf hér og nú heldur um eilífð alla. Hvernig þökkum við þá miklu gjöf? Jú, með því að lýsa og skína í þessum heimi, sem þarfnast meiri birtu, meiri elsku, meiri fyrirgefningar, meiri andlegra verðmæta, sem aldrei verða tekin upp í veraldlegar skuldir eða gengisfelld á nokkurn hátt. Hin himnesku verðmæti eru mikilvægust þegar grannt er skoðað.

Hefurðu séð engla? Þeir eru miklu oftar á ferðinni en þig hefur hingað til grunað. Taktu eftir englunum í kringum þig í daglegu lífi og þú munt skynja að himinn Guðs er ekki svo fjarri. Amen.

- - -

Lexían er úr Davíðssálmum:

Ég vil fræða þig, vísa þér veginn
sem þú átt að ganga,
ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.

Pistillinn er úr Fyrsta Jóhannesarbréfi:

Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.

Guðspjallið
Lúk 7.36-50

Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“
Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“
Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“
„Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“
Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“
Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3102.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar