Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Gestrisin?

12. ágúst 2009

En endir allra hluta er í nánd. Verið því gætin og algáð til bæna. Umfram allt hafið brennandi kærleika hvert til annars því að kærleikur hylur fjölda synda. Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla. Sérhvert ykkar hefur fengið náðargáfu. Notið þær og þjónið hvert öðru eins og góðir ráðsmenn margvíslegrar náðar Guðs. Sá sem talar flytji Guðs orð, sá sem þjónar sýni að Guð gefi máttinn til þess. Verði svo Guð vegsamaður í öllum hlutum fyrir Jesú Krist. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen. 1Pét 4.7-11

„Finnst ykkur ekki mikið mál að taka svona á móti gestum frá útlöndum?“ spurði gesturinn einlægur á öðrum degi Íslandsdvalarinnar. Þau hjónin voru komin með börnin sín tvö til dveljast á Íslandi í rúma viku og við ætluðum að lóðsa þau um. Sýna þeim landið og upplifa það með þeim.

Hvernig á maður að svara svona spurningu?

Eitt mögulegt svar gæti hafist með svolitlu „dæsi“ og svo mætti segja:

„Ja, þakka þér fyrir að spyrja. Jú, þetta er í raun heilmikið mál og í sjálfu sér er almennt mikið mál að taka á móti gestum. Hvort sem maður býður einhverjum í mat eða tekur á móti vinum erlendis frá þá er þetta bara heilmikið mál. Maður þarf að taka til, skipuleggja dagskrá, ákveða hvað á að hafa í matinn og svo tekur þetta mikinn tíma og við skulum ekki einu sinni byrja að ræða það hvað matur kostar á Íslandi!“

Þetta var ekki svarið mitt og hefði raunar aldrei verið.

Ég svaraði eitthvað á þessa leið:

„Veistu, mér finnst það vera krydd í tilveruna að taka á móti góðum vinum, innlendum sem erlendum. Og okkur finnst gaman að fá að deila landinu okkar með fólki eins og ykkur og upplifa landið með ykkur.“

Og svo hélt samtalið áfram.

Það má kannski geta þess að vikan var alveg hreint frábær og leiddi í ljós það sem ég reyndar vissi: Það er gott að leyfa sér endrum og sinnum að vera ferðalangur á heimaslóð - að vera ferðamaður í eigin landi. Þá kunnum við nefnilega enn betur að meta það.

• • •

Í morgunlestri dagsins segir meðal annars: „Verið gestrisin við hvert annað …“ Spurning vinarins erlenda leiddi hugann að þessu. Og ég velti fyrir mér mér hvort það sé ekki gagnlegt og jafnvel nauðsynlegt að hugsa einmitt þannig um kirkjuna. Sjá hana fyrir okkur sem samfélag um grunngildið gestrisni. Sjá kirkjuna sem samfélag gestrisninnar og okkur sem gestrisið fólk.

Takið til að mynda eftir því sem sér stað hér, í þessari messu, í dag.

Messan er öllum opin.
Við leggjum öll eitthvað af mörkum.
Hér á eftir verður friðarkveðjan borin út meðal allra. Allir óska öllum friðar.
Altarisborðið er opið og þar mætast ungir sem aldnir.
Og þegar við messunni er lokið setjumst við aftur niður saman og snæðum.
Við nærum sál og anda og líkama.

Hér er fólk sem leggur mikið á sig – af því að það vill það – til að þau sem hingað komi finni sig velkomin.

Eru það ekki þau grunngildi, sú tilfinning, sú sýn sem við viljum miðla, sem kirkja og sem kristið fólk?

Vertu velkomin.
Þar sem þú ert.
Eins og þú ert.

Ég er velkominn.
Þar sem ég er.
Eins og ég er.

Því það er gestrisni.
Og það er að vera kirkja.

Um höfundinnViðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2210.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar