Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnar Jóhannesson

Skynsamleg trú eða trú á skynsemi

12. júlí 2009

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

Ég óska öllum hér, innan kirkju sem utan, gleðilegrar hátíðar. Sólin skín bjart hér í Stíflunni í dag. Það er alltaf mikil upplifun að standa hér í Knappstaðakirkju, þessari elstu timburkirkju sem við eigum í landinu. Það kemur yfir mann alveg sérstök tilfinning. Ég vona að svo sé einnig hjá ykkur.

Ritningarlestrar dagsins í dag bjóða upp á margar prédikanir. Þeir voru langir, eins og þið heyrðuð, og geyma mörg íhugunarefni.

Pistill dagsins er mjög merkilegur. Þar er gripið niður í varnarræðu Páls postula frammi fyrir Agrippa konungi. Páll hafði verið tekinn höndum og leiddur fram fyrir konunginn og gert að gera grein fyrir orðum sínum og gjörðum. Þar sem Páll stendur frammi fyrir konunginum rifjar hann upp atvik úr lífi sínu, þegar Kristur birtist honum í sýn og kallaði hann til fylgdar við sig. Páll var þá allt annar maður, gyðingur að nafni Sál og einn helsti fjandmaður kristinna manna og gekk hann mjög hart fram í ofsóknum gegn þeim. Þessi reynsla, sem Páll lýsir fyrir konunginum, markaði algjör tímamót hjá honum því upp frá þessu gekk Páll þeim mun harðar fram í að boða trú á Jesú Krist og varð þekktur í sögunni, eins og við vitum, sem einn öflugasti og áhrifamesti trúboði kristninnar.

Líf Páls var ekki það sama eftir að Jesús varð á vegi hans á leiðinni til Damaskusar. Það tók algjörlega nýja stefnu sem engin hefði getað séð fyrir. Við eigum sjálfsagt erfitt að gera okkur í hugarlund hversu mikil breyting varð á lífi Páls. Páll greinir sjálfur frá því í einu bréfa sinna í Nýja testamentinu að í kjölfar funda hans við Jesú var hann sleginn blindu um tíma. Þegar hann fékk sjónina aftur var hins vegar allt breytt. Ekkert var eins og áður. Heimurinn var breyttur. Hann sjálfur líka. Hann var ekki lengur Sál heldur Páll, lærisveinn og sendiboði Jesú Krists. Hugsanir Páls, orð hans og gjörðir breyttust. Viðhorf hans til lífsins og tilverunnar voru önnur. Líf hans þjónaði nú í öllum atriðum vilja Guðs í Jesú Kristi.

Páll var orðinn kristinn!

Hann sá heiminn bókstaflega í nýju og breyttu ljósi. Augu hans höfðu opnast. Og verkefnið sem Jesús hafði gefið Páli var að opna augu annarra fyrir þeim sama veruleika og hafði opinberast honum svo þeir gætu líka séð lífið í réttu ljósi.

Reynsla Páls minnir mig alltaf á orð hins áhrifamikla kristna trúvarnarmanns C.S. Lewis sem ég vitna gjarnan í:

„Ég trúi á kristindóminn eins og ég trúi því að sólin hafi risið upp. Ekki aðeins vegna þess að ég sé hana heldur vegna þess að hennar vegna sé ég allt annað.“

Þessi orð segja margt. Hér minnir Lewis okkur á að kristin trú felur í sér sjónarhorn sem gefur okkur útsýni yfir allan veruleikann og varpar ljósi á alla tilveruna, ekki aðeins hluta hennar. Kristin trú veitir svör við þeim spurningum sem brenna á okkur öllum í lífinu á einum tíma eða öðrum: Hvaðan kem ég og af hverju? Hver er tilgangur lífsins? Hvernig ber mér að breyta í lífinu? Hvers má ég vænta að þessu lífi loknu? Kristin trú gefur okkur tiltekna mynd af lífinu. Hún hjálpar okkur að skilja og skynja lífið með vissum hætti og gera úr því merkingarbæra heild. Að trúa er því ekki að stökkva út í myrkrið heldur þvert á móti að stökkva út úr myrkrinu og inn í ljósið.

* * *

En auðvitað eru ekki allir sammála þessu. Það sjá ekki allir lífið sömu augum.

Ég veit ekki hvort þið lásuð morgunblaðið á föstudaginn var. Þar var að finna grein eftir guðleysingja sem lét að því liggja að kristið fólk hljóti að fórna skynsemi sinni fyrir trú sína og sé því óskynsamlegt fólk sem sjái veruleikann í röngu ljósi. Hann vitnaði í þessu samhengi í Orðskviði Gamla testamentisins þar sem segir: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ (Okv 3.5) Það er merkilegt út af fyrir sig að það eru gjarnan guðleysingjar sem lesa og túlka Biblíuna með bókstaflegum hætti – en gagnrýna þó oftar en ekki kristið fólk fyrir að gera hið sama – og snúa þannig út úr merkingu hennar, eins og gert er í þessu tilviki.

Til marks um óskynsemi kristinnar trúar nefndi hann einnig að erfðafræðilega séð væri það ómögulegt að Jesús sé sonur Guðs. (Þess má geta að hér er um lækni að ræða.) Það er alveg rétt! Enginn kristinn maður mundi heldur halda slíkri óskynsemi á lofti. Erfðafræðilega séð er auðvitað ómögulegt að Jesú sé sonur Guðs. Kristið fólk hefur aldrei haldið öðru fram og getur því tekið undir orð læknisins hér. Guð hefur auðvitað ekkert erfðaefni. Hér er einfaldlega verið að draga upp og gagnrýna fráleita mynd af Guði og ranga mynd af kristinni trú. Öllu kristnu fólki ber saman um að fæðing Jesú hafi borið að með yfirnáttúrulegum hætti, ekki náttúrulegum. Fæðing hans var því kraftaverk í réttum skilningi.

En til þess að kraftaverk séu möguleg þá verður tilvist Guðs að vera möguleg. Ef Guð er til þá fylgir möguleikinn á kraftaverkum með í kaupunum, ef svo má segja.

Ólíkt guðleysingjum hefur kristið fólk alltaf hafnað því viðhorfi að alheimurinn sé eilífur og á grundvelli skynsamlegra raka haldið því þvert á móti fram að alheimurinn eigi sér upphaf og þar af leiðandi orsök. Nú hefur vísindaleg þekking, svo langt sem hún nær, hafið hið kristna viðhorf yfir allan skynsamlegan vafa og sýnt að skynsemin styður hina kristnu heimsskoðun.

Hitt er annað mál að guðleysingjar neita að horfast í augu við þá merkingu sem þetta hefur. Upphaf alheimsins merkir að hann hefur ekki alltaf verið til. Hann varð til og á sér því orsök sem liggur handan hins náttúrulega og efnislega veruleika sem við þekkjum og erum hluti af – hann á sér því orsök sem er yfirnáttúruleg. Með því er opnað fyrir þann möguleika að það sé ástæða fyrir lífinu og tilverunni og að það hafi gildi og merkingu í sjálfu sér. Slíkt er einfaldlega ekki í boði þegar guðleysi er annars vegar.

* * *

„Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“

Þetta þýðir ekki að við eigum að hafna skynsamlegri hugsun. Alls ekki. Skynsemi okkar er hluti af mynd Guðs í okkur. Við eigum hins vegar að þekkja takmörk okkar. Við eigum ekki að lyfta okkar sjálfum á guðlegan stall og gera okkur að æðsta mælikvarða alls sem er. Menn hafa gert það og reynslan sýnir hvaða afleiðingar það getur haft.

Jesús minnir á þetta í guðspjalli dagsins þegar hann segir: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér.“ Jesús er ekki að segja að við eigum að lifa lífinu í sjálfsafneitun eða láta eins og við og líf okkar skipti ekki máli. Hann er miklu fremur að segja að við eigum að lifa lífinu í ljósi þess að eitthvað annað og meira er til en við sjálf, eitthvað sem gefur okkur og lífi okkar tilgang, merkingu og gildi; eitthvað sem við hljótum að horfa til og taka til greina í okkar lífi.

Í þeim skilningi eigum við að afneita sjálfum okkur.

Við eigum að treysta á Guð. Í kristnum skilningi er trú fólgin í trausti til Guðs. Trú er sú vissa að öryggi mannsins liggur í og hjá Guði; að upphaf lífsins, tilgangur þess og takmark séu fólgin í Guði.

Í þessum skilningi afneitaði Páll postuli sjálfum sér og það sama eigum við að gera. Líf okkar á að bera vilja Guðs vitni, ekki okkar eigin. Við eigum að hafa hann í huga og hjarta hvar sem við erum í lífinu, í öllu því sem við gerum, og þá mun hann gera leiðir okkar greiðar (sbr. Okv 3.6)

Þórður bóndi reisti kirkju sínar hér að Knappstöðum „einum og sönnum Guði til sæmdar.“ Okkur ber að byggja líf okkar á sama grunni. Án hans værum við ekki hér. Án hans væri ekkert líf til að byggja upp. Án hans væri ekki neitt.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

* * *

Ritningarlestrar:

Lexía: Jer 15.19-21

Þess vegna segir Drottinn: Viljir þú snúa við sný ég þér svo að þú getir aftur þjónað mér. Ef þú talar þungvæg orð en ekki léttvæg skaltu vera munnur minn. Þá leita menn til þín en þú mátt ekki leita til þeirra. Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg til að verjast þessu fólki. Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig því að ég er með þér, ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn. Ég bjarga þér úr höndum vondra manna og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Pistill: Post 26.12-20

Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum. En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú ofsækir. Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. Ég mun senda þig til Gyðinga og heiðingja og vernda þig fyrir þeim. Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru. Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki.

Guðspjall: Matt 16.13-26

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“ Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur. Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3945.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar