Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Síðast, en ekki síst

8. júlí 2009

Lagt út af 1Pét 3.8-17

Kæri söfnuður.
Morgunlestur þessa dags er svona svolítið síðast-en-ekki-síst texti. Á undan honum fer texti sem fjallar um hjónabandið. Þar eru eiginkonur ávarpaðar og líka eiginmenn og fyrir þeim brýnt að passa vel upp á hvort annað. Og virða hvort annað.

Þar er reyndar að finna hugmyndir sem við erum ekki endilega sammála – því þær endurspegla kannski gamalt samfélag og hugmyndir um hjónaband og um karla og konur sem við tökum ekki undir lengur.

Og það er bara þannig og við þurfum ekkert að ræða það frekar hér.
En sú er ekki raunin með morgunlestur dagsins.

Með síðast-en-ekki-síst textann.

Hann hefst svona:

Að lokum, verið öll samhuga, hluttekningarsöm og elskið hvert annað, verið miskunnsöm, auðmjúk. Gjaldið ekki illt með illu eða illmæli fyrir illmæli heldur þvert á móti blessið …

Og svo heldur hann áfram:

Sá sem vill elska lífið
og sjá góða daga
haldi tungu sinni frá vondu
og vörum sínum frá svikatali.
Hann sneiði hjá illu og geri gott,
ástundi frið og keppi eftir honum.

Er þetta ekki falleg dagsskipan fyrir hjónabandið? Og fyrir öll samskipti manna? Fyrir okkur.

Samhugur og ást.
Auðmýkt og miskunnsemi.
Falleg orð og falleg verk.
Friður.

Við erum hvött til að sýna umhyggju. Til að setja okkur í spor annarra. Til að virða náungann og okkar nánustu. Til að þjóna. Til að skilja aðra. Til að elska.

Og hvað þýðir þetta? Fyrir hjónaböndin og fyrir samskiptin öll?

Kannski má orða það svona:

Þú skalt ganga inn í sérhverjar aðstæður, mæta öllum öðrum þannig að aðrir gangi frá samfundum við þig örlítið beinni í baki, með lítið bros í hjartanu eða á vörunum eða kannski hvoru tveggja. Með örlítið betri tilfinningu gagnvart sjálfum sér og lífinu.

Þetta má auðvitað orða með öðrum hætti – og það gerir Pétur reyndar í morgunlestrinum:

Þú skalt vera öðrum blessun.

Blessaðu. Vertu blessun.

Það er síðast, en ekki síst.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3741.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar