Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Að elska mikið í heimi þar sem karlar hata konur

22. júlí 2009

Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. (Gal 3.26-29)

Nú standa yfir sýningar í íslenskum bíóhúsum á kvikmynd sem byggð er á sænskri skáldsögu sem hefur hlotið mikla athygli víða um heim. Nafn sögunnar er enda sérlega grípandi og sláandi í senn, og stimplar sig með látum inn í hughrif okkar. Myndin heitir Karlar sem hata konur.

Grunnhugmynd sögunnar er að samfélagið okkar skapi skilyrði fyrir, og næri við brjóst sér, jarðveg og andrúmsloft fyrir misnotkun og misbeitingu valds gagnvart þeim sem er veikari, hvort sem er í persónulegum samböndum eða samskiptum almennt. Þótt hin persónulega saga sem fylgt er í myndinni, sé þungbær og ógeðsleg á köflum, fékk það ekki síður á mig við lestur bókarinnar, að virða fyrir mér birtingarmyndir og afleiðingar þess kerfisbundna ofbeldis sem viðgengst í samfélaginu og sagan dregur upp. Í þessum fallna heimi sögunnar um karla sem hata konur, eru hópar eins og konur, útlendingar, samkynhneigðir og geðveikir, markvisst misnotaðir og kúgaðir, til að fullnægja hinum sterkari á sviði valds, peninga, kynlífs og áhrifa.

Það eru sem sagt hópar og sjálfsmyndir þeirra sem þeim tilheyra, sem eru lykillinn að atburðum og ástandi og því hvernig við greinum það sem á sér stað. Það er hópurinn sem þú tilheyrir sem setur þér mörk, viðmið, gildi og væntingar. Þessi framsetning á að vissu leyti rætur sínar að rekja til marxískrar söguskoðunar, sem gerir ráð fyrir því að átök ólíkra hópa, þeirra sem valdið hafa og þeirra sem eru beittir valdi, ráði framvindu mála og því hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Þessar forsendur leiða líka í ljós hvernig sjálfsmynd okkar mótast eftir því hvaða hópi við tilheyrum og hvernig þeim hópi er stillt upp í samfélaginu við aðra. Texti Galatabréfsins fjallar einmitt um sjálfsmynd og samfélag. Þar er gamalkunnugum hópum teflt gegn hver öðrum. Þekkt hugtakapör skjóta upp kollinum. Gyðingur eða annarrar þjóðar maður, karl og kona, frjáls og ófrjáls. Það eru þessir ólíku hópar, sumir í valdastöðum, aðrir ekki, sem eru viðtakendur orðsins. Nema hvað, að þessi hópar, og hverjir tilheyra þeim, hafa í huga höfundarins ekki úrslitaáhrif á stöðu hinna kristnu í samfélaginu með hvert öðru. Nýrri sjálfsmynd er stillt upp gegn gamalli og þannig riðlast inngróið valdajafnvægi samfélagsins.

Í staðinn fyrir að líta á sig sem konu - eða Gyðing - eða þræl - fær hin kristna manneskja alveg nýtt viðmið til að hugsa um sig sjálfa. Það er að vera Guðs barn. Ásamt öllum hinum, sem trúa á Krist, er hún Guðs barn. Það þýðir, að allt það sem aðgreinir okkur í lífinu, og setur þröskulda á milli okkar í samfélaginu, er ekki lengur fyrir hendi í trúarsamfélaginu. Kirkjan er samfélag þeirra sem trúa á Krist og í honum eru allir jafnir. Í kirkjunni – og í trúnni á Krist – verða hin mörgu og ólíku eitt.
Þessi róttæka og afdráttarlausa sýn á kirkjuna sem samfélag Guðs barna, sem eru jöfn og eitt í Kristi, er svo heilbrigð og frelsandi inn í aðstæður sem öllu jafna þvinga okkur í dilka ólíkra sjálfsmynda út frá ólíkum hópum sem við tilheyrum.

Á messudegi Maríu Magdalenu (sem er 22. Júlí), er gaman að íhuga persónu hennar út frá þessari kirkjusýn. Hún kom inn í samfélag lærisveinanna með alls konar farangur og hátt flækjustig í einkalífinu. Hún hefur reynt boðskapinn um Guðs börn á eigin skinni og tekið á móti hinu umbreytandi og frelsandi fagnaðarerindi um Guð sem tekur sér stöðu með manneskjunni. Vitnisburður kirkjunnar um Maríu er að hún hafi elskað mikið (sbr. Lúk 7.47). Og það – að elska mikið – er einhvern veginn eina andsvarið sem við getum veitt hvort öðru í heimi þar sem karlar hata konur.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Að elska mikið í heimi þar sem karlar hata konur”

  1. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

    Takk fyrir þessa góðu prédikun. Þú leggur vel út af textanum og tengingin við bók og bíómynd er hreinasta afbragð. Góð samfélagsgreining!

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2697.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar