Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Karl Sigurbjörnsson

Viðmiðin

7. júní 2009

Gleðilega hátíð, til hamingju með Sjómannadaginn, hátíð sjómanna um land allt! Til hamingju sjómenn og aðstandendur, gleðilega hátíð. Mörgum er þessi dagur minning um missi, sorg og söknuður marka þennan dag, og þakklætið umvefur minningu þeirra sem hafið tók. Drottinn blessi það allt. Já, Guð blessi þennan dag og allt sem hann stendur fyrir í lífi og minningum alþjóðar.

Þið þekkið mörg hver skrítluna um messaguttann. Sú saga var sögð um miðja öldina sem leið. Guttinn hafði eitt hlutverk um borð sem ekki mátti fyrir nokkurn mun bregðast. Það var að færa skipstjóranum fyrsta kaffibolla dagsins upp í brúna. Þegar kallinn hafði dreypt á ilmandi, rjúkandi kaffinu brá hann sjónauka að augum og skimaði út í morgungrámann. Svo seildist hann í vasa sinn og tók upp blað, braut það sundur og las með andagt, hreyfði varirnar eins og hann vildi innprenta orðin í huga sér og sinni.

Guttinn var að sálast af forvitni. Hvað var á þessu blaði? Svo kom að því morgun einn að hann gat ekki á sér setið. Kallinn dreypti á kaffinu, skimaði út yfir hafflötinn, tók svo andagtugur blaðið upp úr vasa sínum, braut það sundur og strákurinn teygði fram álkuna sem hann framast þorði til að sjá. Og sjá, á miðanum stóð skýrum stöfum: „Stjórnborði hægri. Bakborði vinstri!“
Það er mikilvægt að átta sig. Getur skipt sköpum, ráðið úrslitum. Og öll þurfum við að minna okkur á, rifja upp og reyna að muna grundvallaratriðin. Það getur ráðið úrslitum um líf og heill og eilífa velferð.

Mörgum finnst sem við Íslendingar höfum lent í hafvillum, við villtust af vegi og okkur rak upp á sker, af því að menn misstu sjónar á grundvallaratriðum, staðsetningarhnitum og miðum sem marka gæfuveg og farsældar.

Margir fullyrða að heimskreppan og hrunið sé ekki efnahags, banka eða fjármálakreppa, heldur umfram allt siðferðiskreppa. Menningin hafi verið undirlögð siðleysi græðginnar, engin viðmið voru lengur virt nema viðmið fjármálagengis og gróða. Siðferðisratsjáin var tekin úr sambandi og reiknitölva gróðasjónarmiðanna tók yfir. Því fór sem fór.

Við finnum til, þjóðin er öll undirlögð. Erum eiginlega eins og kallinn sem kom til læknisins. „Læknir, “sagði hann og benti á mismunandi líkamshluta sína. „Þegar ég snerti á mér handlegginn finn ég til. Þegar ég kem við hnakkann á mér þá finn ég til. Þegar ég snerti nefið á mér þá finn ég til. Þegar ég pota í naflann á mér þá finn ég til. Er ég með einhvern sjaldgæfan sjúkdóm?” „Nei” svaraði læknirinn. „Þú ert fingurbrotinn!”

Við finnum til, við erum brotin, löskuð, sár, og ráðvillt.

Sagt er frá því að eitt sinn hafi hist á förnum vegi Magnús á SyðraHóli, Skagafirði og Sighvatur Borgfirðingaskáld. Og Magnús sagði:„Hér er voði, hvað mun stoða honum á móti?“ Sighvatur svaraði að bragði: „Sá er boðorð gaf á grjóti.“

Kristin lífssýn og heimsynd gengur út frá því að það séu viðmið sem eru óhagganleg, heil. Þau viðmið eru ekki bara boðorð á grjóti, heldur persona, maður sem horfir í augu þín og ávarpar þig. Guðs sonur, Jesús Kristur, vegurinn, sannleikurinn og lífið, afl og áhrif í lífi manns og heims, og sem á hljómgrunn í hjörtum allra góðra manna. Rödd hans er orðið sem leiðbeinir veginn rétta, og dæmir allt um síðir.

Um langan aldur var saga Biblíunnar um Paradís og syndafallið ein grunnsaga okkar menningar. Þar er mikil viska fólgin og dýrmætur boðskapur hverri kynslóð. Boðskapur hennar til mín og þín er: þú ert ekki eins og þú ert. Við þykjumst vita að við erum ekki eins og við eigum að vera, eða jafnvel viljum vera, en sagan segir mér: Þú ert ekki eins og þú ert. Þú gleymir hver þú ert, Eva, þegar þú hefur vond áhrif á ástvin þinn, eða aðra. Þú ert ekki sá sem þú ert, Adam, þegar þú skirrist ábyrgð og varpar allri sök á aðra. Þú ert ekki með sjálfum þér. Þú ert útlagi frá sjálfum þér. Þú ert ekki með sjálfum þér. Þú ert búinn að týna Guði. - En Guð týnir þér ekki! Þess vegna er von, sérhver manneskja á von að verða heil, að finna rétta leið.

Nú finnst ýmsum sem þetta sé úrelt viðhorf, að heimsmynd kristinnar trúar sé afsönnuð og úr sér gengin. Þróunarkenning Darwins er orðin einskonar grunn-saga okkar menningar, goðsögn um það hvað það er að vera manneskja. Það hefur að mínu mati reynst afdrifaríkt. Þar með er ég ekki að andmæla því að hún fái staðist sem tilgáta um uppruna og þróun tegundanna. Nei, en þróunarkenningin setur samkeppnina fram sem drifkraft alls. Þau hæfustu halda velli. Í þeirri forsendu er ekkert rúm fyrir umhyggju og mildi, samstarf eða samúð, nema þá að því marki sem það þjónar að því að komast af og sigra sjálfur. Þetta er háskaleg hugmynd og hefur reynst heiminum örlagarík. Kenningar kristninnar um uppruna heimsins setja fram allt aðra forsendu: Heimurinn, lífið, þú ert til af því að Guð elskar. Guð er kærleikur, kærleikurinn, miskunnsemin, náðin er forsenda alls. Þú ert elskað Guðs barn. Guð elskar og vill með elsku sinni laða fram líf og fegurð, frið og gleði.

Við þurfum áreiðanlega ný viðmið, nýtt gengi á meginverðmætum. Við þurfum ekki að leita langt. Kristin trú og siður hefur mótað og nært hið besta og fegursta í menningu okkar og samfélagi. Þar er leiðsögnin og viðmiðið sem treysta má.

Friðarverðlaunahafinn og mannvinurinn, Dalai Lama, sótti Ísland heim á dögunum, svo sem ógleymanlegt er. Í ávarpi sínu í Hallgrímskirkju hvatti hann áheyrendur sína til að iðka trú sína og bera henni vitni í verki, mannúðar, miskunnsemi, fyrirgefningar, sem væru grundvallaratriði í trúarbrögðunum. Fyrir nokkrum árum var hann í Finnlandi og var spurður: „Hvað hefur kristindómurinn að gefa?“ Hann svaraði: „Það sem hefur mest áhrif á mig í kristindóminum. er áhrif hans á samfélagið. Það er augljóst hér á Norðurlöndum þar sem áhrif hans hafa verið svo sterk. Þess vegna verð ég að segja að ég er hrifinn af því hverju kristindómurinn hefur komið til leiðar hvað varðar fræðslu, heilsuvernd og umönnun sjúkra og réttlæti.

En ég sé líka gjá í þessum löndum. Það er gjá milli boðskaparins og breytni hversdagslífsins. Ef kristindómurinn á að verða trúverðugur þá verður hann að virka í hversdeginum með því að vera lifaður í kærleika, bræðralagi, umhyggju og sáttargjörð.“ Þessi orð búddamunksins, Dalai Lama ættu að vera okkur hvatning að vera það sem við erum.

Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar ratsjáin er tekin úr sambandi og staðsetningartækjunum hent.

Þegar orð Guðs verður okkur framandi, þegar boðorð Guðs og leiðsögn trúar og bænar er sett af, þá verðum við viðskila við okkur sjálf, eigin rætur, og eilífa ákvörðun, eiginlega fingurbrotin. Sú iðkun og boðun sem fram fer í helgidómunum, og þegar þú ferð með bænirnar þínar, eru staðsetningartæki, til að við getum staðsett okkur. Boðorðin, gullna reglan og faðir vor eru eins og miðinn sem hann var með í vasanum, kafteinninn: „Stjórnborði hægri, bakborði vinstri!“ Til að minna okkur á, svo að við lærum að elska hið góða og sanna, elska lífið. Svo að við rötum veginn rétta, hamingjuleið og heilla.

Það voru mikil og gleðileg tíðindi er nýju íslensku varðskipi var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð í suðurhluta Chile miðvikudaginn 29. apríl. Það snart mig djúpt og gladdi mjög að lesa orðin sem Þórunn J. Hafstein, starfandi ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumálaráðuneytisins hafði yfir er hún gaf varðskipinu nafn. Ýmsir þeir sem taktinn slá í orðræðu dagsins vilja gera lítið úr því þegar Guðs nafn er nefnt opinberlega. En hún var ekkert feimin við það og mælti þessi orð:„Guð í hjarta, Guð í stafni, gefur fararheill. Ég nefni þig Þór. Gifta og styrkur fylgi nafni þínu. Drottinn Guð, geym það nafn í huga þér. Gæt skips og áhafnar fyrir veðri og áföllum. Blessa gæslu þeirra landi og lýð til heilla. Drottinn verði með þér alla tíð.“

Undir þá fallegu bæn og heillaósk tekur alþjóð hér í dag, og lykur í þeirri bæn sérhvert skip og sérhverja áhöfn.

Sjómannadagurinn er dagur minninga og þakkargjörðar og fyrirbænar. Engin stjarna er í fána sjómannadagsins að þessu sinni. Enginn fórst á sjó á umliðnu ári. Við lofum Guð fyrir það.
Við biðjum fyrir sjómönnunum og fjölskyldum þeirra. Og eins minnumst við í þökk og fyrirbæn björgunarsveita sem leggja fram sína góðu krafta til bjargar mannslífum. Við minnumst Landhelgisgæslunnar, og þeirra sem sinna slysavörnum og öryggismálum til sjós og lands, við erum þakklát fyrir þann hetjuher í þágu lífsins. Og við hugsum til allra þeirra sem leggja sig fram um að reynast öðrum vel, vera vinir í raun og vá. Guð launi og blessi það allt eilífri blessun sinni.
Á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum í þögn.

Veit þeim, ó Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár.

Í Jesú nafni. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2432.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar