Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Pétur Kr. Hafstein

Það er ekki sjálfgefið

17. júní 2009

Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár,
og þúsund ár dagur, ei meir,
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður Guð sinn og deyr.
M.Joch.

Náð Drottins, kærleikur og friður sé með yður öllum. Amen.

Við minnumst þess í dag að hér, á bálastorku Þingvalla, var lýðveldi stofnað á Íslandi fyrir 65 árum. Það er ekki langur tími í lífi þjóðar, aðeins örsmár dropi í ómælishaf aldanna. Þingvellir og helgidómurinn hér eiga sér miklu lengri sögu en lýðveldið unga. Hér stóð alþingi feðranna til forna og hér voru sköpuð örlög. Hér urðu skapadægur, Drekkingarhylur kallaðist á við Lögberg. Hér var málum lands og lýðs ráðið til lykta, lengst af undir erlendu konungsvaldi og einveldi. Áður en þjóðveldið leið undir lok á 13. öld hafði alþingi þó tekið hina stærstu og afdrifaríkustu ákvörðun í gjörvallri sögu sinni – að leiða í lög kristna trú. Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu að Ólafur helgi Noregskonungur hafi sent Íslendingum að gjöf kirkjuvið skömmu eftir kristnitöku „og var sú kirkja gjör á Þingvelli, þar er alþingi er.“ Síðan hefur verið guðshús á þessum stað, eitt fram af öðru. Sú kirkja, sem hér stendur og kallar okkur til sín í dag, var reist fyrir einni og hálfri öld og vígð á jóladag 1859.
Alþingi Íslendinga hefur vissulega tekið margar afdrifaríkar ákvarðanir aðrar en að lögleiða kristni og þær hafa ekki allar verið til heilla. Skin og skúrir hafa skiptst á í sögu þingsins, stundum var frægðarsól þess í heiði og stundum fékk þingið það hlutskipti Snorrabúðar í huga almennings að vera stekkur. Alþingi hefur hins vegar alltaf tekið þær ákvarðanir, sem markað hafa farveg stjórnskipunar landsins, hvort heldur var með stofnun þjóðveldis, kristnitöku, lögtöku Járnsíðu og Jónsbókar eða með því að gangast undir erlent konungsvald. Hér á Þingvöllum færði Kristján konungur IX Íslendingum fyrstu stjórnarskrána 1874, „frelsisskrá úr föðurhendi“ sem séra Matthías Jochumsson kallaði svo, og hér var leidd í lög lýðveldisstjórnarskrá 17. júní 1944, sem fær nú að ósekju heldur hraklega meðferð í reiðilestri samtímans.

Það er afar þýðingarmikið í lýðræðisríki að löggjafinn njóti trausts og virðingar – en það er ekki sjálfgefið. Hann verður rétt eins og aðrir að vinna til traustsins. Það er ekki nóg að tala um virðingu og krefjast hennar í orði. Virðing og vegsemd alþingis verður aldrei meiri en þingmenn gefa tilefni til með orðum sínum og verkum. Alþingismenn geta þannig ekki vikið sér undan ábyrgð með því að skírskota til ráðherraræðis, að ríkisstjórnin ráði lögum og lofum. Hér á landi er þingræði – meirihluti alþingis ræður því sem hann vill, hvernig stjórn og stjórnarhættir skuli vera hér á landi. Ef yfirgangur framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu keyrir úr hófi er engum um að kenna nema alþingi sjálfu – það hefur allar valdheimildir sem þarf til að gæta stöðu sinnar. Þetta undarlega þrátefli valds og virðingar þjóðþingsins hlýtur líka að leiða hugann að þeirri óumdeilanlegu staðreynd að það er eitt brýnasta og helgasta verkefni alþingis á hverjum tíma að setja Íslandi stjórnlög – vera ekki aðeins löggjafi heldur einnig stjórnarskrárgjafi og marka þannig útlínur samfélagsins. Þegar alþingi víkur sér undan þessari helgustu skyldu sinni eða rís ekki undir því að axla þá ábyrgð, sem í henni felst, má með réttu efast um að þingið verðskuldi virðingu og traust.

Ég sagði að það væri ekki sjálfgefið að alþingi nyti virðingar. Og það er svo margt annað í lífi okkar og samneyti öllu, í rúmhelgri önn dagsins, sem er ekki sjálfgefið. Í guðspjalli þesssa þjóðhátíðardags segir frá því þegar Jesús fræddi lærisveina sína á fjallinu: „Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða.“ Þessi boðskapur er skýr vísbending um þær kröfur, sem hljóta að vera gerðar til okkar mannanna um að fljóta ekki sofandi að feigðarósi heldur vaka og leita og minnast þess jafnan að ekkert er sjálfgefið. Aðferðin til þess að upp lokið verði er að knýja á, til að hljóta gjafir skaparans þarf að biðja og leita.

Við uxum úr grasi með glitrandi vonir
en gleymdum oftast að hyggja að því
að það er ekki sjálfsagt að sólin rísi
úr sæ hvern einasta dag eins og ný.

Þannig kveður Matthías Johannessen og minnir okkur á að meta og þakka og virða það góða og bjarta, sem okkur hlotnast í lífinu. Höfundur Sólarljóða skildi þetta líka:

Sól ég sá,
svo þótti mér
sem ég sæi göfgan Guð.

Við höfum glögglega fundið það í sviptivindum undanfarinna mánaða að það er ekki sjálfgefið að hafa fast land undir fótum, búa við öryggi og velsæld og geta séð sér og sínum farborða, vaknað til vonar en ekki vonleysis, til bjartsýni en ekki bölmóðs. Efnahagshrun hefur skekið þjóðlífið, vofa atvinnuleysis stendur í stafni, einstaklingar og fyrirtæki eru máttvana í skuldafjötrum og marga hefur þrotið erindið. Þjóðin er skuldum vafin vegna ofdirfsku og andvaraleysis. Við vitum það núna, sem við áttum að vita miklu fyrr, að það var ekki sjálfgefið að þessi glæfrasigling með himinskautum fjármálanna myndi enda í heilli höfn. Í bréfi sínu til Rómverja, sem lesið var hér í dag, segir Páll postuli: „Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið.“ Betur væri nú fyrir þjóðinni komið ef ágirnd og græðgi hefðu ekki náð yfirhöndinni og þokað til hliðar um sinn mannúð og mildi kærleiksboðskapar Krists, sem er uppfylling lögmálsins: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Hálfur sjöundi áratugur er liðinn frá lýðveldistökunni hér á Þingvöllum. Þessi liðnu ár geyma jöfnum höndum afrek og áföll, velgengni og andstreymi, samheldni og sundurþykkju. Umfram allt eru þau ákall til Íslendinga um að láta sér aldrei til hugar koma að sjálfstæði landsins og fullveldi sé sjálfgefið. Það er það vitaskuld ekki og fyrir varðveislu þess þarf þjóðin í sífellu að halda vöku sinni, knýja á, leita og biðja. Á það höfum við sjaldan verið jafn rækilega minnt og í efnahagshamförum síðustu mánaða.

En gæt þess að sagan oss dæmir til feigðar þá fyrst,
er frelsi og rétti vors lands stendur ógn af oss sjálfum.

Þótt að kreppi víðar en á Íslandi um þessar mundir eru þessi orð Tómasar Guðmundssonar að Áshildarmýri hér í Árnesþingi þörf brýning til okkar um að huga einlægt að eigin ranni, kenna ekki öðrum um það, sem miður fer, gera okkar besta og sætta okkur aldrei við minna. Það verður ekki betur gert en að kosta jafnan kapps um að hafa kærleiksboðskap Fjallræðunnar að leiðarljósi: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“

Á þjóðhátíðardegi minnumst við Jóns Sigurðssonar, þeirra sem brautina ruddu fyrir hann, með honum börðust og tóku við kyndli hans og báru fram að settu marki. Það gerði einnig okkar ástsæli biskup Sigurbjörn Einarsson á Hrafnseyri fyrir átján árum og mælti þá þessi varnaðarorð, sem betur hefðu fangað athygli Íslendinga í framrás og uppbyggingu þjóðfélagsins á liðnum árum. Hann sagði:

Víst er það, að þær kristnu manngildishugsjónir, sem eru grundvöllur vestrænnar menningar, eiga í vök að verjast. Þar er stríðum öflum að mæta og verjast.

Óðir straumar soga menn og þjóðir í eina iðu, þar sem froðan flýtur og fýkur, þar sem öll sjálfstæð hugsun, þjóðareinkenni, persónumót, þurrkast út í skrattagangi alþjóðlegs auðmagns, sem þekkir ekki né metur annað gildi manneskjunnar en það, hversu auðblekkt féþúfa hún getur orðið.

Hér er hættan mest um þessar mundir. Og ábyrgðin þyngst.

Þær viðjar eru verstar, sem menn rekja sjálfir yfir sig af því að þeir svæfa og svelta sjálfa sig andlega í uggleysi allsnægta og gálausum dansi kringum gyllta kálfa eða froðuhnoðra.

Megi gæfa Jóns Sigurðssonar fylgja íslenskri forystu og íslensku alþýðuviti í allri tvísýnu aldarfars og veraldarstrauma.

Þannig voru varnaðarorð hins merka kennimanns af heilum huga mælt árið 1991. Sú gæfa Jóns Sigurðssonar, sem Sigurbjörn biskup óskaði íslenskri forystu og íslensku alþýðuviti til handa, hefur verið á hvörfum í samfélagi okkar undangengin misseri og ár, „í uggleysi allsnægta og gálausum dansi kringum gyllta kálfa eða froðuhnoðra.“ Það er hins vegar alkunna að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Í hverjum ósigri eða endalokum getur verið fólgið fyrirheit um nýtt upphaf, nýja sigra, nýtt og betra mannlíf, breytt og bætt gildismat. Þannig er það núna, þegar íslenska þjóðin hefur lotið í gras og skynjar að hún hefur farið vill vegar, verið leidd inn í öngstræti auðhyggju og áhættufíknar og fyrirhyggjuleysis. Þá er von og ljós framundan. „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós“ segir Jesaja spámaður. „Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós.“ Auðvitað búum við ekki í landi náttmyrkranna en við skynjum og skiljum betur en áður að ekkert er sjálfgefið, hvorki auður, afl né hús, hvorki heill né hamingja, heilsa eða líf. Kristur bauð á fjallinu að hyggja að liljum vallarins, hversu þær vaxa. „Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!“ Þessi lærdómur er þjóðinni dýrmætur, kennir að fegurðin býr í hinu smáa en þó mikilvæga, í ríki náttúrunnar og manninum sjálfum. Það er þetta umfram allt, sem skiptir máli, ekki eftirsókn eftir vindi og veraldlegum gæðum, ekki gálaus dans „kringum gyllta kálfa eða froðuhnoðra.“ Þess vegna getum við trúað því að bjart sé framundan í samfélagi okkar, að vonin sé lifandi afl í fylgd með trú og kærleika, að hér leysist að nýju úr læðingi frumkraftur, hugvit og nýsköpun, nýsköpun til verklegra framfara í sátt við landið og umfram allt nýsköpun hugarfarsins. Munum þau orð sálmaskáldsins á Sigurhæðum, sem við sungum í upphafi þessarar helgistundar:

Kom, Jesú Kristí trú,
kom, kom og í oss bú,
kom sterki kærleiks kraftur,
þú kveikir dáið aftur.
Ein trú, eitt ljós, einn andi
í einu fósturlandi.

Við biðjum Guð vors lands að halda verndarhendi sinni yfir gróandi íslensku þjóðlífi, veita líkn með þraut, lina þjáningar, styrkja hinn veika og gefa þeim sterka mildi – blessa og varðveita íslenskt þjóðlíf „með þverrandi tár, sem þroskast á Guðsríkis braut.“

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda um órofa eilífð. Amen.
Pétur Kr. Hafstein – Prédikun í Þingvallakirkju 17. júní 2009.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Það er ekki sjálfgefið”

  1. Þingvallakirkja | Eftirminnileg predikun forseta Kirkjuþings skrifar:

    […] Forseti Kirkjuþings, Pétur Kr.Hafstein, flutti eftirminnilega predikun við guðsþjónustu í Þingvallakirkju  á 65 ára afmæli lýðveldisins. Predikunina má lesa hér. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3232.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar