Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Árni Svanur Danielsson

Leiðsögumaðurinn

21. júní 2009

Nú fullnaðist brátt sá tími er Jesús skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað. Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu. En menn tóku ekki við honum því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það sögðu þeir: „Drottinn, eigum við að bjóða að eldur falli af himni og tortími þeim?“
En Jesús sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: „Ekki vitið þið hvaða andi býr í ykkur. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum heldur til að frelsa.“] Og þeir fóru í annað þorp.

Á leiðinni sagði maður nokkur við Jesú: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“

Jesús sagði við hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“
Við annan sagði hann: „Fylg þú mér!“

Sá mælti: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“

Jesús svaraði: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“

Enn annar sagði: „Ég vil fylgja þér, Drottinn, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima.“

En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“ Lúk 9.51-62

Biðjum saman með orðum sálmaskáldsins.
Vertu Guð, faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.

Hann var frár á fæti, leiðsögumaðurinn sem fylgdi okkur yfir Fimmvörðuháls í fyrrasumar. Þetta var maður á miðjum aldri sem hafði gengið á öll fjöll sem okkur datt í hug að spyrja hann um – og þau voru býsna mörg. Ferðalagið, sem tók um það bil heilan dag, sóttist vel og hann hélt vel utan um hópinn sinn.

Ég velti fyrir mér á sínum tíma til hvers maður þyrfti eiginlega leiðsögumann á þessari fallegu leið frá Skógum í Þórsmörk. Hún er bein og breið og sannast sagna ekkert svo erfið yfirferðar. Og þennan dag var heiðskírt, og vindurinn var hægur, og það var hlýtt og leiðin er nokkuð vel stikuð.

Til hvers þurftum við þá þá leiðsögumann?

Og hvaða gagn var að honum?

Og hvað gerði hann eiginlega?

Hann gerði að minnsta kosti fernt.

Hann vísaði veginn. Stundum fór hann fremstur í flokki. Stundum sagði hann hvert við værum að fara og leyfði öðrum úr hópnum að vera fremstir. Þegar svo bar við passaði hann upp á þá sem fóru hægar yfir. „Þið megið alveg fara á undan, en svo bíðið þið bara eftir hinum,“ sagði hann.

Hann hélt utan um hópinn. Passaði upp á að við héldum saman. Hann skapaði samkennd og stemningu. Hann ögraði okkur smá. Leiðsögumaðurinn passaði líka upp á matar- og hvíldartíma sem voru hvorki og margir né of fáir.

Hann fræddi. Hann benti á fjallstinda og jökla og hóla og hæðir og fossa og sagði okkur hvað þetta héti og hvað það væri. Þuldi upp sögur um það sem hafði verið. Sagði hvar við værum. Og þökk sé honum veit ég heilmikið um örnefnin og fossana og allt þetta svæði. Vegna hans varð sýnin á staðina þar sem við vorum önnur.

Hann skapaði öryggi. Við vorum viss um að ef eitthvað kæmi upp á myndi hann vita hvað ætti að gera, hvert ætti að fara og hvernig bæri að bera sig að. Við vorum ekki hrædd við að villast, meiðast, verða úti. Við vorum viss um að komast á áfangastað.

Þetta má auðvitað orða með öðrum hætti:

Hann leiddi okkur.

• • •

Jesús var á leið til Jerúsalem. Á leiðinni mætti hann þremur mönnum:

Einn segir við hann: „Ég vil fylgja þér hvert sem þú ferð.“

Við annan sagði Jesús: „Fylg þú mér!“

Og sá þriðji sagði við hann: „Ég vil fylgja þér, Drottinn.“

Tókuð þið eftir orðinu sem er að finna í öllum þessum setningum?

Fylgd.

„Ég vil fylgja þér.“
„Fylg þú mér.“

Jesús leiðir.
Jesús er leiðtogi.

Jesús var á leið til Jerúsalem. Á leiðinni mætti hann þremur mönnum.

Við einn sagði hann: „Refar eiga greni og fuglar himins hreiður en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla.“

Við annan sagði Jesús: „Lát hina dauðu jarða sína dauðu en far þú og boða Guðs ríki.“

Við þann þriðja sagði hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.“

Tókuð þið eftir því sem hér býr að baki?
Leiðin verður ekki auðveld.
Og það þarf að treysta.
Og það eru gerðar kröfur.

Traust.
Og fylgd.
Áfram veginn.

Hann býður fylgd. Hann biður um traust.

• • •

Kæri söfnuður.
Bara svo það fari ekki á milli mála þá fjallar þessi prédikun ekki um ferðalög. Og þótt ég sé þeirrar skoðunar að það sé ágætis iðja að ganga á fjöll og njóta íslenskrar náttúru þá er það heldur ekki markmið mitt að ræða þetta eða mæla með því fyrir ykkur.

Nei.
Það sem vakir fyrir mér er eiginlega líking.
Líking sem kviknaði í huga mér þegar ég hlýddi á sr. Önnu Sigríði prédika hér á 17. júní. Leiðsögumannslíking.

Jesús sem leiðsögumaður. Og Jesúleiðsögn.

Ekki yfir Fimmvörðuháls. Ekki á Laugaveginum. Heldur í lífinu.

Kannski, eins og við játuðum í fermingunni.

„Vilt þú hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins?“

„Já.“

Hvað felst þá í þessu?

Í fyrsta lagi vegvísir og stefnumið. Okkur er beint í ákveðna átt. Lífið fær skýra stefnu en er ekki stefnulaust. Við finnum okkur lifa í tilgangsríkum heimi en ekki vonlausum.

Í öðru lagi samkennd. Lærisveinarnir voru hópur sem fylgdi honum. Kirkjan er hópur - samfélag - hreyfing - sem sameinast í trú og tilbeiðslu. Rétt eins og við gerum hér í dag. En ekki bara það heldur líka sú tilfinning að við berum ábyrgð á hvert öðru. Að við eigum að hugsa um hvert annað.

Í þriðja lagi ný sýn á umhverfi okkar. Að við sjáum veröldina í kringum okkur, náttúruna, dýrin, fólkið, sem hluta af sköpun Guðs. Sem það sem Guð hefur lýst harla gott, sem mikilvægt, dýrmætt. Og að við látum þessa sýn móta viðhorf okkar til annarra og annars.

Og í fjórða lagi öryggi. Vissa um að það er sama hvað gerist, sama hvar við finnum okkur, við verðum aldrei ein, aldrei yfirgefin. Og að við höldum reisn okkar. Höldum voninni.

Vegvísir. Samkennd. Sýn. Öryggi.

Það eru lykilorðin fjögur.

• • •

Kæri söfnuður.
Við hefðum getað farið yfir Fimmvörðuháls án leiðsögumannsins. Við hefðum getað lesið bók um svæðið. Tekið með okkur gps tæki eða áttavita og kort. Jafnvel allt af þessu. Gert þetta allt sjálf. Ferðast ein eða í litlum eða stórum hópum.

Við hefðum alveg getað það.

En við fórum með leiðsögumanni. Og það var gott að njóta handleiðslu hans.

Það er líka hægt að lifa lífinu án leiðsagnar Jesú.

Og margir gera það. Og reiða sig í staðinn á einhvers konar konar gps-tæki eða kort eða áttavita fyrir lífið.

En það er betra að fylgja leiðsögumanninum og hafa hann með sér. Og njóta handleiðslu hans.

Verður leiðin auðveldari?

Nei.

Lendum við þá ekki í hremmingum?

Nei.

En.

Við vitum hvert við stefnum. Við erum okkur í góðum hópi og finnum til ábyrgðarkenndar. Við skynjum heiminn og umhverfi okkar með öðrum hætti. Við finnum okkur örugg.

Eigum von.
Erum leidd.

Og það – einmitt það – skiptir máli og það er boðskapurinn í dag.

Og hver er þá spurning þessa dags?

Hún er sú sama og þú fékkst á fermingardegi:

„Vilt þú hafa Jesú Krists að leiðtoga lífsins?“

Og hvert er svarið?

Það veist þú.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2773.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar