Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Hildur Eir Bolladóttir

Í yndisleik vorsins

23. júní 2009

Í Yndisleik vorsins
Milli blóma og runna
Situr ung móðir
Með barnið á hnjám sér
Andlit hennar sól
Bros hennar ylhlýir geislar

Rafael í allri sinni dýrð

Fegurð og góðvild
Þetta tvennt og eitt
Hvað er umkomulausara í rangsnúnum heimi

Og þó mest af öllu
Og mun lifa allt.
(Snorri Hjartarson)

Mér þótti hugmyndin býsna góð, enda ekki laust við að þessir suðandi vorboðar hefðu valdið mér talsverðu hugarangri, allt frá því ég mundi fyrst eftir mér. Og nú var ég orðin tíu ára og býsna reynd í æsilegum Kríubardögum við sjóinn og músastríði í kjallaranum, svo fátt kom mér lengur úr jafnvægi nema ef vera skyldi flissandi túristar sem töluðu tungum og vildu mynda mig við gamla hestasteininn. Og svo voru það sem fyrr þessir röndóttu herir sem spruttu fram úr torfveggjum gamla bæjarins, eins og þeir ættu að erfa sumarið og við þessir öskrandi krakkar værum bara þeirra afþreying. Við það varð ekki lengur unað og þess vegna settum við systkinin okkur nýtt markmið, röndóttu sumarþjófunum skyldi mætt af hreinni herkænsku sem þó var blandinn talsverðum ótta enda ekki víst að við kæmum að fullu heil útúr þessum leiðangri. Undirbúningurinn hófst í eldhúsinu hjá mömmu þar sem við skröpuðum límmiða af tómri Kjarnasultukrukku sem svo var fyllt með drjúgum hlut af dönsku hunangi sem átti annars að brúkast í heitt sítrónuvatn en mamma taldi það hafa yfirnáttúrulegan lækningarmátt . Nú var ekkert annað eftir en að ráðast til atlögu við hina válegu vorboða sem kunnu ekki að skammast sín eftir að hafa haldið okkur systkinunum í andlegri gíslingu á tímum þar sem gleðin ein átti að ríkja, já á tímum þegar sólin breiddi loks út gyllt vænghaf sitt og fuglarnir sungu vorljóð. Í gluggakistu gestastofunnar voru röndóttu hetjurnar að þinga um verkefni dagsins, túnfífla og jafnvel önnur fífl, þegar systkinin nálguðust hægt og bítandi með hunangskrukkuna tilbúna í skjálfandi greipum, þar lifnaði við orðtakið að slá tvær flugur í einu höggi og þó voru þær talsvert fleiri en tvær, býflugurnar sem lentu í hunangshafinu. Þær áttu sér einskis ills von enda vanar undarlegum yfirburðum í samskiptum við systkinin sem nú hlupu hróðug af stað með krukkuna vandlega lokaða, þar barðist hópurinn um eins og egypski herinn forðum sem hvarf í hafið rauða.
Við vissum aldrei hversu lengi dauðastríð flugnanna varaði því á leiðinni útúr gamla bænum bárust okkur fregnir af nýbökuðum eplaskífum heima í húsi svo við gleymdum hernaði um stund og hröðuðum okkur til að missa ekki af veislunni. Í himnasælu stundarinnar þar sem sjöunda eplaskífan rann ofan í vel alinn magann, mundi ég skyndilega eftir pyntingarbúðunum sem við skildum eftir út við bæ svo ég uppljóstraði leyndarmálinu yfir góðgjörðunum. Þá tók pabbi að halda festulegan fyrirlestur um virðinguna fyrir Guðs góðu sköpun en við systkinin héldum heldur sneypt frá borðum með þeim orðum að við skyldum finna krukkuna og kanna lífsmörk fanganna. Það var ekki fögur sjón sem mætti okkur þegar við komum á vettvang, ekki laust við að eplaskífurnar gerðu tilraun til endurkomu en býflugurnar voru þá þegar úrskurðaðar látnar, þær höfðu lotið í lægra haldi fyrir dönsku hunangi, glatað sjálfstæði sínu og frelsinu til að suða við bæjarvegginn. Við drúptum höfði og iðruðumst gjörða okkar enda var ljóst þar sem við stóðum og virtum líkin fyrir okkur, að við höfðum ekki gengist við ráðsmennskuhlutverkinu þennan daginn, orð pabba um Guðs góðu sköpun glumdu í höfði þar sem við losuðum krukkulokið og bönkuðum seigu innihaldinu úr uns það féll loks í einum klumpi á jörðina.
Fegurð og góðvild var ekki yfirskrift þessa dags og þegar sólin dró saman vængi sína og við lögðumst til svefns undir daufbleikum himni vissum við að næsta dag myndum við líta lífið öðrum augum. Við höfðum í barnaskap okkar snúist gegn þeirri ást sem grundvallar þetta líf, við vorum jú börn og síðan þá höfum við líkt og flestar manneskjur, stefnt að því að verða farsæl. Yfirsjónir okkar mannanna eru margvíslegar og misstórar en í innsta eðli okkar búum við yfir löngun til að lifa fallega. Í innsta kima sálarinnar býr Guð, já í innsta kima sálar þinnar og Guð er algóður. Ef til vill er Guð ekki almáttugur, ef til vill ekki, og einmitt þess vegna er þjáningin og ranglætið hluti af þessum heimi og þess vegna virðist fegurðin og góðvildin svo brothætt og umkomulaus eins og ung móðir með barn sitt á hnjánum. En í raun er hún ekki brothætt heldur undur sterk af því að kærleikur Guðs, frummynd fegurðar og góðvildar, er sjálfum dauðanum yfirsterkari. Já kærleikur Guðs er mestur af öllu og mun lifa allt. Amen.

Um höfundinnViðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2381.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar