Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Lena Rós Matthíasdóttir

Aðgerðaáætlun gegn græðgi

14. júní 2009

Messa 1. sun. e. trin. í Grafarvogskirkju 14/6 ‘09

Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum. Hann svaraði honum: Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur? Og hann sagði við þá: Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé. Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð. En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði. Lúk. 12. 13-21

Hér höfum við frásögn af því þegar maður nokkur, einn af áheyrendum Jesú, biður hann að grípa inn í málefni sem varðar eignir fjölskyldunnar. Hann biður Jesú um að tala við eldri bróður sinn með spámannlegri röddu, með valdi líkt og konungar gera, þá myndi hann hlusta á Jesú og fara að orðum hans.

Sumir vilja halda því fram að eldri bróðirinn, sá sem fékk meiri hluta arfsins, hafi brotið af sér og tekið arfinn til sín með valdi. Hann væri það sem gyðingar kölluðu “Ben-hamesen”, eða sonur ofbeldis, sem hefði ekki aðeins tekið sinn hluta arfsins, heldur einnig hluta yngri bróður síns. Með valdi hefði hann komið því til leiðar, að bróðir hans erfði ekki foreldra sína nema að litlu leiti.

Aðrir vilja meina að sá sem ávarpaði Jesú, hafi í raun ætlað að taka til sín það sem honum ekki bar. Í fimmtu Mósebók segir að elsti bróðirinn skuli fá tvo þriðju arfsins og þar af leiðandi hafi réttlætinu þegar verið fullnægt í þessu máli. Eldri bróðirinn hafi fengið það sem honum bar. Og jafnvel þótt yngri bróðurnum hafi fundist hann bíða lægri hlut þá hafi hann samkvæmt Ritningunni, sannarlega einnig fengið það sem honum bar, eða einn þriðja af arfinum.

Ósköp hljómar það nú óréttlátt, kunnum við að hugsa og það gerði yngri bróðirinn líka. Hann sættir sig ekki við sinn hlut. Hann vill meira og ákveður að beita Jesú fyrir sig. Planið var að fá Jesú til að véfengja lög Mósebókar og koma á nýjum viðmiðum, sem gerðu ráð fyrir að báðir fengju jafnt. Honum þótti þetta snilldar bragð. Hver myndi ekki hlusta á Jesú og rök hans um réttlæti. Hann vissi sem var að Jesús talaði líkt og sá sem valdið hefur, líkt og konungar og spámenn og treysti því að eldri bróðirinn myndi hlýða á orð hans og breyta eftir þeim. Hann fer því fullur trausts á fund Jesú, en rennir ekki í grun hve veikur málstaður hans reynist.

Við megum ekki gleyma því að hann er ekki í sporum manns sem reynir samkvæmt lögum að fá það sem honum ber, heldur er hann í sporum manns sem reynir í græðgi sinni að næla í meira en honum ber. Að sjálfsögðu stendur Jesús með réttlætinu, en í þessu tilfelli er ekki beðið um réttlæti, heldur farið fram á að hlustað sé á málstað annars aðilans, honum einum til framdráttar. Hér er græðgin ekki augljós, því yngri bróðirinn reynir að búa græðgi sína í búning hins réttláta málsstaðar. Þannig á manneskjan það til að fegra málstað sinn í viðleitni sinni að eignast meira. Græðgin er undirförul, hún svífst einskis, aðeins að hún fái sínu fram. Jesús sér þetta og bregst við með afar afdráttarlausu svari: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?” Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé.”

Og í framhaldinu segir Jesús þeim þessa fínu dæmisögu, um það hvernig maður nokkur lætur græðginni ná tökum á sér. Hann þiggur jarðargæði af Guði en safnar því öllu undir sjálfan sig. Þegar kornhlöður hans eru orðnar yfirfullar af uppskeru sumarsins, ákveður hann að rífa þær niður til að byggja aðrar stærri, jafnvel þótt hann hafi ekkert með þær að gera. Hann hugsar með sér að nú muni sála hans verða róleg, hann muni nú geta etið og drukkið og hvílt sig, því kornið dugi honum til margra ára. En blessaður maðurinn gleymir því að aukin umsvif kalla á meiri vinnu, að fleiri kornhlöður útheimta mun meira viðhald og umstang. Hann gleymir því líka að sálin hefur ekkert með matinn og drykkinn að gera, því sálarfæða er annars konar fæða. Hana hljótum við í samfélaginu við Guð og hvort annað, samfélagi sem byggt er á kærleika og umhyggju hvort fyrir öðru. Samfélagi sem við höfum ekki tíma til að sinna ef við eyðum frítíma okkar í að halda utan um auðæfi.

- - -

Ég heyrði eitt sinn fallega sögu sem fjallar einmitt um þetta, hún heitir:„Við erum ekki fátæk”, en fjallar engu að síður um fátæka fjölskyldu og er skrifuð af félagsráðgjafa nokkrum, Florence Ferrier.

Sheldon fjölskyldan var stór fjölskylda sem átti í gríðarlegum fjárhagslegum vandræðum eftir að hafa orðið fyrir margs konar fjárhagslegum áföllum. Aðstoðin sem þau fengu var ekki nægileg, en samt tókst þeim að spila afar vel og af skynsemi úr því sem þeim var rétt og án þess að kvarta nokkurn tíma yfir þeirri fátæklegu upphæð.

Einn fagran haustdag heimsótti ég Sheldon fjölskylduna í nöturlega leiguhúsnæðið sem þau bjuggu í við skógarjaðarinn. Þrátt fyrir erfiða og sársaukafulla fötlun, hafði Hr. Sheldon skotið bjór og gert að honum. Bjórinn sá hafði laumað sér einum of oft inn í garðinn til þeirra og valdið þar usla. Kjötið höfðu þau hjónin svo unnið og soðið niður í stórar krukkur sem þau höfðu fundið eða fengið í vöruskiptum. Með þessu móti geymdist kjötið vel og þau gátu boðið upp á kjötmáltíð með reglulegu millibili yfir verstu vetrarmánuðina.

Hr. Sheldon bauð mér krukku með bjórakjöti og ég hikaði við að þyggja, en hann mætti því af ákveðni og sagði: „Heyrðu, þú bara verður að þiggja þetta. Við viljum svo gjarna að þú gerir það. Við höfum ekki mikið milli handanna, það er augljóst, en við erum ekki fátæk!”
Ég varð ofurlítið ringlaður við þessar upplýsingar og spurði hann hver væri munurinn á því að hafa lítið milli handanna og að vera fátækur? Svarið sem ég fékk var ógleymanlegt.

,,Þegar þú getur gefið eitthvað af þér, jafnvel þótt þú hafir lítið milli handanna, þá ertu ekki fátækur. En ef þér finnst erfitt að gefa frá þér, jafnvel þótt þú eigir nóg, þá ertu fátækur, hvort sem þú gerir þér grein fyrir því eða ekki.”

Ég tók við kjötinu og naut gjafarinnar og varðveitti þessa lexíu innra með mér. Með tímanum lærðist mér að tileinka mér þann andlega boskap sem fólst í orðum hr. Seldons. Að ef við vitum það að allt sem við eigum, er þegið frá Föður okkar á himnum, þá virðist mér það svo óþakklátt og hrokafullt af okkur að efast um að þörfum okkar verði mætt. Við efumst og hömumst við að moka meiru undir okkur. Og um leið og við mokum meiru undir okkur, þá erum við að taka meira en okkur ber af jarðargæðum, þá liggur í augum uppi að aðrir fá minna.
Í hvert sinn sem ég finn að mér læðast þessar undarlegu hvatir að vilja meira en ég þarf, eða þegar ég upplifi mig sporna gegn því að deila með öðrum því sem ég á og eins þegar ég sé einhvern gefa af fúsum og frjálsum vilja af því litla sem hann á, þá man ég orð hr. Sheldons, þegar hann sagði: „Við erum ekki fátæk!

Ríki maðurinn í dæmisögu Jesú, var alger andstæða hr. Sheldons. Hann var vakinn og sofinn yfir því með hvaða hætti hann gæti grætt meira. Ríkidæmi hans var þessa heims, þ.e.a.s. stundleg gæði og launin voru skelfileg. Guð sagði við hann:„Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.”

Hr. Sheldon aftur á móti var maður sem bjó yfir miklu ríkidæmi. Hans ríkidæmi var ekki þessa heims, heldur tilheyrði það eilífðinni, því í hvert sinn sem þú gefu af þér í kærleika, hversu stór eða smá sem gjöfin kann að vera, þá mettarðu sálina himneskum gæðum.

Í Guðspjalli dagsins reynir Jesús að vara okkur við græðginni. Það sé ekki nóg að gæta sín á henni, heldur þurfi maður að grípa tileinka sér aðgerðaáætlun gegn henni. Uppskriftin að áætluninni er þessi:

A) „Horate!“ eða„sjáið!“ Það gerum við með því að taka eftir okkur sjálfum, fylgjast gaumgæfilega með hjörtum okkar og látið ágirnd ekki ná tökum á okkur.

B) „Phylassesthe!“ eða„Verjist!“ Það segir Jesú að við verðum að gera ef við verðum fyrir árás af græðginni. Þá sé nauðsynlegt, beinlínis að verjast henni með öllum tiltækum ráðum.
Guð gefi okkur rétt hugarfar og mýkt hjartans að okkur lánist að ástunda kærleikann og þjóna Guði í hógværð til þess að mega sjá og verjast eftir hans vilja. Guð gefi okkur græðgislaust líf! Amen.

Dýrð sé Guði, föður vorum og drottni Jesú Kristi. Amen.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2722.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar