Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristján Valur Ingólfsson

Stofn og greinar

31. maí 2009

Bæn

Guð, þú sem strýkur jörðina með mildum vindum
og vökvar hana með hlýju vorregni
svo að hún vaknar og grænkar og ber ávöxt.
Blás einnig nýju lífi í kirkju þína
svo að hún rísi upp
með Drottni sínum og Herra Jesú Kristi
og beri ávöxt börnum þínum til blessunar
og þér til dýrðar,
í Jesú nafni.
Amen

Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín. Ég mun biðja föðurinn og hann mun gefa yður annan hjálpara sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans. Heimurinn getur ekki tekið á móti honum því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann því hann er hjá yður og verður í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér skilja að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður. Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er. Jóh 14.15-21

Náð sé með yður og friður frá Guði Föður og Drottni vorum Jesú Kristi. Amen.

Og gleðilega hvítasunnuhátíð.

Kæri söfnuður

Steinunn á Heiðarbæ gaf mér í fyrra lítinn afleggera af kaktusi sem hefur þá náttúru að út frá einum mjóum legg kvíslast margir aðrir leggir sem vaxa beint upp í loftið og þrekna þegar ofar kemur, og út frá þeim öllum vaxa enn aðrir nýir leggir. Planta þessi getur orðið mjög há. Raunar er ekki gott að vita hvað hún getur orðið há. Samt er rótarkerfið lítið. Oft kemur það fyrir þegar hún hefur fengið að vaxa ótrufluð að einhverntíma sporðreisist hún, fellur um koll og brotnar. Auðvitað væri hægt að setja hana í stóran pott og gefa henni færi á að auka við sig ræturnar. Kannski vex hún þá alveg upp í loft, rekst þar á og fer þess vegna ekki hærra, eða kannski vex hún niður aftur?
Og hvað kemur það hvítasunnunni við?

Í færeysku óperunni: Í Óðamannsgarði, eftir Sunnleif Rasmussen sem gerð er upp úr samnefndri smásögu Williams Heinesen, og sýnd var fyrir viku í Þjóðleikhúsinu, magna aðalpersónurnar, unglingarnir tveir, upp myndir af ógnum garðsins. Ein er sú að þar sé hár og svartur turn sem heitir Babel. Hann er fullur af ógn og dauða. Þorskhausar með mannsandlit horfa þar út um glugga. Turninn hefur staðið þarna frá því í árdaga og horfir blindum augum til heims enda. (Innan sviga má geta þess að krakkarnir segja að þessi turn heiti Gasa, og má um það flytja aðra predikun í annan tíma.)

Í fyrstu köflum fyrstu Mósebókar þegar gerð er grein fyrir grundvelli þessa heims og lífs í sköpunarfrásögunum kemur fljótlega skýringin á því hvernig stendur á því að ekki tala allir menn sama tungumál þótt þeir séu allir fæddir af Adam og Evu. Svarið er að mennirnir ofmetnuðust og notuðu samtakamátt sinn til að byggja sér í Babel, turn svo háan að næði til himins svo þeir yrðu frægir. Þegar Guð sá hvers þeir voru megnugir, ruglaði hann tungumál þeirra og tvístraði þeim um alla jörðina (1.Móse 11.4-9) til að fyrirbyggja samtök sem myndu leiða til þess eins að byggja undir eigið ágæti og langanir. Þar er sem sagt kynnt til sögunnar hin sístæða freisting persónanna að leita frekar eigin frama en almannaheilla.

Íslensk þjóð hefur gengið í gegn um ýmsar hremmingar á langri leið í þúsund ár frá því hún játaðist undir merki Krists hér á Þingvöllum. Þessi þjóð hefur síðan þá, mann fram af manni, tekið skírn fyrir heilagan anda til nafns Jesú Krists. 
Hún hefur þó aldrei fyrr reynt þá tegund erfiðleika sem nú steðja að. Þeir eru sannarlega ekki sambærilegir við þá tíma þegar þjóðin var við það að falla öll úr vosbúð og hungri, vegna náttúruhamfara, farsótta eða annarra ytri skilyrða. Sjálfsagt munu síðari kynslóðir líka bara brosa að vandamálum þessara daga þegar þær bera þetta tvennt saman. Það er sannarlega engin ástæða til þess heldur að láta þessi vandamál spilla gleði okkar yfir góðum degi. En við höfum lært dálitla lexíu af bankahruninu sem vert að minnast í ljósi þeirra ritningartexta sem tilheyra hvítasunnudeginum, og tilefni hans að öðru leyti.

Við höfum lært þá sömu lexíu og kaktusinn á Heiðarbæ kennir, að þegar rótarkerfið er lítið og stofninn mjór, en sífellt er bætt í yfirbygginguna, fellur kaktusinn og brotnar. Og við höfum lært að sá turn sem ætlað er að byggja til að auka vegsemd og glæsileika sameinaðra einstaklinga á kostnað almannaheilla, stríðir gegn vilja Guðs og ætlun hans um mennina og stríðir alveg sérstaklega gegn þeirri heildaráætlun heilags Anda sem kunngjörð var við stofnun kirkjunnar á hvítasunnudegi, sjö vikum, eða fimmtíu dögum eftir páska, og pistill dagsins greinir frá.

Jesús segir í guðspjalli dagsins: Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar.
Þýski biskupinn Wilhelm Stählin skrifar í skýringum sínum þennan texta (Jóh. 14. 15-21), að þá aðeins mætti líkja kirkjunni við munaðarleysingja ef hún hefði ekki neinu að miðla nema hinum sögulega Jesú.

Hvítasunnan verður ekki skilin frá páskunum. Hvítasunnan endar páskatímann. Hvítasunnan og merking hennar verður ekki skilin nema í ljósi páskanna. Sending andans, úthelling andans yfir lærisveinana er útgeislun frá upprisu Jesú Krists frá dauðum og áhrifskraftur hennar inn í líf okkar.

Allt sem kemur fram í hinum svokölluðu skilnaðarræðum Jesú sem Jóhannes geymir í sínu guðspjalli og við heyrðum lesið úr, hefur það markmið að kynna fyrir okkur að Drottinn muni koma með öðrum hætti en í sinni jarðnesku mynd, en raunverulegur og í krafti, og muni dvelja mitt á meðal sinna manna. Konungurinn konunganna.

Með því að horfa einungis til liðinna jarðvistardaga Jesú og byggja á hinum sögulegu tengslum við hin sögulega Jesú er tilvist okkar og trúarlíf eins og munaðarleysingja sem rændur hefur verið lifandi nærveru elskandi ástvina, segir Stählin biskup.

En söfnuður Jesú Krists er einmitt ekki munaðarlaus í þessum skilningi, heldur er söfnuðinn staður lifandi nærveru og nærverandi lífs, Jesú sjálfs.
Trúin er ekki sögulegar minningar um atburði liðinnar tíðar, eða órökstuddar framtíðarsýnir heldur er trúin raunverulegur kraftur hér og nú.
Trúin á heilagan anda merkir þetta. 

Lúter var svo áfram um að benda á allt í ritningunni sem gæti verið huggun fyrir hjartað og hugann, að hann tók því fagnandi að geta kallað heilagan anda huggarann.
Andinn er guðleg ákvörðun huggarans að vera hjá söfnuðinum allar stundir allt til hinnar nýju aldar, og í þeirri mynd er Kristur með söfnuði sínum og í kirkju sinni allt til þess að hann kemur aftur um síðir.
Það mætti þess vegna kalla andann staðarhaldara Jesú Krists á jörðu þangað til hann kemur og verður allt í öllu.

Og þá er komið að kaktusi Steinunnar hið þriðja sinn. Í dag voru settir í embætti með bæn og ritningarlestri nýir meðhjálparar við Þingvallakirkju. Og meira er í vændum. Eftir hálfan mánuð verða fermd hér tvö ungmenni og einn fullorðinn, og barn verður borið til skírnar. Það er ný sóknarnefnd í Þingvallasókn, með nýju áhugasömu fólki. Enginn getur sagt annað en að hér sé gróska, mikil gróska í starfinu, og við höfum mikið til að gleðjast yfir á þessari hvítasunnu, þessum fæðingardegi kristinnar kirkju árið sem Þingvallakirkja, sem hús, á líka afmæli.

Stofninn er bara einn. Eins og á kaktusnum. Og af þessu stofni vaxa nýir sprotar og greinast er ofar dregur og frá hverjum sprota vex nýr sproti sem dafnar og þroskast og af honum vaxa enn nýir, koll af kolli alla daga meðan enn dagar á jörð allt þar til um síðir birtir af hinum nýja degi eilífðarinnar sem ekkert kvöld á.
En þessi stofn brotnar aldrei og bognar ekki heldur og þak hans er ekki á jörðu heldur er það sjálfur himininn. Stofninn brotnar ekki því rótarkerfið er máttugt og magnað, það er sjálf ráðsályktun Guðs um þennan heim og um mannfólkið allt á öllum tímum, og potturinn er ekki smár því hann er Edenslundurinn sjálfur og Paradís, þar sem englarnir syngja án afláts og þeir taka undir með þjónum Guðs á jörðu þegar þeir falla fram fyrir Guði í helgidómi hans leiddir af anda Guðs .
Það er dásamlegt að mega vera með í þeim skara, mega vera grein, ekki á kaktus, heldur á vínviðnum eina sem er Jesús Kristur, upprisinn frá dauðum, uppstiginn til himna og hingað kominn aftur í heilögum anda, ósýnilegur mannlegum augum en sýnilegur augum trúarinnar og sýnilegur í þjónum sínum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2544.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar