Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Irma Sjöfn Óskarsdóttir

Líf, von, sigur

12. apríl 2009

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.

En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“

Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Matt 28.1-8

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn.

Okkar von – okkar ljós – okkar Kristur. Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.

I

Nýr dagur rís, sólin læðist upp yfir sjóndeildarhringinn og gælir mjúklega við myrkrið sem smátt og smátt hörfar. Hún lýsir upp og vermir lífið – sköpunina, gjörvallan heim Guðs þar sem svo margt sem orð geta ekki lýst býr. Margt svo gott og undursamlega fallegt sem aðeins nýtur sín í birtu dagsins – líka góð verk okkar mannanna en þessum heimi Guðs býr líka margt sem illa þolir ljós dagsins – illvirki. Það sem eyðir og skapar vonleysi. Allir krossar heimsins sem hafa fyrirgert réttlæti og sanngirni í líf manna. Nú er stundin að renna upp þegar við hverfum frá því og munum að meginboðskapur þessa dags í kirkju Krists er líf, von og sigur. Sigur lífsins – upprisa Jesú

Þið hringið inn upprisu jarðar, kólflausu klukkur, klukkur af gullnu silki

orti Hannes Pétursson í ljóði sínu Páskaliljur. Upprisa jarðar… á páskum, á þessu morgni baðast þetta allt í ljósi upprisu Jesú –og við heyrum hljóm hinna kólflausu klukkna – hljóm af undri sem enginn getur orðað aðeins skynjað.

II

…Í storknuðum dreyra
speglast auga Guðs.
það ljósbrot
er morgunroði
upprisudagsins.

Þannig orti séra Jakob Jónsson um upprisuna og í þessum morgunroða upprisudagsina þá fáum við í dagrenningunni að ganga á eftir konunum sem segir frá í guðspjalli dagsins í dag. Niðurlútar ganga þær að gröfinni. Í huga þeirra var vafalaust ekki gleði– aðeins vonbrigði og sorg. Enginn veit hvað þær nákvæmlega ræddu sín á milli á leiðinni en trúlega voru það áhyggjur, vonleysi, sorg og söknuður. Líka hefur borið á góma áhyggjur af allt of þungum steininum sem skorðaður var fyrir grafarmunnann, hvernig þær kæmust til að smyrja líkama meistara síns og vinar, sýna jarðneskum leifum hans virðingu. Meistarinn þeirra, vinurinn var dáinn og nú, óvissan þeim trúlega efst í huga, óendanleg vonbrigði ásamt vangaveltum um hvernig þær gætu kvatt meistara sinn. Maríurnar tvær sem nefndar eru í Matteusarguðspjalli. Allt virtist ógerlegt, ómögulegt í huga þeirra en þegar að gröfinni var komið þá mætti þeim viðsnúningur alls sem áður hafði valdið hugarangri. Við gröfina sat engill sem bað þær að vera ekki hræddar en láta vita að sá sem þær héldu látinn væri upprisinn… og auga Guð speglaðist á ný og nú í gleði þeirra – all var mögulegt og von lifnaði að nýju í huga þeirra - það að konurnar voru fyrstu upprisuvottarnir í heimi þar sem þær voru ekki hátt metnar þá svo ljós að enn á ný var brotið blaði í veraldarsögunni. Þau lægst metnu voru ein til frásagnar rétt eins og hin fyrstu jól þegar hirðarnir voru einir til frásagnar þegar himinn og jörð mættust í undri engla og Guðs - konurnar mættu englinum fyrstar og urður upprisuvottarnir - heimurinn upplifir enn og aftur að enn vaknar vonin – og eigum við frelsara þann sem ekki kenndi okkur um það hvernig best má deyja og þjást með reisn, það er í mannlegu valdi, það sem er undrið er upprisan sigur lífsins. Þar er sigurinn unninn og þangað eigum við að horfa þar sem steini hefur verið velt frá gröf og fullvissan fæðist um að okkar jarðnesku áhyggjur og sorgir eru bornar með okkur - rétt eins gerðist í lífi kvennanna sem sagt var frá í frásögunni.

III

En er hið undraverða morgunskin páskanna, aðeins táknrænt fyrir fegurð trúarinnar? Snýst þetta um sjónhverfingar þegar líkami látins manns hverfur og eignast líf aftur? Nei svo mikið meira og þetta varðar hvert mannsbarn og þær aðstæður sem manneskjan ratar i sínu.
Í einu dagblaðanna stóðu eftirfarandi orð fyrir nokkru síðan:

„Það kom eitthvað stórkostlegt fyrir þjóðina þennan dag. Bláókunnugt fólk faðmaði hvert annað í gleði sinni yfir því að hægt hefði verið að sameina fólk á einn stað undir einni kröfu, um að fólkið í landinu yrði í forgangi í þessu samfélagi.“

Þetta var haft eftir frambjóðanda einna hinna pólitísku flokka sem bjóða fram í vor. Þetta var lýsing á búsáhaldabyltingunni. Fyrirbæri sem við kannski erum ekki alveg sammála um en það breytir því ekki að þar kom fram hjá mörgum þrá og þörf fyrir fyrir umbreytingu, nýja samstöðu, nýja framtíð og meira félagslegt réttlæti og réttlæti almennt. Allt þetta sem hefur á liðnum mánuðum kallað sterkar og hljómað í lífi okkur en oft áður. Vonin hefur kallað hærra í umræðunni . Við höfum þráð að okkur sé sagt að það sé von framtíð - páskar.

Um leið og við skoðum þessa þrá þjóðar okkar í ljósi upprisunnar og vonarinnar þá er það líka dagljóst að krafan um félagslegt réttlæti og von í vonlausum aðstæðum verður daufradda í huga þess sem hefur þurft að sjá að baki barni sínu eða þurft að glíma við erfið veikindi og jafnvel fengið dóm um að eigið líf sé að fjara út. Þá hrópar það á okkur að lífsvonin er sú sterkasta kennd sem með okkur bærist. Ást okkar á lífinu og möguleikar til lífs - þörf fyrir að okkur sé sagt að það sé, von, framtíð - páskar.

Sporin okkar á braut lífsins eru misþung, ferðin verður okkur miserfið en glíman sem við háum við lífið og um lífið tekur á og hvern daginn sem hún stendur yfir þá hefur það mest að segja í lífi hvers sem hana háir að eiga víst félagslegt réttlæti, endurreisn, heilsu og líf. Þörfin fyrir von og nýtt upphaf, tilgang upprisunnar .

Skáldið Victor Hugo sagð að:

Orðið sem Guð hefur skrifað á enni hvers manns er Von

Þetta upplifum við í lífi okkar með Guði. Þegar ástvinur er kvaddur á dánarbeði grípum við í gegnum bæn okkar í hina kristnu von. Von og traust að sá sem kveður sér Guði falin. Það er von upprisunnar - páskar

Þegar dagurinn heilsar og við sjáum ekki fram úr áhyggjum, ómögulegum aðstæðum, veikindum, sorg þá er það von páskanna sem knýr okkur áfram. við rísum upp undir byrði sem við héldum áður að sligaði okkur. Hið ómögulega gerist – himnarnir strjúka hengi sinni yfir hin jarðnesku mannanna börn sem reyna að ná taki á tilverunni eignast von upprisa - umskipti

Þegar við sjáum framtíð lífsins og landsins okkar, veraldarinnar í barni sem fæðist, möguleikum lífsins þá er það von upprisunnar – páskar um nýtt upphaf – sigur lífsins. það er von í hverju barni Guðs

IV

Það segir áfram segir í ljóði Hannesar Péturssonar:

Þið hlustið og bíðið, hlustið rík af lífi. Þeim einum sem vitja ilms ykkar, lífs ykkar, takið þið tveimur höndum því tíminn er kominn, hin rétta stund til að anga.

Á stund upprisunnar – stund lífssins - berst angan lífsins að vitum, nýtt upphaf, ný von. Við sláumst í för með konunum tveimur sem snúa til baka í gleði sinni því hann var ekki í gröfinni heldur risinn frá dauðum og þær voru vottarnir – þeim var treyst fyrir að segja frá. Síðan í gleði okkar og von höldum við göngunni áfram út í lífið á þessu augnabliki þegar við enn á ný höfum hringt inn nýjan dag, nýja von, nýtt upphaf, nýja páska. Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2891.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar