Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Gunnlaugur A. Jónsson

Orð Guðs varir að eilífu

16. febrúar 2009

Þá sagði Jesús: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“

Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“ Mrk 4.26-32

Í dag er Biblíudagurinn og þá beinum við venju fremur sjónum að Guðs orði og ávöxtun þess. „Orð Guðs varir að eilífu“ segir í lexíu dagsins. Þessa kröftugu yfirlýsingu gerðu siðbótarmennirnir að einkunnarorðum sínum og er við hæfi að þau séu lesin á degi Biblíunnar.

Við Íslendingar höfum löngum átt mikið af bókum og margar gersemar þar á meðal. Engin hefur þó reynst jafn áhrifamikil og endingargóð og Biblían, heilög ritning. Við vorum meðal tuttugu fyrstu þjóða heimsins til að eignast hana á eigin tungu. Það hefur verið íslenskri þjóð mikil gæfa. Útgáfa Guðbrandsbiblíu 1584 treysti og styrkti þá samfylgd kristni og þjóðar sem þá hafði staðið í tæp 600 ár.

Ekki er langt um liðin síðan við eignuðumst enn eina nýja þýðingu hinnar helgu bókar, síðla árs 2007 var það, um það bil ári áður en þau þáttaskil urðu í íslensku þjóðlífi sem lengi mun minnst verða , þáttaskil sem höfðu í för með sér þá erfiðleika sem setja svo mjög mark sitt á íslenskt þjóðlíf nú um stundir. Hrun íslenska bankakerfisins með miklum og alvarlegum afleiðingum fyrir atvinnulíf þjóðarinnar og efnahag fólksins í landinu og raunar fyrir orðspor Íslands í samfélagi þjóðanna.

Mammonsdýrkun

Mammonsdýrkun réð augljóslega för margra í íslensku þjóðfélagi hin síðari árin og of margir, ekki síst ýmsir þeir sem léku stórt hlutverk í viðskipta- og fjármálalífi þjóðarinnar, tóku þátt í villtum dansi kringum gullkálfinn, svo vitnað sé í biblíulegt orðalag sem gjarnan hefur verið gripið til í umræðunni.

Mikil og uppskrúfuð ávöxtun fjár átti að koma litla Íslandi í forystusveit ríkustu þjóða heims, en ávöxtunin sú reyndist tálsýn, og hrunið varð mikið og fallið hátt og nú förum við um dimman dal, eins og núverandi forsætisráðherra hefur orðað það, og vitnar þar raunar í einn þekktasta og vinsælasta texta Gamla testamentisins, 23. Davíðssálm.

Kreppan margumtalaða verður þó ekki megininntak þess sem hér verður flutt og guðspjall þessa sunnudags talar um allt annars konar ávöxtun. Þar er Guðs ríki líkt við sáðkorn sem sáð er í jörðu og er þá smærra hverju sáðkorni en verður síðar öllum jurtum meira. „Svo er guðsríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt,“ segir m.a. í guðspjalli dagsins.

Biblían talar og um sáðmann sem gekk út að sá. Sákornið - Guðs orð - hefur í sér fólgið líf og miklu skiptir að vel takist um ávöxtun þess. Þar hafa allir kristnir menn, karlar og konur, verk að vinna. „Þitt orð er Guð vort erfðafé,“ segir í kunnum sálmi og það erfðafé þurfum við að ávaxta, varðveita og skila til komandi kynslóða. Hin kristna arfleifð hefur jafnan reynst íslenskri þjóð vel á hinum mestu erfiðleikatímum hennar og þangað er sannarlega enn huggun, styrk og leiðsögn að sækja.

Í guðspjalli dagsins er um að ræða öðru vísi ávöxtun en þá ávöxtun hlutabréfa og fjármuna, sem kauphéðnar heimsins hafa oft sett allt sitt traust á og í raun gert að guði sínum. Gegn slíkri markaðshyggju teflir Biblían Orðinu eilífa sem pistill dagsins segir að sé „lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggja sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda.“

Að biblíulegum skilningi er Orðið annað og meira en röð bókstafa á pappír sem saman mynda merkingu. Orðið að hebreskum skilningi merkir ekki síður athöfn og verk þannig að í hinu hebreska hugtaki „davar“ sameinast orð og athöfn og gleymum því ekki að Jóhannesarguðspjall líkti Jesú Kristi við Orð – Orðið sem varð hold og bjó með oss.

Þjóðfélagsgagnrýni spámanna Gamla testamentisins

Ekki þarf lengi að blaða í Biblíunni til að finna sterka og harðorða gagnrýni á þá sem láta auðsöfnun og mammonsdýrkun ráða för. Ber þar hæst orð Krists sjálfs úr fjallræðunni um að enginn geti þjónað tveimur herrum, við getum ekki bæði þjónað Guði og mammón (Mt 6:24). Spámaðurinn Jesaja sem sem uppi var í Jerúsalem á 8. öld f. Kr. hefur meðal annars þetta að segja: „Ég þoli ekki að saman fari ranglæti og hátíðarglaumur . . . Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum. Hættið að gera illt, lærið að gera gott, leitið réttarins, hjálpið hinum kúgaða. Rekið réttar munaðarleysingjans. Verjið mál ekkjunnar“ (Jes 1:13, 16-17).

Hinir svokölluð dómsspámenn Gamla testamentisis gátu sannarlega verið býsna harðorðir og gagnrýnir svo að undan sveið. En minnumst þess að þeir boðuðu ekki bara dóm heldur jafnframt ætíð von og betri tíð en sú betri tíð var háð því að þjóðin sæi að sér, segði skilið við rangt líferni sitt, gerði iðrun og fylgdi leiðsögn Drottins. Óhjákvæmilegt sýnist að íslensk þjóð standi frammi fyrir slíku uppgjöri nú, þurfi að rétta af stefnuna og huga að gildum sem áður hafa reynst vel. Í hugann koma orð Jeremía spámanns: „Nemið staðar við veginn og litist um, spyrjið um gömlu göturnar, hver sé hamingjuleiðin“ (Jer 6:16).

Vitnisburður Jesajaritsins í lexíu dagsins um að orð Guðs standi eilíflega er að finna sem yfirskrift í áhrifamesta prédikanasafni sem gefið hefur verið út hér á landi, þ.e. Vídalínspostillu sem út kom árið 1718. Þar hljóða orðin svona:

„Þar segir ein raust: Predika þú! Og eg sagði: Hvað skal eg predika? Allt hold er hey, og allur þessi góði er svo sem akursins blómstur. Heyið uppþornar, blómstrið visnar: því andi Drottins blæs þar á. Sannlega er fólkið hey. Heyið uppþornar, blómstrið visnar: En orðið vors Guðs varir eilíflega.

Við Babýlons fljót

Orð Jesajaritsins, sem hér var vitnað var til í meðförum Vídalínspostillu voru, upphaflega flutt á tungumáli sem er okkur flestum framandi, þ.e. á hebresku, og töluð inn í ákveðnar sögulegar aðstæður, sem fróðlegt og gagnlegt er að vita hverjar voru. Biblíufræðin hafa leitt í ljós að boðskapurinn um hið eilífa orð Guðs andspænis forengileika mannsins var upphaflega fluttur af ókunnum spámanni sem kom fram meðal herleiddra Júdamanna innan heimsveldisins mikla Babýlon í kringum 550 f. Kr. Júdamenn höfðu þá dvalið í útlegð fjarri ættjörð sinni í meira en 30 ár.

Þessi spámaður sem við þekkjum einungis af þeim boðskap sem hann hefur skilið eftir sig í k. 40-55 í Jesajariti Gamla testamentisins, hann boðaði hinum herleiddu og hrjáðu Gyðingum í Babýlon huggun og von. Frelsun úr ánauð var á næsta leiti og heimferðinni til Síonar lýst á myndrænan hátt:

„Stíg upp á hátt fjall fagnaðarboði. Hef upp raust þína kröftuglega… Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu en leiða mæðurnar,“ hefur þessi sami boðberi einnig að segja. Marga af fallegutu textum Biblíunnar er að finna í þessum köflum Jesajaritsins sem eiga rætur sína á miklum niðurlægingartíma í lífi þjóðar.

Innsýn í hlutskipti hinna herleiddu höfum við 137. Davíðssálmi þar sem segir: „Við Babýlons fljót þar sátum vér og grétum er við minnumst Síonar.“

Íslensk útlegð – Hið nýja Ísland er ekki nýtt hugtak

Þessi orð hafa löngum höfðað sterkt til þeirra sem dvelja í útlegð. Vestur-Íslendingar í hinu Nýja Íslandi á árunum eftir 1875 vitnuðu til þessara orða og tóku til sín. Hið margumtalaða Nýja Ísland í umræðu liðinna vikna og mánaða er m.ö.o. alls ekki nýtt hugtak heldur var það notað um hluta þess svæðis þar sem Íslendingar settust að í Vesturheimi á þriðja fjórðrungi 19. aldar. Þeir þjáðust þar í byrjun og þeim mætti margvíslegt mótlæti og þeir söknuðu síns móðurlands þrátt fyrir alla erfiðleikana sem þeir höfðu búið við hér heima. Ein af dætrum landnemanna íslensku átti eftir að verða kunnur rithöfundur í Kanada. Í bók sinni „Játningar landnemadóttur“ líkir hún uppvaxtarárum sínum við raunir Jobs, harmkvælamannsins kunna úr Gamla testamentinu. Segir það nokkuð um erfiðleikana. Þá var harðindum að mæta sem voru allt annars eðlis og alvarlegri en þeir erfiðleikar sem við Íslendingar göngum nú í gegnum.

Til vitnis um það eru hin minnistæðu og áhrifaríku ljóð sr. Matthíasar Jochumssonar um „Hafísinn“ og hið „Volaða land“, ljóð sem hann orti eftir kynni af hungurdauða sóknarbarna sinna, m.a. eftir að hafa heimsótt dánarbeð ekkjumanns og komist að því að hann hafði látist úr hungri frá börnum sínum. Þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga flúðu vestur um haf og fæstir þeirra sáu ættjörð sína aftur. Þeir reistu sér strax kirkjur vestra og þær urðu skólar þeirra og félagsmiðstöðvar og Guðs orðið á íslensku var sannarlega varðveitt meðal þeirra. Það er áhrifaríkt að koma á þessar slóðir og sjá allar íslensku kirkjurnar sem enn standa. Enn einn vitnisburðurinn um samfylgd Biblíunnar og Íslendinga, ekki síst á tímum mótlætis.

Leiðsögn kærleikans

Við Íslendingar höfum sem sé mætt erfiðleikum áður og margfalt meiri en nú mæta þjóð okkar og skal þó síst gert lítið úr núverandi vanda. En með Orðið eilífa að leiðarljósi kann leiðin að verða greiðfærari en margir óttast. Drottinn sjálfur leggur okkur til áttavitann: Kærleikann, sem löngum hefur reynst fundvís á réttu leiðina. Kærleikurinn í samfylgd réttlætis sem er annað mikilvægt biblíulegt hugtak sem íslensk þjóð þarf nú að á að halda í uppgjöri því sem óhjákvæmilega á sér stað. Þekking þarf að sjálfsögðu að koma til en henni ber að beita á þann hátt sem Páll postuli lýsir í bréfi sínu til Filippímanna: „Og þess bið ég að að elska yðar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind svo þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta“ (Fil 1:9-10).

Kærleikurinn að kristnum skilningi er fjarri því að vera bara á sviði tilfinninganna en í flóknum úrlausnarefnum samtímans þarf hann að taka þekkinguna, fræðin og vísindin, í þjónustu sína. En sé starfað í anda kærleikans er líkegt að réttlát niðurstaða fáist. Kirkja Krists hlýtur jafnan að vera kirkja þeirra sem minnst mega sín. Og það segir mikið um siðferðisstig þjóðar hvernig þar er búið að hinum minnstu bræðrum og systrum.

Vitnisburður Heilagrar ritningar er fjölbreytilegur og þrátt fyrir háan aldur hinnar helgu bókar er ekki fjarri lagi að halda því fram að boðskapur hennar nái til allra sviða mannlífsins.

Davíðssálmar eru meðal þess efnis sem mörgum er sérlega hugleikið. Þar ræðir 1. sálmurinn um hinn sæla mann og meðal einkenna hans er það sagt að hann hafi yndi af leiðsögn Drottins og hugleiði lögmál hans dag og nótt.

Það er lögmálið sem Jesús dregur saman í kærleiksboðið: „Elska skaltu Drottinn, Guð þinn af öllu hjarta þínu, huga og mætti, og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Og í gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“

Eitt þeirra nafna sem alltaf mun rísa hátt þegar saga íslenskrar Biblíu verður rakin er nafnið Oddur Gottskálksson. Hann vann það þrekvirki að snúa Nýja testamentinu á íslensku fyrstur manna og það við afar bábornar aðstæður, því að verkið vann hann á laun úti í fjósi í Skálholti. Það var prentað í Hróarskeldu árið 1540 og hljóða upphafsorðin úr óði Páls postula til kærleikans þannig:

Þó að eg talaði tungur mannanna og englanna, en hefði ekki kærleikann, þá væri eg sem annar hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þó að eg hefði spádóm og vissi alla leynda hluti og alla skynsemi og hefði alla trú svo að eg fjöllin úr stað færði, en hefði ekki kærleikann, þá væri eg ekkert….

Þessi orð úr næstum 500 ára gamalli þýðingu Odds er til marks um hve samfellan í íslensku biblíumáli er mikil og hve mikið af orðfæri hinna elstu þýðenda stendur enn mjög lítið breytt í nýjustu þýðingu okkar.

Sigurbjörn Einarsson biskup

Á nýliðnu ári lést í hárri elli sá maður sem Hið íslenska biblíufélag á flestum öðrum meira að þakka, dr. Sigurbjörn Einarsson biskup. Óvíða hafa hin kristna prédikun og meðferð íslensks máls gengið í jafn fagurt og áhrifamikið bandalag og í boðun Sigurbjörns biskup.

Dr. Sigurbjörn var forseti Hins íslenska biblíufélags alla sína löngu biskupstíð og framlag hans til íslenskra biblíuþýðinga er mikið og dýrmætt. Þá beitti hann sér fyrir og lagði hönd á plóg við útgáfu á ýmsum dýrgripum úr sögu íslenskra biblíuþýðinga og kristinnar boðunar. Nægir þar að minna á Nýja testamenti Odds og Hómilíkubókina frá því um 1200. Síðast en ekki síst er ástæða til að geta um mikið og merkilegt framlag hans til íslensks sálmakveðskapar. Hið íslenska biblíufélag blessar minningu dr. Sigurbjörns biskups og þakkar ævistarf hans.

Mikilvægasta biblíuþýðingin

Hverjar sem móttökur nýrra biblíuþýðinga kunna að vera skyldum við minnast þess og hafa hugfast að mikilvægasta biblíuþýðingin er jafnan sú hvernig við tileinkum okkur boðskap hinnar helgu bókar, raungerum hann í daglegu lífi okkar og aðstæðum. Minnumst þess að við sem kristni játum erum öll ábyrg fyrir ávöxtun orðsins og framgangi þess í þjóðlífi okkar, landi og þjóð til blessunar.

Lokaorð þessarar prédikunar á Biblíudegi sæki ég til okkar fremsta trúarskálds, Hallgríms Péturssonar:

Gefðu að móðurmálið mitt,
minn Drottinn (Jesús), þess ég beiði,
frá allri villu klárt og kvitt
krossins orð þitt útbreiði.
Um landið hér
til heiðurs þér
helst mun það blessun valda
meðan þín náð
lætur vort láð
lýði og byggðum halda.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2019 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3861.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar